04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það má með sanni segja, að það er skammt stórra högga á milli hjá hæstv. ríkisstj. í framlagningu frv., er snerta menntamálin í landinu. Nú með fárra daga millibili hafa verið lögð fram frv., sem segja má, að séu myndarlegar bækur að stærð, t.d. frv. til l. um grunnskóla og svo það frv., sem hér er til umr. Það er sýnilegt, að við, sem skipum menntmn. þingsins, megum vel halda á spöðunum þennan tiltölulega skamma tíma, sem ætlað er, að þingið standi, til þess að koma þessum málum frá okkur, og þess hefur nú verið alveg sérstaklega óskað af hæstv. menntmrh., að frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands verði afgreitt á þessu þingi.

Mér er það sem öðrum fullljóst, að það er þörf á því að leysa málefni kennaraskólans, og ég tel, að þetta frv. sé veigamikið spor í þá átt að gera það. En ég vil þó alls ekki, þó að ég kunni að hryggja hæstv. menntmrh., heita því á þessari stundu, að ég sjái mér fært að fallast á það, að svo veigamikið mál sem þetta verði afgreitt á þessu þingi. Ég hefði jafnvel lagt meiri áherzlu á það, að menntmn. þingsins afgreiddu frv. um skólakerfi, sem ég tel þessu máli raunar þýðingarmeira, og væri fyllsta nauðsyn á að mínum dómi, þó að það sé mikið mál og stórt, að fá það afgreitt á þessu þingi, þannig að menntmrn. gæti sem fyrst farið að undirbúa framkvæmdir, sem verða að koma í kjölfar samþykktar þess frv.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram í þeim tiltölulega miklu umr., sem hafa orðið nú þegar um þetta mál, að ég er mjög efins um það, að nauðsyn beri til þess, að allt það fólk, sem kennir í landinu, þurfi endilega að hafa gengið í gegnum háskólanám. Ég sem háskólagenginn maður legg þó engan veginn lítið upp úr því, að menn stundi háskólanám, og það kom fram hér í umr. á Alþ. í fyrra í sambandi við kvennaskólann í Reykjavík, að ég taldi það mikilvægt, að hver einasti þjóðfélagsþegn, sem hefði getu til þess og ætti þess kost, stundaði nám undir stúdentspróf. En ég held, að það sé ekki rakalaust að halda því fram, að það sé engan veginn nauðsynlegt, að þeir, sem kenna, þurfi að hafa gengið í gegnum öll þau skólastig, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég vil t.d. nefna: Er það nauðsynlegt, að háskólagenginn maður kenni vélritun? Er það t.d. nauðsynlegt, að háskólagenginn maður kenni handavinnu? Við vitum það, að margir mestu völundar íslenzku þjóðarinnar hafa jafnvel aldrei í skóla komið, og við eigum vissulega fjölmarga iðnaðarmenn, sem eru svo vel að sér, að þeir geta kennt ungmennum handavinnu í skóla án þess að hafa gengið í gegnum allt það bákn skólakerfis, sem hér um ræðir. Er ekki sama að segja um handavinnu þá, sem stúlkum er tíðast kennd? Skyldu ekki góðar konur frá húsmæðraskólanum vera fullfærar um það að kenna handavinnu stúlkna í barna- og unglingaskólum án þess að hafa gengið í gegnum það nám, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það hygg ég. Þess vegna hygg ég, að það væri rétt að hafa hér einhvern skilsmun á.

En svo hefur vaknað ein spurning í huga mér, af því að ég er einn af þeim mönnum, sem enn haldast við úti í strjálbýlinu: Hvernig verkar þetta frv. fyrir okkur? Hvaða áhrif hefur það á okkar aðstöðu? Bætir hana? Ég vænti þess fastlega, að það geri það. En ég verð því miður að segja það, að reynsla okkar strjálbýlismanna er hreint ekkert góð að verða af háskólagengnum mönnum. Hvernig er með læknana? Enn er það svo og hefur verið nú í mörg ár, að fjölmörg læknishéruð eru læknislaus og fólk bíður með öndina í hálsinum óttaslegið frá degi til dags yfir því, að nú sé læknirinn að fara frá því. Hvernig er það með prestaköllin? Þau standa auð. Þau eru auglýst hvert af öðru hvað eftir annað. Það sækir enginn guðfræðingur um þau eða prestlærður maður eða þá kannske í mesta lagi einn. Má vera, að þeir séu hræddir við það leiða fyrirkomulag og vitlausa, vil ég segja, sem haft er á skipan prestanna, þ.e. hinar svokölluðu prestskosningar. (EystJ: Eru þær nokkuð voðalegri en alþingiskosningar?) Já, það eru engar kosningar. En ég er sem sé hálfhræddur um það, að jafnvel þó að okkar ágæta námsfólk sæki þennan Kennaraháskóla Íslands, þá fari svo, að við verðum enn um sinn að búa við það að fá ekki kennara með réttindum út í strjálbýlið. Ég er þó engan veginn að kasta steini að þeim mönnum, sem hafa starfað hjá okkur við þessi störf, því að það er satt og rétt, að margir þessara manna hafa verið kennarar með mestu prýði, jafnvel þó að þeir hafi ekki hlotið meira nám en aðeins gagnfræðanám, hvorki farið í gegnum menntaskóla né kennaraskóla. Það er svo margt sinnið sem skinnið í þessum efnum sem öðrum. Og það, sem við þurfum einmitt að hugsa um í þessu máli, er það, og hafa vel í huga, og þess vegna legg ég áherzlu á afgreiðslu frv. um skólakerfið, að við þurfum að búa okkur vel undir það úti í strjálbýlinu, eins og kostur er, að við getum veitt þessum mönnum þau starfsskilyrði í skólahúsnæði, í tækjum og í íbúðum, að þeir uni því að vera hjá okkur. Það nægir ekki, eins og var drepið á hér í gær, að hækka kaup við þessa menn. Það sýnir sig í sambandi við læknana. Þeir hafa ekki farið úr læknishéruðum vegna þess, að þeir hafi svo litlar tekjur — síður en svo. Þetta hafa verið og eru stórtekjumenn — menn sem eru með einna mestar tekjur, sem menn hafa hér á landi. En það er allt annað. Það er aðstaðan. Það er að vera einir, kannske langt fjarri öðrum starfsfélögum sínum, og þurfa að sinna svo ábyrgðarmiklum störfum sem þau eru.

Nei, ég segi það, að mér sýnist margt vel um þetta frv., og ég er engan veginn að andmæla því. En ég held, að við þurfum að fá góðan tíma til þess að skoða það.