04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hér hafa í dag komið fram þau sjónarmið, hvort það væri ekki hæpið eða jafnvel alrangt að færa kennaranámið yfir á háskólastig, og kom þetta einna skýrast fram í ræðu hv. þm. Hannibals Valdimarssonar. Mér fannst mál hans raunar mótast af næsta furðulegri íhaldssemi á köflum. Hann var hér að vísa til reynslu sinnar af kennslu fyrir æðimörgum áratugum. Það er eins og þessi hv. þm. hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri öru þróun, sem átt hefur sér stað í skólamálum á Íslandi og annars staðar síðustu áratugina. Þróunin hér á Íslandi og víðast hvar annars staðar er sú, að það er að verða mjög almennt, að menn ljúki stúdentsprófi eða hliðstæðu námi. Það er að verða hin almenna regla, og að þessu stefnir óðfluga í þjóðfélögunum umhverfis okkur og hlýtur að gera það á Íslandi líka. Við eigum vissulega margt óunnið á því sviði, en að þessu marki hljótum við að stefna. Þetta er undirstaða nútímaþjóðfélags. Það er þetta, sem vísar fram á við til framtíðarinnar, og þetta er einnig þróun, sem stuðlar að auknu lýðræði, sem stuðlar að því að brjóta niður múrana á milli svokallaðra lærðra manna og ólærðra, á milli andlegra og líkamlegra starfa. Þróunin hlýtur að verða sú næstu áratugi, að þeir múrar brotni niður. En forsenda þess er, að almenn menntun komist á þetta stig. En þegar það er orðin almenn regla, þegar það er orðin almenn menntun, að menn ljúki stúdentsprófi eða hliðstæðu námi sem almennu, hlýtur sérnámið að færast á stigið þar fyrir ofan. Þess vegna er það algerlega rökrétt og eðlilegt, að við fáum það sem framtíðarstefnu hér á Íslandi, að kennaranám fari fram á háskólastigi. Og þeir menn, sem ekki skilja þetta, fylgjast einvörðungu ekki með því, sem er að gerast, bæði í okkar þjóðfélagi og annars staðar.

Hitt er vissulega rétt hjá hv. þm. Hannibal Valdimarssyni, að það er auðvitað engin trygging fyrir því, að menn verði góðir kennarar, þótt þeir hafi gengið í gegnum kennaraskóla á háskólastigi. Það er margt fleira, sem þarf til þess að verða góður kennari, en menntunin ein. Til þess þarf vissa skapgerðareiginleika, og til þess þarf vissa tegund af greind. Sumum mönnum er það gefið, öðrum ekki. Og þeir, sem er ekki gefið þetta, geta ekki lært það í skólum. Það er alveg augljóst mál. Hitt er vitað, að þeir menn, sem hafa góða kennarahæfileika, eiga auðveldara með að hagnýta þá, eftir því sem þeir hafa notið meiri þekkingar eða menntunar í skólum. Það liggur í hlutarins eðli.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs í dag, var fyrst og fremst sú, að ég vildi gera nokkrar aths. við mál hæstv. menntmrh. hér í gær. Ég gerði þá nokkrar almennar aths. við þetta frv. og beindi nokkrum fsp. til hæstv. ráðh. Hann svaraði að vísu, en svör hans voru ákaflega ófullnægjandi að mínu áliti. Ég benti á það í gær, að með þessu frv. væri verið að taka ákvörðun um að stofna nýjan háskóla á Íslandi til viðbótar við þann, sem fyrir er. Og ég spurði: Hvers vegna er stofnaður nýr háskóli? Hvers vegna getur þessi kennsla ekki farið fram sem sérstök deild í Háskóla Íslands? Þetta er spurning, sem auðvitað blasir við, um leið og stíga á þetta skref. Og við þurfum að fá fullnægjandi greinargerð um það, hvers vegna þetta þarf að fara fram í sérstökum háskóla og hvers vegna það á ekki að vera hluti af Háskóla Íslands. Það dugir ekkert almennt umtal um þetta efni. Við verðum að fá röksemdir með og móti til þess að geta tekið ákvarðanir um þetta.

Hæstv. ráðh. sagðist vera búinn að hugsa um þetta mál í mörg ár, og hann sagðist upphaflega hafa verið á því, að þetta væri deild í Háskóla Íslands, en hefði nú skipt um skoðun. En þegar átti að fara að gera grein fyrir því, hvers vegna hann hefði skipt um skoðun, þá kom babb í bátinn. Eina röksemdin, sem hann kom með, var sú, að það gæti verið erfitt að fella kennaranám inn í háskóla, vegna þess að þar tíðkuðust akademískar „tradisjónir“. Þessi röksemd er — með leyfi að segja — að minni hyggju algert blaður. Þetta kemur ekkert málinu við. Það eru engar akademískar „tradisjónir“, sem ég þekki til, sem eru þess eðlis, að þær geti torveldað kennaranám í sambandi við háskóla, enda er svo ástatt í okkar háskóla hér á Íslandi, að þar er öll kennsla í deiglunni. Það er verið að endurskoða þar alla þætti starfsins. Þar eru hreinlega sagt engar sérstakar „tradisjónir“, eins og nú standa sakir, þannig að það væri ákaflega auðvelt að fella þetta nám að Háskóla Íslands af þessum ástæðum.

Í öðru lagi sagði hæstv. ráðh., að forustumenn kennslumála hefðu lagzt gegn þessari hugmynd. Ég skal ekki draga í efa, að hæstv. ráðh. segir þetta satt. En hvers vegna hafa þeir lagzt gegn hugmyndinni? Það er það, sem við verðum að fá að vita. Og ef hæstv. ráðh. veit þetta ekki eða getur ekki komið hér með raunveruleg rök um þetta mál, þá verður Alþ. auðvitað að leita annað um þetta atriði, því að þetta er ákaflega stórt atriði, hvernig grundvallarskipun þessara mála á að vera. En ef það á að vera sérstakur kennaraháskóli, hver á þá að vera verkaskiptingin milli hans og Háskóla Íslands? Ég minntist á það í gær, að það er heimildarákvæði í 1. gr. um, að Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sé heimilt að skipta með sér verkefnum og viðurkenna sambærilegar námseiningar og námsþætti hvor annars til þess að forðast tvíverknað. Ég sagði, að þetta væri loðin setning. Hún er loðin gagnvart Alþ. vegna þess, að þarna er verið að afhenda öðrum aðila völd, sem við höfum ekki hugmynd um, hvernig verða notuð. En þetta verða alþm. að fá að vita, vegna þess að undir þessu er m.a. komið, hversu marga kennara þarf að fastráða að Kennaraháskóla Íslands. Það fer eftir því, að hve miklu leyti námið fer fram þar og að hve miklu leyti það fer fram í háskólanum. Um þetta verður Alþ. að fá vitneskju, áður en gengið er frá samþykkt þessa frv. Við verðum einnig að fá að vita, hvernig hugsað er, að samhenginu á milli þessara tveggja háskóla verði háttað. Ég tel, að það verði að vera meginregla í skólakerfi okkar Íslendinga, að þar verði að vera greiðfært fram á við ævinlega; þar mega ekki myndast neinar blindgötur. Við höfum rekið okkur á það á undanförnum árum, hvað af slíku hlýzt. M.a. hefur það ekki sízt bitnað á Kennaraskóla Íslands, eins og menn vita. Og ég tel, að hinn nýi kennaraháskóli verði að falla að sjálfu háskólakerfinu á eðlilegan hátt. Ég tel, að þeir, sem ljúka námi við Kennaraháskóla Íslands, verði að eiga þess kost að halda áfram námi, ef þeir kæra sig um, við sjálfan Háskóla Íslands og njóta þess þá, að þeir hafa lokið þessu tiltekna námi við kennaraháskólann. Þarna mega ekki vera nein skilrúm á milli. Og frá þessu þarf einnig að ganga alveg tryggilega.

Í þessu sambandi eru mörg fleiri atriði æðióljós. Það er talað um, að við Kennaraháskóla Íslands eigi menn að stunda nám í þrjú ár og fá þá rétt til þess að gegna kennarastörfum við skyldunámsstigið. En við Háskóla Íslands er önnur kennaradeild starfandi. Þar geta menn stundað nám og hlotið prófgráðuna B. A., og það er hægt að ljúka því námi, eins og er á þremur árum. Ef þessi skipan helzt, blasa við stúdentum, sem hafa áhuga á því að fara í kennslu, tvær námsleiðir. Önnur er sú að fara í Kennaraháskóla Íslands, hin er sú að fara í Háskóla Íslands. Námsleiðirnar eru jafnlangar, en þeir, sem fara aðra, þ.e. í Háskóla Íslands, eiga að fá meiri réttindi. Þeir eiga að fá að kenna á hærri kennslustigum, og þeir eiga að fá hærra kaup. Auðvitað getur slík skipan ekki staðizt. Það liggur í hlutarins eðli. Ég hef heyrt um það, að það sé fyrirhugað að lengja þetta nám í Háskóla Íslands í fjögur ár eða svo. Ef það verður gert, þá tel ég einnig algerlega óhjákvæmilegt, að það verði ákveðið, að þeir, sem fara í nám í kennaraháskólanum, geti haldið áfram og bætt þá við sig, þannig að þeir geti lokið B.A. -prófi og notið námsins í kennaraháskólanum sem hluta af því.

Þannig er ákaflega margt óljóst í sambandi við þessi tengsl og þessa skipan alla saman, og ég tel, að Alþ. verði að gera gangskör að því að fá um þetta fulla vitneskju. Og þar sem í ljós kom í gær, að hæstv. ráðh. virðist ekki hafa gert sér grein fyrir þessum vandamálum, þá verður Alþ. að fara til annarra, sem hljóta að hafa hugleitt þessi mál gaumgæfilega.

Raunar er það sama að segja um húsnæðismálin, sem ég vék einnig að í gær. Við höfum rætt þessi húsnæðismál oft hér á þingi og haft uppi almenna gagnrýni og almennar hvatningar, og hæstv. ráðh. hefur svarað með almennum fyrirheitum. En ég held, að þetta almenna umtal dugi okkur ekki lengur. Ég held, að Alþ. eigi nú að krefjast þess að fá frá hæstv. ráðh. áætlanir um fjölda nemenda ár frá ári á næstu árum um húsnæðisþörfina í því sambandi og um það, hvernig ætlað er að leysa úr henni í framkvæmd — ekki með almennum orðum, heldur í verki. Við gerum allt of mikið af því hér á þingi og ekki sízt í sambandi við menntamál að samþykkja lagabálka, sem kunna að vera fullir af hinum ágætustu fyrirheitum. En síðan vill það dragast, að gerðar séu þær ráðstafanir, sem þarf til þess, að hægt sé að framkvæma lögin. Við getum ekki framkvæmt þessi lög um Kennaraháskóla Íslands, nema jafnframt verði unnið af því kappi, sem hægt er, að húsnæðismálunum, og það hvílir á okkur alþm. full ábyrgð í þessu sambandi. Okkur getur ekki nægt það að koma hér upp í þennan ræðustól nokkrum sinnum á hverju þingi og gagnrýna hæstv. ráðh. Ábyrgðin hvílir einnig á okkur, og ég tel, að við eigum að fá algerlega skýlaus svör um þetta atriði, áður en við samþykkjum þetta frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands.

Ég vék hér í gær að ekki ýkja stóru atriði, sem vakti athygli mína, sem sé því atriði, að rektor skuli kjörinn af skólastjórn til fjögurra ára eða í hæsta lagi til 8 ára, og spurðist fyrir um þetta atriði. Hæstv. menntmrh. kom með þá skýringu, að þarna væri verið að líkja eftir fyrirkomulaginu við Háskóla Íslands. Ekki held ég, að þessi skýring geti staðizt. Fyrirkomulagið við Háskóla Íslands stafar af því, að þar eru margar deildir fjarskyldar hver annarri, og þess vegna hefur verið talið eðlilegt, að skipt yrði um rektor, til þess að mörg sjónarmið gætu komið þar til greina, einmitt vegna þess að þessum skóla er þannig háttað. En Kennaraháskóli Íslands samkv. þeirri skipan, sem gerð er till. um í þessu frv., yrði aðeins ein deild — eitt verkefni, þannig að þarna er ekki um neitt fordæmi að ræða hjá Háskóla Íslands, enda er skýring sú, sem gefin var í frv. sjálfu, allt önnur, eins og ég vék að í gær. Þar er sagt, að það verði að telja æskilegt að skipta um forstöðumann skólans eigi sjaldnar en á fjögurra til átta ára fresti, ef forða á stofnuninni frá stöðnun og forstöðumanni hennar frá ofþjökun. Mér finnst þetta ákaflega athyglisverð og raunar skynsamleg sjónarmið. Ég efast um, að það sé rétt regla, sem tíðkast hjá okkur hér ekki aðeins í skólamálum, heldur á ýmsum fleiri sviðum, að menn séu í sama starfinu til æviloka. Ég held, að þessi stefna sé röng, og þess vegna fagna ég þessari hugmynd, sem fram kemur í þessu frv., og þess vegna vona ég, að þetta sé fordæmi um hliðstæðar breytingar á fleiri sviðum. Að vísu virtist þessi skýring mín í gær koma illa við hæstv. ráðh., e.t.v. af skiljanlegum ástæðum. En ég er viss um það, að þarna hafa höfundar frv. samið þessa gr. alveg af ráðnum hug, og ég fagna þessari hugmynd.

Þá langar mig til að víkja ofurlítið að því atriði í svörum hæstv. ráðh., sem vakti mesta furðu mína, en það voru ummæli hans um inntökuskilyrði nemenda í Kennaraháskóla Íslands. Ég benti á það í gær, að meginreglan er, að menn þurfi að hafa stúdentspróf til þess að komast inn í þennan skóla, en jafnframt er heimilt að taka eitthvert óskilgreint nám og telja það jafngilt og enn fremur að hafa hliðsjón af hæfniprófi eða öðrum matsaðferðum. Þessir tveir seinni liðir eru að sjálfsögðu óljósari, eins og ég sagði í gær, vegna þess að þarna er verið að afhenda öðrum aðilum vald, án þess að Alþ. viti, hvernig á að nota það. Ég ímyndaði mér satt að segja, þegar ég las þetta, að í þessum óljósu greinum væri falin sú hugmynd, að kennarar, sem lokið hafa kennaraprófi við Háskóla Íslands, fengju réttindi til þess að stunda nám við kennaraháskólann, ef þeir óskuðu þess. Hæstv. ráðh. sagði, að umtal mitt um þetta atriði væri furðulegt og sannaði raunar, að ég hefði kalkað ákaflega ört þann stutta tíma, sem ég hef verið hér á þingi — miklu örar en hann hefði sjálfur gert í löngum ráðherradómi. Nú skal ég ekki fara neitt að keppa við hæstv. ráðh. um samanburð á andlegu ástandi okkar beggja, enda kemur það ekki málinu við. En hér er um að ræða málefni, sem ástæða er til að tala um af fullri alvöru og málefnalega. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef þetta frv. verður að lögum, þá erum við að auka og bæta kennaranámið á Íslandi til mjög mikilla muna. Við erum að gera kennara hæfari til að gegna hinum ábyrgðarmiklu störfum sínum. Dettur hæstv. ráðh. það ekki í hug, að einhverjir kennarar, sem hafa lokið námi frá Kennaraskóla Íslands, hefðu hug á því að færa sér í nyt þjónustu hinnar nýju menntastofnunar af áhuga á viðfangsefnum sínum og hreinlega af sjálfsvirðingu? Ég á þar ekki við það, að menn ljúki að fullu þriggja ára námi til viðbótar fyrra kennaranámi sínu, heldur bæti þeir við sig tilteknum efnisþáttum, sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Hér á að vera um háskóla að ræða, og þess vegna á að vera hægt að stunda þar nám í tilteknum greinum, án þess að litið sé á það sem einhverja heildarskyldu. Hér er raunar ekki aðeins um að ræða eðlilegan áhuga einstakra manna, sem ég er viss um, að er til í íslenzkri kennarastétt í ríkum mæli, heldur einnig þarfir sjálfs þjóðfélagsins. Það er þjóðfélagslegt hagsmunamál, að sem flestir kennarar hafi þennan áhuga.

Á það er nú lögð áherzla víða um lönd og hvarvetna í nágrannalöndum okkar, að menn láti sér ekki nægja skólagöngu í upphafi ævi sinnar, heldur setjist menn á skólabekk aftur og aftur alla sína ævi til þess að endurnýja þekkingu sína og til þess að verða hæfari til að leysa þau vandamál, sem ævinlega eru að koma upp í æ flóknari þjóðfélögum. Þetta á sannarlega ekki sízt við um kennara. Ég tel það meginnauðsyn, að sem flestir þeir kennarar, sem að undanförnu hafa lokið námi frá kennaraskólanum og ekki átt kost á því að stunda þar fullkomnara nám, sem nú er stefnt að, fái engu að síður tækifæri til þess að njóta kennslu þessarar nýju stofnunar. slíkt á sannarlega ekki að torvelda með heimskulegum og afturhaldssömum inngönguskilyrðum, heldur á þjóðfélagið að ýta undir þessa þróun af alefli. Við þetta bætist raunar enn eitt sjónarmið. Hæstv. ráðh. svaraði hér í gær fsp. frá hv. þm. Sigurvin Einarssyni um það, hver hugsuð væru launakjör þeirra manna, sem útskrifuðust úr Kennaraháskóla Íslands. Hæstv. ráðh. svaraði því til, að ráðgert væri, að þeir kennarar fengju hærra kaup en þeir kennarar, sem útskrifaðir eru úr Kennaraskóla Íslands. Eftir nokkur ár á sem sé að koma upp það ástand í skyldunámsskólum okkar, að þar eiga að starfa hlið við hlið að sömu verkefnum menn með mismunandi kaup, og lægra kaup nokkurs hluta þeirra stafar einvörðungu af því, að þjóðfélagið gaf þeim ekki kost á að stunda sams konar menntun og menn eiga nú að fá. Það er ekki sök þessara manna; það stafaði af þjóðfélagslegum aðstæðum. Ég held, að hver maður ætti að geta gert sér grein fyrir því, að af þessu muni hljótast mikil vandamál, og ég dreg það persónulega í efa, að það muni takast að framkvæma slíka stefnu í verki, en verði það reynt, er það lágmarkskrafa, að kennarar úr Kennaraskóla Íslands eigi þess sem greiðastan kost að bæta við þekkingu sína með námi í kennaraháskólanum og fá þannig jafnrétti.

Í frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands er í 1. gr., 5. lið, talað almennum orðum um endurmenntun og viðbótarmenntun kennara á skyldunámsstigi með skipulegri fræðslu, námskeiðum og kynningu á markverðum nýjungum í skóla- og uppeldismálum, og þetta á að framkvæma í samvinnu við skólarannsóknadeild menntmrn. En hér er um að ræða almenn ákvæði, sem einnig eiga að eiga við þá, sem útskrifast úr kennaraháskólanum. Hér er ekki um að ræða lausn á þeim sérstaka vanda, sem af því stafar, að við gerum gerbreytingu á þessu skólakerfi. Sá vandi stendur að vísu takmarkaðan tíma, en þó alllangan tíma, og ég tel, að Alþ. beri skylda til að leysa úr þessum vanda, og ég tel það fráleitt með öllu, að Alþ. afgreiði frá sér þetta frv., nema í það verði bætt ákvæðum, sem tryggja fullkomlega heimild kennara til þess að stunda nám í kennaraháskólanum um lengri eða skemmri tíma, eftir því sem áhugaefnin leiðbeina þeim, og öðlast þannig réttindi, sem einnig verði ákveðin í lögum. Ég tel þetta vera mikið stórmál, og þó að hæstv. ráðh. talaði um það af svo algeru skilningsleysi í gær, eins og hann hefði alls ekki hugsað þessa hlið málsins, þá er ég sannfærður um það, að meiri hl. alþm. gerir sér fulla grein fyrir þessu vandamáli og því vænti ég þess, að því verði vel tekið, að fjallað verði í væntanlegum lögum um þetta mál.