04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt, sem heitir. Ég sé enga ástæðu til þess að fara að keppa við hv. þm. Hannibal Valdimarsson í persónulegum spjótalögum. Ég held, að við bætum okkur hvorugur á því og það séu engin tilefni til þess heldur. Ég benti aðeins á það í ræðu minni hér áðan, að hv. þm. virtist ekki gera sér grein fyrir þeim miklu breytingum, sem orðið hafa, þegar hann heldur, að hann geti lagt eitthvað til mála um menntunarvandamál núna með því að rifja upp sögur af sjálfum sér, þegar hann byrjaði að kenna smábörnum fyrir næstum því hálfri öld. Þetta er mikil fjarstæða að ímynda sér, að málin standi þannig. Þau gera það ekki. Það er að verða mjög almenn þróun í þjóðfélaginu, að menn fái langa skólagöngu, sem jafngildi stúdentsmenntun, á æ fleiri sviðum, og þetta mun einnig eiga við um þætti eins og sjómennsku og fiskiðnað, vegna þess að vinnan á þeim sviðum er orðin ákaflega sérfræðileg líka, og það þarf sannarlega að tryggja, að að þeim málum sé hægt að vinna í fullu samræmi við nútímatækni og nútímavísindi, og þessi vinnubrögð þarf allur almenningur að læra. Þetta þurfum við að gera okkur fullkomlega ljóst. Og við skulum ekki lifa í neinni fortíð, hvað þetta snertir.

Ég bað hæstv. ráðh. að færa rök fyrir ýmsum álitamálum í sambandi við þetta frv. um Kennaraháskóla Íslands. Hann taldi, að það væri ekki í sínum verkahring að gera það. Hann sagði, að menntmn. gæti aflað sér þeirrar vitneskju. Nú skal ég sízt hafa neitt á móti því, að menntmn. vinni dyggilega að þessu máli; ég skal gjarnan standa að því fyrir mitt leyti. Hins vegar er það skylda hæstv. ráðh. að fylgja málum þannig úr hlaði, að hann geri þm. grein fyrir því, hvers vegna hann ákveður eitt, en ekki annað. Og það hefði ekki átt að vera ofverk hæstv. ráðh. að gera þetta, þ.e. ef hann hefur kynnt sér þetta mál eins vel og hann vill vera láta. En af tali hans hér í þessum umr. hef ég ástæðu til þess að ætla, að svo sé því miður ekki.

Ég vil vekja athygli á alveg sérstakri vanstillingu hæstv. ráðh. í sambandi við mjög eðlilega gagnrýni, sem ég hef borið fram um aðstöðu þeirra kennara, sem útskrifazt hafa úr Kennaraskóla Íslands, í sambandi við þetta nýja kerfi. Ég hef bent á það, að þarna er verið að stofna háskóla, sem einvörðungu á að fjalla um kennslumál, en inngönguskilyrði í þann skóla eru slík, að starfandi kennarar, sem útskrifaðir eru úr kennaraskólanum, geta ekki gengið í þennan kennaraháskóla, þó að þeir vilji bæta við sig á einhverju sviði. Þetta er auðvitað algerlega fráleitt, og það hlýtur hæstv. ráðh. að skilja. Og ætli það sé ekki einmitt það, að hæstv. ráðh. skilur, að þarna hefur hann gert sig sekan um alvarlega skyssu, sem veldur því, að hann kemur hér dag eftir dag með alls konar fúkyrði um kölkun mína og heimsku mína og ég hafi látið upp úr mér heimskulegri ummæli en heyrzt hafi á þingi árum saman? Svona tala menn ekki, nema þegar þeir eru miður sín. (Gripið fram í.) Já, frá upphafi vega kannske. Svona tala menn ekki, nema þeir séu miður sín. En það er algerlega óhjákvæmilegt að taka inn í þetta frv., áður en það verður að lögum, ákvæði, sem tryggja rétt þeirra kennara, sem útskrifazt hafa úr Kennaraskóla Íslands. Þetta þarf að taka í lög. Mér er fullkunnugt um þessi námskeið, sem hæstv, ráðh. var að tala um, en það er allt annað. Í þessum lögum verða að vera ákvæði um það, að þessir kennarar hafi rétt til að stunda nám í skólanum, eins og þeir telja sig hafa áhuga á, og enn fremur, að þeir geti bætt við það nám, sem þeir hafa núna, og notið út á það fullra réttinda. Þetta þarf að standa í lögum. Og sú till., sem ég hef gert grein fyrir í almennum orðum um það efni, er fullkomlega eðlileg og engin ástæða til að rjúka upp dag eftir dag með fúkyrðatal af því tilefni.