15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað ítarlega um frv. um Kennaraháskóla Íslands og ætlað sér til þess nokkurn tíma eftir því, sem kostur hefur verið á, en hins vegar hefur verið lögð mikil áherzla á það, að málið yrði afgreitt nú á þessu þingi. Fyrir menntmn. liggja einnig tvö önnur mjög veigamikil frv. um skólamál, annað um skólakerfi og hitt um grunnskóla, en þau tvö frv. verða látin bíða og verða ekki afgreidd á þessu þingi. Menntmn. hefur rætt oftar en einu sinni við höfunda frv. og þá sérfræðinga, sem þeir höfðu sér til aðstoðar, við fulltrúa kennaranema og fleiri aðila, og aflað sér margvíslegra gagna. N. gerir sér ljóst, að hér er um mjög veigamiklar breytingar á íslenzkum skólamálum að ræða, þegar að lögum verður. Kennaramenntun verður færð á háskólastig, og mun það leiða til þess, að í framtíðinni hafi allir íslenzkukennarar a.m.k. þriggja ára háskólanám að baki. Það er nú ljóst, að eftir fá ár muni 30% af hverjum árgangi ljúka stúdentsprófi eða jafngildi þess. Er rétt að leggja áherzlu á orðin jafngildi stúdentsprófs, því að augljóst er, að sú menntun, sem þar um ræðir, komi til með að verða mun fjölbreyttari á næstu árum og getur þá heitið öðrum nöfnum en stúdentspróf, þó að hún eigi að leiða til inngönguheimildar í Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Þegar nú 25–30% af hverjum árgangi hafa fengiðsvo mikla menntun, sem segja má, að vissa sé fyrir, að verði innan fárra ára, þá hlýtur að verða óumdeilanlegt, að þjóðin á að velja kennara sína úr þeim þriðjungnum, en ekki úr hinum tveimur þriðjungunum, sem koma til með að hafa ýmist lakari menntun eða aðrar tegundir af menntun, og á ég þar t.d. við verklega menntun ýmiss konar, sem getur verið jafnumfangsmikil og þýðingarmikil, þó að á öðru sviði sé.

Ýmsar veigamiklar spurningar komu fram varðandi frv. þetta þegar við 1. umr., og hafa þær allar verið ræddar ítarlega í meðferð menntmn. Ég vil í fyrsta lagi nefna þá spurningu, hvort kennaraháskóli skuli vera sjálfstæð stofnun eða deild í Háskóla Íslands. Menntmn. hefur fallizt á þá skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, að skólinn verði sjálfstæður, að hann byggi á þeim grunni og þeirri hefð, sem Kennaraskóli Íslands hefur skapað sér í löngu og farsælu starfi. Þá má og benda á, að Háskóli Íslands er nú á miklu vaxtarskeiði og þarf að taka mjög á öllu sínu til þess að komast farsællega yfir það. Hins vegar er það mjög vel ljóst, að samstarf á milli þessara tveggja háskóla verður að vera bæði náið og einlægt.

Þá hefur verið mjög rætt um þá spurningu, hvort flutningur kennaranáms á háskólastig muni ekki auka erfiðleika dreifbýlis til að fá kennara til starfa. Ekki er hægt að halda niðri menntunarkröfum neinnar stéttar í þeirri von, að það dragi fólk til hinna strjálbýlli héraða. Og ekki má, ætla þeim héruðum minni hlut en öðrum, hvað snertir menntun sinna starfsmanna. Vanda þeirra verður því að leysa á öðru sviði, bæði hvað snertir kennara og þó ekki síður lækna og aðra sérlærða menn.

Ljóst er, að ekki er hægt að sjá fyrir eða leysa öll vandamál, sem fram kunna að koma við breytingu kennaranámsins í háskólanám. Má þar t.d. nefna ýmiss konar sérkennslu, t.d. í handavinnu, íþróttum og tónlist. Hefur menntmn. valið þann kost að leggja til breytingu við 1. gr., sem ætti að létta lausn þessa vandamáls. Þá skapast við breytinguna ýmis vandamál varðandi þá nemendur, sem þegar stunda kennaranám samkvæmt gildandi lögum.

Verður að leggja ríka áherzlu á, að þeim verði gefinn kostur á öllu því, sem innganga í Kennaraskóla Íslands veitti þeim fyrirheit um, svo og að gefa verður öllum kennurum, sem hafa próf eftir eldri lögum, tækifæri til að bæta við sig námi og taka próf eftir hinum nýju. Hefur menntmn. flutt nokkrar brtt., sem eiga að tryggja þetta eftir föngum. Þá var í frv. gert ráð fyrir, að eftir próf í sjálfum kennaraháskólanum muni taka við þjálfun í starfi í tvö ár og þar á eftir embættispróf. N. Íeggur til, að nýjum kennurum verði að loknu sjálfu háskólanáminu veitt þjálfun og leiðsögn í eitt ár, án þess að gerðar verði frekari kröfur til þeirra um próf. Í frv. er kafli um rannsóknarstofnun uppeldismála, sem ætlunin er, að báðir háskólarnir standi svo til jöfnum höndum að. Þegar þessi kafli kemur til framkvæmda eða áður en hann kemur til framkvæmda, verður að fella niður ákvæðin í háskólalögunum um slíkar rannsóknarstofnanir, en þau ákvæði hafa enn ekki komið til framkvæmda. Einnig er rétt að geta þess til skýringar, að skólarannsóknadeild menntmrn. er ekki rannsóknarstofnun í sama skilningi og það, sem hér er talað um, heldur er hún nauðsynlegur þáttur í starfi rn. við ýmsa öflun upplýsinga, tillögugerð og ekki sízt við framkvæmd á ýmsum nýjungum.

Ég mun nú fara yfir brtt. á þskj. 492, sem menntmn. stendur að, enda þótt tveir nm. skrifi undir með fyrirvara. Í 1. gr. er svo að orði komizt, að heimilt skuli að hafa samstarf á milli Kennaraháskóla Íslands og háskólans, en n. leggur til, að þarna verði notað orðið skylt. Ætti það að vera augljóst og ekki þurfa frekari skýringa við. Þá ræddi n. allmikið um stöðu ýmissar sérkennslu, en eins og nú standa sakir, þá fá kennarar í sérgreinum eins og handíðum, listum, tónlist og öðru slíku menntun sína í öðrum skólum en kennaraskólanum. Leggur n. til, að við 1. lið verði því bætt, að kennaraháskólinn skuli og hafa hliðstætt samstarf við aðra skóla, er mennta kennara í sérgreinum, og skuli heimilt að setja um það reglugerð. Með þessu er ætlunin að opna leiðina til þess, að náið samstarf geti verið milli Kennaraháskóla Íslands og slíkra sérskóla, þannig að aðstaða sérskólanna verði hagnýtt að fullu, en ekki þurfi að koma upp deildum við kennaraháskólann, sem að öllu leyti jafngildi því, sem þegar er til í sérskólunum. Loks er orðunum skólarannsóknadeild menntmrn, breytt í menntmrn., því að ekki er talið rétt að vísa í lögum til einstakra deilda rn.

Við 2. gr. eru tvær brtt., sem hvorug getur kallazt efnismikil. N. þykir ástæðulaust að tala um fræðslustjóra í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi og svo fræðslustjóra utan þess svæðis, heldur vill tala um fræðslustjóra í einu lagi, hvar sem þeir eru búsettir og starfandi á landinu. Þá hefur n. að vísu gleypt hrátt allmikið af latneskum embættisheitum frá Háskóla Íslands, sem segja má, að hafi unnið sér nokkra hefð, og gerir það fyrst og fremst til þess, að enginn munur verði á kennurum við kennaraháskólann og háskólann, svo að hvorugur geti frá hinum dregið, en um orðið konrektor hefur n. viljað gera breytingu og taka upp orðið aðstoðarrektor í staðinn, og kemur það fyrir á nokkrum stöðum.

Í 4. gr. er fjallað um inntökuskilyrði í Kennaraháskóla Íslands. Ástæða er til þess að leggja á það ríka áherzlu, að nú er ekki lengur stúdentsprófið eitt talið vera lykill að háskóla, heldur getur þar ýmislegt annað komið til greina. Í 3. till., a-lið, hefur n. lagt til, að 1. og 2. liður verði settir saman í einn lið, en að öðru leyti yrði þar ekki um efnisbreytingu að ræða. Þá er lagt til, að það komi nýr 2. liður, sem orðist svo:

„Þeir, sem lokið hafa kennaraprófi eða framhaldsnámi frá Kennaraskóla Íslands, geta, ef þeir æskja þess, bætt við sig námi í kennaraháskólanum og lokið þaðan embættisprófi, þegar hann hefur tekið til starfa að fullu. Tilhögun námsins og hve miklu þarf við að auka fer eftir reglugerð, sem setja skal að fengnum till. skólastjórnar.“

Það mun hafa verið ætlun allra aðstandenda þessa máls frá upphafi, að kennarar með hið eldra próf hefðu tækifæri til að halda áfram námi við kennaraháskólann, en með því að setja þennan lið þarna inn í er tekinn af allur hugsanlegur efi í þeim efnum.

Samkvæmt 9. gr. var ekki gert ráð fyrir því, að prófdómarar þyrftu að vera við öll próf í kennaraháskólanum, þó að hægt væri að óska eftir því. Það var álit manna í menntmn., að ekki væri rétt að afnema prófdómara, og hefur hún breytt greininni að því leyti. Vil ég þó taka fram, að hér er aðeins átt við próf, sem kalla má lokapróf til kennaraprófs, en ekki við önnur minni próf inn á milli. Rétt er þó að gera sér grein fyrir, að hér er um allmikinn kostnaðarlið að ræða.

Í 10. gr. er fjallað um þjálfun í starfi, eftir að námi í sjálfum Kennaraháskóla Íslands lýkur, og má heita, að það sé ein mesta breytingin, sem n. leggur til. N. leggur sem sé til, að hin skipulega þjálfun í starfi, er taki við, eftir að námi í kennaraháskólanum sjálfum lýkur, skuli vera eitt ár, en ekki tvö, og fellt skuli niður, að taka þurfi sérstakt embættispróf kennara að þeim tveimur árum loknum, eins og frv. felur í sér að vissu leyti — það sé ekki þriggja ára háskólanám, sem gert sé ráð fyrir til að fá kennararéttindi, heldur 5 ára nám, þegar tvö viðbótarár eru talin með. Ákvæði um þjálfun í starfi verður áfram í gr., til þess að hún gangi eins langt og sú fyrri, þannig að síðar verður auðvelt, ef mönnum sýnist og reynslan gefur tilefni til þess, að bæta þar,einhverju við.

Í 11. gr. er fjallað um kennara við háskólann og talað um svo og svo marga prófessora og dósenta og talið upp, í hvaða greinum þeir skuli vera. Menntmn. þykir óþarft, að slík upptalning sé í lögunum, en hins vegar er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, að það sé fram tekið, hversu margir kennarar séu leyfðir af Alþ. hálfu. Þetta getur haft nokkra þýðingu í sambandi við samstarf kennaraháskólans við Háskóla Íslands og jafnvel aðra skóla, og er því rétt, að skólinn og yfirvöld hans, menntmrn., hafi að nokkru leyti frjálsar hendur um það, í hvaða greinum þeir kennarar verða, sem lögin heimila.

Í 12. gr. er fjallað um það, hvernig skipa skuli í kennarastöður, og er þar tekið upp gamalt kerfi, sem enn þá er við Háskóla Íslands og er í stuttu máli þannig, að þar verður vart skipað í a.m.k. dósents eða prófessorsstöður, að ekki sé sett saman alveg sérstök þriggja manna dómnefnd, sem eigi að fjalla um það, hvort viðkomandi umsækjendur séu hæfir eða ekki. Það mun vera mjög almenn skoðun, að þetta kerfi sé þungt í vöfum og að mörgu leyti orðið úrelt. Menntmn. leggur til, að það verði tekið úr lögunum um kennaraháskólann, en í stað þess komi skólaráð kennaraháskólans. Skólaráðið er tæplega 10 manna ráð, skipað rektor og yfirkennurum skólans, og þar eiga sæti þrír nemendur, og ætti það að vera feikinóg, að þetta skólaráð fjalli um hæfni umsækjenda og veiti umsagnir um þá.

Við 13. gr. er ekki veigamikil breyting. Hún er í 8 tölul., b-lið; og er sú, að í allmargar stöður, sem óhjákvæmilega verða við þennan skóla og í sjálfu sér er ekkert nýtt í sambandi við, þá skuli rektor ráða og setja og skipa starfsmenn, en ekki ráðherrann. Það, sem í þessu felst, er það, að það er kannske kominn tími til þess, að við förum að hlífa ráðherrum landsins við því að standa í umstangi út af því, hverjir eigi að vera dyraverðir við einstaka skóla, en við vitum þó af reynslu, að slík mál geta verið allfyrirferðarmikil, og er engin ástæða til annars en rétt yfirvöld í þeirri stofnun fái að ráða þeim hlutum sjálf.

Loks er svo 9. till., en þar er um að ræða tvö ákvæði til bráðabirgða. Annað er um það, að kennaraháskólinn skuli starfrækja menntadeild og framhaldsdeild samkvæmt lögum um Kennaraskóla Íslands frá 1963, og er þetta ákvæði orðrétt til komið, eins og nemendasamtök óskuðu eftir því, en þau eiga þar mestra hagsmuna að gæta. Þá er lagt til, að í 4. lið 24. gr., þar sem annars er talað um forgangsrétt núverandi kennara að embættum við hinn nýja skóla, verði að setja ákvæði um, að við stofnun Kennaraháskóla Íslands skuli dómnefnd, skipuð tveimur mönnum tilnefndum af Háskóla Íslands og einum af menntmrh., dæma um hæfni umsækjenda um prófessors- og dósentsstöður. Þetta er óhjákvæmilegt, vegna þess að við stofnun skólans er skólaráð ekki til. En strax og skólanum hefur verið komið á laggirnar, verður slíkt skólaráð til og getur þá tekið við meðferð á umsóknum um þessi störf.

Menntmn. hefur hér gert till. um þó nokkrar breytingar við frv. um kennaraháskóla, og vænti ég, að í öllum meginatriðum sé samkomulag í n. um að mæla með því, að frv. þetta gangi fram á þessu þingi með þessum breytingum. Þó hafa ýmsir nefndarmenn, einstakir nm., eins og svo oft áður fyrirvara um afstöðu til frekari brtt., er fram kunna að koma.