22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur 2. umr. þessa máls og átti því þess ekki kost að gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. En mér þykir þeir fyrirvarar, sem ég er með í kollinum í sambandi við þetta mál, vera þess eðlis, að ég vildi gjarnan gera grein fyrir þeim, áður en þetta mál verður afgreitt.

Eins og ég sagði hér við 1. umr. málsins, þá er ég þeirrar skoðunar, að það sé rétt stefna og raunar óhjákvæmileg að færa kennaranámið yfir á háskólastig. Hins vegar lét ég það í ljós þegar við 1. umr., að mig skorti rök fyrir því, að það væri nauðsynlegt að hafa tvo háskóla í landinu í stað þess að hafa hann einn. Og ég bað um röksemdirnar fyrir því, hvers vegna væri stofnaður sérstakur háskóli til kennaranáms, en ekki ný deild í Háskóla Íslands. Hæstv. menntmrh. sagðist nú ekki telja ástæðu til þess að fara að þylja öll þau rök upp hér í þingsalnum, en hann hét því, að n. skyldi fá fullnægjandi vitneskju um þetta mál. Ég spurðist fyrir um þetta innan n. líka á fundi, þar sem höfundar frv. voru mættir, og þau svör, sem þeir gáfu, voru engan veginn fullnægjandi að minni hyggju. Þar kom fram, að kennaraskólinn væri gömul menntastofnun og merk og það væri ánægjulegt að viðhalda gamalli hefð í sambandi við hana, en hvað sem um hefð má segja, þá eru þetta nú fremur tilfinningarök en raunverulegar röksemdir, að því er mér finnst. Og í annan stað var því haldið fram, að kennsluhættir við Háskóla Íslands væru aðrir en tíðkaðist í kennaraskólum og þess vegna væri erfitt að taka upp sérstaka deild til kennaramenntunar í Háskóla Íslands, en ekki fæ ég heldur séð, að þessi rök séu sterk. Auðvitað er hægt að breyta námstilhögun í einstökum deildum háskólans, eins og mönnum sýnist. En það, sem vakti fyrir mér og efasemdir mínar spruttu af, voru ekki atriði eins og þessi, heldur hitt, hvort væri hagkvæmara og á hvern hátt okkur nýttust betur kennslukraftar og önnur aðstaða.

Við þurfum að minnast þess og það ævinlega, að við erum ákaflega lítið þjóðfélag og við verðum að nýta krafta okkar eins hagkvæmlega og við getum. Við getum ekki haft sama hátt á á öllum sviðum, eins og stærri þjóðfélög gera. Við verðum að reyna að tryggja það, að við höfum sem mest gagn af kennslu menntaðra manna á Íslandi og öll menntunaraðstaða sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt. Það, sem mér fyndist skera úr um þetta atriði, er það, hvort það er ódýrara og hagkvæmara og árangursríkara fyrir þjóðfélagið að hafa tvo skóla eða hafa einn. En þetta hefur alls ekki verið kannað, og þess vegna er þess ekki kostur á þessu stigi að gera þetta mál endanlega upp við sig. Hins vegar hef ég orðið var við það, að margir aðilar hafa tekið undir þessi sjónarmið, þ.e. að þetta séu atriði, sem verði að kanna til hlítar. Þ. á m. er sérstök nefnd, sem skipuð var af rektor Háskóla Íslands nýlega til þess að gefa umsögn um frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands. Þessi n, skilaði ekki áliti fyrr en eftir að menntmn. Nd. var búin að ljúka sínum venjulegu störfum í sambandi við þetta frv., og mér þykir þess vegna rétt að skýra frá niðurstöðum þessarar n. háskólans. Í henni voru prófessorarnir Jóhann Hannesson formaður, Guðmundur Eggertsson, Matthías Jónasson, Þorbjörn Sigurgeirsson og Bjarni Bjarnason lektor. Og umsögn sú, sem n. samdi, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Nefndin fagnar þeirri stefnu, sem fram kemur í frv., að efla menntun kennara á skyldunámsstigi og telur stúdentspróf hæfilegt inntökuskilyrði í kennaranám.

2. Samkv. frv. til l. um skólakerfi, 3. gr., er skyldunámsstig 9 ár, frá 7–16 ára aldri nemenda. Með þessu ákvæði er markað það aldursbil, sem kennurum frá væntanlegum kennaraháskóla er ætlað að starfa við. Sýnilegt er, að honum ber að búa nemendur sína undir að kenna mjög ungum börnum og þroskuðum unglingum. Í því sambandi er rétt að benda á, að því lengra sem hið sameiginlega skyldunám (grunnskólinn) er, því sérfræðilegri þarf kennslan að verða í undirstöðugreinum á efstu stigum þess. Á það framar öllu við í íslenzkri tungu og bókmenntum, erlendum tungum, stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, líffræði og öðrum þeim greinum, sem eiga að mynda þekkingarlega undirstöðu að framhaldsnámi unglinganna.

3. Þessa þörf hefir kennaraháskólanefndin sýnilega haft í huga, þegar hún ákvað að tvær (eða þrjár) valgreinar gætu numið 40–50% bóklega námsins (6. gr.). Kennaraþörf hins nýja háskóla er áætluð 7 prófessorar og 9 dósentar auk lektora. slíkur hópur lærðra manna verður ekki auðfenginn, ef framfylgja skal í raun ákvæðum 12. gr. frv. um vísindamenntun og hæfni. Í því sambandi ber að minna á mannaflaþörf Háskóla Íslands, en í Skýrslu háskólanefndar 1969 er áætlað, að fram til 1980 þurfi kennaralið hans að aukast um 250 manns, fyrir utan eðlilega endurnýjun þess kennaraliðs, sem á þessu tímabili starfar við háskólann (sbr. bls. 70). Kennarar Háskóla Íslands yrðu þá rúmlega 400 árið 1980, sem merkir til jafnaðar 25 kennara viðbót árlega árin 1971-1980.

4. Háskóli Íslands hefir átt verulegan hlut að menntun kennara handa framhaldsskólum, en mikill hluti menntaskólakennara í erlendum tungumálum, stærðfræði og raunvísindum hefir hlotið menntun sína við erlenda háskóla. Árið 1965 breytti heimspekideild námsskipan sinni í það horf, að B.A.-nám í ýmsum greinum var samræmt eftir því sem unnt var með tilliti til kennslukrafta og gert að almennu þriggja ára námi, auk uppeldis- og kennslufræða. Verkfræði- og raunvísindadeild veitir hliðstæða menntun í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði og síðan 1968 einnig í líffræði, jarðfræði og landafræði. Þótt vitaskuld sé of snemmt að dæma um áhrif þessara breytinga að því er snertir brautskráning fullmenntaðra kennara, er vert að gefa gaum þeirri aðstöðu, sem skapazt hefir í fyrrnefndum háskóladeildum til að veita kennaraefnum í fjölmörgum greinum, sem eru meginþættir náms í framhaldsskólum, trausta og hagnýta menntun.

5. Ef kennaraefni brautskráð frá Kennaraháskóla Íslands eiga að verða fullfær til að annast kennslu í öllum námsgreinum í 7.–9. bekk grunnskóla, þurfa þau að hafa hlotið trausta, sérfræðilega kennslu í valgreinum sínum. Verður þá varla hjá því komizt, að veruleg skörun eða tvíverknaður eigi sér stað í þessum tveimur háskólum, þ.e. að í hvorum um sig kenni sérfræðingar fámennum stúdentahópi sama efni í stærðfræði, eðlisfræði, líffræði, ensku o.s.frv. Ef báðir háskólarnir hafa nægilegt starfslið og kennslutæki til þessa, dregur skörunin ekki úr menntunarárangri. Þá er þetta aðeins fjárhagslegt atriði.

6. Hagkvæmara virðist þó, bæði fjárhagslega og menntunarlega, að kennarastúdentar í kröfuhörðum greinum ættu aðgang að kennslu í báðum háskólunum, eftir því sem bezt ætti við og samkv. fyrir fram ákveðnu skipulagi. Mörg dæmi eru um slík tengsl og samstarf kennaraháskóla og almenns háskóla. Hvort sem nám er metið í hlutum, eins og 6. gr. frv. greinir, eða í námseiningum eins og gert er í l. um menntaskóla og sumum deildum Háskóla Íslands, mætti ákveða að kennarastúdentar lykju tilteknum hluta valgreina sinna og/eða öðru námi í ákveðinni deild Háskóla Íslands. Þeir menntunarmöguleikar, sem báðir háskólarnir hefðu að bjóða, myndu við þetta nýtast betur. slík samvinna ætti að reynast kennaraháskólanum sérstaklega hagkvæm fyrstu starfsárin, meðan hann er að eflast og mótast. N. telur þó og leggur áherzlu á, að nauðsynlegt sé að ákveða um þá samvinnu og verkaskipting í lögum hvors háskóla um sig.

7. Framangreindar aths. ber að skoða sem rökstuðning við eftirfarandi lokaályktun nefndarinnar.

Þeirri stefnu ber að fagna, sem lýsir sér í frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands, að bæta menntunarskilyrði þeirra, sem óska að búa sig undir kennarastarf. Nefndinni virðist þó, að óljóst sé kveðið á um nokkur atriði, sem verða að teljast mikilvæg fyrir tilhögun kennaramenntunar og árangur af starfi kennaraháskóla. Málið er í heild svo þýðingarmikið, að ýmis veigamikil atriði þarf að kanna betur áður en frv. er lögfest. Nefndin leggur því til, að frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands verði tekið til endurskoðunar á þann hátt, sem hinu háa Alþ. og hæstv. menntmrh. þykir viðeigandi.“

Í þessari umsögn koma fram mjög veigamikil atriði. Það er t.d. bent á þessa staðreynd, að það muni verða mjög erfitt að finna nægilega marga hæfa menn til þess að stunda kennslu á Íslandi næstu árin bæði í Háskóla Íslands og hinum nýja kennaraháskóla og það komi upp mikil hætta á tvíverknaði, þ.e. að það sé verið að vinna sömu verkin í tveimur skólum. Og þetta er ákaflega alvarlegt mál. Og ég tel það mikinn ljóð á undirbúningi þessa máls, að þetta skyldi ekki verða kannað til fullrar hlítar, þannig að fyrir okkur lægi full vitneskja um þá valkosti, sem þarna blöstu við, og hvora leiðina frekar ætti að velja. En því miður er ekki um slíka valkosti að ræða — aðeins um almenn sjónarmið, sem koma einna skýrast fram í þessari umsögn, sem ég var að lesa hérna áðan. En þetta atriði er svo stórvægilegt, að ég er sannfærður um það, að það hlýtur að koma til endurskoðunar hér á Alþ. eftir tiltölulega stuttan tíma.

Annað atriði, sem ég minntist hér á við 1. umr., var það, að ég teldi það sjálfsagt, að nemendur í Kennaraháskóla Íslands fengju viss réttindi í Háskóla Íslands samkv. því námi, sem þeir áður stunduðu í kennaraháskólanum, ef þeir kærðu sig um. Þetta kom til umtals á fundi í menntmn., og háskólarektor tók mjög undir þetta sjónarmið og taldi sjálfsagt, að þannig yrði á málum haldið, að kennaraháskólinn yrði ekki nein blindgata að þessu leyti, heldur gætu nemendur notað það nám, sem þeir hefðu fengið þar, til þess að byggja ofan á í sjálfum háskólanum, og þetta er í sjálfu sér ágæt yfirlýsing hjá rektor háskólans, en slíkt atriði þarf að sjálfsögðu að binda í lög og þá í lög um Háskóla Íslands. En ég tel það vera mikinn ljóð á þessu frv., að ekki skyldi kannað betur en gert hefur verið þetta atriði í skipulagningu kennaranáms, þ.e. hvort hér þurfi að vera tveir háskólar eða hvort hægt hefði verið að fella saman kennaraskólann og Háskóla Íslands.

Enn annað atriði, sem er mjög augljós veila í þessu frv., er staða sérskólanna, sem stunda kennslu í sérgreinum, þ.e. Myndlista- og handíðaskóli Íslands, Tónlistarskólinn, Húsmæðrakennaraskóli Íslands og Íþróttakennaraskóli Íslands. Þarna er um að ræða skóla, sem taka að sér að mennta kennara. En eins og sú staða yrði, sem kæmi upp, eftir að við erum búnir að samþykkja þetta frv., þá yrði hluti af kennurunum á háskólastigi og annar hluti ekki á háskólastigi, þ.e. þeir, sem koma úr þessum sérgreinaskólum. Og þetta er sérstaklega ankannalegt í sambandi við handíðir vegna þess, að hluti þeirra er kenndur í myndlistaskólanum og hluti þeirra í kennaraskólanum, og eins og frv. var lagt fyrir, þá á þessi skipan að haldast, þ.e. teikni- og vefnaðarkennarar útskrifast úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands, en handavinnukennarar úr Kennaraskóla Íslands. Þetta er að sjálfsögðu vandamál, sem hefði þurft að leysa, um leið og tekin var ákvörðun um málefni kennaraskólans. En nefndin, sem samdi frv., gafst upp á því verkefni og taldi sig ekki til þess bæra að leysa það vandamál, þannig að það er enn þá óleyst. Af okkar hálfu í n. var gengið þarna til móts við myndlistaskólann, svo að við leggjum til, að tekið verði upp, eins og menn hafa séð, ákvæði, sem svo hljóðar: „Kennaraháskólinn skal og hafa hliðstætt samstarf við aðra skóla, er mennta kennara í sérgreinum, og er heimilt að setja um það reglugerð,“ þ.e. hliðstætt samstarf við aðra skóla, myndlistaskólann, eins og við lögðum til, að hann yrði skuldbundinn til að hafa við Háskóla Íslands. Við hugsum okkur sem sé, að þær sérgreinar, sem þar er um að ræða, geti nemendur í kennaraháskólanum stundað í myndlistaskólanum.

En þarna er aðeins verið að opna leið af hálfu Alþ. Þarna er ekki verið að taka raunverulega ákvörðun. Og ég hefði talið ákaflega æskilegt, að gengið hefði verið miklum mun tryggilegar frá þessu atriði einnig og málefni sérskólanna hefðu verið leyst um leið og þetta aðalfrv. um Kennaraháskóla Íslands. Af þessum ástæðum skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Hins vegar treysti ég mér ekki til þess að flytja gagngerar brtt., t.d. um það, hvort skólinn ætti að vera í öðrum tengslum við Háskóla Íslands en þarna er gert ráð fyrir, og það stafar hreinlega af því, að mig skortir næga vitneskju, eins og ég sagði áðan. Ég hef ekki fengið næga vitneskju. Hins vegar eru vandkvæði kennaraskólans alvarleg. Þar hefur raunverulega verið neyðarástand í mörg ár, svo að það er ekki stætt á því að draga að gera nauðsynlegar ráðstafanir, ef maður heldur, að meginstefnan sé rétt. Og þá verður maður að treysta því, að þessi skipan verði tekin til nýrrar endurskoðunar eftir tiltölulega stuttan tíma.

Mig langar að minnast hér á enn eitt atriði. Við 1. umr. um þetta mál vakti ég athygli á því, að inntökuskilyrðin, sem ákveðin voru við Kennaraháskóla Íslands, voru það þröng, að þeir, sem útskrifazt höfðu úr kennaraskólanum án þess að hafa stúdentspróf, höfðu ekki heimild til þess að bæta við sig námi í hinum nýja kennaraháskóla til þess að fá aukin réttindi eða til þess að auka vitneskju sína. Ég benti á þetta hér við 1. umr. og hæstv. menntmrh. tók þetta ákaflega óstinnt upp. Hann sagði, að ég hefði orðið mér illilega til skammar með því að minnast á þetta atriði. Og hann sagði, að hugmyndir mínar um þetta efni væru fáránleg ummæli og eitt það vitlausasta, sem sagt hefði verið á þinginu, að því er mér skildist, frá upphafi Íslands byggðar. Samt fór það svo, að höfundar frv. féllust umsvifalaust á þetta sjónarmið mitt og öll menntmn. Nd. féllst á þessi atriði, sem hæstv. ráðh. taldi fáránleg og eitt það vitlausasta, sem sagt hefur verið á þinginu, og hefði ég með þessu orðið mér illilega til skammar.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta atriði. Þau orð, sem hæstv. ráðh. mælti hér í minn garð, hafa aðrir menn, öll n. og höfundar frv., sent heim til föðurhúsanna. Það hafa verið tekin upp í frv. mjög skýr ákvæði um það, að þeir, sem lokið hafa kennaraprófi eða framhaldsnámi frá Kennaraskóla Íslands, geti, ef þeir æskja þess, bætt við sig námi í kennaraháskólanum og lokið þaðan embættisprófi, þegar hann hefur tekið til starfa að fullu. Tilhögun námsins og hve miklu þarf við að auka fer eftir reglugerð, sem setja skal að fengnum till. skólastjórnar. Þannig tel ég, að þetta sjálfsagða mál hafi verið leyst á mjög skynsamlegan hátt, og ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. sé búinn að ná sér það mikið eftir þessa undarlegu reiði, sem greip hann hér við 1. umr., að hann láti sér þessi málalok vel lynda.