23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. kemur frá hv. Nd. og var samþ. þar við 3. umr. í gær með shlj. atkv. deildarmanna, eftir að mjög ítarleg athugun hafði farið fram á málinu í hv. menntmn. og eftir að ítarlegar umr. höfðu átt sér stað í d. um málið. Hv. menntmn. gerði nokkrar brtt. við upphaflega stjfrv., og að þeim samþykktum reyndist hv. Nd. á einu máli og samþykkti frv. með shlj. atkv., eins og ég gat um áðan.

Hér er um mjög mikilvægan lagabálk að ræða. Í frv. er gert ráð fyrir, að gerbreyting verði á námi kennara á Íslandi. Meginbreytingin er fólgin í því, að frv. gerir ráð fyrir því, að kennaramenntun sé flutt á háskólastig og að stofnaður verði Kennaraháskóli Íslands. Inntökuskilyrði í skólann eiga að vera, eins og væntanlegt nafn hans bendir til, stúdentspróf eða annað jafngilt nám, og háskólanámið á að vera þriggja ára nám, til þess að nemendur öðlist kennarapróf. Þá eru sérstök ákvæði í frv. um verklega þjálfun væntanlegra kennara, og er gert ráð fyrir því, að hún verði ekki skemmri en 12 vikur, og er það mjög mikil aukning frá því, sem undanfarið hefur verið í reynd. Þá eru bein ákvæði um það í frv., að sérhæfing í kennaranámi skuli aukin stórlega frá því, sem verið hefur, bæði með hliðsjón af kennslugreinum, aldri nemenda og sérlegri gerð þeirra. Og jafnframt er í þessu frv. fylgt þeirri meginstefnu, sem nú er uppi í skólamálum hér á landi og annars staðar, að auka valfrelsi nemendanna stórlega frá því, sem verið hefur. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því, að nýliðar, sem lokið hafa kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands, skuli njóta tveggja ára leiðsagnar og starfsþjálfunar, áður en þeir verði skipaðir í kennarastarfið. Hv. Nd. breytti þessu ákvæði og gerir ráð fyrir því, að menn geti hlotið full starfsréttindi, þegar þeir hafa lokið háskólaprófinu frá kennaraháskólanum, en síðan skuli þeir eiga kost á starfsþjálfun, eftir að þeir hefja starf sitt. Gert er ráð fyrir því, að skólastjórinn hljóti starfsheitið rektor og verði kjörinn til fjögurra ára í senn, eins og á sér stað um rektor háskólans, en ekki skipaður, eins og aðrir rektorar eða skólastjórar við aðra skóla, af menntmrn. Þá er gert ráð fyrir aðild nemenda að stjórn skólans og skólaráði, og er þetta einnig í samræmi við þá almennu stefnu, sem höfð hefur verið uppi í þeim frv. um skólamál, sem flutt hafa verið nú undanfarið. En fastráðnir við kennaraháskólann eiga að vera prófessorar, dósentar og lektorar auk stundakennara. Þá er ákvæði í frv. um það, að komið skuli á fót rannsóknarstofnun uppeldismála.

Það er augljóst, að náið samstarf þarf að verða á milli þessa væntanlega kennaraháskóla og Háskóla Íslands. Menntmn. Nd. þóttu ákvæðin, sem voru í upphaflega stjfrv. um þetta samstarf, ekki nógu ótviræð, og var ákvæðinu um það breytt í samræmi við einróma till. menntmn. í því skyni að auðvelda þetta samstarf, sem án efa verður nauðsynlegt, og er sjálfsagt að tryggja það, að um tvíverknað verði ekki að ræða. Ég vil taka það sérstaklega fram vegna umr., sem fram fóru í hv. Nd., að mér er algerlega ljóst, að það atriði hefur komið mjög til álita, hvort fela ætti Háskóla Íslands háskólamenntun kennara eða hvort stofna ætti sérstakan kennaraháskóla. Hefur þetta atriði verið rætt mjög ítarlega á undanförnum árum og kannað mjög ítarlega við undirbúning þessa máls.

Mér er ljóst, að mjög margt hefði mælt með því, að stofnuð hefði verið ný deild við Háskóla Íslands og háskólanum þar með falin kennaramenntunin, fyrst hún er flutt á háskólastig. Hins vegar var það mjög eindregin till. forvígismanna kennaraháskólans og kennarasamtakanna, að hinum gamla kennaraskóla yrði breytt í kennaraháskóla og hann yrði sjálfstæð stofnun — óháð háskólanum, eins og tíðkast viða annars staðar. Og þó að ég hafi persónulega upphaflega verið þeirrar skoðunar, að ef sú ákvörðun yrði tekin að flytja kennaramenntunina á háskólastig, þá yrði eðlilegast að fela hana Háskóla Íslands og starfrækja þar sérstaka deild, sem annaðist menntun barnakennara eða væntanlegra grunnskólakennara, þá var afstaða forvígismanna kennaraskólans og kennarastéttarinnar í þessu máli svo eindregin, að ég taldi rétt að fara að svo að segja einróma till. þeirra í þessu efni. Hins vegar geri ég mér ljóst, að nauðsynlegt er að skipuleggja mjög vandlega náið samstarf þessara tveggja háskóla, ef af stofnun kennaraháskólans verður, og mun ég gera sérstakar ráðstafanir til þess. Þá yfirlýsingu vil ég gjarnan gefa hér við 1. umr. þessa máls í tilefni af umr., sem fram fóru í Nd. um málið.

Ef þetta frv. verður að lögum, mun ég gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja þegar á næsta hausti vandlega undirbúið samstarf væntanlegs kennaraháskóla og Háskóla Íslands í þeim greinum, sem þegar eru kenndar í Háskóla Íslands og Háskóli Íslands hefur þjálfaða starfskrafta til að annast, en einnig er ætlunin að kenna í Kennaraháskóla Íslands. Háskólanum hefur þegar verið falið það hlutverk að mennta kennara fyrir framhaldsskólastigið í B.A.-námi sínu og hefur þegar öðlazt allmikla reynslu á því sviði. Ég tel engan hlut sjálfsagðari en þann, að náin samvinna og samstarf komist á milli B.A.-deildarinnar við háskólann, sem á að mennta framhaldsskólakennara, og væntanlegs kennaraháskóla, sem hefur það hlutverk að mennta barnakennara eða væntanlega grunnskólakennara. Hvort þetta samstarf leiðir til þess, að þessar tvær stofnanir verða sameinaðar með tíð og tíma, það er hlutur, sem ég skal engu spá um, en ég tel, að vandlega athuguðu máli, að það sé rétt að hafa í upphafi þessa stefnu, þ.e. að fela kennaramenntunina sérstakri stofnun, en tryggja með sérstakri hliðsjón af því, að kennarastéttin og núverandi kennaraskóli hefur lagt mikla áherzlu á að hafa þann hátt á, þegar í upphafi nána og skipulega samvinnu og fylgjast síðan vandlega með því, hvernig árangurinn verður og haga framtíðarráðstöfunum í samræmi við það.

Þó að hér sé um að ræða mikla lagasetningu og gagngerðar breytingar frá núverandi ástandi, þá þarf enginn að ætla, að hér sé einhver endanlegur vísdómur fundinn á öllum sviðum, og sú skipun, sem hér er tekin upp, muni eða hljóti eða eigi að standa um aldur og ævi. Þegar um mál eins og þessi er að ræða, hygg ég, að skipulagsmálin eigi að koma til endurskoðunar að jafnaði á nokkurra ára fresti og hafa þá hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur.

Ég vildi leggja á það mikla áherzlu, að þetta frv. yrði að lögum á þessu þingi, þannig að kennaraháskólinn gæti tekið til starfa á næsta hausti. Starfræksla hans næsta haust hefur þegar verið undirbúin mjög rækilega, svo að algerlega vandalaust er að hefja starfsemi kennaraháskóla með fullkomnum hætti þegar á næsta hausti, ef Alþ. afgreiðir málið nú á þessu þingi. Þess vegna vildi ég mjög einlæglega mælast til þess af hv. menntmn., að hún hraði afgreiðslu málsins og geri hv. Ed. kleift að ljúka því á þessu þingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.