01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. 3. minni hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ef frv. þessu hefði verið útbýtt í dag, hefði ég litið á þetta eins og hvert annað aprílgabb. En því er nú ekki að heilsa, að hér sé spaugsemi á ferðinni, heldur virðist það vera fúlasta alvara hjá yfirmönnum fræðslumála í landinu að knýja þetta frv. um Kennaraháskóla Íslands hér í gegn og fá það samþ. sem l. frá Alþ. Ég á sæti í menntmn., sem fékk þetta frv. til umsagnar, og ég hef skilað séráliti, sem áliti 3. minni hl. n. Þetta álit er því miður enn í prentun, því hefur ekki verið útbýtt, svo að ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að hefja mál mitt á því að lesa þetta álit, sem ég hef látið fara frá mér. Það hljóðar þannig:

„Ég er andvígur þessu frv. af eftirfarandi ástæðum:

1. Með frv. er lagt til að auka mjög kröfur til menntunar barnakennara, nánar tiltekið þannig, að í stað fjögurra ára skólanáms að loknu landsprófi komi sjö ára skólanám, þar af þrjú síðustu árin í háskóla. Þetta mikla stökk, sem á sér enga hliðstæðu í skólakerfi okkar, hlyti að leiða af sér margs konar örðugleika og misræmi í framkvæmd. Menntun barnakennara á að auka á þróunargrundvelli, en ekki með stökkbreytingum. Þá verður að líta á það sem bruðl og óþarfa að nota starfskrafta háskólagenginna manna til þess að kenna börnum lestur, skrift og reikning.

2. Í frv. er kveðið á um stofnun nýs háskóla hér á landi, svonefnds Kennaraháskóla Íslands, er hafi það hlutverk að annast fullnaðarmenntun barnakennara. Fámenn þjóð eins og Íslendingar hefur ekkert með tvo háskóla að gera, a.m.k. ekki næstu áratugina. Háskóli Íslands getur með góðu móti séð um alla kennaramenntun, sem fram þarf að fara á háskólastigi hér innanlands.

3. Samþykkt frv. mundi kosta mikil fjárútlát fyrir ríkissjóð. Þessum fjármunum væri að minni hyggju betur varið til margra annarra hluta.

Ég legg til, að frv. verði fellt.“

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum frekari orðum um þau sjónarmið, sem fram koma í þessu nál. mínu, og þá er fyrst á það að líta, hvort það sé út af fyrir sig nauðsynlegt að krefjast háskólamenntunar til þess að kenna börnum. Höfundar frv. skýra frá því í grg., að með nokkrum erlendum þjóðum tíðkist þetta, og það er grg. eða frásagnir um þetta, sem fylgja með frv., en allar eru þessar frásagnir þó ákaflega óljósar, og kemur reyndar harla litið fram um það, á hvaða aldri þau börn eða ungmenni eru, sem þarf háskólamenn til að kenna samkv. reglum erlendra þjóða. Það verður líka að líta á það, að erlendis er það víða svo, að háskólanám hefst við 18 ára aldur, þannig að háskólanám þar og hér er ekki að öllu leyti sambærilegt. Það mætti e.t.v. líta á, einn til tvo síðustu bekki t.d. menntaskóla og jafnvel kennaraskóla sem háskólastig, ef borið væri saman við sum önnur lönd.

Þá þarf líka að geta þess, þegar ákveðin eru sérstök réttindi barnakennara, hvað þau eiga að ná langt. Hvað eiga þau að ná til margra árganga? Eiga þau að ná til árganganna eins og nú er, frá 7 ára upp í 15 ára aldur, eða á að hafa þetta eitthvað færri ár, þannig að það séu ekki sömu menntunarkröfur gerðar til allra kennara á skyldunámsstigi? Nú stendur einmitt fyrir dyrum að lengja ... (Forseti: Ég vildi biðja hv. þdm. í stigaherbergi að hafa aðeins hljóðara, svo að heyrist til ræðumanns.) Nú er þetta ... Hvar var ég nú í ræðunni? — Ég var að ræða um þau aldursstig og skyldunámsstig, sem barnakennararéttindin ættu að taka til. Nú, eins og ég sagði áðan, er á döfinni að setja ný l. um skyldunám eða svonefnda grunnskóla, sem verða að vísu ekki sett á þessu þ., þó að frv. hafi komið fram um það, heldur á að fresta því til næsta þings. Ég hefði talið það mjög skynsamleg vinnubrögð að semja ekki löggjöf um Kennaraskóla Íslands og réttindi barnakennara til kennslu, fyrr en búið væri að setja þessi nýju grunnskólalög. Mér finnst eðlilegt að byrja þar á undirstöðunni.

Það kann vel að vera, svo að dæmi sé nefnt, að það sé æskilegt, að háskólagengnir menn kenni unglingum t.d. á aldrinum frá 13–16 ára, sem væntanlega yrði hluti af skyldunáminu, þó að ekki þyrfti háskólagengna menn til að kenna börnum á aldrinum 7–13 ára. Ef svo yrði talið að vel athuguðu máli, þó að ég sé ekki sannfærður um það, að það þyrfti meiri menntun en kennaraskólinn veitir til að kenna börnum frá 7 ára aldri og upp í 13 ára eða 15 ára eða 16 ára eða hvað það yrði haft, þá álít ég, að sú menntun eigi að fara fram í Háskóla Íslands. Og ég verð að játa það, að ég minnist þess ekki sjálfur að hafa heyrt foreldra barna nokkurn tíma kvarta undan því, að kennarar, sem væru með próf frá Kennaraskóla Íslands, að þeir hefðu ekki næga menntun til þess að kenna börnunum. Maður heyrir foreldra e.t.v. kvarta undan því, að kennararnir hafi ekki nægan aga, þeir hafi ekki stjórn á börnunum, en ekki, að þeir hafi ekki næga menntun til þess að kenna börnunum; ég minnist þess aldrei. Og mér finnst, að í þeim efnum verði nú hv. alþm. að hlusta á fleiri en einvörðungu skólastjóra, sálfræðinga og uppeldisfræðinga, því að alla þessa sérfræðinga má ekki taka allt of hátíðlega. Það verður auðvitað að skoða þeirra niðurstöður og jafnframt heyra álit að mínu viti miklu fleiri, t.d. foreldranna. Ég hef ekki orðið var við það, að foreldrar eða fulltrúar foreldra hafi verið spurðir nokkurs álits við samningu þessa frv.; það er eins og þeim komi þetta mál ekkert við.

Með afstöðu minni er ég alls ekki að segja það neitt endanlega, að það geti ekki verið æskilegt síðar meir að auka a.m.k. menntun barnakennara í landinu, en það þarf, eins og ég segi, að skoða það mál allt saman miklu betur. Og þegar að því kemur, sem gæti vel orðið fljótlega, að auka menntun barnakennara, ef það væri að vel athuguðu máli talið nauðsynlegt, þá á ekki að gera það með slíkri stökkbreytingu, að menntunarkröfurnar aukist um þrjú ár — í stað þess að vera fjögur ár eftir landspróf séu þetta 7 ár. Slík stökkbreyting, held ég, að kunni ekki góðri lukku að stýra og muni leiða til margs konar vandræða í framkvæmd og misræmis, ef þetta frv. hér verður að l. Ég tel t.d., að það ætti að breyta l. um kennaraskólann. Það er a.m.k. hugmynd, sem mér finnst vel athugandi, að eftir fjögurra ára nám í kennaraskólanum og kennarapróf gætu þeir nemendur átt aðgang að einhverri kennaradeild í Háskóla Íslands og aflað sér þá viðbótarmenntunar og þá viðbótarréttinda líka til þess að kenna á gagnfræðastigi, ef svo vill verkast, og það gætu verið 1–2 vetur, einn, tveir eða þrír, eftir því, hvað þeir vildu afla sér mikilla réttinda, og það ætti að leggja þessa stúdentsdeild kennaraskólans niður. Kennaraskólaprófið á að veita mönnum aðgang að háskóla, og þá finnst mér litlu máli skipta, hvort við köllum þá stúdenta eða ekki. Það er ekkert aðalatriði í mínum augum.

Mér dettur t.d. í hug í sambandi við þetta frv., ef það verður að l., hvaða vandræði hljóti að leiða af því í sambandi við launakerfi ríkisins. Þá verða komnir tvenns konar barnakennarar — barnakennarar, sem hafa sömu réttindi til embætta, en hafa mjög mismunandi menntun. Annars vegar væru það barnakennarar, sem hafa sitt gamla, góða próf frá kennaraskólanum, hins vegar yrðu barnakennarar, sem hefðu þetta þriggja ára nám í þessum barnakennaraháskóla, sem frv. fjallar um. Nú er barnakennarastéttin ákaflega fjölmenn. Það mætti því búast við því, að þeir, sem hefðu lokið námi í háskóla, krefðust mjög hárra launa sem háskólagengnir menn. Þá mundu hinir barnakennararnir, sem hafa sömu réttindi, þó að þeir hafi mun minna nám, auðvitað krefjast sömu launa og háskólamennirnir og segja: Við vinnum sama starf, og við höfum sömu réttindi, þó að við höfum minni menntun. Og þarna mundu áreiðanlega rísa upp mjög alvarlegar deilur, og auk þess eins og nefnt hefur verið hér, er náttúrlega hætt við því, að þessir barnakennarar með aukamenntun, þessir barnakennarar með háskólapróf mundu sjálfsagt verða eftirsóttari, því að þeir hafa þá meiri menntun. Þeir geta orðið eftirsóttari til t.d. að starfa sem skólastjórar og annað þess konar, og ég er anzi hræddur um það, að þeir mundu nú til að byrja með, á meðan þeir væru fáir, frekar setjast að í þéttbýlinu en dreifbýlinu og það væru þá þessir meira menntuðu kennarar, sem væru þá í Reykjavík og nágrenni, en hinir fengju að vera úti á landi.

Þá vil ég víkja að öðrum þættinum í þessu nál. mínu, þar sem ég tel, að það sé algjörlega óþarft að vera hér með tvo háskóla. Það er nú þannig, að Háskóli Íslands menntar nú kennara eins og er og mun gera það þrátt fyrir samþykkt þessa frv., því að menn, sem vilja afla sér kennararéttinda eða menntunar til að kenna á framhaldsskólastigi, fara í Háskóla Íslands svo framarlega sem þeir ætla að stunda háskólanám innanlands, og þeir eiga að halda áfram að vera í Háskóla Íslands, þó að þetta frv. verði samþ. Þannig verður þessi barnakennaraháskóli bara fyrir barnakennara, en Háskóli Íslands verður fyrir aðra kennara, sem taka háskólagráðu hér innanlands, og þetta virðist mér nú sýna, að það sé enn þá minni ástæða til þess að vera að skipta þessu á milli tveggja háskóla.

Í öðru lagi get ég ekki komizt hjá því að benda á, ef á að fara að stofna hér annan háskóla á Íslandi, að það mætti nú hugsa til fleiri skóla, við skulum taka sem dæmi verzlunarskólann. Gæti ekki verzlunarskólinn komið og heimtað að verða verzlunarháskóli? Gæti ekki tækniskólinn komið og heimtað að verða tækniháskóli o.s.frv.? Yrði hægt að spyrna fótum við því, að það risu þá hér upp fleiri háskólar en tveir, ef á annað borð verður farið út á þá hættulegu braut að fjölga þeim auk þess, sem þetta kostar svo að sjálfsögðu mikla fjármuni. Það er auðvitað margs konar hagræðing að því að reka einn skóla í staðinn fyrir tvo, og í raun og veru er það svo augljóst mál, að um það þarf ekki að fara mörgum orðum. En ég vil bæta því við hér í sambandi við þessa menntun barnakennaranna og í sambandi við það, hvað mér þykir það fráleitt að gera svona róttæka breytingu skyndilega á þessum eina þætti skólakerfisins, en ekki þá samtímis á öðrum, að samkv. skólakerfi okkar nú er það þannig, að það eru margir skólar, margir sérskólar, sem taka við fljótlega, eftir að skyldunáminu lýkur. Ég get tekið sem dæmi iðnskóla, stýrimannaskóla, vélskóla, hjúkrunarskóla, hótel- og veitingaskóla o.s.frv. Þetta eru allt saman skólar, sem taka við, eftir að skyldunáminu lýkur. Mér fyndist það nú nokkuð hlálegt að gera þá kröfu til þess, að á skyldunámsstiginu öllu eigi að vera háskólagengnir menn og ekki aðrir, sem kenna börnunum, en svo þegar þeir halda áfram og fara út í þessa sérskóla, þá eru engar kröfur gerðar í lögum um, að þessir menn, sem kenna í þessum sérskólum eins og t.d. í stýrimannaskóla, vélskóla o.s.frv., hafi nein háskólaréttindi. Þar er engin þörf á þessu, og það liggja nú m.a.s. fyrir þessu þingi frv. um ýmsa þessa skóla, sem er verið að gera dálitlar breytingar á, en þar er hvergi minnzt á það, að það þurfi háskólagengna menn til að kenna þessu fólki, eftir að það kemur lengra, og það sýnir nú eitt með öðru, hvaða misræmi kemur hér í skólakerfið, ef þetta frv. yrði samþykkt.

Í þessu frv. felst í raun og veru meira en það, að það sé verið að stofna sérstakan háskóla, því að eftir frv. á þarna að vera sérstök rannsóknarstofnun fyrir uppeldismál. Nú fara auðvitað fram slíkar rannsóknir í Háskóla Íslands, og það fara fram einhvers konar rannsóknir í Skólarannsóknum, sem framkvæmdar eru hjá menntmrn. En þarna virðist eiga að koma þriðja stofnunin. Þessi háskóli á að vera sérstök rannsóknarstofnun fyrir uppeldismál með miklu og fríðu starfsliði og margs konar vísindalegu hlutverki. Ég sé ekki annað en þetta sé í raun og veru hreinn óþarfi, og í reynd séu það aðrar stofnanir, sem um þetta eigi að fjalla og geti sinnt þessu og leyst þessi mál af hendi. Í raun og veru er ekki hægt að komast hjá því að segja, að þetta frv. er upp fyllt með margs konar „snobbi“ og tildri. Það eru talin hér upp fjöldamörg embætti og stöður, jafnvel miklu fjölbreyttari en í sjálfum háskólanum. Fyrir utan rektor, prófessora, dósenta og lektora eru aðjúnktar og skorarstjóri, svo er konrektor, sem reyndar er nú búið að breyta um nafn á í Nd., bókavörður, námsráðunautar, æfingastjóri, húsvörður, tækjavörður og fulltrúar, gjaldkeri og fullt af slíku fólki, og þetta er þó bara það, sem er við kennslustofnunina. Svo er sjálfsagt annað eins, sem á að vera við hina vísindalegu rannsóknarstofnun. Það virðist því sem höfundar þessa frv. hafi ætlað að gera þessa stofnun þegar í upphafi að markaðstorgi hégómans.

Þá gefur það auga leið, að samþykkt þessa frv. mundi auðvitað leiða af sér mjög aukin útgjöld fyrir hið opinbera eða fyrir ríkissjóð. Að vísu má í þeim efnum ekki horfa á skólann einan, því að kannske fækkar nemendum við skólann og þriggja ára skóli kemur í staðinn fyrir fjögurra ára skóla. En allir þessir nemendur, sem kæmu í barnakennaraháskólann, yrðu áður að hafa lokið stúdentsprófi, og það þýddi auðvitað mikla fjölgun í menntaskólum og kröfur um nýjan menntaskóla, þannig að það verður alltaf að kosta þetta fólk til náms, þó að það verði ekki lengur í nafni kennaraskólans. Ég held, að þetta yrði mjög dýrt allt saman — mjög kostnaðarsamt — að byggja svona skóla og slíka rannsóknarstöð, og ég tel, að sumt af þessu sé meira og minna óþarft. Þarna yrði stofnað til fjölda nýrra embætta og annað eftir því, og ég játa það alveg hreinskilinslega, að ég tel, að öllum þeim fjármunum, sem mundu fara í þetta, væri betur varið til annars og jafnvel væru þeir betur komnir í vösum skattborgaranna en verja þeim til slíkra hluta.

En ég endurtek svo þá till. mína, að þetta frv. verði fellt.