02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þegar 2. umr. þessa máls fór fram hér í hv. d., beindi ég þeirri ósk til hv. 5. þm. Reykn., að hann tæki aftur til 3. umr. brtt. við frv., sem hann hefur borið fram á þskj. 754, og varð hann góðfúslega við því. En nú mundu þessar till. koma til atkvgr., svo að ég vil þá leyfa mér í sem stytztu máli að skýra hv. þd. frá þeirri athugun, sem ég hef getað gert á þessum till. Ég hefði óskað þess, að unnt hefði verið að halda fund í menntmn. um málið, en því miður hefur það ekki verið hægt tímans vegna. Ég treysti mér ekki til að boða fund í n. í óvissu um það, hvort ég fengi upplýsingar, sem að gagni kæmu, og þess vegna hefur ekki orðið af fundi, og af því leiðir aftur, að það, sem ég segi um málið, er algerlega á eigin reikning. Ég hafði hugsað mér að ná tali af skólastjóra kennaraskólans og háskólarektor og bera þessar till. undir þá. Því miður reyndist mér ekki unnt að ná tali af rektor, sem er veikur í dag, en ég kynnti mér afstöðu skólastjóra kennaraskólans til till. og skal skýra frá þeim í stuttu máli.

Ég mun þá ræða þessar brtt. í röð. Það er í fyrsta lagi brtt. við 3. gr. frv., 1. brtt. á þskj. 754, þess efnis, að 2. og 3. tölul. 3. gr. falli niður um nánari ákvæði um kosningar í nemendaráð o.s.frv. Meginrök hv. flm. fyrir þessu voru þau, að óeðlilegt væri að setja um þetta nánari reglur, þar sem það hlyti að vera mál nemendanna sjálfra, hvernig þeir höguðu þessum kosningum. Og eftir því sem ég veit bezt, er sú skipan einnig á við háskólann, að í reglugerð og lögum háskólans eru aðeins ákvæði um réttindi nemendanna til þess að hafa áhrif á stjórn háskólans o.s.frv., en mér er ekki kunnugt um, að um þetta séu reglur. Skólastjóri lagðist gegn því, að þessi till. yrði samþ. og þessi ákvæði felld niður, og þau rök, sem hann færði fyrir því, voru þau, að um þetta væru nú mjög flóknar reglur, sem nemendurnir hefðu sett, þannig að ef þeim ætti að framfylgja, þá gæti það jafnvel þýtt nokkurra daga truflun á kennslunni, svo að hans skoðun var sú, að þetta ætti að standa óbreytt.

Ég vil hins vegar taka fram varðandi mína afstöðu, að ég fellst á þau rök, sem hv. flm. þessarar brtt. bar fram máli sínu til stuðnings, þannig að ég mun greiða þessari brtt. atkv., en þau rök, sem skólastjórinn færði fram gegn því, hafa nú komið fram, svo að hv. þdm. verða þá að gera það upp við sig hver og einn, hver afstaða þeirra mundi verða. En ég vil aðeins taka það fram, að við meðferð málsins hafði menntmn. samráð við þau tvö félög, sem skoða má sem fulltrúa nemendanna. Annars vegar er það félag nemendasambandsins, en tveir fulltrúar frá því sátu fund n. Auk þess átti ég alllangt samtal í síma við formann skólafélagsins, Ólaf Garðarsson, en hjá hvorugum forsvarsmanni þessara samtaka kom sú afstaða fram, að þeir óskuðu eftir, að þessi breyting yrði gerð. Þetta vil ég taka fram. En persónulega er ég þeirrar skoðunar, að ekki sé rétt að setja um þetta ákveðnar reglur, þó að ég engan veginn segi, að ekki beri að taka tillit til sjónarmiða skólastjórans, og ég skil þau vel, en ég mun greiða þessari brtt. atkv.

Þá er það 2. brtt., við 6. gr. frv., og meginefni hennar er, að námið verði skv. lögunum minna bundið en frv. gerði ráð fyrir, þannig að aðeins sé ákveðið um fyrirferð uppeldisgreina og uppeldisfræðilegs sérsviðs og áheyrnar í náminu, en að öðru leyti verði í reglugerð sett nánari ákvæði um námsefni skyldunáms.

Nú vil ég upplýsa það, að sú skipan, sem brtt. gerir ráð fyrir, mundi vera í meira samræmi við það, sem er í háskólanum. Hins vegar lagðist skólastjóri gegn þessari till. Ég tel, að efnislega þýðingu mundi þetta ekki hafa, vegna þess að það yrði í framkvæmdinni — mér þykir ólíklegt annað — skólaráð, sem mundi taka ákvarðanir um þá reglugerð, sem sett er. Varðandi háskólann er það a.m.k. svo, að það er raunverulega háskólaráð, sem semur þær reglugerðir, sem eru í gildi fyrir háskólann í heild og hinar einstöku deildir, og menntmrn. hefur, held ég, með mjög fáum undantekningum fallizt á till. háskólaráðs í því efni. En einmitt vegna þess að ég tel, að hér sé um þýðingarlítið mál að ræða, þá mun ég nú taka þá afstöðu í þessu efni að fylgja óskum skólastjóra. En rétt er í því sambandi að benda á það, að eins og frv. er, þá mætti e.t.v. leggja í það fleiri en einn skilning, hver ákvæðin eru, þar sem tekið er fram um námsefni skyldunáms, að svokallaður kjarni skuli vera 4 hlutir og tvær valgreinar 4 hlutir, og svo eru uppeldisgreinarnar og uppeldisfræðilegt sérsvið og áheyrn 4 hlutir; samtals gerir þetta 12. En svo er hér bætt við 2. tölul. undir b: „Heimilt er skólastjórn að leyfa nemendum að bæta við sig þriðju valgrein og verður þá valgreinanámið 6 hlutir.“ Nú er spurningin sú, hvort þetta þýðir, að það eigi að lækka kröfurnar í öðrum hlutum námsins, eða hvort þetta er til viðbótar. Ég tel rétt að upplýsa það, að skólastjóri taldi það sinn skilning, að þetta ætti að vera viðbót, þannig að rétt er, að það komi fram. Slíkt mundi ekki skipta máli, ef brtt. væri samþ., en gæti að mínu áliti verið vafamál, ef svo er ekki. Aðalatriðin í þessu eru þau, að samkv. brtt. mundi þetta meira verða fært í það form, sem er í háskólanum. Skólastjórinn leggst gegn þessu. Mín skoðun er, að efnislega þýðingu hafi það ekki, svo að m.a. með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir endurskoðun á þessum l. innan tveggja ára, mun ég ekki greiða þessari till. atkv., en hv. þdm. meta þá sína afstöðu.

Þá kem ég að hinum brtt., sem í ríkara mæli snerta samskiptin við háskólann. Varðandi 3. brtt. hafði ég upphaflega hugsað mér að leggja til, að hún yrði samþykkt með nokkurri orðalagsbreytingu. En þegar ég bar þetta undir skólastjóra, þá benti hann mér á ákvæði, sem eru í 1. gr. frv., sem fjallar um hlutverk kennaraháskólans, þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands að skipta með sér verkefnum og viðurkenna sambærilegar námseiningar eða náms ætti hvors annars til þess að forðast tvíverknað.“ Ég fellst á það sjónarmið skólastjóra, að í þessu felist í rauninni það, sem fram kemur bæði í 3. og 4. brtt., þannig að þær séu að því leyti óþarfar. Ef hv. flm. féllist á það að taka þessar till. báðar aftur, þá tel ég, að náð væri tilgangi með því og með þeirri skýringu, sem ég hef gefið, ef enginn andmælir því í hv. d., væri úr því skorið, að d. legði þann skilning í 1. gr. frv., að hún veiti þær heimildir, sem brtt. gera ráð fyrir, en mér finnst hins vegar óviðkunnanlegt að setja þessi ákvæði inn í aðrar gr. frv., þar sem ég fellst á það sjónarmið, að þetta felist raunverulega í 1. gr. En það er mál hv. flm., hvort hann mundi verða við þessum tilmælum, en það gæti skapað vissan misskilning, ef þessar till. væru bornar upp og felldar.

5. brtt. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Gerðar skulu svipaðar kröfur til nemenda og um námsefni í Kennaraháskóla og gerðar eru til nemenda í Háskóla Íslands í jafnlöngu námi.“ Henni er ég andvígur. Það er í fyrsta lagi, að þar sem nokkur eðlismunur verður á ýmsum þáttum námsins í kennaraháskólanum og í háskólanum, þá yrði mjög erfitt að meta það, hvort um er að ræða svipaðar kröfur í báðum þessum stofnunum, og ég vil taka það fram, að ég lít ekki þrátt fyrir allt þannig á, að hér verði um algerlega hliðstæðar stofnanir að ræða þrátt fyrir háskólaheiti kennaraskólans. Það, sem er sameiginlegt þessum stofnunum, er það, að það er meginreglan, að aðeins stúdentar stunda þar nám, en að öðru leyti tel ég, að fyrst um sinn geti ekki orðið um algerlega hliðstæðar stofnanir að ræða. Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni við 2. umr., þá er ástæðan til þess, að við verðum að kalla þetta kennaraháskóla, sú, að orðið háskóli hér á landi er notað yfir tvö orð, sem hafa mismunandi merkingu í Norðurlandamálum. Hins vegar er það rétt, að af hálfu háskólamenntaðra kennara mun hafa verið lögð á þetta nokkur áherzla. En ég mundi ekki telja rétt að samþykkja þessa till.

Svo er að lokum 6. brtt. við 11. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að ráða kennara að hluta til starfa við Háskóla Íslands og að hluta við Kennaraháskóla Íslands.“ Nú skal ég taka það fram varðandi afstöðu skólastjóra til þessarar brtt., að hann sagðist ekki leggjast gegn henni en taldi það í rauninni ekki skipta verulegu máli, hvort hún yrði samþ. eða ekki. Ég tel í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að um slíkt geti verið að ræða, en það er einn vandi, sem þá mundi koma upp, og það væri réttarstaða þeirra manna, sem ráðnir væru hjá báðum stofnunum. Nú er það þannig, að allir háskólakennarar, a.m.k. þeir, sem hafa sitt aðalstarf við háskólann, taka m.a. þátt í kosningum til háskólaráðs o.s.frv. Sú spurning mundi koma upp með slíka menn, hvort þeir ættu að hafa full réttindi við báðar stofnanirnar til áhrifa á stjórn skólans o.s.frv. Ég sé það engan veginn, að það mundi verða óleysanlegt vandamál, en ég tel, að fyrir því verði að gera sér grein, áður en slík till. er samþ., þannig að mín afstaða verður sú, að ég mun ekki að svo stöddu telja mér fært að styðja þessa till. m.a. með tilvísun til þess, að hv. d. hefur nú ákveðið, að þessi lög verði endurskoðuð innan tveggja ára. Eins og ég gat um í upphafi, þá tókst mér ekki að bera þessar till. undir háskólarektor, en frá því vildi ég segja, vegna þess að hv. flm. þessarar brtt. vitnaði í nál. háskólakennara máli sínu til stuðnings, og það er alveg rétt, að ýmislegt af þessu, sem kemur fram í brtt., er í fullu samræmi við ábendingar frá þeim. En ég legg þann skilning í slíkar nefndarskipanir af hálfu háskólaráðs, að álit þeirra hljóti einvörðungu að vera á ábyrgð nefndarmanna, en ekki háskólaráðs, nema það hafi þá sérstaklega skrifað upp á þetta sem sína samþykkt. En þetta er aðeins minn skilningur. Ég gat ekki borið þetta undir háskólarektor, og í þessu felst í rauninni ekki nein gagnrýni á þær till., sem þessi n. hefur gert.

Herra forseti. Þetta er í stuttu máli það, sem ég hef getað á þessum stutta tíma haft upp úr því krafsi að reyna að fá upplýsingar um þessi atriði.