02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þegar ég flutti mál mitt hér við 2. umr. í gær, þá var mér efst í huga að fá fram tryggingu fyrir því, að þessi lög yrðu fljótlega endurskoðuð, því að ég tel, eins og ég vék að þá, að þarna sé um frumsmíð að ræða og að nokkru leyti gallagrip, en þó málavextir þannig, að tæpast sé um annað að gera en stíga þetta spor og vona hið bezta. Af þessu leiddi það, að ég gerði ekki þessar brtt. frá hv. 5. þm. Reykn. neitt verulega að umtalsefni. Mér voru þær kunnar af samtölum við fulltrúa frá Félagi háskólamenntaðra kennara. Ég hygg, að þær séu flestar — ef ekki allar — undan þeirra rifjum runnar. Og ég ætla þá, fyrst tækifæri hefur gefizt til athugunar á þessum till. og þær hafa verið gerðar hér að umtalsefni, með örfáum orðum að lýsa afstöðu minni til þeirra, og ég skal ekki láta það taka langan tíma.

1. brtt. fjallar um það, með hverjum hætti kjósa skuli nemendaráð. Ég get vel fallizt á, að óþarft sé að hafa í frv. ákvæði um það annars vegar, hvernig kosningar eiga að fara fram — það eigi að ákveða í reglugerð, ég hélt að þetta væri nú ekki svo margbrotinn hlutur að kjósa nemendaráð, að nemendur sjálfir gætu ráðið fram úr því — og svo hins vegar um það, að nemendaráðið eigi að setja sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti, sem háðar eru samþykki meiri hluta nemenda í leynilegri atkvæðagreiðslu. Ástæðan til þess, að ég lét þessa tilhögun fram hjá mér fara eða breytingar á henni var fyrst og fremst sú, að þeir nemendur kennaraskólans, sem komu á fundi okkar og við okkur hafa talað utan funda, lýstu því, eins og hv. 10. þm. Reykv. ,greindi frá, fyrir okkur, að þeir gætu eftir atvikum fellt sig við frv., eins og það var þá orðið. Og það réð því, að mér fannst, að aðrir menn utan kennaraskólans ættu ekki að vera að hafa áhyggjur af þessu og það kennarar. En nú verður um þetta látið ganga atkvæði, og þá verður auðvitað hver að fylgja sinni sannfæringu, og mín sannfæring fyrir þessu er eins og þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, að mér finnst, að þetta eigi að vera mál nemendanna, og mun ég því greiða atkv. með þessari till.

Þá eru þær till., sem er nú raunar ástæðulaust að ræða, þar sem þær hafa verið teknar aftur, en ég skil það svo, að ástæðan fyrir því, að þær eru nú teknar aftur með samþykki flm., sé fyrst og fremst sú, að hv. Nd. hefur breytt ákvæðinu um verkefnaskiptinguna í 1. gr., 1. tölul., og sett þar skylt í staðinn fyrir heimilt og hert þannig á þessari skyldu, og raunar er réttilega athugað hjá flm., að till. er eftir þessa breytingu nánast óþörf.

Þá er það brtt. við 6. gr., sem lýtur að því að gera námsefnið í kennaraháskólanum óbundnara með lögunum en hér er lagt til. Út af fyrir sig er ég alveg samþykkur því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér áðan, að slík bindandi upptalning námsefnis í lögum á breytingatímum er ekki heppileg, og er þess skemmst að minnast, þegar þessi hv. d. afgreiddi héðan breytingu á lögum um Stýrimannaskóla Íslands, að meginbreyting þess frv. var einmitt sú að fella niður þá skilgreiningu námsefnis, sem í lögunum var, og voru þau lög þó ekki gömul, að mig minnir frá 1967. Þannig að þetta bara sýnir okkur, hversu fljótt slík námsskrá úreldist. Og ef hér væri því um það að ræða, að námsefnið væri í frv. mjög nákvæmlega sundurliðað og skilgreint, þá væri þessi brtt. tvímælalaust til bóta. Og ég hygg nú kannske, að hún geti verið til bóta sem viljayfirlýsing, en eins og ég held, að ég hafi bent á hér við 2. umr., þá fer því nú æðifjarri að upptalning 6. gr. sé mjög bindandi, því að í gr. segir, að ef námsefni skiptist, eins og þar segir, þá skuli hlutföll einstakra greina vera nálægt því, sem í henni segir. Ef menn vilja gefa sem sé enn þá frekari vísbendingu um það, að þetta skuli vera óbundið, þá er ég út af fyrir sig alveg til í það og get fellt mig við það að samþykkja þessa brtt. Ég ætla nú ekki að fara að hafa hér uppi málþóf um mál, sem við erum nánast búnir að afgreiða, en mér fannst rétt, fyrst þetta tóm gafst og fyrst þessar umr. urðu, að gera í örstuttu máli grein fyrir skoðunum mínum á þessu.