06.04.1971
Neðri deild: 89. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. í gær, mælti hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir brtt., sem við þrír þm. flytjum á þskj. 813, um, að endurskoðun sú, sem nú er gert ráð fyrir í frv. að fram fari á því, ef að lögum verður, innan tveggja ára, skuli m.a. við það miðuð, að kennaraháskóli eða kennaraskóli verði á Akureyri. Þegar mælt hafði verið fyrir þessari till., bar það til tíðinda, að upp reis hv. 5. þm. Vesturl., form. menntmn., með nokkrum þjósti og sagði, að sér þætti það undarlegt, að hér væri borin fram till. um mál eða málsatriði, sem ekki hefði verið hreyft fyrr en nú við 7. umr. málsins, þ.e. eina umr. í Nd. Sem einn af flm. þessarar till. vil ég ekki una þessari umvöndun, því að hún er á misskilningi byggð, og hv. þm. hefði átt að vita betur. Ég minnist þess, að í ræðu, sem ég flutti við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d., gerði ég það einmitt að umræðuefni, að ég teldi, að kennaraskóli ætti að vera á Akureyri, og gat þess, að till. um það hefðu áður fram komið. Til þess að fullvissa mig um það, að ekki væri hér um misminni hjá mér að ræða, leit ég eftir því í ræðuhandritum, hvort þetta ekki væri rétt, og það var svo. Eins og ég segi, ræddi ég þetta þegar við 1. umr., um kennaraskóla á Akureyri, og ég gerði það þá, af því að þá var málið að fara til n., — einmitt þeirrar n., sem hv. þm. er form. í, og mér þótti það tímabært, að einmitt væri vakin athygli á þessu og þeim till., sem uppi hafa verið um þetta efni, um kennaraskóla á Akureyri, í áheyrn n., þannig áð hún hefði tækifæri til þess að taka það til greina. Og ég þykist muna það með vissu, að þessi hv. nefndarformaður væri viðstaddur á fundi, þegar þetta var sagt, svo sem honum bar skylda til, til þess að taka eftir því, sem fram kemur um mál, sem n. á að taka til meðferðar. Þetta vil ég gjarnan, að komi fram, og vænti þess, að hv. þm. leiðrétti það, sem hann sagði í gær um þetta efni.

Þegar frv. kom aftur frá Ed., var í því ákvæði um endurskoðun l. innan tveggja ára, og við þetta ákvæði, sem nú er komið inn í frv., höfum við einmitt gert þessa brtt. um það, að endurskoðunin skuli m.a. við það miðuð, að kennaraháskóli eða kennaraskóli verði á Akureyri. Brtt. er því fram borin á réttum stað og á réttum tíma, og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

Hins vegar hefur það nú gerzt, að í umr. í gær kom fram till. frá nokkrum hv. þm., fjórum hv. þm., að ég ætla, á þskj. 876, og það er till. til rökst. dagskrár. Og rökin fyrir þessari dagskrá eru tilgreind í till. sjálfri. Ég vil lýsa fylgi við þessa dagskrártill. Það má að vísu segja, að eðlilegt hefði verið, að svona till. hefði komið fram í þessari hv. d. í upphafi málsins, en af því varð nú ekki. Hitt er svo það, að hér í hv. d. komu fram þegar í öndverðu nokkrar aths. við frv., og í þeirri ræðu, sem ég flutti við 1. umr., kom ég fram með nokkrar af þessum aths. Hins vegar var það svo, að þegar málið kom úr n., var þannig í pottinn búið, að auðséð var, að meiri hluti var þá í d. fyrir því að samþykkja þetta frv. Hins vegar var það svo, að þegar það var afgreitt út úr d., þá var það lítill meiri hl. dm., sem atkv. greiddi með frv., en mjög margir greiddu ekki atkv. Þetta er ofur eðlilegt. Frv. var mjög seint fram komið. Það var ekki tekið til umr. fyrr en í febrúarmánuði, en eðlilegt hefði verið, að frv. af þessu tagi hefði verið lagt fyrir í þingbyrjun þannig til þess m.a., að þm. hefðu getað notað þinghléið um miðjan veturinn til þess að gera sér grein fyrir því og þeim upplýsingum, sem því fylgdu. Það er mjög æskilegt um flókin mál og nýmæli, nærri byltingarkennd nýmæli, eins og í þessu frv. felast, að þau séu einmitt lögð fram í upphafi þings. En það var nú ekki. Þess vegna tók það að sjálfsögðu nokkurn tíma bæði hér innan þings og utan, að menn áttuðu sig á því, sem í frv. felst, og nú undanfarnar vikur hefur málið töluvert verið rætt í blöðum af áhugamönnum um þessi mál og einnig verið gerðar í því ályktanir m.a. af kennurum.

Sum frv. eru þannig, sem lögð eru fyrir þetta þing, og hafa verið fyrr og síðar, að þau eru mjög sérfræðilegs eðlis, samin af sérfræðingum eða embættismönnum, og það verður að segja það eins og það er, að til eru þau frv., þar sem þm. verða að mestu leyti að treysta athugunum og niðurstöðum sérfróðra manna. En um þetta frv. er það að segja, að það er á mörkunum í þessu sambandi. Það er undirbúið af embættismönnum og sérfræðingum á vegum ríkisstj., en það er þó þess eðlis, að fleiri en sérfræðingar geta gert sér grein fyrir mörgu, sem í því felst, ef tími er til að kynna sér málið og tími til þess að ræða það við hlutaðeigendur utan þings.

En hvers vegna er nú frv. komið aftur hingað til Nd.? Það er komið aftur vegna þess, að á þeim tíma, sem liðinn er frá því snemma í febrúarmánuði að byrjað var að ræða það hér á þingi, þá hefur málið verið í athugun og einnig, eftir að það fór héðan úr d., bæði utan þings og innan. Og frv. er komið hingað til d. aftur vegna þess, að það er komið í ljós, að þótt frv. hafi verið samþ. í Ed., þá er meiri hl. d. óánægður með það. Meiri hl. d. er óánægður með frv. og hefur látið það í ljós. Það kemur glögglega fram í þeirri till., sem samþ. var um endurskoðun á frv. innan tveggja ára. Ef frv. er þannig úr garði gert, að óhjákvæmilegt er, að það verði endurskoðað innan tveggja ára, þá sýnist mér, að það væri nú réttara að fresta afgreiðslu þess núna um eitt ár og afgreiða það ekki á þessu þingi, og ég er því sammála þeim, sem dagskrána flytja.

Ég ætla nú ekki að fara að tala hér langt mál. En eins og ég sagði áðan, þá gerði ég nokkrar aths. við frv. í byrjun, þ.e. við 1. umr. og ég skal gjarnan endurtaka lítið eitt í örfáum orðum af því, sem olli því, að mér þótti þörf á að gera þessar aths. Það, sem mér kom í fyrsta lagi á óvart, þegar þetta frv. kom fram, var það, að ástæða þótti til að leggja niður Kennaraskóla Íslands. Mér kom það mjög á óvart.

Í öðru lagi sýndist mér, að sýnilega væri þarna með þessu frv. lagt í nokkuð mikinn kostnað og ekki sé gott að gera sér grein fyrir því, hve mikill hann verður, og það er heldur ekki hægt nú, því að það eru ekki komnar fram slíkar upplýsingar í málinu. En m.a. var og er, held ég, enn gert ráð fyrir því að skipa samkv. þessu frv., ef að lögum verður, sjö prófessora við kennaraháskólann auk lektora og annarra kennara.

Í þriðja lagi sýndist mér þetta óþarflega umfangsmikil og flókin lausn á húsnæðisvandamáli. Ég veit það, og við vitum það allir, að kennaraskólinn hefur átt í miklum erfiðleikum vegna húsnæðis, sem er allt of þröngt, og þessi húsnæðisvandræði stafa af því, að slíkum fjölda hefur verið hleypt inn í kennaraskólann á undanförnum árum, að það er ekki í neinu samræmi við húsnæði skólans. En mér sýndist það, að á þessu húsnæðisvandamáli mætti ráða bót á einfaldari hátt en með því að stofna kennaraháskóla í því skyni. Ég vil segja það, að ef það þykir nú fært að takmarka aðgang að kennaranámi með því að gera stúdentspróf að inntökuskilyrði, þá ætti alveg eins að vera hægt að takmarka inngöngu í kennaraskólann með inntökuprófi þar eða með því að gera — ja, við skulum segja — ekki endilega stúdentspróf, þó að það kæmi kannske til mála, en þá a.m.k. landspróf að skilyrði fyrir inntöku í kennaraskólann og svo eitthvert úrval. En ef á annað borð á að fara að setja á svona miklar takmarkanir að heimta stúdentspróf til inntöku í þann skóla, sem menntar kennara, þá er það ákaflega undarlegt að geta ekki fallizt á það að setja svona þó nokkru minni takmarkanir á inngöngu í kennaraskólann og ráða þannig bót á húsnæðisvanda hans. Þannig kom þetta mér fyrir sjónir.

Ég hef þrátt fyrir það, að ýmislegt hafi komið fram í þessum umr. í gagnstæða átt, ekki getað fellt mig við þá hugsun, að það eigi að gera sömu menntunarkröfur til þeirra kennara, sem eiga að kenna börnum — við skulum segja á aldrinum 7–13 ára, og þeirra, sem ætlazt er til, að kenni unglingum upp að 16 eða 17 ára aldri. Og um þetta ræddi ég við 1. umr. Mér sýnist, að í sambandi við barnaskólana þurfum við fyrst og fremst á að halda kennurum með almenna þekkingu á undirstöðugreinum, sem þar eru kenndar, og auk þess þekkingu í praktískri, verklegri uppeldisfræði. Og þetta er sú menntun, sem veitt hefur verið í Kennaraskóla Íslands, að mér skilst. Fyrir hina eldri nemendur í gagnfræðaskólum og einnig ýmsum öðrum skólum, sýnist mér, að á þurfi að halda kennurum, sem hafa sérhæft sig í ýmsum námsgreinum, eins og t.d. tungumálum, stærðfræði og eðlisfræði, svo að nokkuð sé nefnt af þeim greinum, sem kenndar eru í gagnfræðaskólum, en yfirleitt ekki í barnaskólum. Og ég er nú eiginlega þeirrar skoðunar, að sú stofnun, sem eigi að veita þá fræðslu, þ.e. fræðslu fyrir kennara í sérgreinum, sem kenndar eru í gagnfræðaskólum og fleiri skólum, sé Háskóli Íslands. Og við háskólann er starfandi deild, sem veitir slíka kennaramenntun í sérgreinum.

Hins vegar þarf svo að vera til menntastofnun, æðri menntastofnun, sem veitir vísindalega menntun í uppeldisfræðum, fræðslu, sem er fyrir þá, sem eiga að kenna uppeldisfræði, t.d. í kennaraskóla, fyrir þá, sem eiga að stjórna skólum, og fyrir aðra kennara, sem þá deild vilja sækja. Ekkert hef ég á móti því, að þessi deild uppeldismála heiti kennaraháskóli, en ég er eiginlega enn þeirrar sömu skoðunar, eins og fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv. við 1. umr. þessa máls, að þessi kennsla í vísindalegri uppeldisfræði eigi heima í Háskóla Íslands í sérstakri deild, sem þá gjarnan má heita kennaraháskóli. En mér er nær að halda, að með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé verið að vinna á tveim stöðum sama verkið, ef úr verður, þ.e. að í sérgreinadeildum háskólans eins og í B.A.-deildinni sé verið að mennta kennara í sérgreinum eins og tungumálum, stærðfræði, eðlisfræði, sögu, landafræði o.s.frv. og svo eigi kennaraháskólinn að kenna þessi sömu fög við hliðina á uppeldisfræðum og hinni verklegu kennslu. Þetta finnst mér vera eitthvað vanhugsað og skal ég þó játa það, að ég er ekki eins fróður í þessum efnum og þeir, sem hafa undirbúið þetta frv. En þetta sýnist mér vera eitthvað vanhugsað. Og ég held, að það yrði bót að því fyrir málið — bót að því fyrir þá, sem eiga að fá kennaramenntun á komandi árum, að ekki verði hrapað að því núna að samþykkja þetta frv., heldur gefi menn sér tíma til næsta þings til þess að afgreiða kennaramenntunina, og mundi þá gefast tækifæri til þess að ræða þetta vandamál við marga menn víðs vegar um land, sem mikla reynslu hafa í þessum efnum.

Ég endurtek það því, að ég mun greiða atkv. með dagskrártill., og ég vil beina því til hæstv. menntmrh., sem ég veit, að hefur góðan vilja í þessu máli, hvort hann geti ekki á það fallizt að fresta málinu til næsta þings, en þó að því yrði frestað, yrði að sjálfsögðu gagn að þeim umr., sem hér hafa orðið á þingi í báðum deildum, og þeim athugunum, sem gerðar hafa verið í sambandi við það. Umr. frestað.