22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

281. mál, almannatryggingar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að segja nokkur orð um þetta mikilsverða mál hér við 1. umr. Ég skal þó takmarka það verulega:

„Það er frumskylda þjóðfélagsins að tryggja þeim þegnum sínum, sem komnir eru á efri ár og skapað hafa með vinnu sinni þann þjóðarauð, sem ný kynslóð tekur í arf, mannsæmandi lífskjör, viðunandi vinnuaðstöðu og möguleika til menningarlífs. Þessari skyldu hafa Íslendingar ekki gegnt sem skyldi, og er brýn nauðsyn á skipulegu átaki til að koma velferðarmálum aldraðra í það horf, sem þjóðinni er sæmandi. Þar sem fjöldi þeirra, sem náð hafa 67 ára aldri, er hlutfallslega minni miðað við vinnufæra menn hér á landi en í nágrannalöndum okkar er auðveldara fyrir okkur en nágrannaþjóðir okkar að búa að eldri þegnum þjóðfélagsins svo, að til fyrirmyndar sé.“ Á þessa lund hefst ályktun velferðarráðstefnu Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík, sem haldin var fyrir þremur vikum, og ég geri ráð fyrir, að undir þessi orð geti hv. alþm. tekið. Við viljum kalla okkur velferðarríki og höfum uppi ýmislega tilburði til þess að vera það. En meðan þessari frumskyldu, sem ég áðan greindi, er eigi fullnægt, er allt slíkt hjal markleysa ein. Sama máli gegnir um þá, sem óvinnufærir eru og hafa skerta starfsorku af veikindum eða öðrum ástæðum. Einnig kjör þeirra og aðbúnaður hefur úrslitaþýðingu, þegar um það er spurt, hvort velferðarþjóðfélag sé í tilteknu landi eða eitthvert annað samfélagsform.

Frv. það, sem hér um ræðir, felur í sér talsverðar hækkanir á ýmsum tegundum tryggingabóta og er að því leyti spor í þá átt, sem við allir viljum fara. Það er vel farið, að úr sé bætt svo mjög sem á okkur hefur hallað í þessum efnum, þegar borið er saman við aðrar þjóðir, t.d. frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

Meginbreytingar frá gildandi reglum eru þær, að bætur almannatrygginga hækka um 20%, barnalífeyrir hækkar um 40% og fæðingarstyrkur hækkar um 13.3%. Þessar breyt. ásamt nokkrum lagfæringum, sem ég tel minni háttar, er áætlað, að muni auka útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins um 500 millj. kr. Af þeirri fjárhæð lenda þó ekki nema 180 millj. kr. á ríkissjóði, því að samkv. gildandi reglum um skiptingu kostnaðar við þær tryggingar, sem hér um ræðir — og því á ekki að breyta — eiga sveitarfélögin að bera 18% eða 90 millj. kr. af þessum umrædda bagga, atvinnurekendur 14% eða 70 millj. kr. og einstaklingar — eða hinir tryggðu — 32% eða 160 millj. kr. af þeim kostnaðarauka, sem af frv. leiðir. Hér er um talsverðar fjárhæðir að ræða, ekki skal því neitað, og vissulega mikilsverð réttarbót, þegar þessi hlið málsins er skoðuð ein út af fyrir sig, eins og hæstv. trmrh. gerði í framsöguræðu sinni hérna um daginn.

Á málinu er hins vegar sá mjög stóri galli, að samkv. 80. gr. frv. eiga ákvæði þess, þó að l. verði, ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1972. Þangað til eða næstu 9 mánuði eða rúmlega það eiga ellilaunin t.a.m. að halda áfram að vera 4900 kr. á mánuði, eins og þau eru nú. Allar hækkanir, sem þangað til verða, á eldra fólkið að fá að bera bótalaust. Það má kannske segja, að einhverjum detti það í hug, að engin dýrtíðaraukning verði þangað til 1. jan. n.k. Það gildir verðstöðvun í landinu, eða er ekki svo? Því er þó því miður til að svara, að verðhækkanir hafa orðið og það verulegar á því tímabili, sem liðið er frá því, að verðstöðvunin svokallaða var sett á, og þær eru alltaf að verða. Ég hygg, að ég þurfi ekki að telja það upp fyrir hv. þdm., hverjar þær eru, því að við eigum hlut að þeim sjálfir — sumum hverjum. Við hækkuðum benzíngjaldið hér um stórfé, 2 kr. á lítrann — eða hvað það var — 3 kr. líklega. Og alls staðar blasa hækkanirnar við. Ég skal ekki reyna að spá neinu um það, hvaða atburðir kunni að gerast hér, áður en nýárssólin rennur upp næst, en hitt veit ég þó, að hinn 1. sept. n.k. lýkur svokallaðri verðstöðvun, sem sett var á hér fyrir áramótin til þess að gilda fram yfir kosningar. Tæpast ganga þau tímamót sporlaust yfir sviðið, ef að líkum lætur.

Við áttum þess kost, þm. þessarar hv. d., að heyra einn þm. stjórnarflokkanna, hv. 10. þm. Reykv., lýsa því af sinni alkunnu hreinskilni hinn 10. febr. s.l., hvað líklegt sé, að gerist þennan umrædda dag. Álit hans var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„En ef verðstöðvuninni verður hætt, þá yrði það spurning, sem vissulega snertir mjög hagsmuni almennings, hvernig leysa eigi þann vanda, sem leiðir af þeim verðhækkunum, sem þá hljóta að verða þegar í stað. Nú eru kjarasamningar lausir, eins og kunnugt er, á hausti komanda, og enginn gerir öðru skóna en að einhverjar talsverðar kauphækkanir eigi sér þá stað. Að vísu er verð á útflutningsafurðum hagstætt sem stendur, en hin langvarandi og erfiða kaupdeila á togaraflotanum bendir þó til þess, að útgerðin telji sig ekki geta tekið á sig miklar kostnaðarhækkanir. Já, það er hrollvekja að hugsa til þeirra vandamála, sem blasa við, þó að sennilega verði reynt að taka upp léttara hjal í þeim efnum, a.m.k. fram að kosningum.“

Hér lýkur þessari tilvitnun, og glöggt mega menn sjá það strax, að hv. þm. ætlar að reynast sannspár, þegar hann býst við léttara hjali fram að kosningum. Gæti það ekki t.a.m. flokkazt undir léttara hjal að útmála lífsgæðin, sem í vændum séu eftir 9 mánuði? Afskaplega er ég hræddur um það, að svo kunni að fara í þessum hrollvekjandi atburðum öllum, að eitthvað saxist á þá kjarabót aldraða fólksins, sem hér er verið að lofa því, og það jafnvel svo, að það verði lítið betri kjör að hafa 6 þús. kr. á mánuði þá en tæp 5 þús. núna, en ég skal endurtaka það, að um þessa hluti ætla ég engu að spá. En svona vinnubrögð koma mér fyrir sjónir sem heldur ódýr brögð. Hér er kastað fram tveimur vikum fyrir þinglok heildarlagabálki um ein þýðingarmestu og vandmeðförnustu hagsmunamál stórs hluta þjóðarinnar, hinna öldruðu og þeirra, sem af einum eða öðrum ástæðum eru svo settir, að þeir þurfa á liðsinni samfélagsins að halda. Hér er því verið að semja um kaup og kjör þessa fólks eða ákvarða þau. Því er tæplega hægt að lá þm., þótt þeir telji sig þurfa nokkurn tíma til athugunar á þessum lagabálki, en til þess verða sjáanlega stopular stundir, þar sem frv. er dengt í þá hrúgu stjfrv. og annarra mála, sem hér eru til meðferðar þessa dagana.

Ég er síður en svo að vanþakka það, að leiðréttingar séu gerðar á gildandi ákvæðum. Þeirra er sannarlega þörf, eins og ég áðan sagði. En ég bara bendi á það, að l. eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Það er því ekki umhyggja fyrir þeim, sem laganna eiga að njóta, sem veldur því, að frv. er lagt fram núna á síðustu dögum þingsins, þegar svo naumur tími er til stefnu, að hálf framsöguræða hæstv. ráðh. gekk út á það að hvetja okkur til skjótra vinnubragða og til þess, að n. beggja d. ynnu saman o.s.frv., sem jafnan er lögð áherzla á, þegar mikið liggur við.

Þessi hæstv. ríkisstj., sem nú verður senn að leggja verk sín undir dóm kjósenda í landinu, ætlar ekkert fjármagn að útvega til að lagfæra kjör þessa fólks, sem hér um ræðir. Hún felldi allar till. þar að lútandi við fjárlagaafgreiðsluna í vetur. Allir sem einn sögðu þm. stjórnarliðsins nei, þegar þeir voru spurðir að því, hvort þeir vildu auka ríkisframlag til trygginganna. Þessi hæstv. ríkisstj. leggur hins vegar fram till. um miklar bætur, sem eiga að koma til framkvæmda, þegar hún er farin frá. Þessi hæstv. ríkisstj. vill gjarnan eiga heiðurinn af því að laga kjör aldraða fólksins, en hún vill ekki hafa vandann af því að afla fjárins. Þegar við stjórnarandstæðingar flytjum frv. til lagfæringar á ýmsum málum, þá er það gjarnan kallað yfirboð af hæstv. ráðh. og við kallaðir ábyrgðarlausir lýðskrumarar, þegar bezt tekst til. En hvað skyldu þá hæstv. ráðh. kalla svona málatilbúnað, ef við ættum í hlut? Væri ekki rétt að doka við og sjá, hvort það, sem gerist eftir 1. sept. í haust, verður eins hrollvekjandi og hv. 10. þm. Reykv. hugsar sér og hvernig þróun verðlagsmála verður til næsta hausts, áður en farið er að slá því föstu, að ellilaun frá 1. jan. 1972 skuli verða 70 þús. kr. fyrir hvern einstakling. Enda er það svo, að einn nm., Guðjón Hansen, sem þetta frv. hefur undirbúið, leggur það beinlínis til, að málin verði betur athuguð. Í aths., sem prentuð er á bls. 33 með frv., segir hann, með leyfi forseta:

„Ég hefði kosið, að endurskoðun nefndarinnar á lögum um almannatryggingar hefði verið unnin í tveimur áföngum og hefði í hinum fyrri verið fjallað um þær breytingar, sem brýnust þörf er fyrir, en í síðari áfanga betur vandað til afgreiðslu á ýmsum málum en nefndin hefur gert ...

Nefndin hefur engin skil gert veigamiklum málum, sem fjallað hefur verið um. Má þar í fyrsta lagi nefna breytingu á fjölskyldubótakerfinu, sbr. aths. við 26. gr. frv., í öðru lagi nauðsyn breytinga á ákvæðum um gjaldskyldu og lögheimili, annaðhvort með breytingum á almannatryggingalögum eða lögum um lögheimili og í þriðja lagi hugmynd um tryggingadómstól, er með fljótvirkum hætti skapaði bótaþegum réttaröryggi. Enn fremur hefði að mínu áliti mátt vanda betur til tillögugerðar nefndarinnar, ef nefndin hefði haft rýmri tíma.“

Það er því ekki bara mín skoðun, að það hefði mátt vinna þetta verk betur. Einn nm. hefur þessa sömu skoðun og lætur hana fylgja frv. Það er sanngirniskrafa, að ellilífeyrir og aðrar greiðslur almannatrygginga fylgi vísitölu eins og önnur laun í landinu gera nú, og ástæðan er þeim mun ríkari, sem þessi laun eru öðrum lægri. Í frv., sem hér um ræðir, er mikilsvert spor stigið í þessa átt, sem ég vil gjarnan fagna sem stefnumarkandi ákvörðun varðandi framtíðina. Í 78. gr. frv. er komið til móts við þessa kröfu, sem margsinnis hefur verið fram sett, en í gr. segir, með leyfi forseta:

„Nú verður breyting á dagvinnukaupi verkamanna við almenna fiskvinnu, og skal ráðh. þá innan 6 mánaða, að fengnum till. tryggingaráðs breyta upphæðum bóta samkv. l. þessum og greiðslum samkv. 78. gr. í samræmi við það.“ Þarna er, að vísu afskaplega varfærnislega, verið að þoka tryggingagreiðslunum í átt til nokkurrar verðtryggingar. Að vísu á þessi verðtrygging ekki að koma fyrr en 6 mánuðum á eftir verðhækkunum og þó ekki nema að fengnum till. tryggingaráðs, en samt er þetta að mínu viti spor í rétta átt. Auðvitað væri þó réttara, að þessi laun væru miðuð við vísitölu og breyttust mánaðarlega eins og önnur laun, og ég held, að að því hljóti að verða stefnt í framtíðinni. Það getur ekki til frambúðar gengið, að verðbólgan fái óheft og bótalaust að höggva skörð í ellilaunin, eins og jafnan hefur verið til þessa. En þetta ákvæði 78. gr. frv. breytir engu um það, sem ég sagði áðan, að það er alveg út í hött að ákveða það núna, hver þessi laun eigi að verða eftir 9 mánuði, því að verðtryggingin lagar þetta ekki; hún kemur ekki til framkvæmda fyrr en 6 mánuðum þar á eftir. Í fyrsta lagi á miðju ári 1972 verður farið að brúka þessa heimild. En einmitt nú er fram undan einhver stærsta kollsteypan í efnahagsmálum, sem við höfum lengi séð — svo óskapleg, að hroll setur jafnvel að þeim, sem þó kalla ekki allt ömmu sína í þessum efnum.

Ef hér væri um að ræða kjarabætur, sem koma ættu til framkvæmda núna strax, og miðað væri við gildandi verðlag, þá væri sannarlega ástæða til að syngja hæstv. ríkisstj. lof og dyrð fyrir þann fagnaðarboðskap, sem hæstv. trmrh. var að flytja hér á föstudaginn. En því miður er ekki því til að dreifa, heldur er hér miðað við dagsetningu nánast í bláum fjarska, þannig að enginn veit, hvort hér er um nokkra raunverulega kjarabót að ræða. En hvað skal segja? Kosningahrollurinn er harður húsbóndi, og margur mun það mæla, að hæstv. ríkisstj. veiti ekki af nokkrum skrautblómum í hnappagat sinnar pólitísku yfirhafnar. Og allur sá mýgrútur illa undirbúinna stjfrv., sem nú er sýndur á Alþ., gæti bent til þess, að þetta væri ráðh. ljóst ekki síður en öðrum.

Um einstaka þætti frv. að öðru leyti skal ég ekki vera margorður nú. Ég sakna þess, að við þessa heildarendurskoðun, sem okkur er sagt, að fram hafi farið og frá er greint í athugasemdunum, þá hefur samt margt af ágöllum eldri tryggingalaga ekki verið lagfært. Í rauninni eru breytingarnar ekki ýkja margar. Á bls. 23 og 24 í aths. eru þær taldar upp. Ég geri ráð fyrir, að þær séu yfirleitt til bóta. Ég er ekki svo kunnugur framkvæmd tryggingamála, að ég treysti mér til að segja um það í einstökum tilvikum, en tryggingafróður maður,

sem ég hef átt tal við um þessi mál, telur, að þessar breytingar séu til bóta, og ég vil gjarnan trúa því. En ég sakna þess t.d., að ákvæðin um greiðslu tannviðgerða eru eins og þau, sem nú gilda. Það er enn aðeins heimild fyrir sjúkrasamlagið að taka þátt í þeim kostnaði og þó því aðeins, að viðkomandi rn. samþykki.

Ég hef alveg nýverið rætt þessi mál nokkuð hér í hv. d. í sambandi við frv., sem ég flutti um þetta efni, og ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði þá á þessu stigi, en það er sannarlega einkennilegt, svo að ekki sé meira sagt, að þetta eina líffæri, tennurnar, skuli skilið eftir, þegar um það er að ræða, að efnahagur eigi ekki að ráða því, hvort lækning fæst við sjúkdómnum, og það vantar allan rökstuðning fyrir því, að svo sé gert.

Þar sem ólíklegt er, að frv. það, sem ég flutti hér um það efni ekki alls fyrir löngu, fái þinglega meðferð — það væri a.m.k. meira en ég þori að vona — þá hef ég í hyggju og hef gert til þess ráðstafanir að flytja efni þess sem brtt. við þetta frv. í þeirri von, að einhverjir af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. geti hugsað sér að fela næstu ríkisstj. að standa straum af greiðslu þessa kostnaðar á sama hátt og þeir vilja fela þeim, sem við taka, að hækka bæturnar og verðtryggja launin.

Í þessu frv. eru sárafá nýmæli, þegar verðtryggingunni er sleppt. Það er búið að stagla 17 sinnum í þetta fat, sem sniðið var 1963, og það er nánast 18. staglið, sem hér er á ferðinni, og flíkin farin að verða illa bótheld.

Þá vil ég gagnrýna þau hroðvirknislegu vinnubrögð, sem lýsa sér í því, að tilvitnanir í aths. til einstakra greina eru yfirleitt allar vitlausar, svo til hver einasta. Þannig eru í almennu aths. á bls. 23 og 24 fjórar tilvitnanir til frvgr. og allar rangar. Og sama er að segja um aths. við einstakar gr.; þær eru líka skakkt númeraðar. Þetta skiptir auðvitað ekki máli upp á efni frv.; það er hægt að átta sig á þessu. Og aths. eru auðvitað ekki hluti af frv. En svona hroðvirkni er leiðinleg og ástæðulaus. Stjórnarráðið er ekki orðið svo illa mannað, að þörf sé á því að henda mikilsverðum lagabálkum frá sér óyfirlesnum.

Í sambandi við þá breytingu, að barnalífeyrisaldur er hækkaður úr 16 í 17 ár, sbr. 14. gr., breytast iðgjöld samkv. 23. gr. til almannatrygginga á sama hátt, að þeir, sem ekki eru orðnir 17 ára, þurfa ekki að greiða þau. Þetta tel ég eðlilega breytingu, þar sem fólk á þessum aldri er yfirleitt við nám og því óhægt um vik fyrir það að greiða þessi gjöld. Og sums staðar erlendis, t.d. í Noregi, eru þessi aldurstakmörk miðuð við 18 ár. En það vakti furðu mína við fljótan yfirlestur frv., að sjúkrasamlagsiðgjöldin eiga samkv. 40. gr. eftir sem áður að miðast við 16 ár. Þannig virðist, að þau rök, sem ég áðan nefndi fyrir því að sleppa þessu fólki við greiðslu iðgjaldanna til almannatrygginganna, séu að mati rn. ekki fullnægjandi, þegar um greiðslu sjúkrasamlagsiðgjalda er að ræða. Það má segja, að fyrir þetta unga fólk sé betri hálfur skaði en allur, en mér finnst vanta skýringar á því, hvers vegna sömu reglur eiga ekki að gilda í báðum tilvikum.

Eitt af því, sem kvartað hefur verið undan, eru fæðingarstyrkirnir og framkvæmdin á greiðslu þeirra, en ákvæðin um þá yrðu þó óbreytt frá gildandi l. Það er gert ráð fyrir afnámi ríkisframfærslunnar, sem síðustu árin hefur aðeins varðað fávita. Dvöl þeirra á heilbrigðisstofnunum skal framvegis kostuð af sjúkratryggingunum. Ég held, að þessi breyting sé til bóta og eigi fullan rétt á sér, enda engin ástæða til að fara með þennan sjúkleika öðruvísi en hina. En mér er spurn. Kostar þetta ekkert fyrir almannatryggingarnar? Á bls. 34 í aths. er prentuð á Fylgiskjali í áætluð hækkun, sem leiðir af fyrirhuguðum breytingum. Þar er þessi liður ekki talinn. Þetta hefur verið greitt úr ríkissjóði til þessa, þannig að þessir peningar eru vafalaust til, en það hlýtur að eiga að færa þá inn í þetta dæmi. En annars vonast ég til, að hæstv. trmrh. skýri það fyrir mér hér á eftir, ef hann telur ástæðu til þess.

Í 19. gr. er nokkur nýmæli að finna, en þar er svo ráð fyrir gert, að þeir, sem litlar eða engar aðrar tekjur hafa, eigi rétt á auknum elli- og örorkulífeyri, þannig að samanlagðar tekjur þeirra verði aldrei lægri en 84 þús. kr. fyrir einstakling og tvisvar sinnum það mínus 10% eða 151 200 kr. fyrir hjón. Hér er tekin upp skerðing eða tekjuhemill svipað og í l. var fyrir 1960. Fyrir mitt leyti get ég vel fallizt á, að einhver slík ákvæði séu í l., þannig að markmiðið með tryggingunum sé að skapa öllum mannsæmandi lífskjör og möguleika til menningarlífs, svo að ég endurtaki þau orð, sem ég byrjaði þessa ræðu á. Það er auðvitað engin ástæða til þess, að maður, sem hefur fullar tekjur t.d. úr sínum lífeyrissjóði, hafi jafnhá elli- og örorkulaun og sá, sem ekkert annað hefur við að styðjast. Ég veit, að ýmsir líta ekki svona á. Það eru ýmsir sem segja, að það, sem menn hafa sparað saman með því að greiða í lífeyrissjóð, eigi að koma þeim einum að notum alveg eins og það er gróði einstaklingsins að hafa sparað saman fé með öðrum hætti, t.d. með því að koma sér upp bankainnstæðu. Það, sem ég segi um þetta, er aðeins mín persónulega skoðun, og ég get endurtekið hana. Hún er sú, að einhver þess konar skerðing sé ekki óeðlileg, en forsenda hennar hlýtur þó að vera sú, að lágmark ellilauna eða tilsvarandi tekjur dugi fyrir framfærslukostnaði. Annars á slík skerðing engan rétt á sér.

Nú er það alveg augljóst, að þau ellilaun, sem frv. gerir ráð fyrir, 151 200 kr. fyrir hjón, duga hvergi nærri þeim til lífsviðurværis ekki einu sinni eins og verðlag er í dag og þá væntanlega miklu síður, þegar l. koma til framkvæmda. Það yrði næsta óeðlilegt, að þeir, sem hafa lágar tekjur, sem koma eiga til viðbótar ellilaununum — svo lágar, að samanlagt nægi ekki það, sem þeir hafa, eigi að hlíta skerðingu á ellilaunaréttinum. Í 3. mgr. 19. gr. er svo ákvæði, sem samsvarar 21. gr. gildandi l. og heimilar, að greidd sé uppbót á ellilaun og örorkulífeyri, ef sýnt þykir, að lífeyrisþegi geti ekki komizt af án hækkunar, og ber vafalaust að skilja gr. svo, að þessi hækkun sé ekki takmörkuð við 84 þús. kr. hámarkið, sem sett er í 2. mgr., enda þótt orðalagið mætti satt að segja vera ljósara á ákvæðum þessum. Þegar til þessara uppbóta kemur, er farið að greiða eftir öðrum reglum en við elli- og örorkulaunin. Verður hlutur sveitarfélagsins rúm 50% af þeim launum, sem þannig eru greidd, þ.e. 40% beint, 10.8% gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Ég held, að miklu réttara væri að hækka tekjulágmarkið samkv. l. meira en lagt er til með frv. og draga um leið úr þeim viðbótarlaunum, sem fólk getur fengið eftir þeirri erfiðu leið, sem bent er á í 3. mgr. Til þess að koma til greina samkv. þeim ákvæðum verður fólk nánast að segja sig til sveitar, og það eru áræðanlega mörgum þung spor. Auk þess er fjárhag ýmissa sveitarfélaga þannig varið, að þeim mun reynast fullerfitt að standa straum af þeim útgjöldum, sem þarna er um að tefla, en hlut sveitarfélaganna ætla ég ekki að gera að öðru leyti að umtalsefni nú.

Augljóst er, að 151 þús. kr. duga ekki til framfærslu, og verði t.d. hjón að fara á elliheimili, þá kostar dvölin þar um 250 þús. kr. á ári fyrir þau miðað við verðlag dagsins í dag, og þannig vantar 100 þús. kr., sem verða þá að koma eftir leið 3. mgr. 19. gr., ef ekki vill betur til. Það verður að stefna að því og ná því marki fljótlega, að ellilaun og örorkulífeyrir dugi fyrir uppihaldi á elliheimili, sem verði í framtíðinni fyrst og fremst hjúkrunarheimili með viðunandi þjálfunar- og lækningaaðstöðu fyrir það aldraða fólk, sem þarfnast hjúkrunar. Jafnframt verði byggðar litlar leiguíbúðir fyrir aldrað fólk bæði í sérstökum fjölbýlishúsum, þar sem ýmis sameiginleg þjónusta er fyrir hendi, og í fjölbýlishúsum, þar sem jafnframt eru íbúðir fyrir fólk á öllum aldri, enda verði teknir upp húsaleigustyrkir til aldraðra samkv. sérstökum reglum. Þannig er þetta t.d. í Danmörku, en nýjar upplýsingar þaðan hef ég undir höndum. Þar eru ellilaunin tvöföld á við það, sem þau eru hér eða um 10 þús. ísl. kr. á mánuði, húsaleigan niðurgreidd, sími ókeypis, ef á þarf að halda, sjónvarp og útvarp gjaldfrítt, iðgjöld með almenningsvögnum því sem næst án greiðslu, tannviðgerðir greiddar eftir reikningi, gleraugu einnig og aðgangur að húshjálp, ef þörf krefur, enda eru ellilaunin þar miðuð við það takmark, að þau dugi til lífsframfæris og gera það að vísu því aðeins, að sparlega sé á haldið; það skal viðurkennt. Þessu marki verðum við einnig að ná. Og í þá veru má lita á þetta frv. sem stefnumarkandi viljayfirlýsingu. Því er sjálfsagt að samþykkja það eða hliðstæð ákvæði, sem lengra gengju.

En ég endurtek, að mér finnst vinnubrögðin og allur gauragangurinn í kringum þetta fremur óviðfelldinn, því að þegar til kastanna kemur, er þó ekki annað hér á ferðinni en tilmæli núv. ríkisstj. til þeirrar næstu um að leysa vinsamlegast þann vanda, sem þessi stjórn hefur ekki valdið, þ.e. að tryggja það, að kjör aldraðs fólks og öryrkja dragist ekki langt aftur úr kjörum annarra þegna þjóðfélagsins.