29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

281. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Háttv. 5. landsk. þm. hefur gert grein fyrir áliti meiri hl. heilbr.- og félmn., og vil ég taka það fram þegar í upphafi, að hv. þm., sem er form. í heilbr.- og félmn. Ed., hefur verið mjög liðlegur og tekið vel öllum þeim málum, sem við vildum fá frekari upplýsingarum, og gerði hann sitt bezta til þess að reyna að koma fram fleiri breytingum á þessu frv. en hér liggja fyrir af meiri hl. hálfu, og hygg ég, að hann hafi ekki fengið neinar þakkir fyrir að fara fram á slíkt hjá sínum ráðh. Þannig hefur strandað þar á hæstv. ríkisstj.

Hv. þm. minntist á það, að vegna nálægra kosninga hugsuðu menn ekki rökrétt. Ef til vill hefur hv. þm. komizt eitthvað á snoðir um þessa hluti upp á síðkastið í herbúðum stjórnarsinna, og víst er um það, að mörg þau frv., sem lögð hafa verið fram á háttv. Alþ., bera sannarlega vitni þess, að í stjórnarherbúðunum er ekki hugsað rökrétt, hvort sem það er kosningum, sem fram undan eru, að kenna eða einhverju öðru, og skal ég ekki meira um það ræða að sinni. En óneitanlega fellur þetta frv. og athugun þess inn í fjölda af öðrum frv., sem lögð hafa verið fyrir háttv. Alþ. nú upp á síðkastið, og hefur þar af leiðandi ekki fengið þá athugun, sem vert er og æskilegt hefur verið talið af öllum, sem um þetta mál hafa fjallað. Ég vil benda á það, að hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða, þar sem almannatryggingarnar eru undirstaðan undir velferð þeirra þegna þjóðfélagsins, sem ekki hafa heilsu og/eða starfsþrek til að vinna sér fyrir nauðþurftum eða eru með örlagaríkum hætti sviptir möguleikum til þess um lengri eða skemmri tíma að sjá sér og sínum fyrir lífsviðurværi.

Tryggingastofnun ríkisins sér um framkvæmd almannatryggingalaganna, og er þeirri starfsemi skipt í fjóra flokka eða fjórar deildir, ef svo mætti segja, þ.e. lífeyristryggingar, fjölskyldubætur, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Eins og kom fram hjá háttv. frsm. meiri hl., þá greiðir ríkið allar fjölskyldubæturnar, og hygg ég, að það hafi verið gert ráð fyrir, að þær mundu nema á fjárl. yfirstandandi árs sem næst 511 millj. kr. Lífeyristryggingarnar eru hins vegar byggðar upp fjárhagslega með öðrum hætti, þ.e.a.s. ríkið borgar 36% í þeim, með iðgjöldum almennings koma 32%, sveitarfélög og bæjarfélög borga 18% og atvinnurekendur 14%. Eins og sjá má af þessu, þá borgar ríkið aðeins eina krónu á móti hverjum tveimur krónum, er koma frá öðrum aðilum. Það er skoðun mín, að það beri brýna nauðsyn til að endurskoða þessa tekjuskiptingu með tilliti til þess, að ríkið taki að sér stærri hlut en nú er, þar sem þróunin er og verður sú, að þessi samhjálp, sem tryggingarnar fela í sér, fer vaxandi, þegar tímar liða, og því er það rétt, að almenningur borgi meira til trygginganna um ríkissjóð en nú er, þar sem bakið hlýtur þó alltaf að vera breiðast þar. Ef vel er á málefnum ríkisvaldsins haldið, þá ætti það alla jafnan að þola betur byrðarnar en einstaklingarnir sem slíkir og fámenn sveitarfélög. En tekjumöguleikar sveitarfélaganna eru mjög takmarkaðir orðnir miðað við þær skyldur, sem þeim er ætlað að inna af hendi, og því þarf að létta á þeim, og sama máli má segja, að gegni um atvinnurekendur, því að hver vinnuvika felur í sér aukin útgjöld vegna tryggingastarfseminnar. Og síðast en ekki sízt er það mikil spurning í þjóðfélagi, sem byggir sitt skattkerfi yfirleitt upp á þann hátt að hafa skattana að mestu eða öllu leyti óbeina, hvort það er viðeigandi að hafa mjög háa nefskatta, eins og iðgjöldin eru, sem falla í hlut almannatrygginga. Og á það ber að líta, að mestu iðgjaldagreiðslurnar verða frá þeim heimilum, sem alla jafnan hafa haft þyngst framfæri, þar sem eru fjölmennar fjölskyldur og margir unglingar í skóla, ef kostur er á slíku hjá svo fjölmennum fjölskyldum, en á því hefur borið meira með hverju ári, sem hefur liðið, að það eru erfiðleikar á því fyrir fjölmennar fjölskyldur að kosta öll sín börn til náms, þó að þau hafi hug, vilja og dug til þess.

Tekjustofna lífeyristrygginganna þarf því að endurskoða, en það hefur ekki verið gert í þeirri ítarlegu endurskoðun, sem fram hefur farið að þessu sinni. En ég vænti þess, að þetta verði tekið til gaumgæfilegrar endurskoðunar, áður en langir tímar líða, því að nú leggja einstaklingar til lífeyristrygginganna í iðgjöldum sem næst 530 millj. kr., sveitarsjóðir 310 millj. kr., atvinnurekendur 227 millj. kr. og ríkið 560 millj. kr. I;g held, að þessar tölur séu mjög nálægt sanni miðað við fjárl. yfirstandandi árs, hver sem endirinn kann að verða, þegar upp er staðið með uppgjör fyrir árið. Ég bendi á, að hér þarf ríkið að bera stærri hlut en nú er í lögum, og vænti ég þess, að það liði ekki á löngu, þar til þessir þættir trygginganna verða einnig teknir til gaumgæfilegrar endurskoðunar, eins og við raunar leggjum til í okkar brtt., sem ég kem að síðar.

Ég vil taka það fram, að ég geri á engan hátt lítið úr þeirri endurskoðun, sem fram hefur farið, en ég vil benda á það, að einn nefndarmanna, Guðjón Hansen tryggingafræðingur, bendir í aths. sinni á bls. 33 í grg. frv. á ýmis atriði, sem ég vil koma inn á með leyfi forseta. Hann segir, að nefndin hafi engin skil gert veigamiklum málum, sem fjallað hefur verið um: „Má þar í fyrsta lagi nefna breytingu á fjölskyldubótakerfinu, sbr. aths. við 26. gr. frv., í öðru lagi nauðsyn breytinga á ákvæðum um gjaldskyldu og lögheimili, annaðhvort með breytingum á almannatryggingalögum eða lögum um lögheimili, og í þriðja lagi hugmynd um tryggingadómstól, er með fljótvirkum hætti skapaði bótaþegum réttaröryggi. Enn fremur hefði að mínu áliti mátt vanda betur til tillögugerðar nefndarinnar, ef nefndin hefði haft rýmri tíma.“ Þarna kemur það greinilega fram, að nefndin hefur ekki haft nægan tíma til þess að athuga þetta mál, eins og æskilegt hefði verið, og býst ég við, að þar hafi kannske þess gætt, að kosningar eru í nánd og málinu hafi því verið hraðað meira og þessum þáttum þess þeirra hluta vegna ekki verið sinnt, eins og ekki væri þörf á frekari breytingum á málinu.

Ég mun því næst koma inn á þær brtt., sem liggja hér fyrir á þskj. 694 og eru fluttar af minni hl. n., þeim hv. 4. þm. Norðurl. e., hv. 4. þm. Sunnl. og mér. Fyrsta brtt. er við 9. gr. frv. um, að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna almenningi rétt sinn til bóta með því að láta prenta t.d. stutta bæklinga. Mörgum finnst skorta nokkuð á í þessum efnum. Enda þótt enginn efist um það, að þessi upplýsingastarfsemi sé innan Tryggingastofnunar ríkisins í mjög góðu lagi, þá verkar það ekki eins út í frá, og mundu því þessir bæklingar koma að betri notum hjá umboðsmönnum úti á landi og öllum almenningi en þær upplýsingar, sem menn hafa átt kost á til þessa að kynna sér um þá mikilvægu starfsemi, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur með höndum.

Önnur brtt. okkar er við 11. gr., 2. málsl., en þar höfum við lagt til, að hækkaðar yrðu bætur ellilífeyris umfram þá 20% hækkun, sem gerð er samkv. frv. Viðbót samkv. okkar brtt. er um 10% af þeim ellilífeyri, sem frv. gerir ráð fyrir. Það mun vart af þessu veita, þar sem lífeyrir þessi hrekkur skammt miðað við þá dýrtíð, sem við búum við, og þarfir þeirra, sem þessara trygginga njóta. Þá bætist einnig við 11. gr.mgr., sem er um það, að ef annað hjóna nýtur ellilífeyris og er 70 ára, þá skuli bæði hjónin hljóta lífeyri, ef vinnutekjur eru litlar, eins og oft vill verða hjá öldruðu fólki. Við þekkjum dæmi þess, að aldraður maður nýtur ellilífeyris, en konan er nokkru yngri og nýtur einskis lífeyris, og hjá þessu fólki getur afkoman oft verið mjög bágborin, og mundi það bæta verulega úr, ef bæði hjónin nytu ellilífeyris, um leið og það, sem eldra er, mundi öðlast þessi réttindi.

Í þriðja lagi er breyting á 12. gr., og er hún til samræmis við till. okkar um ellilífeyri, þ.e. að örorkubætur verði sama upphæð, eins og venja hefur verið, að þar hefur fylgzt að lágmark ellilífeyris og lágmark örorkubóta.

Í fjórða lagi er brtt. við 15. gr. Þar er um tvær veigamiklar breytingar að ræða. Í fyrsta lagi, að með hverju barni verði borgaðar 22 400 kr. í staðinn fyrir stighækkandi greiðslur eftir fjölda barna, sem þó takmarkast við þrjú börn samkv. því frv., sem hér liggur fyrir. Þetta eru mæðralaunin. En hér er lagt til, að einstæðir feður fái sömu greiðslur og einstæðar mæður, því að erfitt er að gera þarna upp á milli, þar sem það veldur ekki minni röskun á hag heimilanna, þegar eiginkona og móðir fellur frá, en þótt faðirinn falli í valinn. Þetta er talsverð breyting, en ég veit ekki, hver vill taka það að sér hér að telja hana ekki sanngjarna og viðeigandi á allan hátt.

Þá er í fimmta lagi breyting á 17. gr., og hún er til samræmis við breytingu okkar á 15. gr., þ.e. að ekkill njóti sömu bóta og ekkjur.

Í sjötta lagi er breyting á 19. gr., þ.e. að viðbótarelli- og örorkulífeyrir sé eigi undir 125 þús. kr., ef aðrar tekjur lífeyrisþegans eru það lágar, að þær ná ekki þessari upphæð ásamt lögboðnum ellilaunum. Upphæð þessi er við það miðuð, að hún hrökkvi fyrir dvöl á elli- eða öryrkjaheimili, en dvalarkostnaður er nú á Dvalarheimili aldraðra sjómanna 355 kr. á dag og á elliheimilinu Grund 350 kr., og er upphæð þessi, 125 þús. kr., miðuð við það, að þessir lífeyrisþegar geti borgað með sér miðað við kostnað á Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Um leið vil ég geta þess, að margur mun kannske halda, að þarna sé um verulega útgjaldaaukningu að ræða hjá ríkinu, en svo er ekki, vegna þess að lengi hefur verið sú heimild í lögum, að það hefur mátt tvöfalda ellilífeyri og örorkulífeyri eða meira, þegar á hefur þurft að halda, og þar hefur ríkið þurft að borga 3/5 og sveitarfélagið 2/5 af þessari viðbót. Þarna er því ekki um hreina útgjaldaaukningu að ræða hjá hinu opinbera, en segja má, að þessi breyting létti talsvert á þeim hlut, sem sveitarfélögin hafa orðið að bera uppi til þessa. Við 2. málsgr. 19. gr. bætist það, að þeir, sem fá eftirlaun samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, eiga að halda þeim launum, þannig að ekki komi til frádráttur á viðbótarellieða örorkulífeyri. Hér er um tiltölulega lágar upphæðir að ræða og ekki nema sanngjarnt, að það fólk, sem nýtur ellilífeyris, fái að halda honum til eigin þarfa. Þriðja breytingin á 19. gr. er um það, að heimilt sé að borga hjónum það háan ellilífeyri, að hann sé jafnmikill og um einstaklingslífeyri væri að ræða. Þetta tel ég vera mikið nauðsynjamál — ekki sízt, þegar hjón gefa með sér á elliheimili, þar sem þá er dvöl þeirra þar miðuð við þau sem einstaklinga, en ekki sem fjölskyldur, og þau verða því að borga jafnmikið og hver einstaklingur, sem þar er. Því er hér um það réttlætismál að ræða, að sá ellilífeyrir, sem þau fá, hrökkvi fyrir kostnaði eins og hjá einstaklingum.

Í sjöunda lagi leggjum við til við 23. gr., sem fjallar um iðgjöld, þá breytingu, að nemendur á aldrinum 17–20 ára séu undanþegnir þeirri skyldu að greiða iðgjöld, þ.e.a.s. ef þeir eru 6 mánuði eða lengur í skóla. Og er það til samræmis við það, sem ég áður gat um, að það er oft erfitt fyrir þá, sem hafa stórar fjölskyldur, að kosta sín börn í skóla og verða einnig að borga fyrir þau há iðgjöld til trygginga auk annarra opinberra gjalda.

8. liður er breyting við 34. gr., sem fjallar um slysabætur. Leggjum við þar til, að aftan við gr. bætist ný málsgr., þar sem heimilað er að greiða verðuppbætur til þeirra, sem hafa áður fengið örorkubætur, sem voru borgaðar í eitt skipti fyrir öll. Þetta er aðeins heimild til að borga viðbót eftir mati, sem fram fer, með tilliti til hækkaðs lífeyris síðustu 10 ár frá því, að greiðslan fór fram, þannig að ef heimildin er notuð, þá er það með tilliti til hækkaðra bóta á þessu tímabili.

Í níunda lagi leggjum við til, að við 46. gr. frv. bætist nýtt ákvæði um, að Tryggingastofnun ríkisins borgi nauðsynlegan flutningskostnað fyrir sjúklinga og barnshafandi konur, ef í hlutaðeigandi læknishéraði er hvorki sjúkrahús né starfandi læknir. Við vitum það, að á þessum stöðum er yfirleitt um langa vegu að fara bæði í sjúkrahús og til læknis. Og til þess að þeir, sem þarna búa, verði ekki fyrir miklum og tilfinnanlegum kostnaði við að leita sér læknisaðstoðar, fái þeir frían ferðakostnað — sem þeir verða sjálfir annars að inna af hendi þegar um sjúkdóm er að ræða eða kona þarf að fara til þess að ala barn.

Í tíunda lagi leggjum við til við 49. gr. frv. þá breytingu, að ríkissjóður taki að sér að borga 260% í stað 250% til sjúkratrygginganna, og þetta miðast við það, að hingað til hefur verið starfandi að nokkru það, sem kölluð er ríkisframfærsla, er lögð er niður nú að öllu, og fellur hún undir sjúkratryggingarnar. Og það dæmi kemur þannig út, að um leið og ríkisframfærslan hættir, þá hækka nokkuð iðgjöld einstaklinga til sjúkrasamlaganna, en hlutur ríkissjóðs lækkar að sama skapi. Og þó að hér sé um 40 millj. kr. upphæð að ræða, þá finnst mér það ekki vera það mikill peningur, að það þurfi endilega að horfa í það fyrir ríkið, þegar við vitum það, að fjöldi manna er það illa settur, að bann berst í bökkum með að borga sjúkrasamlagsiðgjöld, vegna þess að á undanförnum árum hefur orðið geysileg hækkun, og ég efast um, að hún hafi á nokkru öðru sviði hér verið jafnmikil og á öllu því, sem að læknisþjónustu og sjúkrahúsvist lýtur. Og finnst mér, að það komi vart til greina, að hlutur ríkisins í þessum málum minnki frá því, sem verið hefur.

Þá er í ellefta lagi sú brtt. hjá okkur við 78. gr., að í stað „6 mánaða“ komi „3 mánaða“, þ.e.a.s. þegar kauphækkanir eiga sér stað, þá er heimildin í 78. gr. sú, að það er 6 mánaða frestur til að hækka almannatryggingabætur, en við leggjum til, að þessi tími verði styttur niður í 3 mánuði, þannig að það líði aldrei lengri tími frá því, að kaupgjald hefur hækkað, þangað til þeir, sem njóta lífeyrisbótanna, fái sínar hækkuðu bætur. Þá leggjum við til, að lög þessi öðlist þegar gildi, en ekki eftir rúma 9 mánuði, eins og ætlazt er til samkv. frv., sem fyrir liggur. Við teljum, að hér sé um það þýðingarmikinn þátt að ræða, að nauðsyn beri til, að lög þessi öðlist gildi nú þegar. Í frv. er áætlað, að útgjaldaaukningin, eins og frv. var lagt fyrir Alþ., verði 500 millj. kr., eins og hv. 5. landsk. þm. kom inn á. En þess ber að geta, að einungis 36% af þessu fellur í hlut ríkisins eða 180 millj. kr., en einstaklingarnir verða að borga 160 millj. kr., sveitarfélögin 90 millj. kr. og atvinnurekendur 70 millj. kr., að ég ætla. Þannig að einhvern tíma hefur á milli fjárlagaafgreiðslna á Alþ. verið lagður þyngri baggi á ríkisvaldið en hér um ræðir, þó að þessar bætur hækkuðu hlut ríkisins um 180 millj. kr., enda í lögum svo fram tekið, að heimilt sé fyrir ríkið að inna af hendi þær greiðslur, sem lögboðnar eru, enda þótt ekki sé fram tekið eða til þeirra ætlað fé í fjárlögum.

Þá vil ég á það benda, að í ákvæðum til bráðabirgða, sem fjalla um breytingar á sjúkrasamlögum landsins, er svo ráð fyrir gert, að helmingurinn skuli, ef einhverjar eignir eru hjá hlutaðeigandi sjúkrasamlögum, renna í varasjóð þess sjúkrasamlags, sem verður myndað, en hinn helmingurinn á að koma fyrst í stað upp í þær iðgjaldagreiðslur, sem hlutaðeigandi aðilar eiga að inna af hendi til þess sjúkrasamlags, sem myndað verður, sem eru í þessu tilfelli þau héraðasamlög, sem starfað hafa alllengi og fengu aukin verkefni og þar með aukið vald fyrir nokkrum árum. En við leggjum til, að þarna verði einungis um að ræða, að einn fjórði hluti af þessari eign hlutaðeigandi sjúkrasamlags renni í varasjóð væntanlegs samlags, en 3/4 verði haldið eftir og komi sem framlag upp í iðgjöld hlutaðeigandi aðila, á meðan upphæðin nægir til þess.

Ég vil taka það fram í sambandi við breytingar á sjúkrasamlögunum, þ.e.a.s. sameiningu sjúkrasamlaganna, eins og hér er ráð fyrir gert, að ég er fyrir mitt leyti í eðli mínu samþykkur því, að á þessu séu gerðar breytingar, og ég tel, að þar sem ég þekki bezt til, þá mundi það betur fara en sá háttur, sem á er hafður nú. Hins vegar býst ég við, að við getum ekki horft fram hjá því, að það eru mismunandi aðstæður hér á landi. Það háttar þannig til hjá einum, að ekki hæfir honum það sama og öðrum, og því verðum við að athuga þessa hlið málanna mikið betur, áður en við afgreiðum þetta mál frá okkur. Mér er vel kunnugt um það, og ég hef síðan þetta frv. kom fram í hv. Alþ. haft tal af mörgum, og menn líta mjög misjöfnum augum á þessa breytingu. En ég hef stundum minnzt á það áður, að lausnin gæti orðið sú, að það væru læknishéruðin, sem væru sjúkrasamlagseiningin, þ.e.a.s. það svæði, sem hlutaðeigandi læknir starfar á, það væri eitt sjúkrasamlag, en ekki í öllum tilfellum sýsluheildin. Nú fellur það stundum saman læknishéraðið, sýsluheildin og héraðssamlagið, og þá sé ég ekki, að það sé því neitt til fyrirstöðu að gera þessa breytingu, en það geta verið þrír læknar í einu héraði, og það getur verið partur af öðru héraði eða sýslu, sem tilheyrir öðru læknishéraði. Þarna þarf maður að vega og meta málin og reyna að finna heppilegrí lausn, að ég hygg, en getur talizt vera í því bráðabirgðaákvæði eða breytingu á sjúkrasamlagaskiptingunni, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þá vil ég á það minna, að við flytjum einnig brtt. um það, að löggjöf þessi verði mjög fljótlega endurskoðuð og skipuð verði mþn., sem framkvæmi heildarendurskoðun almannatrygginganna, sem við álítum, að hafi alls ekki farið fram með þeirri endurskoðun, sem hér um ræðir, og sameinað Alþ. kjósi tvo menn í n., en hver þingflokkur skipi einn fulltrúa frá sér, og ráðh. skipi form. n. úr hópi hinna kjörnu. Þetta teljum við nauðsynlegt, að verði gert, til þess að það verði hægt að koma fyrir þeim breytingum og athuga löggjöfina með tilliti til tekjuöflunar og þarfa þeirra, sem eiga að njóta þeirra réttinda, sem löggjöfin felur í sér, en það hefur ekki tekizt nógu vel í þeirri endurskoðun, sem hér um ræðir og hér liggur fyrir í frv.-formi.

Ég vil taka það fram, að við erum eindregið fylgjandi því, að brtt. sú, sem hér hefur verið lögð fram um tannviðgerðir frá hv. 11. þm. Reykv., verði samþ., því að sannarlega er það tímabært, að tryggingarnar taki meiri þátt í tannviðgerðum en verið hefur að undanförnu, vegna þess að þar hefur einungis verið um heimildarákvæði að ræða, sem hefur af sárafáum verið notað.

Ég hef hér gert grein fyrir brtt., sem eru á þskj. 694, og vænti ég, að hv. þm. geti samþ. þær breytingar. Hér er að vísu um aukin útgjöld að ræða hjá þeim, er bera þungar byrðar af þessari velferðarstarfsemi, sem fylgir tryggingunum, en réttarbætur eru margar og miklar fólgnar í þessum brtt. okkar, og ég er bjartsýnn á, að hv. þm. séu það framsýnir og velviljaðir, að þeir samþykki brtt. okkar.