29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

281. mál, almannatryggingar

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Form. og frsm. háttv. heilbr.- og félmn., háttv. 5. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, hafði hér svolítinn inngang að ræðu sinni, þar sem hann mælti fyrir nál. meiri hl. Ef einhver kynni að hafa átt dálítið erfitt með að skilja þennan inngang, sem ókunnugum var svolítið torskilinn, þá er rétt að upplýsa það, að háttv. þm. er frambjóðandi í Reykjaneskjördæmi og hér hefur vafalaust verið um að ræða lítils háttar heimiliserjur úr Reykjaneskjördæmi og smáspjótum beint til mín, en slíkt verður nú gjarnan til þess að skerpa kærleikann, þar sem hann er fyrir.

Hv. þm. var að tala um merkispersónur gamlar og nýjar. Hann talaði um Snorra Sturluson og hélt, að einhverjir hefðu verið — og þá að því er mér skildist stjórnarandstæðingar — að líkja sér við hann. Hann talaði líka um aðra persónu, sem hann nefndi Húsavíkur Jón, og mér skildist á honum, að hefði ekki verið nein merkispersóna. Nú vill svo til, að ég þekki í rauninni ekki nema einn Húsavíkur Jón, svo að teljandi sé, og hann heitir fullu nafni Jón Árm. Héðinsson.

Hv. þm. talaði töluvert um ábyrgðarleysi okkar stjórnarandstæðinga í sambandi við tillöguflutning um þetta mál og tók þar upp þráðinn frá því, að við Alþb.-menn fluttum till. í sambandi við fjárl. s.l. ár um aukið fjármagn til trygginganna. Ég ætla ekki að ræða mikið um þetta ábyrgðarleysistal að öðru leyti en því, að mér finnst í rauninni ekki sérlega mikil ábyrgðartilfinning hjá hæstv. ríkisstj. að koma með frv., sem felur þó í sér samtals um 500 millj. kr. aukin útgjöld, að vísu ekki öll úr ríkissjóði, ekki nema að hluta úr ríkissjóði, og ætla síðan öðrum síðar á næsta ári að leysa þennan vanda. Þetta tel ég ekki sérstaklega mikla ábyrgðartilfinningu. Hitt hefði verið vottur um ábyrgðartilfinningu, ef hæstv. ríkisstj. hefði nú gert umtalsverðar umbætur og breytingar á almannatryggingalögunum og látið þær koma til framkvæmda strax eða svo fljótt sem verða mætti.

Ég hef áður gagnrýnt þetta frv. og bent á þá galla, sem ég tel helzta á því vera, og skal ekki endurtaka það. Til upprifjunar vil ég þó aðeins geta þess, að auk þess tíma, sem tiltekinn er fyrir gildistöku laganna, sem er auðvitað megingalli — þau eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót þá hygg ég, að þegar málið er skoðað í heild, sé einn aðalgallinn sá, að hér er ekki um að ræða þá heildarendurskoðun, sem ef til vill hafði verið gert ráð fyrir og full þörf er á, og það er enginn efi á því, að það er fyrir löngu kominn tími til þess að endurmeta miklu rækilegar en hér er gert, hvort þeir tiltölulega miklu fjármunir, sem renna til þessarar ríkisstofnunar og út frá henni aftur í ýmsum myndum, eru hagnýttir á þann heppilegasta og sanngjarnasta og skynsamlegasta hátt, sem um gæti verið að ræða, eða hvort þarna ætti að gera umtalsverða breytingu á. Slík heildarendurskoðun bíður, og hennar er full þörf þrátt fyrir þetta frv. og jafnvel þrátt fyrir það, að einhverjar lagfæringar kynnu á því að fást við meðferð þess hér á háttv. Alþ.

Áður en ég kem að brtt. þeim, sem ég flyt við frv., vil ég einungis geta þess, að ég er sammála og fylgjandi ýmsum þeim brtt. frá háttv. alþm. úr minni hl., sem hér hafa verið lagðar fram. Skal ég ekki gera margar þeirra að umtalsefni, en vil þó aðeins stuttlega nefna þrjár. Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 633 frá háttv. 6. þm. Sunnl. um, að á stofn verði settur tryggingadómstóll, sem taki til meðferðar og úrskurðar kærur, er varða ágreining um bótarétt hinna tryggðu og Tryggingastofnunar ríkisins. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og við Alþb.-menn, að full þörf væri á slíkum dómstól, og ég styð því eindregið þessa till. Þá vil ég einnig lýsa fyllsta stuðningi mínum við þá till. háttv. minni hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 694, sem kveður á um það, að þegar eftir samþykkt laga þessara skuli skipuð mþn., sem falið sé það hlutverk að framkvæma heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. Ég tel þetta mikilvægt atriði og er því eindregið fylgjandi. Ýmsar aðrar eða flestar till. hv. minni hl. sýnast mér og þannig vaxnar, að ég geti fylgt þeim. Enn vil ég nefna till. hv. minni hl. n. á þskj. 702, þar sem lagt er til, að þeir, sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi og stundað sjómennsku um langan tíma, 35 ár eða lengur, öðlist fullan rétt til ellilífeyris, ef þeir hafa náð sextugsaldri. Ég lýsi einnig fylgi mínu við þessa till.

Ég skal svo í stuttu máli fylgja úr hlaði þeim brtt., sem ég hef leyft mér að leggja fram við þetta frv. og eru á þskj. 648. Ég sé að vísu, að nokkrar till. um sama efni eru fluttar af öðrum og með litið eitt breyttum upphæðum eða orðalagi, og ég mun að sjálfsögðu, þar sem um minni háttar frávik frá mínum till. er að ræða, fylgja þeirri till., sem lengra gengur eða fyrr kemur til atkvæða. Ég hef einnig við aðra umr. málsins rætt allrækilega um sum þau atriði, sem ég flyt hér till. um, og tel mig þess vegna geta stytt mál mitt verulega.

Fyrsta brtt. mín á þskj. 648 er um það, að utan Reykjavíkur skuli sjúkrasamlögin annast umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina hvert á sínu samlagssvæði í staðinn fyrir sýslumenn og bæjarfógeta. Ég gerði mér far um að rökstyðja þessa breytingu við 2. umr. málsins og tel ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég þá sagði.

Önnur brtt. mín fjallar um það, að Tryggingastofnunin skuli leggja sérstaka áherzlu á að kynna hinum tryggða rétt sinn til bóta með útgáfu bæklinga og upplýsingastarfsemi í fjölmiðlum og skólum. Ég sé, að háttv. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur tekið tillit til þessarar ábendingar og er með till. um það, að Tryggingastofnunin skuli kynna almenningi rétt sinn til bóta með upplýsingastarfsemi. Þó að hér sé um að ræða nokkuð almennt orðalag, þá tel ég þó, að samþykkt slíkra till. sé til verulegra bóta og undirstriki þá nauðsyn, sem til þess ber, að öllum almenningi gefist kostur á því betur en verið hefur að kynnast þeim rétti, sem hann hefur í sambandi við almannatryggingarnar.

Meginbreytingin, sem felst í 3. brtt. minni við 12. gr., er sú, að þeir, sem verða öryrkjar af völdum sjúkdóma, búi við sama rétt og hinir, sem verða öryrkjar af völdum slysa. Ég fæ ekki skilið, hvaða ástæða er þarna til að gera mun á.

Fjórða brtt. er við 14. gr., þar sem breytt er 17 ára í 18 ára, og í ýmsum öðrum brtt. er ýmist aldursárinu 16 eða 17 breytt í 18. Allar þessar brtt. fjalla ýmist um það að hækka barnalífeyri og mæðralaun upp að 18 ára aldri eða um það, að unglingar innan 18 ára aldurs skuli ekki greiða tryggingagjöld. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessar till., enda hygg ég, að ég hafi rætt nokkuð um þessar breytingar við 1. umr. málsins.

Fimmta brtt. er í þrem liðum, og 1. liðurinn er um það að breyta úr „16 ára aldri“ í „18 ára aldri“. 2. liðurinn fjallar um það, að einstæðir feður skuli hljóta sams konar bætur og einstæðar mæður, ef þeir halda heimili fyrir börn sín. 3. liðurinn fjallar um allverulega hækkun með fyrsta barni, sem hækki úr 6192 kr. í 16 800 kr., en það mun vera helmingur þeirrar upphæðar, sem gert er ráð fyrir, að stofnunin greiði með tveimur börnum. Um 6. brtt. mína hef ég þegar rætt, en 7. brtt. fjallar um það, að lágmark elli- og örorkulífeyris þeirra, sem ekki hafa aðrar tekjur, verði hækkað upp í 120 þús. kr. Um 8. og 9. brtt. mína hef ég þegar rætt.

Tíunda brtt. fjallar um það, að íþróttafólk, sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni, og orðið er 16 ára, verði slysatryggt.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 12. brtt. Hún er í því fólgin, að á eftir 34. gr. bætist við ný grein svo hljóðandi: „Skipverjar, þar með taldir formenn á bátum undir 12 smálestir að stærð, sem tryggðir eru samkv. 29. gr. laganna, skulu njóta sérstakra örorku- og dánarbóta til viðbótar þeim bótum, sem ákveðnar eru í 34. og 35. gr.

Hinar sérstöku bætur skulu vera 600 þús. kr. miðað við dauða, en 800 þús. kr. við 100% varanlega örorku, en hlutfallslega lægri en varanleg örorka er metin innan við 100%. Ráðherra getur breytt bótaupphæðum til hækkunar, ef almenn hækkun verður á umsömdum slysabótum sjómanna á stærri bátum en 12 smálesta.

Um bætur þessar gilda hinar almennu reglur laganna, eftir því sem við á.“

Það hefur lengi viðgengizt, að þeir menn, sem starfa á litlum bátum — bátum undir 12 smálestum að stærð — hafa ekki átt kost sömu slysatrygginga eða dánarbóta og skipverjar á stærri skipum. Og til þess að leiðrétta þetta a.m.k. að hluta er þessi till. flutt.

Þrettánda brtt. er í tengslum við brtt. um íþróttafólk, 10. brtt., sem ég áðan lýsti. Hún er ákvæði um það, hvaða aðilar greiða iðgjöld fyrir íþróttafólk og eftir hvaða reglum það skuli gert, að íþróttafélög skuli greiða 1/4 hluta af iðgjöldum fyrir íþróttafólk, en ríkissjóður 3/4 hluta.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar en ég hef áður gert um brtt. nr. 14 og 15, þar sem um er að ræða hækkanir úr 16 ára í 18 ára, eins og ég áður hef greint frá, en 16. brtt. er um tannlækningarnar fyrst og fremst. Það er að vísu fram komin önnur brtt. um það efni, sem ég get að vísu fellt mig við, en tel þó, að ákvarðanir um meðferð þessa ekki alveg vandalausa máls kunni að vera gleggri og eðlilegri í þessari brtt. minni nr. 16 við 43. gr., en geri þar þó ekki sérlega stóran mun á.

Sautjánda brtt. er um nokkra breytingu og þó aðallega hækkun á sjúkradagpeningum. Þar er jafnframt gerð sú breyting, sem leiðir af öðru, að þar er miðað við 18 ára. Og b-liður þessarar brtt. fjallar um það, að sú lækkun, sem um ræðir í 6. mgr. 44. gr., taki þó ekki til sjúkradagpeninga vegna barna sjúklings.

Átjánda brtt. við 54. gr. fjallar að vísu að verulegu leyti um sama atriði og ég hef rætt um áður, þ.e. um kynningarstarfsemi, en þó á hún sérstaklega við það, að starfsfólki sjúkrasamlaga auk Tryggingastofnunarinnar sjálfrar að sjálfsögðu skuli gert að skyldu að kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þessum aðilum grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt l. þessum og samkvæmt reglugerðum og starfsreglum Tryggingastofnunarinnar og sjúkrasamlaga. Á því hefur verið misbrestur, að þeir, sem rétt áttu til bóta, hafi vitað fyllilega um, hver réttur þeirra var, og má nefna ýmis dæmi þess, að menn hafa verið furðulega illa að sér um það, hver rétturinn raunverulega var, enda er það sannast sagna, að hér er um nokkuð margþætt atriði að ræða og full ástæða er til þess, að þeir aðilar, sem eiga að framkvæma l., leggi sig fram um það að kynna almenningi þann rétt, sem hann hefur, og gera mönnum þar með kleift að njóta hans á eðlilegan hátt og að fullu.

Síðan eru till., sem eru í samræmi við það, sem ég hef áður sagt um 18 ára aldursmark, sem ég hef áður miðað við hér bæði að því er tekur til barnalífeyris og mæðralauna og sömuleiðis tryggingagjalds.

Loks er 21. brtt. mín sú, að l. þessi öðlist gildi hinn 1. júní 1971, og þegar ég setti inn það ákvæði, þá reiknaði ég fyrst og fremst með því, að einhvern tíma þyrfti frá því, að l. væru samþykkt og þangað til yrði með auðveldu móti bægt að fara að framkvæma þau, en hitt er alveg ljóst, að ákvæðið, eins og það er nú, um að ekkert ákvæði laganna taki gildi fyrr en um næstu áramót, rýrir stórlega alla þessa lagasetningu og er í rauninni ósýnt mál, hver þróunin verður fram að næstu áramótum, svo að enginn veit í dag, hversu mikils virði þær hækkanir verða, sem gert er ráð fyrir, að aflað verði fjár til á næsta ári.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil að lokum leggja á það áherzlu, að þó að sitthvað sé til bóta í frv. hæstv. ríkisstj. og margt væri það verulega, ef um það væri að ræða, að þessi l. ættu að taka gildi nú í vor, þá er það svo, að þrátt fyrir það, sem er til bóta í þessari löggjöf, er enginn efi á því, að það er brýn nauðsyn að taka almannatryggingalögin í heild til rækilegrar endurskoðunar með það alveg sérstaklega fyrir augum, að þeir gífurlega miklu fjármunir, sem eftir þessu kerfi fara og síðan út úr því aftur, nýtist sem allra bezt, því að það er enginn efi á því, að það er sitthvað um hægt að bæta og ýmsu hægt að kippa í eðlilegra horf en nú er, þannig að þeir njóti fyrst og fremst, sem mesta hafa þörfina og mesta nauðsynina til þess að njóta úr þessu trygginga- og bótakerfi.