29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

281. mál, almannatryggingar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég fagna því frv., sem hér er til umr., og tel, að það miði í réttláta átt á ýmsum sviðum. Þó fer nú ekki hjá því, að ævinlega þegar almannatryggingalögin koma til endurskoðunar, verði manni svolítið hugsað til þeirrar hringrásar á fjármunum, sem fer fram í gegnum þau. Það er auðvitað mál, að hverju velferðarþjóðfélagi, eins og við viljum kalla okkar þjóðfélag, ber “skylda til þess að sjá með sómasamlegum hætti fyrir því, að aldrað fólk og öryrkjar eigi þess kost að lifa sómasamlegu lífi, þó að starfsorka þeirra fyrir þjóðfélagið sé þrotin fyrir elli sakir eða annarra hluta. En á það er að líta, að allmargt fólk í landinu hefur ellitekjur eftir öðrum leiðum en almannatryggingunum og ellilaunakerfið í landinu er orðið svo flókið og margbrotið, að almannatryggingarnar eru í rauninni ekki nema einn þátturinn í því. Ég hef t.d. horft upp á ellihruman mann, sem lengi lá á sjúkrahúsi og gat einskis notið. Hann var ekki formlega hæfur til að vera jarðaður, vegna þess að á morgnana var hellt hafragraut í annað munnvikið á honum og á kvöldin var dregið undan honum lak, sem eitthvað hafði blotnað. En þessi maður var á ellilaunum þess háttar, að hann hafði sínar almannatryggingar, hann hafði sín embættiseftirlaun, sem voru þó nokkur. Og þó að hann gæti einskis notið, þá voru erfingjarnir, sem ekki voru mjög gefnir fyrir það að veita gamla manninum mjög mikla aðstoð, meðan hann var uppistandandi, svona að krunka kringum rúmið, því að ellilaunin hans söfnuðust fyrir að nokkru og gáfu arfsvon í aðra hönd.

Ég segi þetta ekki til að halda því fram, að ellilaun almannatrygginganna eigi ekki að vera það há, að menn geti lifað af þeim, en ég segi þetta til upprifjunar á því, að það er ýmislegt í þjóðfélaginu, sem þyrfti að endurskoða í sambandi við ellilaunakerfið — ekki bara almannatryggingakerfið, heldur líka ellilaunakerfið allt saman. Þeir, sem borga þetta, er það fólk í landinu, sem er í fullu starfi, sem er að koma upp sínum börnum og sem oft á erfitt og þröngt fjárhagslega. Ég vil skjóta inn þeirri hugmynd, hvort ekki væri hugsanlegt að skerða eða afnema erfðarétt og láta erfingjann verða einn allsherjarsjóð, sem síðan stæði undir ellilaununum í landinu og gæti þá gert það með ríflegri hætti en nú er gert eftir almannatryggingalögunum og vonandi með ríflegri hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir. Hér er sjálfsagt ekki ástæða til þess að fara langt út í þessa sálma, því að ég viðurkenni, að þeir eru dálítið flóknir og ekki alveg auðleystir.

Á hinn bóginn sýnist mér rétt að skoða það svolitið nánar en gert er í frv. sjálfu, að í rauninni eru tryggingaþegarnir, þ.e. þeir, sem fá greiðslurnar úr sjóði almannatrygginga, að mestu háðir því, hvernig tryggingaráð eða æðsta stjórn Tryggingastofnunarinnar tekur á þeirra málum. Að sjálfsögðu kemur þar stundum fram misskilningur, og hinir tryggðu ná ekki því, sem þeir telja sinn rétt, og nú er það svo, að þó að almannatryggingarnar hafi umboð víðs vegar úti um land, þá eiga ekki allir auðhlaupið til þeirra aðila, sem hafa úrskurðarrétt um þeirra ellilaun, hvort sem það eru örorkulaun eða annað. Það er þess vegna nokkrum erfiðleikum háð að ná fram rétti sínum, jafnvel þó að hann sé nokkuð augljós. Þar getur komið til misskilningur, og þar kemur það einnig til, sem við þekkjum úr öllu kerfinu, að þeir aðilar — þó það kunni að vera beztu menn, sem lengi sitja við einhverja slíka úrskurði og afgreiðslur, sem gefur þeim visst vald — vaxa venjulega upp í starfið og finnst, að allir, sem undir þá eiga að sækja, séu í rauninni þjóðarómagar eða eitthvað í þá áttina, en þeir séu sjálfir höfðingjar, sem svona kannske af náð sinni láti þá stundum hafa eitthvað, en í annað skipti dálítið minna.

Ég þekki líka dæmi um það, að útgerðarmaður og skipstjóri á vélbát varð fyrir veikindaáfalli, sem leiddi hann til blindu og örorku, fullkominnar örorku, og fékk hann örorkulífeyri í sambandi við það. Hann missti sínar tekjur, og þær komu því ekki til frádráttar, en svo kom það fyrir eitt árið, þegar hann var búinn að vera nokkur ár á þessum bótum, að hann fékk útborgaðan hlut sinn, sem hann hafði átt í lifrarsamlagi, og einhvern veginn reiknaði skatturinn honum þetta til tekna, og það vantaði ekki, að næsta ár var þetta dregið sem tekjur frá hans almannatryggingabótum. Ég fór nokkrar ferðir fyrir viðkomandi aðila í Tryggingastofnun ríkisins til þess að reyna að fá leiðréttingu á þessu og fékk hana — að vísu svona að hálfu. Ég skrifaði bréf, kæru. Trmrh. tók við þessu og kvittaði undir það allt saman, en gerði aldrei neitt í málinu, og þannig standa málin enn þá. Þessi hjón hafa týnt a.m.k. verulegum upphæðum af því, sem þeim bar að fá, vegna þess að stjórn Tryggingastofnunarinnar var ekki reiðubúin að leiðrétta þessi mistök.

Ég tel þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt að setja dómstól um svona mál. Það er allt of þungt og erfitt að fara með þetta gegnum hina almennu dómstóla, þar sem það tekur ár og stundum mörg ár að ná fram rétti sínum og þess vegna verður að vera, þegar um er að ræða daglegan lífeyri fólks, einhver dómstóll, sem kveður upp endanlegan og réttlátan úrskurð í svona málum, enda hefur svo farið í flestum löndum hér í nágrenni okkar, að slíkir tryggingadómstólar hafa verið settir upp. Guðjón Hansen getur þess líka í sinni aths. við þetta lagafrv., að ekki hafi við undirbúning þess unnizt tími til að gera ýmsar ráðstafanir, sem þó hefðu verið nauðsynlegar, og minnist m.a. á tryggingadómstól. Ég er honum algjörlega sammála um það, að við tryggingastofnun, eins og við höfum, verður að starfa dómstóll, sem ekki saltar mál að eilífu, heldur afgreiðir þau. Í samræmi við þessa skoðun mína hef ég flutt till. um, að komið verði upp tryggingadómstól. Ég viðurkenni, að það má hugsa sér hann með ýmsum hætti. Ég kannast t.d. við það, að Norðmenn lögleiddu það, sem þeir kalla tryggingarétt, sem er tryggingadómstóll af þessu tagi, fyrir þremur til fjórum árum, og hann er þannig skipaður, að konungurinn tilnefnir þrjá menn í dóm, og er það ekkert bundið. Við höfum ekki tekið upp þann háttinn að láta okkar þjóðhöfðingja framkvæma stjórnarathafnir af þessu tagi, og hef ég þess vegna ekki lagt það til í mínum till., en ég legg til hér í till. á þskj. 633, að komið verði upp dómstóli, tryggingadómstóli, til þess að starfa við Tryggingastofnun ríkisins, en henni óháð, og að í þessum dómstóli sitji þrír dómarar þannig skipaðir, að Alþ. tilnefni einn þeirra, Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni annan og Hæstiréttur tilnefni hinn þriðja og að þessi dómstóll verði að taka mál fyrir innan tveggja vikna frá því honum berast umkvartanir eða kærur og fella úrskurð innan mánaðar. Ég viðurkenni það einnig, að þessi tímasetning er svo sem ekki alveg sjálfsögð og eitthvað annað gæti komið til greina, en ég tel það fráleitt að hala ekki einhverja slíka stofnun, þar sem menn geti fengið algreiðslu mála sinna án þess að fara með það í gegnum dómstólakerfi landsins eins seinvirkt og það er.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir þeim brtt., sem ég hef flutt við þetta frv. Ég get lýst því yfir, að ég er sammála flestum þeim brtt. við það, sem fram hafa komið, en tel, að auk þeirra verði við þessa endurskoðun frv. að koma ákvæði um úrskurðarvald, þar sem hinir tryggðu fái notið þessa réttar síns að fá af lögformlegum aðila úrskurðað, hver þeirra réttur er, en það er ekki eins og er. Að síðustu vildi ég taka það fram, að hér hefur mikið verið talað um gildistíma þessara l., þ.e. að þau eigi ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Ég verð að segja það, að það hefðu af einhverjum verið taldir svolítið broslegir atburðir að leggja fram frv. í aðalannríki þingsins á síðustu dögum þess og telja einskæra nauðsyn á að afgreiða það á örfáum dögum, þó að það eigi ekki að taka gildi fyrr en eftir níu mánuði. En engu að síður viðurkenni ég það, að það þarf að sjá fyrir þörfum aldraðs fólks í þjóðfélaginu og það kemur í hlut hverrar ríkisstj. að útvega það fé, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna samþykki ég það, þó að það komi ekki til framkvæmda fyrr en um næstu áramót, enda þótt ég hefði frekar kosið, að fyrr gæti orðið.