29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

281. mál, almannatryggingar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram eina brtt. við frv. að um almannatryggingar, sem hér er til umr. áður en ég vík sérstaklega að þessari brtt., þá langar mig að gera með örfáum orðum fáein atriði, sem fram hafa komið við meðferð málsins, að umtalsefni. Það er þá fyrst ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þá yfirlýsingu, sem hæstv. trmrh. fann sig knúinn til að gefa hér fyrir ríkisstjórnarinnar hönd. Í henni kom nú að mínum dómi ekkert nýtt fram. Það er auðvitað ævinlega svo, að ef á að setja lög, sem hafa í för með sér útgjöld, þá þarf að afla fjár til þess að standa undir því. Þetta er þekkt regla, og hún gildir ekkert síður um almannatryggingar en önnur lög. Ríkisstj. hæstv. hafði óteljandi tækifæri til þess á liðnum vetri að hjálpa til við það að ætla ríkisframlag til þessara mála. Hún vildi ekki gera það. Hún sá ekki ástæðu til þess vegna þess, að því er bezt verður séð, að hún ætlar ekki að útvega fjármagn til þessara ráðstafana; hún ætlar ekki að útvega fjármagn til þessara ráðstafana; hún ætlar öðrum það hlutverk. Þeir, sem komnir verða í stjórnarstólana 1. jan. 1972, eiga að sjá um fjármögnunina. Það getur vel verið, að það verði sömu menn — ég er ekkert að spá neinu um það — og þeir verði þá þeim mun fundvísari á almannafé til þessara hluta, sem þeir eru fastari í ráðherrastólunum með endurtekna traustsyfirlýsingu; það kann að vera. En í þessu er ekkert nýtt.

Það er heldur ekkert nýtt fyrir sveitarfélögin, að þeim séu skapaðar byrðar. Í verðbólguþjóðfélagi eins og okkar þá er sífellt verið að auka byrðar sveitarfélaganna, og það er ekkert verið að gefa þeim neinn aðlögunartíma, þegar t.d. gengið er fellt eða þegar samið er um hærri laun oft og einatt fyrir milligöngu hæstv. ríkisstj. Þá er ekki talað um neinn aðlögunartíma. Þá verða sveitarfélögin að mæta þeim kostnaðarauka, sem á þau er lagður. Eins mundi hafa orðið í þessu tilviki. Það er satt og rétt, að sveitarfélög eru mörg fjárvana. En það er ekki eins og hér sé verið að taka frá þeim allar nýjar fjárhagsbyrðar, þó að þessu sé frestað um nokkra mánuði. Það er öðruvísi en svo. Atvinnureksturinn í landinu berst líka oft í bökkum, en hann fær engan aðlögunartíma, þegar lánin til hans eru hækkuð kannske um 100%, eins og gert var á einu ári ekki alls fyrir löngu, þ.e. lán þeirra, sem útlend lán hafa. Þeir verða að axla þessar byrðar aðlögunartímalaust. Þannig að ég sé ekki, að hér sé um neina skýringu né nýjan sannleik að ræða, sem hæstv. ráðh. flutti. Honum fannst af einhverjum ástæðum, að hann þyrfti að endurtaka þetta, sem hann sagði í frumræðu sinni, og það er honum að sjálfsögðu heimilt.

Þá fjallaði síðari hluti yfirlýsingarinnar um það, að í gildandi lögum væri heimilt að breyta upphæðum bóta samkvæmt tryggingalögunum í samræmi við það, ef það verður breyting á grunntaxta verkamanna við almenna fiskvinnu, eins og segir í 3. gr. laga, sem samþ. voru á Alþ. 9. apríl 1965. Og þessi heimild er enn fyrir hendi. Ég skildi hæstv. ráðh. svo, að hann ætlaði sér það að nota þessa heimild á yfirstandandi ári, ef til þess kæmi, að við almenna fiskvinnu yrði breyting á grunntaxta hjá verkamönnum. Í fyrsta lagi kemst ég ekki hjá því að taka undir það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að ef þessi heimild verður notuð, þá kostar það vitanlega einhverja peninga fyrir sveitarfélögin, fyrir atvinnureksturinn og fyrir hina tryggðu, og þeir fá þá engan aðlögunartíma væntanlega. Þeir þurfa bara að mæta þessum hækkunum, þegar hæstv. ráðh. þóknast að taka þær upp. Í öðru lagi vil ég segja það, að ég held, að það sé — alveg burtséð frá velvilja og skilningi hæstv. trmrh. þess, sem nú situr — ekki ástæðulaust að breyta ákvæðunum úr heimild í skyldu, ekkert ástæðulausara strax en síðar. Hæstv. ríkisstj. sér ekki ástæðu til þess að breyta þessu í lögunum. Hún vill bara ekki, að breytingin taki gildi fyrr en 1, jan. 1972, en ef það er ástæða til breytinga 1972 1. jan., þá er sú ástæða fyrir hendi þegar í dag. Þetta er augljóst mál. Sú ástæða er fyrir hendi, og ég gat þess hér við 1. umr., að ég teldi til mikilla bóta þetta nýmæli, sem er í því fólgið, að verðtryggingin er gerð skilyrðislaus, þó að hún sé raunar allt of varfærnisleg og allt of takmörkuð, þar sem ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar eiga að bíða í 6 mánuði, eftir að hækkun hefur orðið á kaupinu, sem launin eru miðuð við, þangað til þeir eiga að fá eitthvað af því. Mér finnst því miður, að yfirlýsing sú, sem hæstv. ríkisstj. gaf hér, breyti málinu ekki neitt. Ég held því, að það sé full ástæða til þess, að hvað sem gert verður við gildistöku l. að öðru leyti, þá sé það sanngirnismál, að ákvæði 78. gr. komi til framkvæmda þegar í stað. Ég skal ekki fara út í það að rökstyðja það mikið meira en hér hefur verið gert, og ég leyfði mér að reyna að gera við 1. umr. þessa máls, og ég skal vísa til þess að öðru leyti.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. heilbr.- og félmn. sagði í sinni framsöguræðu, að mikil og rík ástæða væri til þess að taka til endurskoðunar fjölskyldubætur og tengsl þeirra við skattkerfið. Hann sagði, að til þess að hægt væri að taka þá breytingu til greina, þyrfti viðamikla endurskoðun og góðan undirbúning. Undir þetta vil ég taka. En ég vil bæta því við, að miklu fleiri atriði í þessu lagafrv. þyrftu viðamikla endurskoðun og góðan undirbúning, og ég leyfi mér enn á ný að vísa til álits Guðjóns Hansens tryggingafræðings þessu til staðfestingar. Málið hefur þrátt fyrir nokkurn tíma í n. hvorki fengið viðamikla endurskoðun né góðan undirbúning. Það er mála sannast. Og það er fleira en fjölskyldubæturnar og tengslin við skattana, sem þannig er ástatt um, eins og hér hefur verið bent á í dag af þeim ræðumönnum, sem talað hafa um málið, og þær brtt., sem fyrir liggja, sýna, svo að ekki verður um villzt.

Þegar sú staðreynd liggur því fyrir, að l. eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1972 og nauðsyn er viðamikillar endurskoðunar og góðs undirbúnings til þess að endurskoða þau, þá væri það ekki fráleit hugmynd að láta almannatryggingarnar fá þessa endurskoðun og nota tímann, sem greinilega er fram undan og óumdeilanlega er fram undan, þangað til nokkuð á í málunum að gerast, til þess að þær geti fengið það. Það hafa allir, sem hér hafa talað, lokið upp um það einum munni, að þeir vilji bæta almannatryggingarnar. Og ég held, að því sé ekki lengur haldið fram um heila flokka eða jafnvel einstaka menn, að þeir hafi ekki fullan skilning á því; ég hef ekki heyrt það enn þá. Og ég geri alveg ráð fyrir því, að ég hefði heyrt það, ef menn hafa þá skoðun, enda held ég, að það sé mála sannast, að menn hafi ekki úr háum söðli að detta í meðferð þessara mála og þess vegna sé það rétt mat hjá þeim að vera ekki að fara út í meting um það. Þess vegna veit ég það, að það verður ekki skilið sem mótþrói við þetta mál, þó að ég ræði um það sem hugsanlegan möguleika, að þessari endurskoðun verði áfram haldið og fengnir verði til menn til þess að framkvæma hana eitthvað í líkum stíl og gert er ráð fyrir í b-lið 12. brtt. á þskj. 694. Hún gerir að vísu ráð fyrir því, að þessi lög eða frv. verði samþ. fyrst. Það er matsatriði. Það má vel vera, að það sé rétt að gera það, en aðalatriðið er þó, að lagabálkurinn allur fái þessa framhaldsathugun, sem honum er nauðsynlegt að fá. Það er í þessu frv. gert ráð fyrir einhvers konar takmörkun- á almannatryggingum svipað og var í l. fyrir 1960, þegar aðrar tekjur eru miklar eða töluverðar, og ég vil fyrir mitt leyti segja það sem mína skoðun, að mér finnst það rétt stefna.

Þá vil ég fagna því, að hv. heilbr.- og félmn. hefur tekið til greina ábendingar frá, að ég hygg, nm., sem skipa þar minni hl., þess efnis, að Tryggingastofnunin skuli kynna almenningi rétt sinn til bóta með upplýsingastarfsemi. Ég held, að það hafi skort á þetta á umliðnum árum, að fólkið, sem þarna á hlut að máli, hafi þekkt sinn rétt o það hafi í mörgum tilfellum valdið erfiðleikum. Ég vil nú ekki fullyrða, að það hafi komið að sök, en það hafi valdið því nokkrum erfiðleikum. Aðrar þjóðir gera mikið af því að kynna þessi mál fyrir almenningi, fyrir fólkinu. Ég er hér með danskan pésa, sem heitir „Hinir öldruðu“ og gefinn er út af félmrn. þar. Þar eru í stuttu máli, en glöggu, upplýsingar um í fyrsta lagi almannatryggingarnar og aukaá1ag, sem hægt er að fá, ef vissum skilyrðum er fullnægt. Það eru í öðru lagi greinargóðar og glöggar skýringar um skattlagningu á þetta eldra fólk, hvernig það á að telja fram, hvað það muni fá í skatta, hvaða skattfrádráttar það á að njóta o.s.frv. Svo er hér sérstakur kafli um læknisþjónustu og spítalaaðstoð, sjúkrasamlögin, lyfin og tannlækningarnar, lán á útvarpi, sjónvarpi og bókum, húsnæðisaðstoð, húshjálp og að síðustu, en alls ekki það þýðingarminnsta, alls konar námskeið og háskóladvöl, sem þetta eldra fólk á kost á að njóta. Það hefur áður þar sem ég hef komið að þessum málum, í borgarstjórn Reykjavíkur nánar til tekið, verið samþ. svipuð áskorun og hér er lagt til, að lögleidd verði. Vel má vera, að Tryggingastofnunin hafi í undirbúningi — ég er ekki frá því, að það kunni að vera — einhverja slíka útgáfu. Það er vel, ef svo er, en ég sé ástæðu til þess að fagna því, að frá yfirvaldanna hálfu hefur komið í ljós skilningur á því, að þetta sé nauðsynlegt. Þetta þarf áreiðanlega að bæta. Eins þarf að mínum dómi að reyna að koma til móts við þetta aldraða fólk, hvað snertir greiðslu bótanna. Það er dálítið örðugt, eins og verið hefur, að stefna öllum á einn stað á einum eða tveimur tilteknum dögum eða nokkrum tilteknum dögum og afgreiða fólk þar eins og fé við jötu. Það er og hlýtur að vera hægt að finna aðrar leiðir til þess að koma bótunum til fólks með öllum þeim bankaútibúum, póstþjónustu og öðru slíku, sem nú er orðin völ á, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þá vil ég líka leyfa mér að fagna framkominni till. frá hv. þm. Karli Guðjónssyni um tryggingadómstól. Það er mín skoðun, að mjög sé nauðsynlegt, að fyrir hendi sé óháður tryggingadómstóll, sem tekur til meðferðar og úrskurðar kærur, er varða ágreining um bótarétt hinna tryggðu og Tryggingastofnunarinnar. Það er ekki, eins og hér kom fram hjá einhverjum, sem þetta ræddi, með þessu móti sett þar með vantraust á þá menn, sem fjalla um málefni Tryggingastofnunarinnar, en af eðlilegum ástæðum má ætla, að þeir hafi sjónarmið sinnar stofnunar mjög í huga og þeir lendi stundum í því að vilja túlka tiltekin matsatriði sinni stofnun í hag. Það er a.m.k. ekki nema mannlegt, að svo sé, en í svona tilvikum er a.m.k. mest um vert, að rétt niðurstaða fáist. Ég skal engan dóm leggja á það, hvernig þennan tryggingadómstól á að skipa. Í umræddri brtt. er talað um að skipa hann þremur mönnum, að Alþ., Samband ísl. sveitarfélaga og Hæstiréttur tilnefni þá til fjögurra ára í senn. Ég held, að þetta geti vel verið ein leið a.m.k. til þess að koma þessum tryggingadómstóli á laggirnar.

En aðalerindi mitt hingað í þennan ræðustól er það að gera grein fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 614 og er við 43. og 45. gr. frv. og fjallar um tannlækningar. í 43. gr. frv. er talið upp það hlutverk, sem í samþykktum sjúkrasamlaga skuli tekið fram, eins og þar segir, þ.e. hverra réttinda samlagsmenn njóta. Þeir eiga að njóta þeirra réttinda auk þess, sem um ræðir í 1. mgr. gr., þ.e. alls konar aðstoðar, sem talin er upp í allmörgum liðum, og við þennan lið vil ég bæta nýjum staflið: „Tannlækningar að 3/4 hlutum, þegar þær teljast bein heilsufarsleg nauðsyn, og skal setja um það nánari ákvæði í reglugerð.“ Á þetta hefur hv. heilbr.- og félmn. ekki viljað fallast. Hv. frsm. sagði að vísu, að miklar umr. hefðu orðið um þetta atriði í n., og það tel ég þó benda til þess, að einhverjum a.m.k. hafi þótt ástæða til þess að taka till. til greina, en meiri hl. hafi ekki getað orðið ásáttur um það. Mér er alveg sama fyrir mitt leyti, í hvern er vísað, þegar því er haldið fram, að hér þurfi ekki lagabreytingu. Við höfum reynt það núna í mörg ár líklega 18 ár eða síðan 1953, ef ég man rétt, að ekki hefur verið skylda í l. að greiða þennan kostnað, heldur heimild — sú heimild, sem hv. frsm. var að vísa í, að væri fyrir hendi og er fyrir hendi í gildandi l., 49. gr.; það er alveg rétt. En þessi heimild hefur bara ekkert verið notuð. Og það er mín skoðun, að svo muni áfram verða. Þess vegna held ég, að það sé óhjákvæmilegt, ef menn meina eitthvað á annað borð með því, að það eigi að fara með tannskemmdir eins og aðra sjúkdóma, að lögfesta þessi ákvæði. Út á það gengur till. Ég hef ekki neina trú á því, að þessi heimild verði fremur notuð hér eftir en hingað til, ef engum stafkrók verður breytt í gildandi l. Ég hef enga trú á því. Og ég held, að alþm. verði að gera þetta upp við sig eins og svo margt annað, hvort þeir vilja sjálfir, að þetta sé lögleitt eða ekki — ekki bara eiga það undir einhverjum mönnum úti í bæ, hvort það sé þeirra skoðun, að þessi sjúkrahjálp eigi að vera ókeypis eða ekki.

Við erum hér að ákveða það, að svona og svona margt skuli greiðast af sjúkrasamlaginu en það er ein tegund læknishjálpar, sem aðeins er heimilt að taka þátt í. Þetta er óeðlilegt. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. sagði, að það yrði mjög erfitt mat, þar sem talað er um heilsufarslega nauðsyn á tannviðgerðum. Og mér skildist, að það væri ekki hægt að lögfesta ákvæðin vegna þess. En ég vil benda á, að í brtt. minni er einmitt gert ráð fyrir því, að nánari ákvæði um þetta verði sett í reglugerð, og ég held fyrir mitt leyti, að það hafi margt erfiðara verkið verið unnið en að tiltaka það í reglugerð, hvaða viðgerðir á tönnum séu heilsufarsleg nauðsyn. Ég á við með þessu orðalagi allar algengar og almennar tannviðgerðir, en ekki til að mynda gullbrýr eða dýrari aðgerðir eða fegrunaraðgerðir eða eitthvað í þeim dúr. Ég hef ekki reglugerðaruppkastið hér við hendina, hef ekki samið það, en ég treysti mér vel til þess með aðstoð hlutaðeigandi sérfræðinga. Annað eins hefur nú, held ég, verið gert. Ég tel þetta fyrirslátt, þ.e. þessa ástæðu fyrir því að samþykkja ekki ákvæðið. Þetta ákvæði hefur einnig verið tekið upp í brtt. hv. 5. þm. Reykn. Það er dálítið öðruvísi orðað. Hann segir:

„Tannlækningar hjá tannlækni, sem sjúkrasamlagið hefur samið við, að 3/4 hlutum fyrir samlagsmenn og börn þeirra, sem ekki eru á skólaskyldualdri. Ákvæði þetta tekur til tannlækninga, sem teljast heilsufarsleg nauðsyn, en nær ekki til aðgerða, sem sjúkratryggingadeild greiðir fyrir, og er bundið því skilyrði, að skólayfirvöld á sjúkrasamlagssvæðinu haldi uppi skólatannlækningum og kosti þær a.m.k. að 3/4 hlutum.“

Mér er alveg sama fyrir mitt leyti, hvor till. yrði samþ., mín eða hv. 5. þm. Reykn. Það er enginn grundvallarmunur á þessu. Þær stefna báðar í sömu átt. Það er svolítið öðruvísi orðað hjá honum, og ég get vel fylgt honum í því eða a.m.k. þegar mín till. er fallin, sem vafalaust á nú fyrir henni að liggja.

Það veldur mér satt að segja vonbrigðum, að þessi till. skyldi ekki fá betri undirtektir. Ég gerði ráð fyrir því, að við værum komnir á það stig eða svona um það bil að komast það, og ég trúi því nú raunar, að við lítum á það eins og hvern annan sjálfsagðan hlut, að við reynum að halda tönnum okkar og annarra landsmanna heilum. Og ég held þvert á móti, að það þyrfti að gera miklu meira til þess að fá fólk til þess að gera það. Ég held, að það mundi bara hreinlega borga sig, mundi sparast í öðrum læknisaðgerðum síðar á ævinni, ef tækist að koma því inn hjá fólki, ungu fólki ekki sízt, að það væri ekki bara fallegt og skynsamlegt að halda tönnum sínum heilum, heldur heilsusamlegt líka og kannske fyrst og fremst. En um þetta þýðir náttúrlega ekki að vera að orðlengja. Það er sjáanlegt, að af einhverjum ástæðum telst ekki hægt að taka þetta upp í lög. Ég fyrir mitt leyti óttast það og leiðist það að ég held, að ástæðan sé fjárhagslegs eðlis. Ég held, að það hafi verið umhyggja fyrir peningakassanum, sem ræður þessari afstöðu, en ekki það út af fyrir sig, að menn geti ekki fallizt á nauðsyn þessarar breytingar.

Það komu hér fram við umr. áðan efasemdir um breytingar á sjúkrasamlögunum frá einum hv. þm., 5. þm. Sunnl. Ég hef ekki góða aðstöðu til þess að hafa skoðun á því, hvernig þessi breyting kemur til með að verka fyrir lítil sjúkrasamlög utan Faxaflóasvæðisins. Ég er ekki nægilega kunnugur því, en mér finnst og fannst við að hlusta á þennan málflutning eins og hér væri nokkuð harkalega til verks gengið, að það ætti að leggja niður 235 héraðssjúkrasamlög — eða hvað þau nú eru mörg, án þess að þeir, sem við þau hafa starfað, hafi nokkra möguleika haft til þess að segja álit sitt um það. Og þess vegna finnst mér nú, að þó að mikið liggi á að samþykkja þetta frv. vegna þess, að það er alveg rétt, sem hv. 5. landsk. þm. sagði, menn eru hættir að hugsa rökrétt, sumir a.m.k., þá mætti nú fresta þessari breytingu.

Ég vil ekki, herra forseti, eyða lengri tíma d. í að ræða þetta mál, þó að mér sé það alveg ljóst, að það er nánast alveg órætt enn þá af minni hálfu, því að það grípur inn á mörg svið, en ég vildi leyfa mér að vekja athygli á þeirri brtt., sem ég er flm. að.