29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

281. mál, almannatryggingar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef verið að leitast við það undanfarin kvöld að komast í gegnum það snjóflóð af frv. hæstv. ríkisstj., sem dynja hér yfir. Þar kennir margra grasa. Margt er athyglisvert, en sumt síður. En mér hefur þótt þetta frv. um almannatryggingar einna athyglisverðast. Þar er hreyft einhverju mikilvægasta málinu í velferðarþjóðfélagi okkar. En mér þykir það þó ekki síður athyglisvert vegna þess, sem þar stendur ekki og lesa má á milli línanna.

Ég komst satt að segja að þeirri niðurstöðu, þegar ég las þetta frv. og gerði mér grein fyrir því, hvað frv. er flýtt, að það er áreiðanlega mikið rétt í því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði við 1. umr., að þetta er lagt fram fyrst og fremst sem kosningamál Alþfl., og það er leitt til þess að vita. Raunar virtist mér þetta staðfest í inngangsorðum hv. frsm. heilbr.- og félmn., þ.e. í þeirri kosningaræðu, sem hann flutti og það er einnig staðfest, þegar frv. er lesið og farið yfir ártölin, þar sem meginbreytingar á lögunum eru gerðar. Grundvöllurinn að þessum málum er lagður 1936; það er á miðju kjörtímabili. Þá er Alþfl. að efna kosningaloforð sín eða heit, en síðan er því breytt t.d. 1946. Þá eru kosningar fram undan og Alþfl. í stjórn. Síðan er því breytt aftur 1963, og þá er það sama uppi á teningnum, síðan 1967 og enn er svo 1971, og enn þá eru kosningar fram undan. Mér þykir þetta leitt og tel, að þetta mál þurfi að fá langtum betri og skynsamlegri meðferð en kemur fram í þessu frv.

Ég sakna þess t.d., að í frv. kemur hvergi fram nein stefna eða stefnubreyting eftir öll þessi ár. Mér þykir það mikilvægt og er að velta því fyrir mér, hvort rétt sé á málum haldið. Til hvers eru almannatryggingar? Eru þær til þess, eins og nú virðist vera, að senda fjármagnið fram og aftur um landið, jafnt til þeirra, sem ekki þurfa á slíkri aðstoð að halda, og til hinna, sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda? Ég er þeirrar skoðunar, að almannatryggingar eigi fyrst og fremst að vera til þess — og raunar eingöngu — að tryggja öllum landsmönnum lágmarkslífskjör — og vel viðunandi –bæði ungum og öldnum og sömuleiðis þeim, sem hafa að einhverju leyti orðið undir í lífsbaráttunni, og þar eigi að vera sú trygging, sem allir geti gengið að. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að greiða fjölskyldubætur þeim, sem ekki þurfa á slíku að halda.

Að vísu er sagt, að þetta náist aftur a.m.k. að verulegu leyti með sköttum, og nokkuð er til í því. En mig grunar þó, að allt það starfslið, sem situr inni í Tryggingastofnun við þessa afgreiðslu til þeirra, sem ekki þurfa á að halda slíkri aðstoð, fari langt með að eyða því fjármagni, sem næst inn með skattálagningu. Ég er þess vegna mótfallinn þessari stefnu, sem hér ríkir, og tel, að hana eigi að endurskoða, og vildi leggja áherzlu á það með þeim orðum, sem ég segi hér. Bendi ég því sérstaklega á 12. lið brtt. minni hl., b-lið, þar sem lagt er til, að þegar verði hafizt handa og haldið áfram eðlilegri og ítarlegri endurskoðun á þessum mikla lagabálki, sem hér er til umræðu.