27.10.1970
Efri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er dálítill misskilningur hjá hv. 1. þm. Vesturl., ef hann ætlar að halda því fram, að stofnlánadeildargjaldið hafi alltaf verið óþarft, af því að það sé hægt að afnema það nú í áföngum. Af hverju er hægt að afnema það nú í áföngum? Og af hverju er það ekki afnumið strax? Af hverju er það gert í áföngum? Það er gert í áföngum vegna þess, að stofnlánadeildin má ekki missa það núna. En með því að hafa óbreytt gjald til 1975, 0.75% gjald til 1980, 0.5% gjald til 1985 og 0.25% til 1990, þá heldur deildin áfram að eflast og safna eigin fé. Og eftir því sem eigið fé deildarinnar verður meira, því meiri verða vaxtatekjur deildarinnar og því öflugri verður hún. Og það er vegna þess, að stofnlánadeildargjaldið var lagt á 1962, að deildin er að verða öflug, fjárhagslega öflug og fjárhagslega sjálfstæð, og að hún getur núna misst þetta í áföngum, og það gjald, sem áður hefur runnið til stofnlánadeildarinnar, getur runnið í Lífeyrissjóð bænda. Þetta veit ég, að hv. 1. þm. Vesturl. sér og skilur, og ég vænti þess, að hann sé kominn á sömu skoðun og ég hef alltaf verið á, að stofnlánadeildargjaldið hafi verið mjög þarft og nauðsynlegt. Það hafi verið góð og þörf ráðstöfun að gera þetta, þ. e. byggja deildina upp og standa af sér áföllin, sem hún varð fyrir við gengisbreytingarnar, og láta þetta eftir smátt og smátt, eftir því sem fært þykir, eftir því sem eigið fé deildarinnar hefur aukizt og eftir því sem vaxtatekjur deildarinnar verða meiri.

Það er náttúrlega broslegt, þegar hv. 1. þm. Vesturl. byrjar hér ræðu sína og segir, að sjóðirnir hafi nú raunar átt 101 millj. kr. skuldlausa 1959, en þegar ég hafi verið búinn að vera landbrh. í tvö ár, þá hafi sjóðirnir skuldað 33 millj. kr. umfram eignir. Það er alltaf gott að geta brosað, og víst er það „kómískt“ að geta haldið þessu fram — hafa þrek til þess — og minnast þess ekki, af hverju gengisbreytingin var skráð 1960 — að það var afleiðing af því, sem skeði fyrir þann tíma, að það var vegna þess, að það var verið að afnema uppbætur á uppbæturnar og það var verið að gera ráðstafanir til þess, að við hefðum eitt gengi íslenzku krónunnar, en ekki tuttugu, eins og gerðist meðan vinstri stjórnin sat að völdum. Og ég segi nú það, að það þarf dálítið mikið þrek til þess að koma hér upp í ræðustól eins og þessi hv. og virðulegi þm., sem hefur setið á Alþ. áratugum saman, og blygðast sín ekki fyrir það að rifja það upp, hvernig þetta ból vinstri stjórnarinnar var, sem ríkisstj. 1960 varð að hreinsa til í. Og ég hélt satt að segja, að hv. þm. væri vaxinn upp úr þessum barnaskap og þessari einfeldni að halda því fram, að gengisbreytingin 1960 hafi verið sök þeirrar stjórnar, sem þá settist að völdum. Þetta var arfur ráðleysisins, og það held ég, að flestum sé nú orðið ljóst.

Í rauninni er það ekki fleira, sem þarf að segja í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur veitt lán og tiltölulega meiri lán en gert var áður. 1957 munu búnaðarsjóðirnir hafa lánað 41 millj. kr. og 1958 42 millj. kr. En hvað hefur þetta verið núna undanfarin ár? 120, 130, 136 millj. kr. Það er reikningsdæmi að breyta þessu, sem var 1957 og 1958, til núverandi verðlags og fá raungildi fjárins metið rétt í bæði skiptin. En miðað við byggingarvísitölu er það alveg ljóst, að lánin hafa verið stóraukin frá því, sem var. Það er alveg ljóst, við getum reiknað það í huganum. En 11–12% vaxtagreiðslur, sem hv. þm. var að tala um. Það hefur nú einu sinni verið hrakið, og vaxtakjörin hjá stofnlánadeildinni eru vitanlega mjög hagstæð utan þess, og lánin eru til langs tíma, 42 ára fyrir íbúðarhús og 20 ára yfirleitt fyrir útihús. Ég skal viðurkenna, að æskilegt væri að hækka þau lán og lengja þau til 25 ára fyrir varanlega byggð hús. Það er alveg forsvaranlegt, og ég vildi nú stuðla að því, að það væri gert, um leið og stofnlánadeildinni vex fiskur um hrygg og hún getur meira.

Hv. þm. segir, að bændur beri minna úr býtum núna en þeir eigi skilið og þá eitthvað lægra hlutfall en áður. Ja, við höfum orðið fyrir því óhappi að fá vont árferði síðustu 3–4 árin. Það hefur verið grasbrestur, það hefur verið kal víða, það hafa verið óþurrkar og kólnandi tíðarfar. Þetta hefur valdið landbúnaðinum miklum búsifjum, og óvíst er, hvort landbúnaðurinn hefði fyrr þolað þessi áföll. Hefur ekki landbúnaðurinn staðið þessi áföll af sér, af því að hann hefur fengið aukinn viðnámsþrótt, meira þrek í stjórnartíð núverandi stjórnar á árunum 1960 til 1966–67, þangað til árferðið fór að verða verra? Hefði landbúnaðurinn getað staðizt þessi áföll, ef tíðarfarið hefði versnað svona t. d. 1958–1959? Það er mikið vafamál. Hann hefði staðið miklu verr að vígi. Þetta er nokkuð, sem ástæða er til að athuga nákvæmlega, þ. e. hvernig „status“ bændanna var á þeim árum, hvernig hann var, áður en árferðið fór að versna, hvernig hann er nú, hvernig þetta var með tekjurnar hjá bændunum áður og hvernig það er nú. Skyldu bændurnir alltaf hafa fengið eða borið úr býtum jafnmikið og aðrar stéttir í þjóðfélaginu? Hvenær hefur það verið? Það væri líka fróðlegt að rifja það upp. En hitt veit ég, að það var ekki á árunum 1957 og 1958. Ég ætla, að þá hafi bændurnir ekki fengið meira en 60–70% í tekjur miðað við aðrar stéttir, og ég ætla, að þrátt fyrir árferðið nú, sem ég ætla ekki að gera lítið úr, þá sé þetta hlutfall nú miklu, miklu hærra, enda þótt reikna megi með, að á þetta vanti eitthvað vegna árferðisins.

Þetta er nú svona svolítið utan við þetta frv. En það var hérna fyrr á árum — getum við farið að segja — að hv. 1. þm. Vesturl. og ég töluðum stundum hérna um landbúnaðarmál í d., en núna í seinni tíð hefur þetta sjaldnar borið við, og það má segja, að það sé ekki nema ánægja að því að taka upp þráðinn aftur, þar sem hann slitnaði. Það skal ekki standa á mér, ef hv. 1. þm. Vesturl. vill það viðhafa, og getur þá vel verið, að ég eigi frumkvæðið að því, áður en langur tími líður að taka upp viðræður á breiðum grundvelli um landbúnaðarmál við hv. 1. þm. Vesturl.