31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

281. mál, almannatryggingar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég á nú sæti í þeirri n., sem þetta mál mun koma til á eftir þessari umræðu, en þau vinnubrögð voru höfð á, meðan málið var til umræðu í Ed., að n. beggja d. voru kallaðar saman til þess að athuga þetta frv., og fengum við til okkar suma af þeim mönnum, sem voru við að semja frv. og enn fremur forstjóra Tryggingastofnunarinnar. Við ræddum ýmsar greinar þess, sem við óskuðum eftir að breyta, en ég sé það eftir afgreiðslu Ed. á frv., að tiltölulega litið hefur verið tekið inn af þeim brtt., sem við vorum að fjalla um eða óskuðum eftir og bentum á, að nauðsynlegt væri að koma inn í þessa löggjöf.

Það var dálítið rætt um það, að þessi lög, ef þau verða samþykkt hér, eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1972. Og eins og óvissan nú er í efnahagsmálum, þá skildum við ekki margir af okkur, hvaða tilgangi það þjónaði að hespa þetta af, því að svo getur farið, að í raun og veru verði allar þær tölur, sem hér eru settar inn, orðnar úreltar, löngu áður en lögin eiga að taka gildi. Ég sé ekki annað en þetta sé í raun og veru ekkert annað en kosningaföt — blátt áfram ekkert annað. Ég sé engan tilgang nema þá til að breyta þessu, sem hefði verið eðlilegt miðað við það, að opinberir starfsmenn hafa fengið t.d. stórhækkuð sín laun og við höfum sjálfir hér á hv. Alþ. samþykkt launahækkanir til alþm., og augljóst er, að vegna þessa fólks, sem er lægst launað af öllum, hefði ekki síður verið þörf á því að láta þessa löggjöf taka gildi fyrr en ætlazt er til með þessu frv. Ég verð nú að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki það til athugunar, að ef það er ætlunin að knýja þetta fram, þá ætti fyrst og fremst að láta lögin taka gildi ekki seinna en á miðju ári. Þá skil ég tilganginn, en annars skil ég hann ekki.

Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, þá vitum við ekkert, hvað tekur við 1. sept.; það veit enginn. Og ég held, að það væri einmitt mál, sem við þyrftum að hugleiða í sambandi við þessa afgreiðslu. Svo er annað, sem hann kom líka inn á, að þessar greiðslur til öryrkja og hinna öldruðu eru ekki bundnar vísitölu, eins og annað kaupgjald er á venjulegum tíma. Það er náttúrlega ekkert kaupgjald nú á verðstöðvunartímanum, en ef þessu tímabili lýkur 1. sept. og allt fer í gang, fær þetta fólk ekki neina hækkun — ekki fyrr en í fyrsta lagi 6 mánuðum eftir, að slíkar hækkanir koma fram.

Eitt atriðið, sem komið var dálítið inn á, þegar n. fóru yfir frv., var einmitt það ákvæði, sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á, þ.e. að sveitarfélögin tækju 40% á sig af þeirri hækkun, sem á að verða á ellilaununum, þ.e. þegar þeir, sem ellilaunin fá, hafa ekki neinar aðrar tekjur. Við töldum, að þetta væri óeðlileg afgreiðsla, og ég hef orðið var við það í sveitum, þar sem ég þekki bezt til, að fólk, sem hefur litlar tekjur og er í fullri þörf fyrir að fá meira en ellilífeyrinn, sækir ekki um hækkun, vegna þess að það lítur á þessa hækkun sem framfærslu. Ég gæti trúað því, að það yrði þannig með marga, a.m.k. í sveitum landsins, að þeim mundi ekki þykja þetta fyrirkomulag gott af þessari ástæðu, enda er það eðlilegast, ef á að tryggja fólki lágmarkstekjur, sem ég tel sjálfsagt, og þær eiga að vera hærri en þetta er, að það komi frá Tryggingastofnuninni á einhvern hátt, en ekki frá sveitarfélögunum.

Ég kom hér í umr. á Alþ. fyrir skömmu inn á þetta einkennilega ákvæði, sem er í l., um það, að ekklar fái ekki barnalífeyri með sínum börnum öðruvísi en að sækja sérstaklega um það, og þetta, sem segir í 16. gr. í l., með leyfi forseta:

„Tryggingaráð getur ákveðið, að greiða skuli með börnum ekkils allt að fullum barnalífeyri, ef fráfall eiginkonu veldur tilfinnanlegri röskun á afkomu hans.“ Það fer náttúrlega ekki á milli mála, hvað hér er átt við, að það þurfi svo sem ekki að vera svo tilfinnanleg röskun á afkomu, þótt eiginkonan falli frá. Að vísu er í þessu frv. tekinn upp fullur barnalífeyrir til ekkla eins og ekkjur fá, en þeir fá engin ekklalaun sambærileg við mæðralaun. Ég sé ekki, að það sé í raun og veru nokkur munur þarna á. Ég þekki t.d. mann, sem missti konu fyrir nokkrum árum og er með þrjú börn, og annan, sem er með fjögur börn, og ég sé ekki, að hann sé neitt betur settur en þær ekkjur, sem ég þekki. En eins og þetta frv. er, þá fær kona, sem er með þrjú börn eða fleiri, 67 200 kr. og í raun og veru er ekki hægt að fá annað út úr þessu en það, að löggjafinn eða a.m.k. þeir, sem þetta frv. semja og standa að, meti það enn svo, að það þurfi ekki að vera svo tilfinnanleg röskun á afkomunni, þó að eiginkonan falli frá. Ég kann ekki við þetta ákvæði, og við munum reyna allt, sem við getum til að breyta þessu, þannig að ekklar fái sömu greiðslur og ekkjur fá með börnum sínum.

Það er óþarfi að vísu fyrir mig að vera að lengja þessar umr., þar sem þetta frv. kemur í þá n., eins og ég sagði áðan, sem ég á sæti í, en þó ætla ég að taka hér örfá atriði.

Það var held ég í fyrra á þ., að ég og félagar mínir komu fram með frv. um breyt. á þessum l. um það, að það yrði greiddur ferðakostnaður sjúklinga og barnshafandi kvenna úr þeim héruðum, þar sem ekki er læknir eða sjúkrahús. Þetta var rætt í n., og ég gat ekki fundið annað en allir hv. nm. hefðu skilning á þessum vanda, sem þarna er við að glíma, og á því óréttlæti, sem þeir verða fyrir, sem hafa ekki lækni eða sjúkrahúsaðstöðu í sínum héruðum, en ég sé það þó, að meiri hl. n. í bv. Ed. hefur ekki treyst sér til að taka upp þessa breyt. Það harma ég og raunar skil ekki, hvernig á því stendur, vegna þess að hér getur ekki verið um svo tilfinnanlegar fjárhæðir að tefla, heldur að leiðrétta þarna aðstöðumun, sem er sýnilegt, að er fyrir hendi, og kemur illa við nokkra einstaklinga í þessum héruðum.

Annað atriði var það, sem var nokkuð rætt um, og það var, að tekið yrði upp, að tryggingarnar borguðu einhvern hluta af tannviðgerðum. Það er nú komið fram frv. um það í hv. Ed., flutt af hv. þm. Einari Ágústssyni. Þetta var líka rætt í n., og í raun og veru fannst mér það, að nm. hefðu skilning á þessu, en þó er það svo, að ég sé það, að meiri hl. í hv. n. í Ed. hefur ekki séð sér fært að taka þetta ákvæði upp í l., og harma ég það.

Ég hef aldrei kunnað eiginlega við það í þessum l., að það er talað um í þessu tilfelli styrki og bætur. Í augum ýmissa er þetta kannske ekki stórvægilegt atriði, en þetta hefur þó þann blæ, að þetta sé nokkurs konar framfærsla eða ölmusa, og ég held, að það sé ekki meining löggjafans, og það ætti að breyta þessu. Út í það er óþarfi að fara frekar, en ég held, að þessu ætti að breyta.

Ég vil svo endurtaka það, að ég sé ekki, að það þjóni neinum tilgangi að lögfesta þetta frv., nema það eigi að taka gildi í síðasta lagi á miðju þessu ári, annars gæti þessi afgreiðsla í raun og veru orðið til einskis, þar sem það þarf, ef allt efnahagslífið fer úr böndum, að breyta þessum tölum á þ., sem yrði háð næsta haust.