31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

281. mál, almannatryggingar

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom fram nú fyrir nokkrum dögum, þá sagði Alþýðublaðið í mikilli fyrirsögn á forsíðu, að frv. markaði tímamót. Nú er það svo að mínum dómi og sennilega margra annarra, að hér sé um nokkuð stórt orð að ræða, þegar talað er um, að eitthvert mál marki tímamót, og ég hygg, að í þessu tilfelli hefði verið heppilegra að nota mildara orðalag en þarna var notað, því að því fer áreiðanlega fjarri, að þetta frv. marki einhver tímamót. Ef svo hefði verið, hefði frv. þurft að geyma veruleg nýmæli, en ég held, að nýmælin í þessu frv. séu sárafá. A.m.k. er alveg víst, að það eru engar grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu í þessu frv., þannig að það má augljóst vera, að það er nauðsyn að endurskoða fljótlega almannatryggingalöggjöfina, jafnvel þó að þetta frv. nái samþykki og verði að lögum.

Ég get ekki stillt mig um að minna í þessu sambandi á ummæli Alþýðumannsins á Akureyri, sem er málgagn Alþýðuflokksins á Akureyri og eitt aðalmálgagn Alþýðuflokksins. Þessi ummæli Alþýðumannsins stinga nokkuð í stúf við risafyrirsögnina í Alþýðublaðinu um, að þarna sé um tímamótaverk að ræða, því að Alþýðumaðurinn segir í leiðara nú fyrir nokkrum dögum: Auðvitað er frv. engin langtímalausn. Ég held, að það sé nokkuð athyglisvert að bera saman þessi tvenns konar ummæli, Alþýðublaðsins annars vegar og Alþýðumannsins hins vegar, og ekki efast ég um, að ummæli Alþýðumannsins séu réttari, enda eru þau viðhöfð nokkrum dögum eftir að frv. var komið fram, eftir að hv. þm. og þ. á m. stjórnarþm., sem standa að Alþýðumanninum á Akureyri, hafa haft aðstöðu til þess að skoða frv. og komast að raun um það, að þarna er alls ekki um neitt tímamótaverk að ræða.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á það í þessu sambandi, hvert er eitt höfuðmarkmið almannatrygginga. Tvímælalaust er höfuðmarkmið almannatrygginganna að koma á jöfnuði í kjörum manna í þjóðfélaginu. Tilgangurinn er sá að koma á réttlátri tekjuskiptingu og kjarajöfnuði meðal þjóðarinnar, en því miður stenzt þetta frv. ekki slíkar kröfur. Höfundar frv. fara yfirleitt troðnar slóðir, gamlar slóðir, og loka augunum fyrir ýmsum nýjum viðhorfum í sambandi við tryggingamál og nýjum vandamálum, sem menn hafa komið auga á, og sérstaklega finnst mér áberandi, hvað það er augljóst mál, að höfundar þessa frv. hafa lokað augunum fyrir ýmsu því, sem varðar hagsmuni gamals fólks, hinna öldruðu í landinu. Mér virðist, að hagsmunir aldraða fólksins séu metnir á mjög einsýnan hátt og einhliða í þessu frv. Það verður yfirleitt ekki séð, að vandamál aldraðra hafi verið skoðuð, því að tillitið til þeirra er hið sama og lengi hefur viðgengizt. Það er engin tilraun gerð til þess að sjá vandamál aldraða fólksins í nýju ljósi. Höfundar frv. virðast ekki hafa gert sér grein fyrir þeirri staðreynd, ég vil segja þeirri þjóðfélagslegu staðreynd, að ný tegund tekjumismunar upphefst í ellinni. Það má með nokkrum sanni segja, að það sé að myndast eins konar stéttaskipting í ellinni. Annars vegar eru þeir, sem tryggt hafa sér lífeyri úr sérstökum lífeyrissjóðum til viðbótar ellilífeyri almannatrygginganna, sem allir fá, og svo hins vegar þeir, sem verða að láta sér nægja hinn almenna ellilífeyri. Það má með sanni segja, að þarna sé um eins konar stéttaskiptingu að ræða, án þess að ég ætli nokkuð að ofnota þetta orð — stéttaskiptingu, sem í rauninni er kannske ekki ástæða til að gera of mikið úr að öðru leyti.

En nú munu e.t.v. ýmsir segja, að þetta sé ekki vandamál, a.m.k. sé þarna ekki um að ræða neitt ranglætismál, því að þeir, sem séu í lífeyrissjóði, séu hinir forsjálu menn, þeir hafi skapað sér aðstöðu með forsjálni sinni í samtökum sínum og auk þess hafi þeir greitt hluta af launum sínum í lífeyrissjóðinn. Þetta er út af fyrir sig rétt á margan hátt, en þó er þetta mjög hæpin kenning, ef nánar er skoðað. Sannleikurinn er sá, að það er eins mikið tilviljun og heppni eins og fyrirhyggja, sem ræður því, hvaða störf menn gera að ævistarfi eða í hvaða starfsstétt þjóðfélagsins menn lenda. Ég held, að það sé hvorki neinn mannamunur eða manndómsmunur, sem ræður því, oft og einatt. En hitt er augljóst, að það blasir við sem þjóðfélagslegt vandamál, að tekjumismunun á ellidögum á sér stað, og það er úr þessu, sem þarf að bæta, og það er um þetta, sem við þurfum að ræða; það er þetta mál, sem við þurfum að atbuga. Það þarf að líta á þetta sem sérstakt vandamál og finna leið til lausnar á því. Ég held, að tryggingalöggjöfin sé kjörinn vettvangur að þessu leyti til þess að bæta úr þessu, og úr þessu á að bæta með tryggingalöggjöfinni eða í gegnum hana. Það er a.m.k. lágmarkið, að einhver viðleitni sé sýnd til þess að draga úr þessum mun.

Þess vegna hefði ég talið eins og margir, sem hér hafa talað á undan mér, að það hefði þurft að gera alveg sérstakar breyt. á 11. og á 19. gr. frv., en 19. gr. er efnislega eins og gamla 21. gr. í núverandi lögum. 11. gr. þessa frv. fjallar um ellilífeyri, og hverjir eiga rétt til ellilífeyris. Ég sé ekki, að um neina grundvallarstefnubreytingu sé að ræða í þessari gr. Enn sem fyrr er miðað alfarið og algjörlega við aldur einstaklinga án þess að taka tillit til aðstæðna bótaþega. Enn er byggt á því gamla, þ.e. að líta á bótagreiðslur til aldraðra sem einstaklingslífeyri — raunar í öllum tilfellum. Það er að vísu talað um hjónalífeyri. En hvað er hjónalífeyrir? Hann er í raun og veru einstaklingslífeyrir tveggja persóna lagður saman og skertur um 10%. Það sést bezt á því, að ellilífeyririnn er í öllum tilvikum einstaklingslífeyrir, að hjón fá ekki hinn svokallaða hjónalífeyri fyrr en bæði hafa náð 67 ára aldri. Hann er bundinn við það, að bæði séu orðin 67 ára. En þessi regla, einmitt þessi regla, felur í sér vandamál miðað við okkar þjóðfélagshætti. Það vandamál stendur í sambandi við það fyrst og fremst, þegar hjón eru á misjöfnum aldri — þegar miseldri er með hjónum, og þá alveg sérstaklega, þegar þannig stendur á, að fyrirvinnan, sem yfirleitt er eiginmaðurinn hér í okkar þjóðfélagi enn sem komið er a.m.k., er talsvert miklu eldri og e.t.v. þrotinn að kröftum. Í þessu tilfelli er það oft þannig, að einu heimilistekjurnar eru einstaklingslífeyrir eiginmannsins. Hjónin fá ekki hjónalífeyri, af því að konan er ekki orðin 67 ára. Ég tel, að úr þessu misrétti eigi að bæta og það megi úr þessu bæta á mjög einfaldan hátt einfaldlega með því að greiða hjónunum fullan hjónalífeyri í þessu tilviki, þegar svona stendur á. Ég vildi í þessu sambandi minna á, að við, hv. þm. Jón Skaftason og ég, höfum flutt hér frv. til l. um kjarabætur aldraðra og þar er einmitt að finna ákvæði í þessa átt. Og ég vil einnig minna á, að meðal brtt., sem fram komu hjá minni hl. í Ed., er tillaga, sem gengur í þessa átt. Þessu vil ég leyfa mér að beina til hv. heilbr.- og félmn., sem kemur til með að athuga þetta mál, og vildi ég mælast til þess, að hv. n. tæki þetta atriði til sérstakrar athugunar — alveg sérstaklega.

Þá vil ég leyfa mér að minnast á 19. gr., sem að vísu er búið að ræða svo mikið hér áður, að það kann að verða endurtekning á því, sem ég hef að segja um það. En 19. gr. eins og 21. gr. gildandi l. fjallar um uppbætur á elli- og örorkulífeyri. Nú vil ég alls ekki neita því, að það sé gert ráð fyrir breyt. til bóta í þessari gr., eins og hún er nú. Það eru vissar endurbætur gerðar, en þessar endurbætur ná allt of skammt, og mér finnst, að höfuðgalli gr. sé eftir, og það er sá andi, sem svífur þar yfir vötnum. Þetta er sú gr. tryggingalöggjafarinnar, þar sem finna má hvað gleggst tengslin við ómannúðlega fortíð. Það er enn þá gert ráð fyrir þessu ráðslagi og þessu reiptogi á milli Tryggingastofnunarinnar og sveitarfélaganna um framkvæmd ákvæða gr. Það á enn þá að viðhalda skriffinnskunni í þessu máli og því ástandi, sem leiðir hreinlega til niðurlægingar fyrir það gamla fólk, sem neyðist til að leita kjarabóta eftir þessari leið, og tek ég undir það, sem aðrir hafa sagt um þetta atriði. Ég tel, að það hefði átt að gerbreyta þessari gr. — ekki sízt með tilliti til þess að leggja niður allt þetta ráðstefnuhald og allan reipdrátt milli Tryggingastofnunarinnar og sveitarfélaganna um umsóknir bótaþega um uppbætur á lífeyri og hreinlega hætta skiptingunni á milli ríkis og sveitarfélaga. Að sjálfsögðu á að setja um þetta skýrar reglur. Það á að setja um þetta skýrar og almennar reglur og fela Tryggingastofnuninni einni framkvæmd þeirra. Ég býst ekki við, að við, sem höfum mælt hér gegn 19. gr., eins og hún er nú, höfum neina löngun til að rýra vald sveitarstjórna; það er síður en svo. Ekki hef ég neina löngun til þess. En í þessu tilfelli tel ég það réttlætismál og raunar einnig hagkvæmnismál að létta þarna skyldukvöð af sveitarstjórnunum og setja nýjar reglur, sem miða að því að fella niður þessa skiptingu. Og ég vil eins og aðrir, sem hér hafa talað og gert þetta að umræðuefni, alveg sérstaklega beina þessu til hv. heilbr.- og félmn.

Herra forseti. Ég sagði hér í upphafi máls míns, að frv. væri í mörgu áfátt, og ég minnti á orð Alþýðumannsins á Akureyri, sem sagði réttilega, að þetta frv, væri ekki langtímalausn. Það er greinilegt, að það þarf að gera á þessu frv. margvíslegar breytingar, ef það á að vera viðunandi. Og það er hugsanlegt, að þn. geti breytt þessu frv. til bóta, enda er það vissulega hægt. Það er hægt að bæta úr ýmsum annmörkum frv., án þess að það hafi nein stóraukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð, því að útgjöld ríkissjóðs samkv. þessu frv. eru ekki ákaflega mikil. Heildarútgjaldahækkunin samkv. frv. er 500 millj. kr. Þessar 500 millj. kr. leggjast ekki á ríkissjóð einan. Ríkið tekur á sig 36% af þessu, um 180 millj. kr., sveitarfélögin verða að taka á sig 90 millj. kr. af þessu og atvinnurekendur 70, en bótaþegar sjálfir, hinir tryggðu, almenningur í landinu, tekur beinlínis á sig 160 millj. kr. eða um 32% af þessari upphæð, þannig að það er ekki verið að leggja hér neinar ofsalegar byrðar á ríkissjóð; það eru aðrir, sem bera meiri byrðar en ríkissjóður. Ég vil því benda á það, að ríkið getur tekið á sig stærri hlut í þessu máli, og það getur varið meira fé til þess að endurbæta tryggingakerfið.

Alþfl.-menn líta á tryggingamálin sem alveg sérstaka skrautfjöður í sínum hatti, a.m.k. litu þeir þannig á fyrr á árum, og fengu ýmsa til þess að trúa því. En tímarnir breytast. Alþfl. hefur farið með tryggingamálin allan þann langa tíma, sem núverandi valdasamsteypa hefur setið að völdum. Samt skilur Alþfl. þannig við tryggingamálin í lok langs valdaferils, að eitt af aðalmálgögnum flokksins kveður upp þann dóm yfir stefnu flokksins í tryggingamálum, að í henni felist engin langtímalausn.