05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

281. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Þegar mál þetta hafði verið afgr. við 1. umr. í hv. Ed. og vísað þar til heilbr.- og félmn. þeirrar d., var tekinn upp sá starfsháttur, að nm. úr heilbr.- og félmn. Nd. mættu einnig á tveimur fundum hjá n. Á þessum fundum voru mættir nokkrir af þeim aðilum, sem stóðu að samningu frv., og höfðu nm. allir aðstöðu til þess að leita upplýsinga um þau atriði, sem þeir töldu sig þurfa að fá frekari skýringar á, og þeim öllum voru veitt greið svör. Þegar málið hafði verið afgr. hér í þessari hv. d. við 1. umr., var n. áætlaður nokkuð þröngur tími til þess að afgreiða málið. Hún hélt um það tvo fundi, hafði kynnt sér þær breyt., sem á frv. höfðu verið gerðar í meðferð þess í hv. Ed., og gerði smávægilegar breyt. við það, sem fluttar eru af meiri hl. heilbr.- og félmn., en ég hygg, að minnihlutamenn í n. muni einnig geta greitt þeim till. atkvæði.

Efni þessa frv. hefur verið ítarlega rakið hér í þessari hv. d., og tel ég mig ekki þurfa að hafa langa framsöguræðu um það, þó að vissulega sé hér um stórmál að ræða, en aðalbreytingarnar eru yfirleitt hækkanir til þeirra, sem bætur fá frá almannatryggingum. Hækkunin er mest á barnalífeyri, 40%, en 20% á elli- og örorkulífeyri, og verður að telja, að það sé vel farið, að slík hækkun skuli vera gerð hér á þessum liðum. Aðstæður þeirra, sem komnir eru á þann aldur, að þeir fái ellilaun, eru mjög misjafnar hér á landi. Nokkur — og allstór — hópur nýtur eftirlaunaréttinda frá þeim lífeyrissjóði, sem þeir hafa í starfi sínu greitt til, og margir þeirra eru þar af leiðandi mun betur settir en þeir, sem aldrei hafa greitt í neinn lífeyrissjóð og eiga þess vegna ekki rétt á bótum úr neinum lífeyrissjóði. Sem betur fer mun þeim fara ört fjölgandi á næstu árum, sem ekki þurfa að einskorða sig við almannatryggingarnar, heldur munu fá lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum, og munar þar að sjálfsögðu mest um, þegar til kemur sú breyt., sem gerð var með stofnun þeirra lífeyrissjóða, sem lögleiddir voru hér á síðasta þingi. Sú hækkun, sem hér er lögð til, og nemur rúmlega 20%, eins og ég gat um áðan, er nokkurt skref í þá átt að jafna þar á milli þessara aðila, sem þar um ræðir og sem hafa, eins og ég sagði, mjög mismunandi aðstöðu í sambandi við greiðslur úr lífeyrissjóði og elli- eða örorkulaun.

Skipulagsbreyting er ein veruleg í frv., eins og það var lagt fram í fyrstu, en það kemur fram í 37. gr. þess, þar sem gert er ráð fyrir, að hin fjölmörgu sjúkrasamlög víðs vegar um landið verði lögð niður og stofnað aftur til stærri eininga í kaupstöðum og sýslum. Á þessari gr. var gerð breyt. í hv. Ed., þannig að það var samþ. þar, að leitað skyldi umsagna allra sjúkrasamlaga, áður en þessi breyt. tæki gildi. Um þetta varð nokkur ágreiningur, og málið var tekið til endurskoðunar hjá heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar.

Eins og ég gat um í upphafi, þá flytur meiri hl. n. tvær brtt. við frv. Hin fyrri er við 72. gr. frv., en þar er um leiðréttingu að ræða, sem þarf að gera, þar sem nýlega er búið að samþykkja hér á Alþ. breyt. á l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, og í þeim l. er gert ráð fyrir, að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða meðlög allt að 6 mánuði aftur í tímann, ef barnsmóðir hefur ekki gert kröfu um það áður, en í frv., eins og það kom frá hv. Ed., var aðeins gert ráð fyrir, að Tryggingastofnuninni væri skylt að greiða 3 mánuði aftur í tímann.

Önnur brtt., sem n. flytur og er einnig á þskj. 784, er um afstöðu hinna smærri sjúkrasamlaga. Eins og ég gat um, þá gerði hv. Ed. þá breyt. á 37. gr., að það skyldi leitað álits allra sjúkrasamlaga í landinu á því, hvort þau vildu starfa áfram við óbreytt fyrirkomulag eða falla inn í stærri einingar. Brtt., sem flutt er af meiri hl. heilbr.- og félmn., er ekki efnisleg röskun á þessari afstöðu, heldur er því snúið þannig við, að þau sveitarfélög, sem þess óska, eiga þess kost að starfrækja sjúkrasamlög áfram með óbreyttu fyrirkomulagi, ef þau uppfylla viss skilyrði, eins og tilgreint er í brtt. Þetta er mun umfangsminna í framkvæmd, en ætti að koma þeim sveitarfélögum að fullum notum, sem ekki óska þess í bili að falla inn í stærri einingar. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort hér sé stigið of stórt skref í einu, þ.e. að ætla að leggja niður öll hin smærri sjúkrasamlög. Án efa kemur það til með að þróast í þá átt, að svo verði. Ég hygg, að menn séu almennt þeirrar skoðunar, en hins vegar er þarna um það stórfellda röskun að ræða, að vart verður talið forsvaranlegt að gera þetta án samráðs við sveitarfélögin. Í b- og c-liðum brtt. er nánast um orðalagsbreytingar á upphafi viðkomandi gr. að ræða til samræmis við þær aðstæður, sem verða, ef einhver af hinum smærri sjúkrasamlögum koma til með að starfa áfram. Í d-lið er lagt til, að 5. tölul. verði bætt við ákvæði til bráðabirgða, og hljóðar hann þannig: „Stjórnir sjúkrasamlaga, sbr. 38. gr., skulu skipaðar eigi síðar en 1. júlí 1972.“

N. barst bréf frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem lætur í ljós óánægju sína yfir því, að ekki skyldi hafa verið haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, þegar frv. var samið. Ég tel, að þarna hafi verið um hrein mistök að ræða, því að vissulega eru tryggingarnar það snar þáttur í sambandi við rekstur sveitarfélaga, að það hefði mjög gjarnan mátt hafa einn fulltrúa frá þeim í þeirri n., sem undirbjó þetta mál og samdi frv. Það hefði kannske orðið til þess, að ekki hefði þurft að fara að gera þær breyt. á frv., sem hafa verið gerðar á frv. og lagt er til hér í brtt. meiri hl., að gerðar verði. Ég mundi telja mjög eðlilegt, að Samband ísl. sveitarfélaga fengi aðstöðu í tryggingaráði, þannig að fulltrúi frá sambandinu ætti sæti í tryggingaráði. Ég ræddi þetta við hæstv. heilbrmrh., sem kannaði málið, en samkomulag varð um það að flytja ekki að þessu sinni brtt. í þessa átt, því að l. eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót, og gefst þá tækifæri til þess á þinginu í haust að koma fram með breyt. við frv. í þessa átt, ef það þykir tiltækilegt og rétt. Eins og 5. gr. frv. gerir ráð fyrir, þá ber að kjósa tryggingaráð í Sþ. með hlutfallskosningu, en ég var með hugmynd um það, að tveir þeirra 5 manna, sem þar er gert ráð fyrir að kjósa í tryggingaráð, yrðu tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga. En eins og ég sagði, þá varð samkomulag um það að flytja ekki nú brtt. um þetta, því að ef um það yrði ágreiningur, þá gæti það stofnað málinu í hættu, þannig að það yrði þá ekki öruggt, að það næði að verða að l. á þessu þingi, sem ég tel alveg nauðsynlegt.

N. sem slík hefur ekki tekið afstöðu til þeirra brtt., sem fram hafa komið. Þær komu fram, eftir að hún hélt sinn seinni fund um málið, en það eru till. mjög svipaðs eðlis og fram komu í hv. Ed., og það er sameiginlegt með þeim og þeirri till., sem ég var að lýsa og hafði í huga að flytja, að það verður aðstaða til þess að koma við breyt. á þessu máli á þinginu í haust fyrir þá, sem þangað kunna að eiga afturkvæmt, ef þeir hafa hug á því.

Till. frá minni hl. n. eru flestar í þá átt að hækka ýmsa útgjaldaliði og einnig að láta þetta taka fyrr gildi en gert er ráð fyrir í frv. Það er að sjálfsögðu mjög gott að flytja till. um hækkuð útgjöld, en auðvitað verður að sjá fyrir fjármagni í sambandi við aukin útgjöld, ef slíkar breyt. yrðu gerðar á frv., því að þarna er um stórar upphæðir að ræða, eins og í ljós mundi koma, ef umreiknað væri miðað við þær hækkanir, sem minni hl. leggur til, að gerðar verði.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, eins og fram kemur í áliti meiri hl. heilbr.- og félmn., að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim tilteknu breyt., sem fram koma á þskj. 784.