05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

281. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, minni hl. í heilbr.- og félmn. Nd. að flytja hér brtt., sem er þannig: „Við 80. gr. Upphaf gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. sept. 1971.“ Eftir að búið er að fella þær brtt., sem n. lagði hér fyrir hv. d., og sérstaklega þetta atriði að fella það, að l. tækju gildi 1. júlí, þá viljum við enn freista þess að koma fram með till. þess efnis, að l. taki gildi í síðasta lagi 1. sept. Eins og hv. þdm. vita, þá er reiknað með því, að það verði nú einhver breyting á 1. sept. Þessu verðstöðvunartímabili lýkur þá, og allt er í óvissu um, hvað við tekur. A.m.k. er það í óvissu í dag. Við teljum það ekki vera eðlilegt, ef þessi lög taka ekki gildi fyrr en um áramót, og gamla fólkið og öryrkjarnir fyrst og fremst verða að bíða eftir hækkunum út árið. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að flytja hér langt mál um þessa brtt. Það er búið að ræða þetta mál hér í hv. d. það mikið, en ég vænti þess, að hv. dm., sérstaklega þeir, sem styðja hæstv. ríkisstj., hugsi nú sitt ráð og athugi það, hvort þeir geti ekki verið með okkur í því að samþykkja þessa till.