14.12.1970
Efri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

10. mál, Landsvirkjun

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það, sem þetta frv. felur í sér, eru auknar heimildir til virkjana á Þjórsársvæðinu, nánar tiltekið í Tungnaá, og tilheyrandi aukning á framlagi ríkissjóðs og ábyrgðarheimildum ríkissjóðs, ásamt venjulegum ákvæðum um eftirgjöf tolla. Iðnn. hefur, eins og frsm. hefur gert grein fyrir, einróma mælt með frv. og þær aths. mínar, sem ég nú ætla að gera, lúta ekki að þessum efnisatriðum frv. Það kallar nú þegar að að ákveða nýja virkjun, því að sú raforka, sem fyrir hendi er verður fullnotuð væntanlega eftir 4–5 ár, svo að aðeins með tilliti til innlenda markaðsins er eðlilegt, að farið sé nú þegar að huga að nýjum framkvæmdum. Að vísu skortir markað fyrir orkuna alla, sem úr annarri hvorri þeirri virkjun, sem hér er heimiluð, fæst. En hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir því, að unnið sé að því að auka markaðinn, og það má þess vegna gera ráð fyrir því, að í kjölfar þessa frv. fylgi á sínum tíma annað, sem yrði þá væntanlega, ef sú leið yrði farin, sem gefin hefur verið til kynna, áð raforkukaupandi yrði orkufrekur iðnaður á vegum erlendra, þá má gera ráð fyrir því, að það komi svo til meðferðar hér á sínum tíma í Alþ., og verður þá að sjálfsögðu tekin afstaða til þess, eftir því sem efni standa til, og þegar þar að kemur.

Þær aths., sem ég ætla að gera hér, lúta hins vegar að stofnuninni Landsvirkjun, fyrirtækinu Landsvirkjun. Vorið 1965, þegar landsvirkjunarlögin voru til meðferðar hér í þessari hv. deild, átti ég sæti í fjhn. deildarinnar, sem hafði frv. til meðferðar. Þá skilaði ég minnihlutaáliti um frv. ásamt félaga mínum í fjhn. d., Karli Kristjánssyni, þar sem við lögðum sérstaka áherzlu á það, að nauðsynlegt væri, að Landsvirkjun yrði raunveruleg landsvirkjun á borði eins og í orði, og í nál. okkar, — við fluttum nokkrar brtt., sem lutu að þessu, og í nál. okkar sem birt var á þskj. 708 það ár, þá sagði m.a., að um það hefði ekki náðst samkomulag við meiri hl. í fjhn. og: „Flytjum við því brtt. á sérstöku þskj., sem miða að því að styrkja þá stefnu, að Landsvirkjun nái sem fyrst til landsins alls og jafni aðstöðu í þessum efnum“. Við lögðum áherzlu á það sem sagt, að Landsvirkjun gæti þjónað landinu öllu, og þá um leið hitt, að landsmenn allir að jöfnu ættu þetta fyrirtæki, þetta veigamikla fyrirtæki, sem gert var ráð fyrir, að léti þeim í té svo mikilvæga þjónustu.

Eins og hv. þm. er öllum kunnugt, þá eru ríkið og Reykjavíkurborg helmingsaðilar að Landsvirkjun og okkur er sjálfsagt öllum ljóst, hvernig það er til komið, nefnilega þannig, að Reykjavíkurborg var á sínum tíma eigandi Sogsvirkjunarinnar, — fyrst ein og síðan að hluta með ríkinu, — sem varð uppistaðan í Landsvirkjun. En hins vegar kom í ljós, þegar landsvirkjunarfrv. var til umr., að það var nokkuð almennur skilningur á því, að æskilegt væri, að landsmenn allir ættu hliðstæða aðild að þessu fyrirtæki, a.m.k. þegar svo væri komið, að það væri farið að þjóna landinu öllu eða miklum hluta þess. Þetta virðist einnig hafa vakað fyrir mönnum í upphafi, því að í landsvirkjunarlögunum eru ákvæði um það, að Laxárvirkjun geti sameinazt Landsvirkjun, og eru sérstök ákvæði þar að lútandi í l. eins og mönnum er kunnugt. hinn bóginn, ef litið er hér til nágrennis Reykjavíkur, þá á Hafnarfjarðarkaupstaður t.d., þar sem raforkunotkun frá Landsvirkjun er líklega meiri heldur en í Reykjavík, þegar með er talinn sá stóri viðskiptamaður, sem þar er, enga aðild að Landsvirkjun og heldur ekki Sunnlendingar og þeirra sveitarfélög, sem eru þó miklir notendur orku frá Landsvirkjun. Mér virðist, að sú jöfnun, sem hér þyrfti að fara fram og sem hér væri æskilegt að færi fram, verði þeim mun torveldari sem lengra líður og meiri eignir safnast á hendur þessarar stofnunar. Og núna þegar nýr áfangi er stiginn í þessu efni, þá vildi ég ekki láta hjá líða að rifja þetta upp og leggja enn áherzlu á þá skoðun, að Landsvirkjun eigi að þjóna landsmönnum öllum og stefna eigi að því, að landsmenn allir eigi sömu aðild að þessu fyrirtæki. Nú er hæstv. forsrh. ekki hér í deildinni og ég skal því sleppa því að setja hér fram nokkrar spurningar, sem ég hefði sett fram í þessu sambandi, ef hann hefði verið hér, en ég vil undirstrika það og leggja áherzlu á það, að að þessu verður að huga og það fyrr en seinna. Það verður að ákveða, hvert stefna skuli í þessum málum. Á að stefna að því að gefa öðrum sveitarfélögum kost á að gerast aðilar að Landsvirkjun eða á kannske að stefna að því að auka hlut ríkisins í Landsvirkjun smátt og smátt og jafna út með þeim hætti? Í þessu efni eru ýmsar leiðir, en mér virðist, að það sé nauðsynlegt að marka stefnuna í þessum málum og vinna að því, að hún megi komast til framkvæmda áður en langt um líður.

Það er svo að lokum eitt atriði, sem ég vildi nefna, og ég vildi þá benda hæstv. fjmrh. á fyrst hæstv. forsrh. er nú ekki hér, en það er í sambandi við 1. gr. frv. Í n. spurðumst við fyrir um það, hvernig þessi vatnsréttindi, sem þar er gert ráð fyrir að ríkið afhendi Landsvirkjun, yrðu metin sem framlag af ríkisins hálfu, en við því fengum við ekki svör, en við hljótum þó að gera ráð fyrir því, að það verði gert með sama hætti og gert var við stofnun Landsvirkjunar, þegar ríkið lagði fram vatnsréttindi, sem metin voru á rúmar 40 millj. kr., til Landsvirkjunar.