15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

10. mál, Landsvirkjun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það má nú vera, að það hafi ekki verið nauðsynlegt fyrir mig að kveðja mér hljóðs, þar sem mér skilst, að hæstv. ráðh. hafi þegar fallizt á það, að málið verði ekki afgreitt fyrir jól. En ég ætlaði einmitt að beina til hans þeim tilmælum, sams konar og hv. 6. þm. Reykv., að ekki yrði lögð slík áherzla á að hraða frv. Málið er alveg nýkomið hingað til þessarar hv. d. og menn hafa ekki haft ráðrúm til þess að íhuga það. Það er að vísu alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefur legið lengi fyrir hv. Ed., en í seinni tíð hefur þessi hv. d. haft allmikil verkefni og varla þess að vænta, að hún hafi getað sinnt slíkum málum sem þessum í annarri deild og því verður ekki neitað, að hér er um mikið stórmál að ræða, e.t.v. eitt stærsta málið, sem liggur fyrir þessu þingi.

Manni gæti jafnvel dottið í hug að komast svo að orði og vonandi er það ekki talið neitt guðlast, þótt einhver láti sér það um munn fara, að svo virtist sem vegir Landsvirkjunarstjórnarinnar séu órannsakanlegir líkt og segir um vegi drottins í hinni helgu bók. Á síðasta þingi var þess farið á leit við Alþ., að aflað yrði markaðar fyrir orku, sem Landsvirkjun taldi sig hafa afgangs. Hún vildi fá leyfi til þess að semja um slíkan markað. Alþ. varð við þessari beiðni og var þá samið um markað fyrir, ef ég man rétt, 20 þús. kw frá Landsvirkjun. Á næsta þingi kemur svo till. um stórfelldar viðbótarvirkjanir eða heimild til stórfelldra viðbótarvirkjana og það er ekki of mælt að komast svo að orði, því að eins og ég sagði í gær, í umr. um skylt mál, þá eru þær virkjanir, sem framkvæmdar yrðu, ef heimildir þessa frv. yrðu notaðar, mun stærri en Sogsvirkjunin og Búrfellsvirkjunin fullgerð samtals. Og auðvitað er það von, að menn spyrji: Til hvers á að nota allt þetta afl? Hlýtur það ekki í raun og veru að vera svo, að það vaki fyrir mönnum einhver ákveðin notkun þessa mikla afls um það leyti, sem farið er fram á slíkar heimildir sem þessar? Um þetta eru að vísu gefnar nokkrar bendingar í grg. frv., þar sem segir: „Er því nauðsynlegt að hefjast þegar handa í þessu efni, ef haldið skal þeirri stefnu í orku- og iðjumálum, er mörkuð var með virkjuninni við Búrfell og byggingu álbræðslunnar í Straumsvík“ o.s.frv. Og í lok grg. er rætt um, að nú þurfi viðræður við hugsanlega lánveitendur í sambandi við notkun heimildanna og hið sama gildi um viðræður við hugsanlega kaupendur orkunnar frá þeim. Og síðan segir, að málið hafi þegar verið kynnt að nokkru í báðar áttir. En nánari upplýsingar eru ekki fyrir hendi um þetta.

Nú er það svo, að ég hef verið hlynntur því, að þessi þjóð reyndi að nota sér á einhvern hátt þann náttúruauð, sem fólginn er í fallvötnum landsins. En ég hef alltaf jafnframt verið þeirrar skoðunar, að ef þessi náttúruauður væri notaður, þá ætti að framkvæma virkjanirnar m.a. á þann hátt, að þær stuðluðu að því að efla jafnvægið á milli landshlutanna. Mig minnir, að þegar rætt var um þessi mál fyrir 4–5 árum, þá væri ekki gert ráð fyrir því af þeim, sem þá mæltu fyrir stórvirkjun og álverksmiðju, að framhaldið yrði hér á Suðvesturlandi, heldur kæmi fullt eins vel til greina, að virkjað yrði annars staðar á landinu og þá sérstaklega á Norðurlandi, þar sem eru mjög mikil skilyrði til stórra vatnsvirkjana. En nú er verið að biðja um heimildir til áframhaldandi virkjana í stórum stíl á Þjórsársvæðinu. Það er gert ráð fyrir miklum stíflugörðum og uppistöðum þar uppi í óbyggðum, stækkun Þórisvatns um helming, að mér skilst, í sambandi við Hrauneyjafossvirkjun hefur verið gert ráð fyrir 2500 m langri jarðstíflu og við Sigöldu 760 m langrí jarðstíflu og stífluhæð allt að 46 m. Ég hef orðið var við það hjá sumum hv. dm., sem eiga sæti í þeirri n., sem væntanlega fær þetta til meðferðar, að þeir hafa hug á því að sjá þessa staði, þar sem gert er ráð fyrir þessum miklu framkvæmdum. Ýmsir eru það nú, sem því miður ekki hafa komið þarna inn á hálendið, og eitt af því, sem mælir með því að fresta málinu, sem hæstv. ráðh. getur nú fallizt á, er það, að þá gæti það átt sér stað, að menn gætu af eigin raun, þeir, sem eiga að gera till. til d. um þetta efni, kynnt sér, hvernig landslagi er háttað og náttúrufari á þessu svæði, þar sem þessar miklu framkvæmdir eiga að gerast.

Það er ekki ætlun mín með þessum fáu orðum nú við 1. umr. að fara að lýsa afstöðu til frv. eða boða einhverjar sérstakar brtt. við það, en samt er það eitt atriði, sem ég gjarnan vildi bera í tal og væri þá vel, ef hæstv. ráðh. sæi sér fært að láta í ljósi einhverja skoðun á því, þó að ég sé nú ekki beinlínis að fara fram á það, að hann geri það nú, en það er það, hvort ekki sé ástæða til þess, þegar talað er um að auka framkvæmdir Landsvirkjunar og gera hana að slíku risafyrirtæki, sem þetta frv. fer fram á eða gerir ráð fyrir, hvort ekki sé þá ástæða til þess að endurskoða skipulag þessa fyrirtækis, sem heitir Landsvirkjun, þannig að það bæri nafn með rentu og væri með sanni fyrirtæki landsins og landsmanna allra jafnt. Svo er ekki, eins og landsvirkjunarlögin eru nú, en þegar svona ráðagerðir eru á ferðinni, þá verður ekki hjá því komizt, að hugleiða það, hvort þetta væri ekki leið til þess að gera skipulagið eðlilegra að þessu leyti.

Ég hef orðið þess var, að ýmsir menn, sem ekki eru þessum málum kunnugir og þekkja ekki l. um Landsvirkjun til hlítar, álíta að þetta fyrirtæki sé ríkiseign, en það er það ekki. Nú skal ég ekki segja um það á þessu stigi málsins, hvort ætti að stefna að því, að fyrirtækið yrði ríkiseign, en hitt finnst mér að komi mjög til álita, að það yrði, eins og ég orðaði það áðan, í reynd Landsvirkjun, fyrirtæki allra landsmanna jafnt.