23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar. Frv. er flutt til þess að afla lagaheimildar um byggingu nýrra virkjana. Gera má ráð fyrir, að Búrfellsvirkjunin verði að fullu nýtt frá árinu 1974 eða fljótlega eftir það. Unnið hefur verið að margvíslegum undirbúningi og áætlunargerð um nýjar virkjanir, og er fyllilega tímabært að fara að ganga frá lokaundirbúningi og tryggja fé til framkvæmdanna.

Landsvirkjun telur heppilegast, að næstu stórvirkjanir verði í Tungnaá við Sigöldu eða Hrauneyjafoss. Miðlunarmannvirki þau, sem nú er unnið að við Þórisvatn, eru sameiginleg fyrir þessar virkjanir og Búrfellsvirkjun og er því um hagkvæma heild að ræða. Gert er ráð fyrir, að virkjanirnar við Sigöldu og Hrauneyjafoss verði svipaðar að stærð eða með allt að 170 MW vélarafli hvor. Kostnaður er líka áætlaður svipaður eða um 2400 millj. kr. hvor að meðtalinni aðalorkuveitu. Er þá reiknað með vöxtum á byggingartíma, en ekki aðflutningsgjöldum. Ekki er enn fyllilega ákveðið, hvor þessara virkjana verður fyrir valinu, að byrjað verði á, enda er hagkvæmnin svipuð miðað við þær áætlanir, sem nú liggja fyrir. Með frv. er lagt til, að þegar verði veitt heimild fyrir byggingu beggja þessara nýju virkjana og hún felld inn í gildandi lög um Landsvirkjun. Jafnframt verði núverandi heimild um lántöku og ríkisábyrgð í 15. gr. l. og höfuðstólsframlag ríkissjóðs í 5. gr. l. aukin að því marki, sem gert er ráð fyrir, að nægi til fjármögnunar á undirbúningi beggja virkjananna og byggingu annarrar þeirrar, þeirrar, sem fyrr verður ráðizt í, svo og að það nægi fyrir miðlunarmannvirkjum við Þórisvatn og lúkningar á Búrfellsvirkjun.

Herra forseti. Meiri hl. n. eða nm. allir að undanskildum hv. 1. þm. Norðurl. e. leggja til, að frv. verði samþ., en hann skilar séráliti. Tveir nm. hafa þó skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.