23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

10. mál, Landsvirkjun

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þetta verða nú aðeins örfá orð, sem ég legg hér í belg um þetta mál. Það er ekki ofmælt, að hér sé um mikið stórmál að ræða. Það, sem er um að ræða, er að virkja þessi miklu vatnsföll inn á hálendinu, Tungnaá, bæði við Hrauneyjafoss og einnig við Sigöldu. Og mannvirkin, sem verið er að vinna að og hefur verið unnið að þarna og verður unnið að, eru þau stórkostlegustu, sem enn þá hafa verið gerð hér á landi. Ég hef komið þarna og séð vinnubrögðin og séð, að þarna er um að ræða gífurleg mannvirki, óskaplega miklar jarðstíflur, sem verða gerðar þarna uppi á hálendinu. Langir og háir garðar byggðir til þess að byggja vatnsgeyma á þessum svæðum. Það er um það rætt nokkuð að auka þar við og leggja Þjórsárverin undir vatn að mestu eða öllu leyti, og í þessu frv. eru, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, heimildir til að gera þetta, að leggja Þjórsárverin undir vatn.

Ég álít, að þarna sé of langt gengið í þessu frv. og ég vil taka mjög undir orð hv. 6. þm. Reykv. um það, að ríkisstj. ætti að hafa sjálf forgöngu um það að draga úr þessari heimild í frv. Hún hlýtur að geta aflað sér síðar heimilda til þess að vinna þarna þau verk, sem álítast nauðsynleg, ef rannsóknir benda til þess, að slíkt sé eðlilegt að gera. Nú munu eiga að fara fram víðtækar rannsóknir á Þjórsárverum. Vísindamenn munu vera nú þegar að hefja undirbúning að slíkum rannsóknum og mér sýnist, að það sé engin þörf á því að hafa heimildir um þetta í l. nú þegar. Við, sem búum í Árnessýslu milli Þjórsár og Hvítár, okkur er ekki alveg nákvæmlega sama um það, hvernig fer um Þjórsárver. Við teljum nú, að við eigum mikilla réttinda og hagsmuna að gæta á þessu svæði. Þetta eru afréttarlönd Gnúpverja, Flóamanna og Skeiðamanna, sem þarna eru í húfi. Þarna hafa gengið stundum á 2. þúsund fjár í högum yfir sumarið og þarna er betra haglendi heldur en nokkurs staðar annars staðar er til á sunnlenzkum afréttum. Þarna eru þúsundir hektara af grónu landi, sem er vaxið stargresi og alls konar laufi, sem sauðfé þykir mjög gott til beitar. Og þetta eru verðmæti, sem við teljum, að séu allmikils virði fyrir búskap bændanna á þessu svæði, en verði þetta land sett undir vatn, þá eru þessi verðmæti úr sögunni fyrir okkur.

En það er ekki nóg með það, heldur yrði líka mikil náttúrufegurð á þessum slóðum eyðilögð, og gæsabyggðin, sem þarna er, er vitanlega þá úr sögunni. Nú er okkur að vísu ekkert sérstaklega hlýtt til gæsarinnar þarna, bændunum á Suðurlandi. En ég held, að við séum samt þeirrar skoðunar eða ég hef ekki heyrt menn hafa neina aðra skoðun á því en þá, að það beri að varðveita öll sérkenni íslenzkrar náttúru, hvar sem er á landinu, hvort heldur er í óbyggðum eða í byggðum. Og slík verðmæti megi ekki eyðileggja, það verði a.m.k. að vera mikið í húfi til þess að slíkt megi gera.

Nú eiga, eins og ég sagði áðan, að fara fram rannsóknir á þessu svæði og það er álitið, að þær muni verða að standa í nokkuð mörg ár. Mér fyndist því, eins og hv. 6. þm. Reykv., eðlilegast, að heimildir til þessara framkvæmda í sambandi við virkjanirnar á þessum svæðum væru numdar úr frv., en ég stóð aðallega upp til þess að mæla með því og mæla yfirleitt með till. þeim, sem hann og hv. þm. Lúðvík Jósefsson flytja. Ég er algerlega sama sinnis t.d. um það, að við eigum að taka raforkuna í þjónustu húsahitunarinnar í staðinn fyrir olíuna. Það eru gífurleg verðmæti, sem við verðum að láta í gjaldeyri úr landi okkar og sem við hefðum þörf fyrir til annarra hluta en til þess að borga með alla þessa olíu, sem við hitum okkar híbýli með. Ég álít einmitt, að við eigum að nota þessi miklu fallvötn, sem við höfum og þar sem hægt er að nota jarðhita einnig, við eigum að nota þessar auðlindir landsins til þess að hita híbýli okkar með, en flytja ekki inn olíu. Og ég er hv. 6. þm. Reykv. sammála um það, að sú orka, sem fæst með þessum virkjunum, á einmitt að koma að gagni á þessu sviði fyrst og fremst.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta, en ég vildi láta þetta koma fram í sambandi við umr. um þetta mál.