02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

10. mál, Landsvirkjun

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að eins og fram kemur við afgreiðslu hv. iðnn. á þessu máli þá hefur hún klofnað og minni hl. lagt fram allítarlegt nál., og án þess að fara verulega út í það, þá vil ég þó segja það við þessa umr., að ég er algerlega andvígur þeirri stefnuyfirlýsingu, sem fram kemur í þessu nál. En það er í stuttu máli um það, að Landsvirkjun verði færð norður yfir fjöll. Það segir hér, með leyfi forseta, í lok nál.: „Með brtt. þeim á þskj. 323, sem minni hl. mælir með, er stefnt að frambúðarlausn virkjunarmála norðanlands og sunnan og raunar landsins í heild, og að jafnrétti landsmanna á sviði raforkumála.“ Ég vildi láta það koma fram við þessa umr., að ég hef algerlega gagnstæða skoðun við það, sem hér er haldið fram, svo sem raunar hefur nú betur komið fram, m.a. í þeirri þáltill., sem lögð var fram hér í gær af allmörgum þm. hv. d. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé einmitt mjög mikilvægt og m.a. til jafnvægis í þessum málum, að það séu rekstrar- og ábyrgðareiningar eftir landssvæðum og mörkum, það verði hagfelldast og raunar sé það strjálbýlinu nauðsyn.

Ég vil enn fremur aðeins víkja að einu atriði í lagafrv. sjálfu, og vil vekja sérstaka athygli á því. Eins og mönnum er kunnugt, er því mjög haldið á lofti, að í raforkumálunum sé það fyrst og fremst markaðurinn, það sé hann, sem valdi mestu og hafi þar af leiðandi mestan rétt. Nú skal ég ekki draga úr því, að auðvitað er það mikilvægt að hafa nægan markað, en ég vil þó jafnframt minna á það, að það er ekki nema annar þáttur þessara mála, hinn er vatnsorkan og hvernig er að afla hennar. Og í raun og veru er þetta undirstrikað í þessu frv. og það var nú m.a. það, sem ég vildi vekja athygli á, — þar sem segir, með leyfi forseta, í síðustu málsgrein 3. gr.: „Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna samkvæmt 1. málsgr., sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra á hverjum tíma.“ Þetta er alveg rétt, en þetta er líka staðfesting á því, að þó markaðurinn sé mikilvægur, þá er það líka mikilvægt, að aðstaðan til þess að afla þessarar orku, aðstaðan í vatnsföllunum sé góð, og ég vek athygli á þessu vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, að þarna sé um þjóðareign að ræða, þjóðareign, sem allir íbúar landsins, hvar sem þeir eru, hljóta að eiga rétt til að njóta að nokkru leyti. Og þar með er ég að komast að því, sem ég vildi sérstaklega láta koma hér fram, að ég tel eðlilegt þess vegna, að það sé nokkurt gjald lagt á orkuöflunina, sem síðan sé varið til þess að jafna aðstöðu landsmanna til þess að nota sér þessi mikilvægu gæði. M.a. er það nú þegar að nokkru leyti komið til framkvæmda í gegnum verðjöfnunargjald, sem rennur í Orkusjóð, en er þó eins og stendur varið til þess að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. Ég vil aðeins með þessum orðum undirstrika þetta, að ég viðurkenni fyllilega gildi markaðarins í raforkumálunum, en hinu megum við heldur ekki gleyma, að það er ekki nema annar þátturinn, hitt er aðstaðan til þess að afla þessarar orku og framleiða hana, skilyrðin í vatnsföllunum og orkan í þeim.

Þá vil ég enn fremur aðeins láta það hér í ljós, að það liggur hér fyrir brtt. frá hv. 6. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf., að ég held, og 4. liður hennar hljóðar á þá leið, að ráðast í áætlanir og framkvæmdir til þess að tryggja það, að sem mest af orkunni frá hinum nýju stórvirkjunum verði notað til hitunar húsa. Það kom fram hér hjá frsm. hv. n., að n. hafði ekki tekið að neinu leyti afstöðu til þessarar till., enda þótt hún lægi þá fyrir. Ég verð að segja það fyrir mig, að ég hefði talið, það heldur til bóta, að þetta ákvæði hefði verið tekið inn í gr. Ég minni á það, að það hefur af hálfu þessarar hv. d. verið afgreidd þáltill. einmitt í þessa átt, að leggja áherzlu á aukna húsahitun, enda dylst það engum, að við eigum þar, a.m.k. þegar miðað er við landið í heild, mjög mikinn markað ónotaðan.

Ég vil svo segja það að lokum út af till., sem hér er nýlega fram komin, ásamt með brtt. frá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, að ég er mjög fylgjandi þeirri breyt. og að sjálfsögðu er það, sem fyrir tilllögu-mönnum hefur vakað, það sem frekar er áréttað í till. hv. þm. Geirs Hallgrímssonar. En aðalatriðið er það, sem ég vildi sérstaklega undirstrika einmitt við þessa umr., það er þetta, að jafnframt því sem við viðurkennum mikilvægi markaðsins þá gleymum við ekki hinu, hversu mikilvægt er að hafa vatnsföllin og þessi stóru vatnsföll, sem jöklar okkar fóðra, þau eru tvímælalaust þjóðareign, sem allir landsmenn eiga rétt til að njóta nokkurs af, jafnvel þó þeir geti kannske ekki orðið notendur orkunnar beint.