03.04.1971
Neðri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm, minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hygg, að hv. frsm. meiri hl. iðnn. sé ekki á þessum tíma viðstaddur hér í d., en út af því, sem hér hefur verið sagt um það, að iðnn. hefði átt að afla upplýsinga um markaðsmöguleika fyrir raforku frá stórvirkjun, þá vil ég taka fram, að forystumenn Landsvirkjunar, formaður virkjunarstjórnarinnar, Jóhannes Nordal, og framkvæmdastjóri, Eiríkur Briem, komu á fund til n. að ég ætla tvisvar sinnum, voru spurðir um ýmislegt í þessu sambandi og þá m.a. um það, hvort búið væri að afla markaða fyrir þessa orku, sem samkv. frv. væri verið að veita heimild til að framleiða. Og ég a.m.k. skildi svör þeirra þannig, að það lægi ekki fyrir nein vissa um það, að markaður fengist fyrir þessa orku frá þessum tveimur Tungnaárvirkjunum, sem hér er um að ræða og samtals eru 340 þús. kw. Ég held, að frá þessum mönnum hafi aðeins komið hugleiðingar um þessi efni svipaðar eins og komu hjá hæstv. ráðh. hér áðan, og ég lit svo á, að þessi markaður sé eins og sakir standa ekki fyrir hendi. Hins vegar hefur það verið sagt, að það yrði að sjálfsögðu unnið að því að afla slíks markaðar og talið, af forráðamönnum virkjunarinnar skilst mér, að til þess að gera slíkar eftirgrennslanir sé æskilegt að hafa slíkar heimildir, sem í frv. felast. Það er einmitt í sambandi við þetta, að ekki hefur verið tryggður markaður fyrir svo mikla orku, sem till. komu fram snemma á þingi, fyrst á þskj. 285 um það, að ráðizt yrði í áætlanir og framkvæmdir til að tryggja það, að sem mest af orkunni frá hinum nýju stórvirkjunum verði notað til hitunar húsa, og einnig er í þessari tillögu ákvæði um það, að ef ekki takist að tryggja eðlilegt samræmi milli orkuframleiðslu og orkunotkunar, þá skuli heimilt að fara aðra leið í þessum efnum, þ.e.a.s. virkja minna. Ég sé ekki annað en þetta sé mjög eðlilegt að setja slík ákvæði, á meðan ekki liggja fyrir hendi ákveðnar upplýsingar um tiltekinn markað fyrir orkuna. Og við, sem flytjum brtt. á þskj. 323 um umorðun á 3. gr. frv., höfum tekið þessi tvö atriði um rannsóknir og áætlanir í sambandi við húsahitun og um aðra leið, ef ekki reynist vera fyrir hendi markaður fyrir stórvirkjun, tekið þessi tvö atriði í till. á þskj. 323. Það er vitanlega svo, að það þýðir ekki að ráðast í virkjanir nema þeirra sé þörf og stærð slíkra mannvirkja verður að vera eitthvað í samræmi við markaðsþörfina. Nú hafa flm. brtt. á þskj. 285 flutt nýjar brtt. á þskj. 792. Geri ég ráð fyrir, að það eigi að skiljast svo, að þeir ætli sér þá að taka aftur brtt. um umorðun á 3. gr. á þskj. 285, þó að það væri ekki tekið fram af fyrri flm. till. áðan, svo að ég heyrði. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hv. flm. þeirrar till., hvort það sé ekki ætlunin hjá þeim að taka þá till. aftur.

Ég held, að ég hafi ekki mikla ástæðu til þess að svara því, sem hv. 3. þm. Austf., Jónas Pétursson, sagði hér í gær, en mér skildist, að hann væri að gera einhverjar aths. við nál. minni hl. iðnn. eða sérstaklega niðurlag þessa nál. á bls. 3. Þar segir, að með þeim brtt., sem minni hl. flytur eða mælir með á þskj. 323, sé stefnt að frambúðarlausn virkjunarmála norðanlands og sunnan og raunar landsins í heild og jafnrétti landsmanna á sviði raforkumála. Mér var ekki alveg ljóst, hvað það var, sem hv. þm. var að gera aths. við í sambandi við þetta, en ég vona, að hann sé ekki á móti því, að raforka til sömu nota sé seld í framtíðinni við sama verði um land allt. Það væri nú ekki í samræmi við skoðanir, sem fram koma hjá honum á þessu sviði. En ég þykist renna grun í það, að það, sem hv. þm. hafi átt við, sé sú stefna, sem hann hefur haldið fram nokkuð ákveðið, að virkjanir eigi ekki að vera í eigu ríkisins eða þjóðarinnar í heild, meiri háttar virkjanir, heldur í eigu einstakra landshluta. Nú er það að vísu svo, að ég hef samúð með þessu sjónarmiði, að virkjanirnar séu í eigu landshlutanna og sums staðar eru þær það nú. En ef virkjanir eiga að vera í eigu landshluta og reknar af þeim til hagsbóta fyrir þann landshluta, sem í hlut á, þá verður eignaumráðunum að vera þannig hagað, að þetta komi öllum þeim landshluta til góða, sem í hlut á, og að virkjun sé ekki séreign einhvers kaupstaðar eða kauptúns innan landshlutans. Nú er þannig ástatt eins og sakir standa, að sett hafa verið lög um Landsvirkjun, og ég held, að þær till., sem við berum fram á þskj. 323 um endurskipulagningu þessa fyrirtækis, þurfi ekki að fara að neinu leyti í bága við hugmyndir hv. þm. En ég ætla, að þær hugmyndir verði erfiðar í framkvæmd fyrst um sinn á meðan ekki tekst að gera þá skipulagsbreytingu að skipta landinu í fylki eða sérstök stór umdæmi með sjálfsstjórn í tilteknum sérmálum. En þegar það verður komið í kring, verður kannske auðveldara að framkvæma stefnu hv. þm. og fleiri í þessum raforkumálum.

Ég ætla nú ekki að fara að halda langa ræðu, en vil segja það samt, áður en ég lýk máli mínu, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum, þegar hæstv. ráðh. flutti ræðu sína áðan, eða réttara sagt, ég hafði vonazt eftir því, að þegar hæstv. ráðh. talaði í þessu máli, mundi hann láta í ljós álit sitt á brtt. þeirri, sem minni hl. mælir með á þskj. 323, og ég hafði vonazt eftir því, að hæstv. ráðh. mundi reynast hlynntur þeirri breytingu sem þar er um að ræða. Ég hafði vonazt eftir því, að hæstv. ráðh. teldi það eðlilegt, ef haldið er áfram að virkja hin stóru fallvötn landsins, að þessar viðbótarvirkjanir verði ekki einskorðaðar við eitt landssvæði, heldur verði þeim dreift um landið, þar sem skilyrðin eru fyrir hendi, en fram á það er farið með þessari till. Ég hafði enn fremur vonazt eftir því, að hæstv. ráðh. væri því hlynntur og teldi það skynsamlegt að stefna að því að tengja saman raforkukerfin, eins og farið er fram á í þessari till. Og ég hafði vonazt eftir því, að hæstv. ráðh. mundi telja það eðlilegt nú á þessum tíma, þegar verið er að veita virkjunarfyrirtækinu Landsvirkjun miklar heimildir til viðbótarvirkjana, þá yrði ætlazt til þess af þessu fyrirtæki, að það framkvæmdi á sinn kostnað slíkar samtengingar á milli landshluta, þegar þess yrði óskað af raforkuyfirvöldum og á þann hátt, sem þess yrði óskað af þeim, og það yrði þá jafnframt sett sú regla, að Landsvirkjun seldi raforku á sama verði frá öllum háspennulínum sínum, hvort sem þær nú liggja frá Búrfelli vestur til Reykjavíkur eða frá Búrfelli norður í land eða frá Hrauneyjafossi norður í land eða frá Dettifossi suður. En að það væri ekki meiningin, þegar slíkar línur eru lagðar, nýjar línur, að fara að reikna þær sérstaklega inn í orkuverðið hjá þeim landshlutum, sem kynnu að njóta hinnar nýju orkulindar. Ég segi þetta sérstaklega af gefnu tilefni. Ég vonaðist eftir því, að hæstv. ráðh. teldi þetta rétt. Sömuleiðis gerði ég mér vonir um það, að hæstv. ráðh. teldi eðlilegt, að breytt yrði nokkuð skipulagi Landsvirkjunarinnar, þ.e. fyrirtækisins Landsvirkjun, þannig að hún yrði raunverulega landsvirkjun, eins og var að sjálfsögðu tilgangur löggjafans í öndverðu, þegar henni var gefið nafn, og þá annaðhvort þannig, að hún yrði ríkisfyrirtæki á komandi tímum eða sameign ríkisins og sveitarfélaganna eða sýslufélaganna í landinu, sem þess óska að vera þátttakendur. Það er reyndar ekki farið fram á það í brtt. á þskj. 323, að slík skipulagsbreyting gerist alveg strax, enda er þar óhægt um vik, heldur er gert ráð fyrir, að það þing, sem gerir þetta frv. að lögum, ef það verður að l., það kjósi n. til þess að endurskoða gildandi lög um framleiðslu og dreifingu á raforku og að till. hennar verði síðan lagðar fyrir Alþ. ekki síðar en í árslok 1972. Það er þá jafnframt gert ráð fyrir því í þessum till., að n. leiti að leið til þess að hægt sé að selja raforku til sams konar nota og á sama verði um land allt. En þetta er takmark, sem oft hefur verið nefnt að vinna yrði að, og sums staðar erlendis, t.d. í Bretlandi og fleiri löndum, er þetta þegar komið í kring, að allir notendur raforku fá hana á sama verði til sömu nota. Ég hafði gert mér vonir um, að hæstv. ráðh. mundi láta í ljós eitthvert álit á þessu og hafði vonazt eftir, að það yrði jákvætt, en í ræðu sinni hér áðan gerði hæstv. ráðh. þessa till. ekki að umtalsefni. Eigi að síður má vera, að við, sem till. flytjum, eigum stuðnings að vænta hjá hæstv. ráðh. Að sjálfsögðu mun það vera stuðningur fyrir okkur og fyrir það málefni, sem unnið er að með þessum tillöguflutningi, ef fyrir lægi yfirlýsing eða ummæli frá hæstv. ráðh. um, að hann vildi styðja viðleitni okkar í þessum efnum.

Það er svo ekki fleira, sem ég tel nauðsynlegt að minnast á að svo stöddu.