03.04.1971
Neðri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

10. mál, Landsvirkjun

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. talaði um að draga sína till. til baka til 3. umr. og mér finnst vel koma til athugunar að íhuga það á milli umræðnanna, hvort hægt sé að ná því marki, sem hann telur sig vera að stefna að. Ég hef ekkert á móti því að þetta sé athugað með húsahitunina, eins og ég sagði áður, en það á ekki heima í l. um Landsvirkjun að mínum dómi, eins og er, að fela Landsvirkjun að gera áætlanir og hefja framkvæmdir í húsahitun, þegar öðrum aðila hefur verið falið að gera þessar áætlanir, og um framkvæmdirnar verða svo teknar ákvarðanir, þegar áætlanir liggja fyrir, ef þær eru hagkvæmar. Þess vegna er þetta í sjálfu sér ekkert nema sýndarmennska, en hins vegar gæti ég vel hugsað mér að umorða þessa till., þannig að hún gæti haft einhverja meiningu, og það yrði þá í stórum dráttum á þá leið, og ég skal hugleiða það betur, að Landsvirkjun væri falið eða heimilað að hafa samráð við Orkustofnun um áætlunargerð, til þess að sem mest af orkunni frá hinum nýju virkjunum verði notað til húsahitunar, ef það reynist hagkvæmara en annar orkugjafi, eitthvað í þessum dúr, — þetta er auðvitað hægt að gera og ég skal íhuga það betur milli umræðnanna.

Ég treysti mér ekki áðan til að fara að víkja nánar að því og geri það ekki heldur núna, að í iðnrn. hefur í vetur verið unnið að iðnaðaráformum, það er áætlun um iðnþróun fram í tímann. Fyrst og fremst er það innlendi iðnaðurinn, sem þar er um að ræða, almenni iðnaðurinn í þessum iðnþróunaráformum eða á fyrsta fjögurra ára tímabili EFTA-aðildarinnar og svo aftur spáð fram í tímann þar og svo kannaðir ýmsir hugsanlegir möguleikar á áratugnum fram til 1980. Ég geri ráð fyrir því, að gengið verði frá þessum iðnþróunaráformum mjög fljótlega, innan svona mánaðartíma a.m.k., og þau tengjast, eins og við þegar við höfum verið að athuga það höfum ekki komizt hjá að verða varir við, tengjast auðvitað öðrum áformum og ráðagerðum og möguleikum til orkunotkunar. En mér finnst það að vísu alveg rétt, að það var auðvitað ófullkomin greinargerð, hvaða aðilar væru fyrir hendi til að nota orkuna, og gerði ég grein fyrir því í minni fyrri ræðu, hvers vegna það væri nú m.a. án frekari undirbúnings.

Mér þykir leiðinlegt að valda hv. 1. þm. Norðurl. e. vonbrigðum, en verst er, að ég veld honum enn þá meiri vonbrigðum með því að fara að tjá mig um þessa brtt. á þskj. 323, sem hann vék að. Ég hef mikinn áhuga á, eins og hann veit og við höfum oft rætt um það, virkjun Dettifoss, virkjun í Skjálfandafljóti og reyndar mörgum fleiri virkjunum, en það hefur venjulega verið fylgt þeirri aðferð hér og ég held, að hún sé happasælli, að sérfræðistofnanir annaðhvort ríkisins eða einstakra aðila eða sveitarfélaga gera áætlanir og hanna virkjunarframkvæmdir, og þegar þau mál liggja þannig fyrir, að það sýnist vera um verulega hagkvæmar virkjanir að ræða, þá hefur verið leitað heimildar hjá Alþ. til viðkomandi aðila, ríkis eða sveitarfélags, til þess að ráðast í þessar virkjanir. Í staðinn fyrir þær tillögugerðir, sem hér liggja fyrir, þá mætti alveg segja í einni setningu, að ríkisstj. er heimilt að láta virkja hvað sem vera vill í vatnsföllum landsins. Þá er heimildin fyrir hendi og það er svo leitað eftir því hjá þeim aðilum, sem að þessu vinna, hvar er hagkvæmast að virkja á hverjum tíma. Af þessum ástæðum einum er ég á móti því að vera að tengja aðrar virkjanir, því það gæti ýmislegt fleira komið til greina. Af hverju setjum við þá ekki Austurlandsvirkjun inn í þetta líka, fallið niður í Fljótsdalinn, sem er byrjað að rannsaka? Það er ekki eins langt komið eins og Dettifoss, en Dettifossvirkjun er verið að reyna að hanna nú betur að nýju, eins og ég gerði grein fyrir áður á þinginu, og þess vegna má það ekki misskiljast, að ég er engan veginn mótfallinn þessum virkjunum, hvort það á að vera 130 MW raforkuver í Jökulsá á Fjöllum eða 250 MW eða hvað annað. Það skal ég ekki um segja, það skaðar ekkert og skemmir ekkert, þó beðið sé með að taka slíkar ákvarðanir hér eða leita slíkra heimilda, og ég vil heldur hafa eldri aðferðina, að leita heimildanna hjá þinginu, þegar nánari athuganir hafa farið fram og áætlanir í hverju tilfelli, eins og með Lagarfoss, eins og með Svartá, eins og með þessar virkjanir, sem hér er um að ræða í Tungnaá og eins og haldið yrði áfram, ef niðurstöður reynast jákvæðar í þeim rannsóknum og athugunum, sem fram fara á virkjun Dettifoss og möguleikunum í Skjálfandafljóti og möguleikunum á Austurlandi, sem eru vissulega verulega miklir, en eiga nokkuð langt í land.

Ég er líka sammála hv. 1. þm. Norðurl. e. í því, að ég tel, að það sé eðlilegt, að það stefni að því, að Landsvirkjun verði landsvirkjun í orðsins bókstaflegu merkingu og að því leyti, að virkjanirnar víðsvegar á landinu muni tengjast saman í framtíðinni. Ég sagði þetta í Ed. í sambandi við frv. til l. um virkjun Svartár. Stórvirkjanirnar gefa ódýrasta rafmagnið, það er rétt, en skilyrðin til stórvirkjana eru ekki fyrir hendi, t.d. í því héraði sem þar er um að ræða, Norðurl.v. og skilyrðin eru ekki enn þá fyrir hendi til þess að samtengja rafmagn að sunnan til Norðurlands, að norðan til Suðurlands til stórvirkjunar í Dettifossi og t.d. við slíkar stórvirkjanir á þessum stöðum, við stórvirkjanir á Austurlandi, og svo áfram meiri orku vestur um landið og hversu langt, það sker nú reynslan úr um, hversu hagkvæmt er að fara og hvort að Vestfirðirnir koma inn í þetta kerfi einnig á síðari stigum málsins. Þetta held ég, að sé allra framsýnna manna skoðun, að þannig muni þetta verða í framtíðinni, en það er kannske nokkuð löng bið á því.

Varðandi sérstaklega b-liðinn í 4. tl. um að kjósa n. til að endurskoða gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu raforku o.s.frv., þá vil ég heldur hafa þann hátt á, að þessi mál séu undirbúin, eins og samkvæmt eðli málsins ætti að vera, í því rn., sem orkumálin heyra undir, og hvort á þessu stigi málsins af hálfu þessa rn. þykir ástæða til nefndarskipunar og samtengjandi þannig aðila eins og Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Landsvirkjun og einhver hagsmunasamtök sveitarfélaga, um það skal ég ekki segja, en ég tel ekki þörf á nefndarskipun í þessu sambandi. Af þessum sökum, þá er ég í heild á móti þessum till., sem fluttar eru á þskj. 323, en engan veginn vegna þess, að mig efnislega greini á við hv. flm. um svo margt af því, sem þar segir, heldur aðeins um aðferðir í þessu sambandi.