30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Sunnl. sagði, að það hefði verið samið um þetta mál á milli ríkisstj. annars vegar, að mér skilst, og hins vegar á milli Stéttarsambands bænda og bankastjórnar Búnaðarbankans. Ég veit ekki, hverjir hafa samið — hvort það eru bankastjórarnir sjálfir eða bankaráð. Og það hefur ekkert komið fram, sem eiginlega gefur manni skýrar hugmyndir um það, hverjir hafa samið þarna og um hvað hefur verið samið. Og hv. þm. gat um samþykkt og álit Stéttarsambands bænda á þessu máli, þar sem lögð hefði verið rík áherzla á, að frv. til l. um Lífeyrissjóð yrði samþ. og jafnframt að stofnlánadeildargjaldið, sem fellur til stofnlánadeildarinnar, yrði fellt niður í áföngum. En það lá ekkert fyrir um það, hversu hratt þetta gjald skyldi niður fellt, og illa þekki ég til hjá Stéttarsambandi bænda, ef þeir væru mótfallnir þeim till., sem við, hv. 2. þm. Austf. og ég, leggjum til á þskj. 197, enda stangaðist það á við allar staðreyndir, ef Stéttarsamband bænda væri þar á móti. Umsögn frá stjórn Búnaðarfélags Íslands er algerlega í samræmi við þær till., sem við flytjum hér.

Og í raun og veru er ekki nema eitt spursmál í þessu máli, sem Alþ. þarf að gera upp við sig. Það er ekki nema eitt. Og það er það, hvort á að fella niður gjald það, sem bændur greiða í stofnlánadeildina, samtímis því, sem fella á niður framlag ríkissjóðs. Ég hefði haldið, að það bæri enga nauðsyn til þess og að það gæti haldið áfram enn þá um nokkurt skeið og þá yrði skorið úr um það, hvort það þyrfti að vera í framtíðinni. En ég hefði haldið, að það væri nauðsynlegt, að það gjald héldi sér og það yrði komið til móts við bændurna nú með því að fella niður hraðar stofnlánadeildargjaldið en gert er ráð fyrir í frv. Það tel ég höfuðnauðsyn, því að um tveggja ára skeið eða á árunum 1974 og 1975 greiða bændur fullt í Lífeyrissjóðinn, án þess að nokkuð sé farið að feila niður af þeim gjöldum, sem tilheyra stofnlánadeildinni, því að það er ekki fyrr en fyrst að þeim tíma liðnum, sem komið er til móts við bændur að nokkru leyti með því að lækka þau gjöld.

Því hefði ég talið, að það væri höfuðnauðsyn að samþykkja þær brtt., sem við leggjum til á þskj. 197, og geta á þann hátt bæði mætt óskum bændastéttarinnar og jafnframt tryggt, að Stofnlánadeild landbúnaðarins hafi eins öruggan fjárhag og frv. gerir ráð fyrir, a. m. k. fyrst um sinn.