18.03.1971
Efri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nokkuð seint á ferðinni, en það stafar ekki af því, að ekki hafi verið auðið áður að ganga frá frv., heldur hinu, að það þótti æskilegt, að hægt væri samtímis að gefa þá skýrslu, sem fjmrh. hefur árlega undanfarin allmörg ár flutt í þinginu um ýmsa þætti efnahagsmála, þar sem jafnframt væri gerð nánari grein fyrir fjárfestingarmálum hins opinbera almennt. Það hefur stundum komið fyrir, að skýrsla þessi væri flutt á öðrum tíma en frv. um fjáröflunina hefur verið rætt og hefur það þá sætt nokkurri gagnrýni, sem hv. alþm. er skiljanlegt, hins vegar hygg ég, að þeir muni einnig skilja það, að hér er um það mikið mál að ræða, að það tekur æðilangan tíma að gera sér til hlítar grein fyrir því og ganga frá þessari ýtarlegu skýrslu, þannig að með því að láta þessi mál fylgjast að, skýrslugjöfina og frv. um fjáröflun til ríkisframkvæmda, þá hlaut afleiðingin að verða sú, að frv. yrði nokkuð síðbúið og vona ég, að það verði afsakað með hliðsjón af þessari skýringu, af því að ég þykist sannfærður um, að hv. þdm. séu sammála um það, svo sem áður hefur verið, að æskilegt sé, að þeir hafi fyrir sér skýrslu, heildarskýrsluna um hina ýmsu þætti þessa vandamáls, þegar þeir ræða frv. Þar til á s.l. ári, þá var sá háttur hafður á, að þessi skýrsla var flutt í Sþ. og var þá flutt munnlega, sem er mikil lesning, hins vegar hefur henni ekki verið útbýtt. Það hefur áður einnig komið fram, að hv. þm. þætti æskilegra, að skýrslan væri birt eða lögð fram skriflega, enda skiljanlegt, þar sem í henni er mikill aragrúi af tölulegum upplýsingum, og á s.l. ári var þetta gert og skýrslan ekki flutt í Sþ., og verður svo einnig gert nú, þannig að skýrslan er hér lögð fram jafnhliða því, sem þetta frv. um framkvæmdaáætlunina er tekið til meðferðar, og geta því hv. þm. kynnt sér skýrsluna. Ég vænti þess, að þeir séu allir einnig sammála um það að ætlast ekki til þess, að ég fari að flytja þessa skýrslu hér, þar sem hún liggur fyrir í þessu formi. Það væri óþarfa tvítekning, ef ég færi að stunda upplestur fyrir hv. þm., og mun ég því ekki gera það, en það aftur á móti ætti að stytta mjög þann tíma, sem fer til umræðu um málið, því venjulega hafa umr. ekki farið fram um skýrsluna, þar sem hún er ekki með þeim hætti, að hún gefi neitt tilefni til umr. Hér er um tölulegar staðreyndir að ræða, sem fluttar eru til upplýsingar, og skýrslan hefur frá því ég man eftir aldrei gefið tilefni til neinnar sérstakrar gagnrýni af hálfu hv. þm.

Áður en ég vík að frv. sjálfu vil ég því aðeins með örfáum orðum vekja athygli á því, hvað í skýrslu fjmrh. felst. Hún er allýtarleg og skiptist í kafla og er þar fyrst að finna almennt yfirlit um þau stefnumið, sem markað hafa framkvæmdaáætlunargerðina í þetta sinn, en það eru að sjálfsögðu þær aðstæður, sem ríkjandi eru á hverjum tíma í efnahagsmálum, og sú sérstaka þróun, sem verið hefur í þeim efnum og atvinnumálum nú á undanförnum mánuðum og raunar á s.l. ári. Þá er í öðru lagi að finna ýtarlegt yfirlit um þau viðhorf, sem eru nú í efnahagsmálunum og er það aðallega byggt á niðurstöðum ársins 1970, en einmitt það yfirlit og þær mörgu tölulegu upplýsingar, sem í skýrslunni er að finna eða í þessum kafla hennar, þær gerðu það óumflýjanlegt, að nokkur tími yrði að líða fram eftir árinu, þangað til auðið væri að hafa öll þessi yfirlit og á þeim væri hægt að byggja. Þá er að finna í skýrslunni ýtarlegt yfirlit um fjármunamyndunina 1970 svo sem bezt verður um hana vitað nú eftir þeim upplýsingum, sem Efnahagsstofnunin hefur getað aflað sér, og jafnframt er til samanburðar getið um fjármunamyndunina, eins og horfur eru á að hún muni verða á árinu 1971. Loks er svo að finna í skýrslunni sundurliðaða grg. mun ítarlegri heldur en fylgir frv. um hina ýmsu þætti opinberra framkvæmda, og kemur þar fram sem eðlilegt er, að þar er í meginefni um tvíþætt fjáröflunarmál að ræða, annars vegar er það fjármunamyndunin, sem verður vegna fjárráðstafana opinberra sjóða, og hins vegar fjármunamyndun og framkvæmdir, sem stafa af beinum aðgerðum hins opinbera og unnar eru annaðhvort fyrir fjárlagafé eða framlög sveitarfélaga eða í þriðja lagi fyrir það fé, sem gert er ráð fyrir að afla hér í framkvæmdaáætlun. Loks er svo aftan við skýrsluna að finna sundurliðaðar töflur um ýmis veigamikil atriði, sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir til þess að átta sig á þróun efnahagsmálanna og fjárfestingarmálanna. Þar er bæði yfirlit um þjóðarframleiðslu og verðmætaráðstöfun þjóðarframleiðslunnar allt frá 1966 og til 1970, þar er yfirlit um fjármunamyndunina, bæði almenna og heildarfjármunamyndunina, og svo sérstaklega fjármunamyndun í byggingum og mannvirkjum hins opinbera. Bæði er þetta á því sama árabili, sem ég gat um, og einnig á árunum 1970 og 1971. Einnig var gerður samanburður ið fjárhagsáætlun 1970. Þá er yfirlit um framkvæmda- og fjáröflunaráætlunina 1971, samandregið heildaryfirlit, sem gefur glögga mynd af því, hvernig fjár er aflað og hvernig það sundurliðast í einstökum atriðum, þannig að hv. þm. hafa þar mjög glöggt yfirlit um það og þurfa ekki að draga það saman með lestri allrar skýrslunnar. Hins vegar er í skýrslunni að finna útskýringu við hvern einstakan lið í töflu þeirri, sem hér um ræðir, þar sem dregnir eru saman hinir einstöku framkvæmdaliðir og fjárfestingarsjóðir, sem lagt er til að afla fjár til. Og loks er yfirlit og samanburður á fjáröflun og framkvæmdum, fjárfestingarlánum sjóða og opinberra framkvæmda almennt á vegum ríkisins, þar sem saman eru bornar áætlanir fyrir árið 1970 og 1971. Þá er loks að finna yfirlit um útlán og fjáröflun fjárfestingarlánasjóðanna, einnig samanborið við það, sem hefur verið til ráðstöfunar á árunum 1969 og 1970, þannig að það fæst einnig samanburður um það ráðstöfunarfé, sem þessir sjóðir hafa haft til meðferðar, og síðast í skýrslunni er svo að finna yfirlit yfir áætlaða fjáröflun til opinberra framkvæmda 1971.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að rekja skýrsluna sjálfa nánar, þar sem hún hefur eins og ég segi verið fram lögð í prentuðu formi fyrir hv. þm., og vænti ég, að þetta yfirlit um efni hennar og tilgang ætti að vera nægilegt til að gera mönnum grein fyrir, hvað felst í umræddri skýrslu, og síðan að sjálfsögðu sjá hv. þm. það sjálfir nánar við lestur skýrslunnar, hvað í henni felst í einstökum atriðum. Svo sem verið hefur frá því, að Framkvæmdasjóður Íslands tók til starfa, þá er fjáröflun til opinberra framkvæmda aðskilin fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða. Lögum samkvæmt er gert ráð fyrir því, að Framkvæmdasjóður Íslands annist fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, svo sem frekast verður við komið. Með því er ekki sagt, að það sé hægt að fullnægja allri lánsfjárþörf, það fer eftir þeim möguleikum, sem Framkvæmdasjóður hefur til fjáröflunar, og ég skal geta þess í sambandi við fjáröflunina nú, að þar er um að ræða mjög veigamikla aukningu, sem orðið hefur sérstaklega í sambandi við lán vegna sjávarútvegsins, þar sem skipasmíðar fara nú mjög stórlega vaxandi innanlands og fjárþörfin hefur því breytzt verulega. Áður var um það að ræða, að það voru tekin í stórum stíl lán erlendis til skipabygginga, en nú aftur á móti hafa skipasmíðarnar í mjög vaxandi mæli færzt inn í landið. Þetta hefur skapað ný og erfið viðfangsefni og hafa þau leitt til þess, að orðið hefur að taka erlend lán í auknum mæli til að mæta þessum þörfum.

Þá vil ég í annan stað geta þess til skýringar, að enda þótt Stofnlánadeild landbúnaðarins sé í þessari skýrslu með hæsta eða næst hæsta fjáröflun næst á eftir Fiskveiðasjóði, þ.e.a.s. að Framkvæmdasjóður gerir ráð fyrir að lána Stofnlánadeild landbúnaðarins 70 millj. kr., en Fiskveiðasjóði 85 millj., auk 13 millj. vegna dráttarbrautanna, þá er sú fjárþörf ekki nægileg til þess að mæta fjárvöntun vegna framkvæmda landbúnaðarins og stafar þetta m.a. af því, að á síðustu árum hefur verið lánað meira úr stofnlánadeild heldur en fjáröflunin hefur leyft, og hefur því safnazt allveruleg skuld, sem með einhverjum hætti þarf að losna úr, og einnig þá er ljóst, að fjárþörf veðdeildarinnar verður ekki fullnægt með því sem Framkvæmdasjóður getur hér af mörkum látið, og vil ég aðeins á þessu stigi láta það koma fram, að þessi mál eru enn til sérstakrar athugunar, hvernig auðið verði að leysa vanda stofnlánadeildar og veðdeildar, þannig að þær geti starfað með svipuðum hætti eins og verið hefur undanfarin ár. Allmikill samdráttur verður í fjáröflun til Iðnlánasjóðs, en þar ber aftur á móti þess að gæta, að Iðnþróunarsjóður uppfyllir þar mikilvægt verkefni til eflingar iðnaðinum sem sjóður, sem aðrir atvinnuvegir ekki geta átt aðgang að. Þá er einnig um verulega aukningu að ræða á vettvangi ferðamála, en sá atvinnuvegur hefur eins og hv. þm. er kunnugt farið mjög vaxandi undanfarin ár. Ég tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þátt Framkvæmdasjóðs og fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, nema sérstakt tilefni gefist til. Í skýrslunni er að finna mjög nákvæma sundurliðun á því, hvaða möguleika þessir sjóðir hafa til lánveitinga miðað við þá fjáröflun, sem gert er ráð fyrir, og hvernig þær lánveitingar eru, sbr. við lánveitingar undanfarinna tveggja ára.

Varðandi síðan hitt atriði framkvæmdaáætlunarinnar, sem sérstaklega kemur til kasta Alþ. að taka ákvörðun um, þá fjallar það frv., sem hér er lagt fyrir, um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunarinnar fyrir árið 1971. Það er í sama formi og verið hefur undanfarin ár, að hér er fyrst og fremst leitað lántökuheimilda og þá að sjálfsögðu skilið svo, að lántökuheimildin feli í sér ákvörðun um það, að fénu skuli varið á tiltekinn hátt. Áður fyrr var nokkuð á það deilt, að stundum var þetta í einu lagi, þessi heildarupphæð, en að undanförnu hefur sá háttur verið á hafður að sundurliða það nákvæmlega í umræddu frv., hvernig ætlunin væri að verja lánsfénu, sem ætlunin væri að taka. Til þess að auðvelda hv. þm. að átta sig á þessu vandamáli hefur það einnig verið svo nú allra síðustu árin, að gerð hafa verið drög að framkvæmdaáætluninni og þau látin fylgja fjárlagafrv. Ekki með það í huga, að það væri gert ráð fyrir því, að fjárveitinganefnd eða Alþ. á því stigi tæki formlega ákvörðun um áætlunina, heldur í upplýsingaskyni, því að það væri að sjálfsögðu mjög æskilegt, að Alþ. og fjvn. gætu áttað sig á því, þegar gengið væri frá fjárlagafrv., hvaða framkvæmdir ríkisstjórnin gerði ráð fyrir að leggja í og afla sérstaklega láns til. Það hefur stundum verið á það bent, að óeðlilegt væri að taka lán til ýmissa framkvæmda, sem hafa verið í framkvæmdaáætlun, og eðlilegra væri að taka það með í fjárl. Með því að láta drögin að áætluninni fylgja fjárlagafrv. hefur því einmitt verið haldið opnu, að teknar væru í fjárl. af framkvæmdaáætlunardrögunum þær framkvæmdir, sem þm. sýndist að æskilegra og eðlilegra væri að hafa í fjárl. og greiða með árlegu ráðstöfunarfé, sem þar er um að ræða, en ekki fjármagna með lánum. Þessi háttur, að birta þessi drög að framkvæmdaáætlun með fjárlagafrv., gerir það einnig mögulegt að tala um þá áætlun, sem nú er lögð fram, með miklum mun færri orðum en ella hefði verið, þar sem hún er hv. þm. kunn í meginefnum. Það er ekki nema að litlu leyti, sem um er að ræða breytingar á þessari áætlun, eins og hún liggur fyrir í frv., frá þeim drögum, sem fylgdu fjárlagafrv.

Í grg. með frv. um heimild til lántöku vegna framkvæmdaáætlunarinnar er að finna skýringar á hinum ýmsu liðum, sem um ræðir í 7. gr. frv., en þar er að finna till. um það, hvernig skipta beri framkvæmdafénu. Það er vonazt til þess, að auðið verði að afla þess fjár, sem hér er um að ræða. Á áætluninni í ár var töluverður halli. Hann reyndist minni, þegar öll kurl komu til grafar, heldur en þar var gert ráð fyrir eða aðeins 3.9 millj. kr. Í drögum að framkvæmdaáætlun eins og þau voru birt með fjárlagafrv. var einnig gert ráð fyrir allverulegum halla, og það hefði einnig orðið halli á áætluninni nú eða fjáröflun til þeirra framkvæmda, sem nú er gert ráð fyrir, ef ekki hefði verið horfið að því ráði að taka stækkun Áburðarverksmiðjunnar út úr framkvæmdaáætluninni og gera ráð fyrir því, að aflað yrði sérstaks láns til hennar erlendis, og er farið fram á heimild til allt að 80 millj. kr. lántöku, vegna stækkunar Áburðarverksmiðjunnar, og gert er ráð fyrir, að sú framkvæmd verði fjármögnuð með þeim hætti. Það var eina úrræðið til þess að geta brúað bilið um fjáröflun, því að ljóst er að teflt er á yztu nöf varðandi þá tvo fjáröflunarmöguleika, sem um er að ræða. Þeir eru þeir sömu og verið hafa undanfarin ár, annars vegar PL-480 lán, sem ekki hefur þó enn verið gengið frá samningi um, þannig að þar er um nánast ágizkun að ræða, og í hinn staðinn er um að ræða útgáfu spariskírteina, sem nú er gert ráð fyrir, að verði jafnhá upphæð hvað snertir ný skírteini og var á síðastliðnu ári eða 75 millj. kr., en hins vegar, þá er gert ráð fyrir verulegri aukningu á endursölu spariskírteina og ætti það ekki að vera mjög ógætilega áætlað, vegna þess að komið hefur í ljós, að eigendur spariskírteina vilja mjög gjarnan — reynslan hefur sýnt það undanfarin ár — endurnýja þessi skírteini sín og kaupa þá ný skírteini, þegar þeir leysa hin eldri út, þannig að ekki kemur til endurgreiðslu.

Ég skal þá aðeins fara örfáum orðum um framkvæmdaáætlunina sem slíka, þ.e.a.s. útgjaldaliðina. Ég vil aðeins áður geta þess, að eins og hv. þm. sjá þá er gert ráð fyrir, að spariskírteini verði gefin út með sama hætti og sömu kjörum og verið hefur undanfarin ár. Það kemur allt til athugunar, heildarathugunar, hvernig verður um skattlagningu hinna einstöku sparnaðarforma, í sambandi við framhaldsendurskoðun skattalaganna, sem mun koma fyrir næsta þ. Það er gert ráð fyrir, að því ljúki í sumar og þykir því ekki eðlilegt á þessu stigi málsins að gera þar á breytingar, þó að svo kynni að fara, að þær almennu reglur, sem þar eru settar, mundu markast af öðrum sjónarmiðum, en þau sjónarmið liggja ekki það ljós fyrir, að það þyki fært að breyta kjörum á þessum bréfum frá því, sem verið hefur, ef á að vera auðið að tryggja sölu þeirra.

Enn þá er afborgun af lánum vegna Reykjanesbrautar eitt af hinum veigameiri málum, sem gengur mjög erfiðlega að komast frá, því enn þá er það svo, að Reykjanesbraut skuldar meira en hún kostaði í upphafi, þrátt fyrir allt það fé, sem til hennar hefur gengið, en það stafar af þeirri eðlilegu ástæðu, sem ég þarf ekki að skýra fyrir hv. þm., að hún var byggð að öllu leyti fyrir erlent lánsfé og gengisbreytingarnar hafa að sjálfsögðu haft þessi áhrif. Það er gert ráð fyrir því, að smám saman muni þetta á næstu tímum eða á alllöngu árabili verða tekið inn í vegáætlun og gert ráð fyrir endurgreiðslu þessara lána, eftir því sem gert er ráð fyrir, sömuleiðis endurgreiðslu á lánum, sem tekin eru til annarra varanlegra vega, þ.e.a.s. alþjóða bankalánunum, sem nú hafa verið tekin eða eru í meðferð. Aðrar tekjur til að standa undir þessum greiðslum eru veggjaldið, sem mönnum er kunnugt um, og svo hins vegar nokkur upphæð í vegáætlun.

Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi er enn á dagskrá og hefur nú verið gerð áætlun um, hvernig að því verki verði staðið. Það var tekið fram í drögum að framkvæmdaáætlun með fjárlagafrv., að þar sem sú áætlun lægi ekki fyrir, þá væri ekki auðið að gera ráð fyrir sérstakri fjáröflun til þessara framkvæmda, því vitanlega var ekki mögulegt fyrir ríkið að hefjast handa um lántöku til svo stórra framkvæmda án þess að fyrir lægi einhver áætlun um það, hvernig mögulegt væri að endurgreiða þau lán, en það mál hefur nú verið tekið til heildarathugunar.

Til landshafnanna er í þetta skipti ekki um verulegar fjárhæðir að ræða, en þó gert ráð fyrir, að þar verði unnið að brýnustu verkefnum, sem bíða þar úrlausnar. Inn í þessa áætlun nú koma sérstaklega 18 millj. vegna flugöryggismála, sem ekki voru í drögum að framkvæmdaáætluninni í haust, en þar er annars vegar um að ræða sérstök flugöryggistæki eða radartæki fyrir flugvellina hér við Reykjavík, — hvar sem þau tæki kunna að verða staðsett, það er annað mál, — en að hinu leytinu er gert ráð fyrir, að um 10 millj. fari til þess að bæta úr öryggisþjónustu almennt á flugvöllum og hafa komið fram sérstakar óskir frá flugmönnum um að hafizt verði handa nú þegar á þessu sumri um úrlausn þess vanda á ýmsum flugvöllum, og er það skoðun ríkisstj., að ekki sé um annað að ræða en að þegar verði hafizt handa um úrbætur, þar sem talið er að hættuástand sé. En þessar framkvæmdir munu víðast hvar ekki þurfa að kosta mjög verulegar fjárhæðir. Það, sem gert er ráð fyrir hér í sambandi við radarinn á Reykjavíkurflugvelli, þar sem hann verður væntanlega settur upp, er aðeins hluti af kostnaði við þá framkvæmd.

Rafmagnsveitum ríkisins er áætluð ákveðin fjárhæð, en rétt er að segja það eins og það er, að þar er nánast um það að ræða, að ekki er hægt að afla meira fjár. Þar eru á döfinni margvíslegar hugleiðingar um framkvæmdir, að vísu mjög mismunandi langt komnar, en það er vonazt til þess, að með þessari fjáröflun, sem hér er gert ráð fyrir, verði hægt að leysa það, sem brýnast er á þessu sviði. Sannleikurinn er sá, eins og menn sjá, að þá eru meginverkefni þau, sem gert er ráð fyrir, að fjár yrði aflað til í sambandi við framkvæmdaáætlunina, fyrst og fremst einmitt orkumálin, bæði raforkumál og jarðhitamál, sem ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um, að séu hin mikilvægustu verkefni hvor tveggja, sem nauðsynlegt sé að leysa, en að öðru leyti eru það vegamálin, auk Áburðarverksmiðjunnar, sem ég hef áður getið um.

Það eru tvær virkjanir, sem sérstaklega er gert ráð fyrir að afla fjár til. Annars vegar er það Laxárvirkjunin, sem nú þegar er í gangi, og hvað sem því líður, hvernig staðið verður að því máli, sem ég þarf ekki að útskýra hér að hefur vakið margvíslegar deilur, þá er það alveg ljóst, að það verður að leysa orkuþörf Norðausturlands með einhverjum hætti og því getur ekki, þó að menn kunni að greina á um það, verið neitt efamál um nauðsyn þess að afla fjár til að leysa þann vanda, því að á því má ekki verða neinn teljandi dráttur, að úr orkuþörf Norðausturlands verði bætt, ella skapast þar stórkostleg vandræði og hv. þm. er það öllum kunnugt, að arna er annað mesta iðnaðarsvæði landsins.

Í annan stað er gert ráð fyrir því að hefjast handa um Lagarfossvirkjun eystra og í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, vegna nýrra stórframkvæmda Landsvirkjunar, að auka þurfi fjármagn til hennar, þ.e.a.s. hluta eignaraðila, og hefur það verið gert undanfarin ár í nokkrum áföngum og verður enn að halda áfram á þeirri braut, því að óeðlilegt er, að þar sé ekki bætt við einnig beinu eignaraðilaframlagi, enda nauðsynlegt til þess að tryggja þá arðsemi virkjunarinnar, sem krafa er sett fram um af hálfu Alþjóðabankans, sem hefur gert virkjunina mögulega með þeim stórlánum, sem hann hefur veitt til hennar. Munum við áfram verða að byggja á aðstoð erlendis frá varðandi lánsfé til þessara mjög stóru og dýru framkvæmda.

Í sambandi við þessi mál, virkjanamálin, þá er nauðsynlegt að halda áfram af kappi, eftir því sem föng eru á og fjárhagsgeta leyfir, orkurannsóknum, bæði á vatnsorkulindum vegna rafvæðingarinnar og einnig jarðhitarannsóknum, og er því gert ráð fyrir fjáröflun til vatnsorkurannsókna, til viðbótar því fé, sem veitt er í fjárlögum, og er það þá allmyndarleg fjárhæð eða um 50 millj. samtals, sem fer til vatnsorkurannsókna á þessu ári, og jafnframt er lagt til að verja til jarðhitarannsókna 15 millj. kr. og vegna kaupa á nýjum jarðbor er gert ráð fyrir allverulegrí fjárveitingu til jarðborana ríkisins. Jarðvarmaveitur ríkisins er sú stofnun, sem er til orðin vegna jarðborana í Námaskarði og sölu á orku, annars vegar til gufuaflstöðvarinnar þar og hins vegar kísiliðjunnar. Það er vegna framkvæmda, sem þar þarf enn að vinna að eða er í rauninni að verulegu leyti búið að vinna að, sem fjár er aflað, vegna bilana, sem orðið hafa á borholu m.a.

Þá er gert ráð fyrir því að afla 10 millj. til jarðhitaleitar. Það eru í fjárl. ekki nema 5 millj. kr., sem ætlaðar eru til þeirra framkvæmda, en þar er um að ræða lánveitingar til sveitarfélaga vegna leitar að heitu vatni. Hér er um mjög mikilvægt viðfangsefni að ræða og sífellt fleiri aðilar, sem leggja kapp á það að koma á hjá sér hitaveitu, ef þess er nokkur kostur. Það gefur augaleið, miðað við þann geysilega óstöðugleika, sem er í verðlagi á olíu, að það hefur hina mestu þýðingu, að hægt sé sem víðast um landið að leysa olíuna af hólmi, annars vegar með jarðhita og hins vegar með raforku frá vatnsorkuverum. Það hefur grundvallarþýðingu að leggja áherzlu á þetta tvennt á næstu árum.

Gert er ráð fyrir því, sem ekki var í drögunum að framkvæmdaáætluninni í haust, að afla 15 millj. til þess að ljúka núverandi áfanga í rafvæðingu sveita. Því var lýst yfir á síðastliðnu ári, að ríkisstj. hefði ákveðið, að á árunum 1970–1971 yrði lokið lagningu rafmagns frá samveitum til allra þeirra býla, þar sem væri styttra en 1.5 km eða ekki lengra en 1.5 km að meðaltali á milli býla. Þessi fjárveiting var nokkuð hækkuð í fjárl. ársins í ár og gert ráð fyrir því, að það mundi nægja, en vegna aukins tilkostnaðar og einnig vegna þess, að við hafa bætzt ýmsar línur, þar sem byggð hefur orðið þéttari en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir, þegar áætlanir voru gerðar um viðkomandi línur, þá kemur það í ljós, að það verður þörf á að fá töluvert fé til viðbótar, ef á að ná þessu takmarki, og þar sem ríkisstj. telur það höfuðnauðsyn, að því takmarki verði náð, þá er gert ráð fyrir því að afla hér 15 millj. kr. í því skyni.

Sjóefnarannsóknir standa enn yfir og þarf að ljúka þeim nú sem skjótast, til að hægt verði að taka ákvarðanir um það, hvort hagkvæmt reynist að koma hér upp sjóefnaiðju; og er gert ráð fyrir að verja nokkrum millj. til þeirra framkvæmda, en fjárþörfin þar er nú samtals á þessu ári um 5.7 millj. kr.

Þá þarf að verja enn nokkru fé til byggingar á Keldnaholti, til þess að ljúka Rannsóknastofnun iðnaðarins og er fjárvöntun þar 9.5 millj. kr. Loks er brýn nauðsyn á því að reyna að fara að fullgera hina miklu lögreglustöð hér í Reykjavík og er gert ráð fyrir töluverðri fjáröflun í því skyni, svo sem hefur verið á framkvæmdaáætlun síðustu árin, eða 12 millj. kr. til viðbótar þeim 3.2 millj., sem eru í framlagi fjárl. Þetta nægir þó ekki til þess að ljúka byggingunni, en ekki er auðið að leggja fram meira fé, þar sem fjáröflunarmöguleikar eru ekki fyrir hendi, og er því gert ráð fyrir því skv. þessu, að auðvelt ætti að vera að ljúka byggingunni á þessu og næsta ári.

Svo sem ég gat um áðan, þá var sem betur fór mun minni fjárvöntun af ýmsum ástæðum til framkvæmdaáætlunarinnar heldur en var gert ráð fyrir samkv. framkvæmdaáætlun síðasta árs, en það voru 61 millj. kr. M.a. þá var þetta vegna þess, að þær 30 millj., sem gert var ráð fyrir, að þyrfti að verja til byggingar á vegum háskólans, þurfti ekki að nota og verður því bagginn af þessu mun minni en gert var ráð fyrir eða aðeins um tæpar 4 millj. kr.

Herra forseti, ég sé ekki ástæðu til, þar sem mörg mál eru á dagskrá og þörf á, að menn stytti mál sitt svo sem föng eru til, að ræða þetta mál nánar, nema sérstakt tilefni gefist til þess, og læt því máli mínu lokið og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn. Vil ég jafnframt leyfa mér að fara þess á leit við hv. fjhn., að hún reyni mjög að hraða athugun málsins, þar sem nauðsynlegt er að sjálfsögðu, sem ég þarf naumast að útskýra fyrir hv. þm., að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi.