18.03.1971
Efri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. hefur rakið, þá orkar það ávallt nokkuð tvímælis, hvaða framkvæmdir hins opinbera á að fjármagna á fjárlögum og hvað á að fjármagna með lánum eins og gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir. Mér sýnist fyrir mitt leyti fyrst og fremst koma til greina að fjármagna þær framkvæmdir með lánsfé, þar sem ætla má að einhverjar tekjur fáist og þær geti þannig staðið undir þeim lánum, sem tekin eru til framkvæmdanna. Í öðru lagi kemur það einnig til greina við framkvæmdir, sem þarf að hraða, enda sé þá gert ráð fyrir því, að fjárveitingar verði auknar á næstu árum til þess að standa undir afborgunum og vöxtum. g geri mér grein fyrir því, að svo hefur verið í ýmsum tilfellum. Hins vegar hygg ég, að í æðimörgum tilfellum hafi stofnanir, sem hlut eiga að máli, orðið að skerða verulega eigin fjárveitingu til almenns reksturs til þess að standa straum af vöxtum og afborgunum. Þetta tel ég mjög varhugaverða stefnu og vildi fara um það hér fáum orðum og ætla til þess að skýra mál mitt sérstaklega að nefna eina framkvæmd, sem ég þekki vel, þ.e. byggingar fyrir rannsóknastofnanirnar á Keldnaholti.

Þar eru núna komnar upp þrjár stofnanir, fyrir rannsóknastofnun landbúnaðarins, rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og rannsóknastofnun iðnaðarins. Vil ég leggja áherzlu á það, að þeir, sem að vísindum starfa, meta það og þakka, að starfsaðstaða þar er orðin hin ágætasta. Það er stór framför frá því, sem áður var. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuvega frá 1965 segir svo í 58. gr.:

„Ríkið kemur upp hentugum byggingum og athafnasvæðum í rannsóknarhverfi til handa þeim rannsóknastofnunum, sem um getur í lögum þessum.“

Hvernig hefur verið á þessu máli haldið? Fyrsta fjárveiting til þessara bygginga fékkst með því að leggja niður grænmetissölu ríkisins og þar voru u.þ.b. 5.6 millj. í sjóði, sem fengust til rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Síðan hefur allt fjármagn til þessara byggingarframkvæmda fengizt sem lánsfé. Fyrst frá Atvinnuleysistryggingasjóði og síðan á framkvæmdaáætlun ríkissjóðs. Nemur sú lánsupphæð nú um 40 millj. kr. til þeirra tveggja bygginga, sem síðast hafa verið reistar.

Aftur á móti hefur ekki fengizt nein fjárveiting á fjárlögum til þess að standa straum af vöxtum og afborgunum af þessum lánum. Í þess stað hefur það verið lagt á svokallaðan Byggingarsjóð rannsóknarstarfseminnar að sjá um þær greiðslur.

Byggingarsjóður rannsóknarstarfseminnar á rætur sínar að rekja til 20% gjalds, sem Happdrætti háskólans ber samkvæmt lögum að greiða til ríkissjóðs. Það var notað í upphafi til þess að reisa þá byggingu á háskólalóðinni, sem nefnd hefur verið Atvinnudeild háskólans, en síðar rann það í ríkissjóð. Er ekki hægt að segja, að það hafi fengizt til rannsóknarstarfseminnar í mörg ár, en þessu fékkst breytt fyrir fáeinum árum, og var þá stofnaður þessi sjóður, sem heitir Byggingarsjóður rannsóknarstarfseminnar og hefur það hlutverk að leggja fé í byggingar og tækjakaup fyrir starfsemina.

Nú er hins vegar svo komið með þeim vöxtum og afborgunum, sem sjóðurinn verður að standa undir, að tekjur hans á næsta ári, sem eru áætlaðar um 8.5 millj. kr., hrökkva varla til þess að standa undir þessum greiðslum. Það er því ljóst, að sjóður þessi er um æðilanga framtíð orðinn algerlega máttvana til þess að sinna fjölmörgum verkefnum, sem hans bíða í einmitt þessu nýja hverfi, sem þarna er risið af myndarskap. Þarna þarf að kaupa mikið af tækjum, þarna þarf að gera alls konar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru sameiginlega fyrir þetta hverfi, það má öllum verða ljóst. Þarna eru núna komnir eða eru að koma um 70 starfsmenn, þarna er ekkert viðeigandi mötuneyti til staðar og til skammar hvernig það er. Þarna er ekki varðarhús eða aðstaða fyrir vörð til þess að fylgjast með þessum eignum, sem eru orðnar um 70 millj. kr. virði. Þarna er vegur inn á svæðið að heita má næstum því ófær í leysingum á vorin og fleira mætti nefna, sem ætlunin var að þessi byggingarsjóður gæti a.m.k. staðið undir.

Þetta hefur allt verið viðurkennt af þeim ágætu mönnum, sem unnið hafa að gerð þessarar framkvæmdaáætlunar. En í stað þess annaðhvort að veita eða gera ráð fyrir fjárveitingu til greiðslu á vöxtum og afborgunum þannig, að byggingarsjóður gæti staðið undir þessum framkvæmdum eða jafnvel veita lán til þeirra þá var bent á þá leið, að frá Happdrætti háskólans mætti hraða greiðslum um eitt ár, og fengist þannig nokkurt ráðstöfunarfé. Hins vegar, þegar á átti að taka, kom í ljós, að svo hart er gengið að Happdrætti háskólans í sambandi við byggingaframkvæmdir á vegum háskólans, að happdrættið er alls ekki aflögufært og þarf raunar að fá eins mikinn frest á greiðslu þessa gjalds eins og það frekast getur fengið. Munu ekki fást þaðan nema 2 millj. í þessar sameiginlegu framkvæmdir í ár, en 5 væru lágmark þess, sem nauðsynlegt er.

Ég hef rakið þetta hér fyrst og fremst sem dæmi um það öngþveiti, sem getur skapazt, ef framkvæmdum þessum, sem ekki hafa eigin arð til að standa undir greiðslu afborgana og vaxta, er ekki tryggð fjárveiting á fjárlögum í því skyni.

Mér sýnist, að það sé ekki um annað að ræða við fjárlög næsta árs en að hreinsa þetta beinlínis til og taka greiðslur vaxta og afborgana inn á fjárlög og á það vildi ég fyrst og fremst leggja áherzlu með þessum orðum, sem ég segi hér.

Mig grunar, að svo sé einnig háttað með ýmsar aðrar framkvæmdir, a.m.k. hefur því verið við borið í sambandi við flugmál, að mikið af fjárveitingu til flugmála fari einmitt til þess að greiða vexti og afborganir af lánum, sem tekin hafa verið í þessu sambandi. Einhvern tíma kemur að því, að þetta þarf að greiða, og ég óygg, að það sé skynsamlegt að horfast í augu við þá staðreynd strax.

Þar sem hæstv. fjmrh. minntist aðeins á sjóefnarannsóknir vil ég til upplýsingar geta þess, að það er stefnt að því að ljúka þeim rannsóknum á þessu ári. Að vísu er smávægileg markaðsathugun, sem við vitum ekki hvort gerð verður á árinu, en það ætti ekki að líða langt fram á árið 1972, án þess að fyrir liggi endanleg hagkvæmnisathugun frá Rannsóknaráði ríkisins á þessari framkvæmd, sem þá verður að sjálfsögðu afhent ríkisstj. til meðferðar.