29.10.1970
Efri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem öllum hv. þdm. mun kunnugt, hafa um alllangt skeið staðið yfir kjarasamningar milli ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það var gerð sú breyting á kjarasamningalögunum um síðustu áramót, að veittur var framhaldsfrestur til samninganna allt til næstu áramóta, en samkv. hinum almennu ákvæðum l. átti nýtt samningstímabil að enda um síðustu áramót. Ástæðan til þess, að þetta hefur dregizt þannig og báðir aðilar óskað eftir fresti, er sú, að nú er samið eftir nýju kerfi eða reynt að gera tilraun til þess að semja eftir algerlega nýju kerfi, þar sem byggt er á svokölluðu starfsmati. Nú standa sakir þannig, að samningum er ekki lokið, en hins vegar eru horfur á því, að samningar geti tekizt án þess að málið þurfi að fara til kjaradóms, og vitanlega væri það æskilegast, að svo gæti orðið. Aftur á móti er gert ráð fyrir því í l., að málið verði að fara fyrir kjaradóm nú í. nóv., ef ekki eru framlengdir frestir.

Efni þess máls, sem hér liggur fyrir, er að fara þess á leit við hið háa Alþ., að veittur verði viðbótarfrestur til tveggja mánaða, svo að ekki þurfi að vísa málinu til kjaradóms fyrr en í árslok, og kjaradómur hafi þá einn mánuð til umráða, svo sem lög gera ráð fyrir. Það liggur í augum uppi, að það mundi, þó að vísu væri hægt að taka málið aftur frá kjaradómi, áður en hann lyki störfum, geta spillt mjög öllum samkomulagshorfum, og í rauninni lítt mögulegt fyrir samningsaðila að þurfa að hafa uppi nú málatilbúnað til kjaradóms, ef slíkur frestur fengist ekki, sem hér er beðið um. Ég skal taka það skýrt fram, að þó að beðið sé um þennan frest, þá mun það ekki seinka málinu á einn né neinn hátt.

Það verður haldið áfram af fullum krafti að vinna að því, en það er enn þá eftir allmikil vinna til þess að ljúka málinu.

Þar sem hér er eingöngu um formsatriði að ræða varðandi meðferð málsins og báðir samningsaðilar eru sammála um að óska eftir þessum vinnubrögðum og þeirri heimild, sem hér er farið fram á, þá vonast ég til þess, að hv. d. geti fyrir sitt leyti fallizt á að samþykkja þessa breytingu á l. En þar sem komið er nú að mánaðamótum og ekki þótti rétt að óska eftir þessari heimild fyrr en séð væri örugglega, hvort ekki tækist að semja fyrir mánaðamót, þá neyðist ég til þess að fara þess á leit við hv. d., að hún sjái sér fært að afgreiða þetta mál án n., enda sé ég ekki beint ástæðu til þess, að það fari í n., þar sem það er svo einfalt í sniðum, og n. gæti fallizt á að afgreiða það hér við þrjár umr. í dag.

Ég legg því ekki til, herra forseti, að málið fari til n., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.