05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Nál. fjhn. um þetta mál hefur enn ekki verið lagt fram hér í d., er ekki komið úr prentun, en þar er tekið fram, eins og hv. frsm. gat um, að þótt nm. séu með frv., þá hafa þeir óbundnar hendur um einstakar till., sem fram kunna að koma, og einnig áskilja þeir sér rétt til þess að flytja brtt. sjálfir. Í n. stóðum við þrír nm.brtt. á þá leið, að á eftir liðnum „Sjóefnarannsóknir“ í 7. gr. frv. komi nýr liður: Landgrunnsrannsóknir 35 millj. kr. Og finnst mér rétt að gera nokkra grein fyrir þessari till. okkar, sem við höfum nú lagt hér fram í d. á sérstöku þskj., 837.

Um landhelgismálið hefur verið allýtarlega rætt bæði innan þings og utan að undanförnu og sú stefna verið áréttuð af öllum, sem um málið hafa talað, að við byggðum okkar stefnu í landhelgismálinu á því, og hefðum gert það síðan 1948, að landgrunnið væri hluti af yfirráðasvæði viðkomandi strandríkis. Við höfum talsvert gert af því að reyna að árétta þessa stefnu á ýmsan hátt, en þó hvergi nærri nægilega. Eitt veigamikið atriði í þeim efnum er, að haldið sé uppi á landgrunninu engu minni rannsóknum en í landinu sjálfu. Því miður hefur þetta ekki verið gert. En sitthvað margt af því, sem hefur komið fram á síðari árum, hefur þó gert þessar rannsóknir enn meir aðkallandi en áður og þá sérstaklega með tilliti til ýmissa verðmætra efna, sem kunna að finnast í hafsbotninum og möguleiki væri á að nýta. Það má segja, að engar slíkar rannsóknir hafi enn þá farið fram af opinberri hálfu, íslenzkri hvað þetta snertir. Eins er það, að mælingar á dýpinu eru hvergi nærri fullnægjandi, en það er þó á því, sem við byggjum að verulegu leyti okkar kröfu til þess, að fiskveiðilandhelgin nái til landgrunnsins alls. Þess er rétt að geta, að á s.l. ári lét Rannsóknaráð ríkisins fara fram sérstaka athugun á þessum málum og hefur nefnd vísindamanna, sem þá var falin sú rannsókn, og þá sérstaklega einn maður, sérfræðingur, samið mjög athyglisverða skýrslu um þessi mál, sem hefur verið lögð fram hér á hv. Alþ. Þar kemur fram, að rannsóknum okkar á þessu sviði er allt of skammt á veg komið og er þörf skjótra aðgerða í þeim efnum. Það varð svo til þess, að á síðasta ári eða ekki á síðasta ári heldur núna eftir áramótin skipaði ríkisstj. nefnd ráðuneytisstjóra til þess að gera bráðabirgðaskýrslu um málefni hafsins og landgrunnsins. Þessi ráðuneytisstjóranefnd var sett á laggirnar vegna þess, að það er ekkert eitt rn., sem fer með þau mál, er snerta landgrunnið og nýtingu auðæfa þess, heldur heyrir það, hinir ýmsu þættir þess, undir mismunandi rn., og þess vegna þótti rétt að fela ráðuneytisstjórunum að athuga þessi mál sameiginlega og í þessari ráðuneytisstjóranefnd eiga sæti ráðuneytisstjórar dómsmála-, iðnaðar-, menntamála-, sjávarútvegs- og utanríkisráðuneytisins. Í till. þeirri, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið, þá er sagt frá bráðabirgðaskýrslu ráðuneytisstjóranefndarinnar.

Fyrsti liður hennar fjallar um vísindalegar rannsóknir á landgrunninu, þ. á m. dýptarmælingar og kortlagningu, og skipulag rannsókna. Einnig samvinnu við erlenda aðila. Eins og þar kemur fram, þá er hér um mjög veigamikið verkefni að ræða. Nefndin telur m.a. í þessum þætti skýrslunnar nauðsynlegt, að gerðar verði nákvæmar dýptarmælingar af landgrunninu og þær mælingar gefnar út á nýjum kortum. Í fyrstu verði stuðzt við þær mælingar, sem gerðar verði með nákvæmari tækjum til staðarákvörðunar og dýptarmælinga, en síðan verði stöðugt unnið að nákvæmari kortlagningu einstakra svæða, sem þýðingu hafa vegna fiskveiða eða annarra orsaka. Þá telur hún nauðsynlegt, að keypt verði tæki til nákvæmrar staðarákvörðunar á hafi, er verði notuð til dýptarmælingar og til hinna ýmsu jarðeðlisfræðilegu og jarðfræðilegu rannsókna, sem ræddar eru hér á eftir. Þá er talið nauðsynlegt, að gerðar verði eftir föngum almennar jarðeðlisfræðilegar mælingar og jarðfræðilegar athuganir um leið og dýptarmælingar eru framkvæmdar. Þá er talað um að gera þurfi segulmælingar á sömu siglingalinum og dýptarmælingar eru gerðar. Þá er talað um, að gerðar verði skjálftamælingar með neistamæli eða hliðstæðum tækjum á helztu botnasvæðum landgrunnsins með könnun setlaga fyrir augum. Talið er, að slíkt megi einnig gera samtímis dýptarmælingum að nokkru leyti. Og sérstaklega verði kortlögð svæði, þar sem hagnýt botnefni finnast, skeljasandslög, þörungalög, sandnámur o.þ.h., til að áætla magn og útbreiðslu, og leigð verði viðeigandi tæki til þessa verks. Þá er talið nauðsynlegt, að haldið verði áfram hljóðbrotsskjálftamælingum og þær færðar út á landgrunnið til að fá upplýsingar um dýpri lög landgrunnsins og afla þurfi viðbótartækja til þess verks. Það er talað um, að gerðar verði þyngdarmælingar í sambandi við hinar samfelldu dýptarmælingar og fengin yrðu til þess tæki, sem boðizt hafa að láni frá Landmælingadeild Bandaríkjahers. Þá er talað um að gera þurfi varmastraumsmælingar með leit jarðhitasvæða á sjávarbotni fyrir augum.

Þá er sagt að gera verði eða framkvæma verði skipulega töku botnsýnishorna undan ströndum landsins og notuð verði eftir föngum aðstaða skipa Landhelgisgæzlunnar svo og Hafrannsóknastofnunarinnar til þess verks. Þá verði unnið úr sýnishornum og fari fram jarðfræðileg og jarðefnafræðileg úrvinnsla, þegar nægilegur fjöldi sýna hefur safnazt af hverju svæði fyrir sig. Þá er talað um, að athugaðir verði möguleikar á því að gera jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar rannsóknir að föstum lið í starfsemi rannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar og athuguð verði hagkvæmni þess að láta það skip annast að miklu leyti þær rannsóknir, sem hér er gert ráð fyrir, með tilliti til hinna fullkomnu siglinga- og mælitækja, sem þar verða fyrir um borð. Loks er talað um að rannsóknir á ástandi lofts og sjávar svo og samspili þeirra verði efldar með umhverfisrannsóknum á hafi úti og nauðsynlegra tækja aflað til þess. Sagt er, að slíkar athuganir hafi mikla þýðingu fyrir alla starfsemi á hafinu í framtíðinni, þ. á m. nýtingu á veiðum landgrunnsins ásamt því, að þetta auki þekkingu á eðli þess umhverfis, t.d. veðurfars, sem þjóðin býr við. Þá er talað um nauðsyn þess, að aukin sé þátttaka Íslands í alþjóðlegu hafrannsóknastarfi, sérstaklega á sviði jarðfræði og jarðeðlisfræði, og nýtt séu tækifæri til upplýsingaöflunar, sem oft bjóðast hér við komu erlendra rannsóknaleiðangra. Mætti þannig beina þeim að svæðum eða verkefnum, sem sérstaklega vantar upplýsingar um eða að sviðum, sem tæki og mannafla vantar hérlendis til að annast. Höfuðáherzla er lögð á frumkvæði Íslands í rannsókn botnsvæðanna umhverfis landið, bæði frá hagnýtu sjónarmiði og almennu grundvallarvísindalegu sjónarmiði. Loks er talað um, að athugaðir verði möguleikar á stofnun úrvinnslustöðvar fyrir jarðvísindalega, haffræðilega og skylda starfsemi hér á landi í tengslum við Reiknistofnun háskólans.

Þá er sagt, að gert sé ráð fyrir því, að stofnkostnaður vegna tækja til þeirra rannsókna, sem hér um ræðir, nemi nálægt 20 millj. kr. Þá er einnig áætlað, að með því að gera sérstakt skip út til þeirra rannsókna, sem hér er rætt um í sambandi við samfelldar dýptarmælingar og jarðeðlisfræðilegar athuganir, muni þær kosta um 14 millj. kr. á ári í skipakostnað, tækjaleigu, laun og annan rekstur, miðað við 2 mánaða starfstíma skipsins á ári. Talið er, að allgóð byrjunarmynd af íslenzka landgrunninu fengist á 2–3 árum með 2 mánaða starfstíma á ári.

Samkvæmt þessu, ef horfið væri að því að hefjast handa um þessar framkvæmdir strax á þessu ári, má gera ráð fyrir, að verja þurfi allt að 20 millj. kr. í tækjakaup eða tækjaleigu, en 14 millj. færu til þess að kosta skip til rannsóknanna, og ef horfið yrði að því, sem væri hér nauðsynlegra eða áreiðanlega mjög nauðsynlegt, að ljúka þessum rannsóknum fyrr en á 2–3 árum, eins og hér er gert ráð fyrir, þá þyrfti enn að auka þetta framlag. Með tilliti til þessa höfum við þrír nm. leyft okkur að leggja til, að í þetta frv. verði tekin upp sérstök fjárveiting til rannsókna á landgrunninu og nemi sú fjárhæð ekki minna en 35 millj. kr. Það kemur fram í grg. fyrir þessari till. ríkisstj., sem ég vitnaði í, að hún telur mikla nauðsyn á, að þessum rannsóknum sé hraðað, og hæstv. forsrh. minntist einnig á það í útvarpsumr., sem fóru fram um landhelgismálið nýlega, og þess vegna vænti ég þess, að um þetta mál geti náðst full samstaða hér í d. og sú fjárveiting verði samþykkt, sem till. okkar fjallar um. En það er áreiðanlegt, að ef við, sem við öll leggum áherzlu á, viljum fylgja fram þeirri stefnu að helga okkur allt landgrunnið, þá gerum við það með engu betur en vinna að sem beztum rannsóknum á því, og sýna því engu minni sóma í þeim efnum heldur en rannsóknum landsins sjálfs.