05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í tilefni af þeim tveimur brtt., sem hér hafa verið lagðar fram, þá vildi ég leyfa mér, áður en ég vík sérstaklega að þeim efnislega, að vekja athygli á tveimur formlegum atriðum, sem meginmáli skipta varðandi meðferð þessa frv. sérstaklega. Hv. 5. þm. Norðurl. e. kvaðst ekki sjá, að hér væri um að ræða neina fjáröflun sérstaklega til Stofnlánadeildar Búnaðarbankans eða veðdeildar, og saknaði hann þess. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni með framkvæmdaáætluninni, að framkvæmdaáætlunin væri tvíþætt. Annars vegar væru hinar beinu ríkisframkvæmdir, sem þetta frv. fjallar um, og hins vegar væri lögð fram áætlun Framkvæmdasjóðs Íslands, sem hefði það sérstaka hlutverk lögum samkvæmt að afla fjár til stofnsjóða atvinnuveganna. Ef Framkvæmdasjóðurinn ekki getur aflað þess fjár, þá er ekki grundvöllur fyrir því að taka það inn í þetta frv., vegna þess að það verður að athugast þá nánar í samráði við Framkvæmdasjóðinn, sem hefur sína þingkjörnu stjórn og hefur sínar sjálfstæðu lántökuheimildir, hvernig eigi að meðhöndla það mál. Það væri því með öllu útilokað að leysa þennan vanda með breytingu á þessu frv. Ég vék hins vegar að því í framsöguræðu minni, sem ég veit ekki hvort hv. þm. hefur hlýtt á, að þær væru sérstakt vandamál, Stofnlánadeild landbúnaðarins og veðdeild Búnaðarbankans. Það er að vísu svo með fleiri sjóði, sem á að afla fjár til af hálfu Framkvæmdasjóðs Íslands, að þeir fá ekki allt það fé, sem þeir biðja um, og það er sjaldnast sem sjóðirnir fá allt það, sem þeir kynnu að óska eftir, og t.d. möguleika til þess að stórhækka lán, eins og hv. þm. gat um að væru óskir um, það er mál út af fyrir sig, sem vel má fallast á að væri æskilegt en ekki er þar með sagt, að Framkvæmdasjóðurinn geti mætt. En ég tók það skýrt fram, að það væru þessir tveir stofnsjóðir, sem enn þá væru í athugun sérstaklega hjá Framkvæmdasjóðnum og hjá landbrh., sem hefði tekið þetta mál sérstaklega upp við Seðlabankann, möguleika á því að greiða fyrir þessum tveimur stofnsjóðum, þar sem þeir gætu ekki fengið viðhlítandi fé til útlána í samræmi við óskir Búnaðarbankans, og ég hef verið upplýstur um það af hæstv. landbrh., að það mál sé nú endanlega leyst í samræmi við óskir Búnaðarbankans, eins og þær lágu upphaflega fyrir, þegar fjáröflunaráætlun bankans var lögð fyrir Framkvæmdasjóð, en samkvæmt henni þá skorti á varðandi stofnlánadeildina 25 millj. kr. og það skorti einnig á fjáröflun til veðdeildarinnar, sem má segja, að geti verið álitamál, hvað mikil sé, en það var talið nauðsynlegt að afla a.m.k. 5 millj. kr. í viðbót. Það er að vísu töluvert fé, sem veðdeildin hefur yfir að ráða í ár, en það greiðist upp í skuldir, þannig að það er rétt hjá hv. þm., að það var ekki há upphæð, 4 millj. kr., sem þar var um að ræða, en það yrði þá veruleg aukning á þeim lánsmöguleikum og ég hygg viðhlítandi miðað við allar aðstæður, þegar þetta fé fæst, þannig að þessir tveir liðir, framlagið til stofnlánadeildarinnar og til veðdeildarinnar, það tel ég, að leysi eftir áætlun Búnaðarbankans nokkurn veginn þá brýnustu fjárþörf, sem þar er um að ræða, þó að auðvitað alltaf megi segja, að æskilegt sé að a meira fé. Það er annað mál. En það leysir hina brýnustu fjárþörf og mig undrar það raunar, að hv. þm. skuli ekki vita um þessa ráðstöfun, því að ég hygg, að bréf um þetta efni hafi verið lagt fyrir síðasta bankaráðsfund í Búnaðarbankanum frá hæstv. landbrh. Ég tel því, að þetta mál sé leyst með viðhlítandi hætti. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm., að starfsemi stofnlánadeildarinnar er miklu meiri nú heldur en var hér á árum fyrr og fleiri framkvæmdir sem stofnlánadeildin hefur tekið upp á sina arma, þannig að það er vissulega svo, að það ber brýna nauðsyn til að afla henni verulegs fjár, en þar er einnig við þann vanda að glíma í sambandi við fjáröflun, að það er ekki hægt að nota nema að mjög takmörkuðu leyti erlent fjármagn, vegna þess að það er útilokað að láta bændu taka lán með gengisáhættu. Það hefur verið takmarkað við vinnslustöðvar landbúnaðarins og, stórvirkar búvélar til ræktunarsambanda, en bændur sjálfa er auðvitað ekki hægt að láta taka lán með gengisáhættu. Fjáröflun til Stofnlánadeildar landbúnaðarins er því langhæsta fjáröflunin nú eftir útvegun þessa fjár, sem er til nokkurs stofnlánasjóðs af innlendu fé.

Varðandi till. hv. 4. þm. Reykv. og tveggja annarra hv. þm. um þá breytingu á 7. gr. frv., að varið verði til landgrunnsrannsókna 35 millj. kr., þá er tvennt um þá brtt. að segja. Í fyrsta lagi er á henni sá formlegi galli, að þessir peningar eru ekki fyrir hendi vegna þess, eins og hv. 4. þm. Reykv. mun sjá við lestur á 7. gr., að gert er ráð fyrir því, að þar sé aðeins verið að skipta því lánsfé, sem gert er ráð fyrir í öðrum gr. frv., að aflað verði eftir tveimur leiðum, annars vegar með útgáfu og endursölu spariskírteina og hins vegar með ráðstöfun á PL-480 lánum. Og það er ekki um að ræða frekari fjárhæðir, sem þann veg er hægt að ráðstafa, þannig að þegar af þeirri ástæðu, þessari formlegu ástæðu, þá getur þessi till. ekki gengið. Ég er hins vegar efnislega algerlega sammála hv. þm. um nauðsyn þess, sem þessi gr. fjallar um, að efla rannsóknir á landgrunninu, og hann vitnaði alveg réttilega í skýrslu, sem lögð er fram með landhelgistill. ríkisstj. frá ráðuneytisstjóranefndinni, þar sem talað er um þau mikilvægu viðfangsefni, sem þar þurfi að sinna, og gerð grein fyrir því mjög lausleg grein fyrir því, hvað áætla megi, að þessar tilraunir eða rannsóknir muni kosta. Það er hins vegar vikið að því samtímis í þessari grg., að það séu í athugun ýmsar leiðir til þess að fjármagna þennan kostnað. Í fyrsta lagi er þess að geta, að áætlunin er mjög lausleg og miklum vafa undirorpið, hvað þarf að nota af þessu á þessu ári. Í öðru lagi er lögð á það áherzla, að það sé ætlunin að leita til alþjóðlegra stofnana til aðstoðar í þessu sambandi, varðandi tæknilega aðstoð og það er enn þá algerlega óvíst, hvað fæst eftir þeirri leið. En það má vitna til ræðu hæstv. forsrh. í umr. um landhelgismálið hér á dögunum, sem raunar hv. 4. þm. Reykv. einnig vitnaði til, en hann skýrði þar rækilega frá þessu fjárhagsmáli og m.a. gat þess, að þegar hefði verið leystur einn liður af þessum vanda með því að erlent fyrirtæki, Shell í Hollandi, hefði fengið leyfi til vissra rannsókna á landgrunninu Íslendingum að kostnaðarlausu, en þar sem íslenzkur vísindamaður yrði um borð og allar þær rannsóknir, sem gerðar yrðu, yrðu okkur tiltækar. Hér er aðeins um eitt atriði að ræða, sem kemur okkur til góða í þessu efni, og það verður áfram haldið á sömu leið. Það má geta þess, að þegar Albert var leigður til sérstakra hafsbotnsrannsókna, þá var tæki sett í hann af hálfu leigjanda og við fengum það tæki aftur sem leigu fyrir skipið og það tæki er nú í okkar höndum, annars hefði þurft að kaupa það og það er verulega dýrt tæki.

Það er þess vegna alveg óljóst á þessu stigi málsins, hvað þarf af fé í þessu skyni, en ég vil taka það skýrt fram, að þó að ekki sé hægt að taka af þessu fé, sem hér er í frv. um framkvæmdaáætlunina, af því að þar er um alveg ákveðna fjárhæð að ræða, þá mun verða séð fyrir því með bráðabirgðalánum eða beinum fjárveitingum. Það er álitamál, hvora leið á að fara í því, að ekki verði um neina stöðvun að ræða á rannsóknarviðfangsefnum, sem talin verður brýn nauðsyn að vinna að á þessu ári. Ríkisstj. mun sjá fyrir fé til þess, enda þótt ekki sé mögulegt af þessum ástæðum, sem ég hef hér getið um, sérstaklega þar sem hér er um takmarkaða fjárhæð að ræða, að taka fjárveitingu í þetta frv., enda sem sagt algerlega óvíst, hvaða tölu ætti að setja í frv. í þessu sambandi, þar sem áætlanagerð um það efni á þessu ári er það óljós, en hins vegar vitað um alla þá liði, sem eru nú í frv., að þar er um alveg ákveðnar áætlanir að ræða, sem liggja að baki þeim framkvæmdum og fjárveitingum, sem þar er gert ráð fyrir, þannig að ekki er þar um neinar ágizkanir að ræða. Hér er aftur á móti um algera ágizkun að ræða í þessu sambandi, en aftur á móti staðfastur ásetningur ríkisstj. að halda fram þessum rannsóknum með þeim krafti, sem auðið er og þar sem nauðsynlegt verður talið að gera á þessu ári. Fyrir því mun með einhverjum hætti verða séð, þó að ekki sé auðið að samþykkja þessa till. í því formi, sem hún er við þetta frv.