05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Snemma á þessu ári lét bankastjórn Búnaðarbanka Íslands setja saman grg. eða skýrslu um hag og rekstur Stofnlánadeildar landbúnaðarins og veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og horfur og áætlaða fjárþörf þessara deilda á þessu ári. Það er rétt, að þessar grg. voru síðan sendar, þessar ýtarlegu grg. voru síðan sendar með bréfi frá bankanum til stjórnar Framkvæmdasjóðs og í rn. Það er rétt, að fyrstu tölur, sem okkur bárust til eyrna um þessa ákvörðun fjár til þessara framkvæmda, voru að okkar dómi mjög óhagstæðar og við vorum ekki ánægðir með þær. Því var það, að bankastjórar eða af hálfu bankastjóra og bankaráðsformanns var haft ítrekað samband við áðurnefnda aðila um að láta meira fé af hendi rakna til þessara nauðsynlegu framkvæmda. Á bankaráðsfundi, sem haldinn var fimmtudaginn 25. marz s.l., voru þessi mál tekin til umr. og meðferðar. Þar var lagt fram bréf frá hæstv. landbrh., sem hafði að geyma loforð þess efnis, að til viðbótar því fé, sem áætlað hafði verið, yrði séð svo um, að stofnlánadeild fengi 25 millj. til ráðstöfunar á þessu ári og veðdeild 5 millj. Það vildi svo til, að hv. 5. þm. Norðurl. e. var vant við látinn þennan dag og mætti því aðeins í byrjun fundarins og vék síðan af fundi og það mun vera svo, að þetta bréf hafi ekki verið lagt fram fyrr en hann var farinn af fundi. En að dómi okkar, sem eftir sátum á þessum fundi, þ.e.a.s. hinna bankaráðsmannanna og bankastjóranna beggja, var talið, að þetta bréf hæstv. ráðh. hefði gjörbreytt málunum og ef staðið væri við efni þess, sem ekki væri að draga í efa, þá væri útlit í þessum efnum orðið viðunandi. Þetta bréf þýðir það, að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur á þessu ári yfir 180 millj. til ráðstöfunar til nýrra umsókna og framkvæmda á þessu ári og veðdeildin að vísu ekki nema um 9 millj. í þessu skyni. Að dómi okkar, sem þennan fund sátum, var því viðhorfið breytt mjög til batnaðar. Það er að vísu svo, að það er ekki búið að fara yfir eða athuga umsóknir þær, sem borizt hafa bankanum. Þær eru að vísu margar og gera sjálfsagt ráð fyrir háum fjárhæðum, sem betur fer. Það sýna framkvæmdirnar um landið. En ég ætla samt, að með þetta fé til ráðstöfunar þurfum við ekki að kvíða því að geta ekki leyst úr umsóknum manna á þessu ári eins og undanfarið.

Um veðdeildina er það að segja, eins og hér hefur oft áður verið vikið að, að málefnum hennar er ekki komið á traustan grunn enn þá. En ég ætla þó, að það hafi stundum litið verr út hjá veðdeildinni og að við leysum mál hennar ekki verr heldur en undanfarið. Ég er ekkert hræddur um annað. Og í þessu sambandi má líka geta þess, sem gert er, og ég vil minna á það, að í vetur var veðdeildinni í fyrsta skipti í sögunni, að ég ætla, veitt sú viðurkenning af hv. Alþ., að til hennar var látin renna fjárveiting 21/2 millj. kr. á fjárlögum þessa árs, og sannarlega ber að meta þetta og þakka, þó að auðvitað viljum við gjarnan fá sem allra mest fé í þessar deildir. Það er svo annað mál. En bankinn hefur þann hátt á, að um lán úr stofnlánadeild er sótt snemma árs, umsóknirnar eru síðan yfirfarnar. Þær eru metnar og vegnar, ef svo mætti segja, og síðan er umsækjendum svarað, hvort þeir eigi von á láni eða ekki. Og ég ætla, að það hafi ekki komið fyrir, svo að ég viti til, að bankinn hafi ekki staðið við þessi loforð sín undanfarin ár. Að þessu athuguðu, þó að maður viti að vísu, hv. þm. verða að athuga það, að hér er um áætlanir að ræða, en að þessu athuguðu verð ég að segja það, að ég er ekki hræddur um, að bankinn geti ekki staðið við sitt í þessum efnum eins og undanfarin ár. Ég hef enga ástæðu til þess að halda annað.