05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alveg rétt og ég get verið hv. 5. þm. Norðurl. e. alveg sammála um það, að auðvitað viljum við fá sem allra mest fé til þarfra mála og góðra hluta og það er ekki að draga í efa. Og hitt er svo alveg rétt hjá honum, að það má vel vera, að við þurfum að endurskoða ýmsar lánareglur, sem við höfum farið eftir undanfarið, og færa þær til réttlátara horfs. Á ég þar sérstaklega við veðdeildina eins og við höfum oft rætt um áður, að vitanlega þarf við fyrstu hentugleika að hækka lánin þannig, að það sé hægt að hafa nokkurt svið til þess að velja eftir, hvort keypt er stór jörð eða smá eða hluti úr jörð. Um allt þetta get ég verið honum sammála. Um áætlanir bankans, sem við minntumst á áðan, er það að segja, að ég tel, að þær hafi verið mjög vel unnar og þær hafi gert sitt gagn. Það má vera, að tölur þeirra standist ekki að fullu í reynd, en ég held, að það sé enginn vafi, að þær voru óvenjulega vel unnar. Hitt er svo annað mál, að ég ætla ekki að fara að ræða það mál frekar hér eða fletta fundargerðarbókum bankaráðs Búnaðarbankans hér í þessari hv. d. Það mál verðum við að ræða nánar innan veggja bankans og reyna þar að þoka lánamálunum áleiðis.