19.03.1971
Efri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

280. mál, bátaábyrgðarfélög

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er ákaflega lítið að vöxtum, eins og þdm. sjá, og er um það eitt, að í stað 5 manna, sem skylt er að hafa í stjórn í bátaábyrgðarfélagi í dag, þá megi hafa 3, þar sem á mörgum stöðum hefur reynzt erfitt að manna þessar stjórnir og ná þeim saman.

Þess skal einnig látið getið, að umfram þessa breytingu, sem er í sjálfu sér lítil, þá fóru Samábyrgðarmenn fram á aðra breytingu, sem mætti mikilli andstöðu hjá sveitarfélögum, að undanþiggja þessi félög ákveðnum gjöldum, sem í dag renna til sveitarfélaga, en það mætti það mikilli andstöðu sveitarfélaga, forsvarsmanna þeirra, að ríkisstj. gat ekki á það fallizt, að það yrði flutt, og það er þess vegna tekið út úr upphaflega frv. eins og það kom frá Samábyrgðinni. Hins vegar þrátt fyrir þetta lagði Samábyrgðin áherzlu á, að þessi liður frv. næði fram að ganga. Þess vegna er þetta frv. nú hér flutt.

Ég tel, að það þurfi ekki frekari skýringar við og legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.