01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

280. mál, bátaábyrgðarfélög

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti.

Frv. þetta er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar einróma og ágreiningslaust, en vert er að geta, að Samábyrgð hafði farið fram á áður, — en frv. var mun víðtækara en hér um ræðir — farið fram á það að losna við aðstöðugjöld til sveitarfélaga, þar sem hún telur sig með töluverðum rökum tvískatta í því efni. Um þetta varð ekki samkomulag vegna harðrar andstöðu sveitarstjórnarmanna, en samt sem áður var talið nauðsynlegt að flytja þetta frv. að áliti Samábyrgðarinnar sjálfrar, þó að sú ósk Samábyrgðarinnar væri ekki tekin með, en það hefur reynzt erfitt að koma upp 5 manna stjórn hjá mörgum þessum félögum og fjallar frv. fyrst og fremst, eins og aths. þess bera með sér, um það, að heimilt sé að fækka úr 5 mönnum í stjórnum samábyrgðarfélaganna niður í 3.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.