22.02.1971
Efri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi nú aðeins fyrst mega þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir, hvernig hann hefur tekið undir frv. Hann telur, að í því sé ýmislegt, sem til bóta stefni, þó að sitthvað kunni að vera, sem gæti orkað tvímælis. Ég skal strax minnast á 1. gr. í þessu sambandi, þar sem segir — eða 2. gr. er það nú — að utanríkisþjónustan fari með utanríkismál og gæti hvarvetna hagsmuna Íslands um stjórnmál, öryggismál, utanríkisviðskipti og menningu. Þar er þetta stóra atriði, sem menn hefur greint á um. Það er um, á hvern hátt viðskiptamálunum sé komið fyrir, bæði í utanrrn. og í viðskmrn. Núna er sá háttur hafður á, að utanrrn. gerir alla viðskiptasamninga, sem gerðir eru við erlend ríki, en viðskmrn. sér um framkvæmdina. Þetta eru höfuðlínurnar, sem farið er eftir. Það orkar nú ekki beinlínis tvímælis, eins og hv. þm. vildi halda fram, að mörkin væru óljós á milli starfseminnar á milli þessara tveggja rn. Svo hefur utanrrn. meiri afskipti af viðskiptamálum. Við höfum t.d. í mörgum sendiráðum sendifulltrúa, sem um leið eru nokkurs konar viðskiptafulltrúar. Ég get nefnt ýmis sendiráð, sem hafa menn, sem ræða við erlend verzlunarfyrirtæki, ræða um sölu á íslenzkum afurðum og kaup á erlendum. Og þessir menn hafa á þeim stöðum, þar sem þeir hafa verið starfandi, gert, ég vil segja, mikið gagn. En svo er aftur um það, hver eigi að kosta þessa menn, hvort það eigi að vera einhver viðskiptasamtök eða firmu jafnvel, sem kosti þá, þá hefur það ekki náð fram að ganga. Það hefur verið gerð tilraun með það. Ég minnist sérstaklega eins tilfellis, þar sem við buðum upp á, að við skyldum skaffa þessum aðilum, sem sjá sér hag í því að halda þessum fulltrúum uppi, við skyldum útvega þeim húsnæði, símaþjónustu, skrifstofustúlku og annað, sem þeir þyrftu til starfseminnar, en þessi fyrirtæki, sem að þeim áttu að standa, þyrftu bara að borga laun viðkomandi manns. Þetta tókst ekki. Við reyndum æ ofan í æ að fá þessa menn til þess að kosta þessa sendifulltrúa, sem svona væru tilkomnir, sem raunverulega voru ekki sendifulltrúar, því að þeir voru ekki hugsaðir á vegum utanrrn., heldur á vegum þeirra samtaka eða viðskiptafyrirtækja, sem kostuðu þá að launum til. Sendiráðið skyldi bara sjá þeim fyrir starfsaðstöðu, svo að þeir gætu innt starfið af hendi þess vegna. Það eru til bæði viðskiptafulltrúar með því nafni og líka aðrir, sem ekki hafa nafnið. Þeir eru nokkurs konar sendifulltrúar, sem vinna sín störf af áhuga, eins og hér var líka bent á, að þyrfti að vera og ekki gagn í öðrum mönnum en þeim, sem hafa verulegan áhuga fyrir því starfi, en ég held, að það sé nú hægt samkv. ákvæðum 11. gr. að ráða menn til þessara starfa, ef áhugi hjá viðskiptafyrirtækjum er fyrir hendi, og það er líka hægt fyrir rn., ef það telur nauðsyn bera til þess, að kosta þessa menn til sérstakra starfa, — náttúrlega má alltaf deila um það hvernig beri að skipta á milli rn. og þeirra, sem þeir vinna fyrir. En eins og ég sagði áðan, eru höfuðreglurnar fyrir skiptingu þessar, að utanrrn. annast samningagerðina, viðskmrn. framkvæmdina og hún hefur verið hjá þeim í ýmsum greinum núna mjög langan tíma.

Við önnur atriði, sem hv. þm. ræddi nú vitt og breitt um — utanríkisþjónustuna yfirleitt — hef ég síður en svo neitt að athuga. Ég vil gjarnan að menn geri grein fyrir sínum skoðunum á þessum málum og láti sitt álit í ljós. Ég held, að það sé ágætt, að þau séu rædd hér. Hann minnti á, hv. þm., að í þáltill., sem samþykkt var 1968 um endurskoðun á utanríkismálum, hefði verið sagt, að grundvallarlínan í þessari endurskoðun hefði átt að vera sú, að þessi þjónusta ætti að verða betri, fullkomnari og ódýrari. Það er náttúrlega ekki alveg gott að samræma þetta allt, en þó ekki ómögulegt mundi ég segja. Og við verðum að gæta þess, að við Íslendingar höfum stjórnmálasamband við yfir 40 ríki og til þess að stunda þetta samband á milli Íslands og þessara 42 ríkja eru aðeins 11 útlend sendiráð. Eitt sendiráð er t.d. yfir alla Ameríku, bæði Norður-Ameríku og Suður-Ameríku og mörg ríki í hvorum hlutanum. Og það er náttúrlega ekki von, að þetta sé hægt að gera á svo stóru svæði nema því aðeins, að það kosti einhverja peninga. En kostnaðurinn við þetta hefur verið takmarkaður, mundi ég segja, með því að láta sama manninn vera víðar en á einum stað og meðaltalið er, að hver útsendur sendiherra er í 4 löndum. Sumir sendiherrar eru miklu víðar, aðrir eru kannske á færri stöðum.

Hvað viðvíkur sendiherrunum á Norðurlöndum, þá er það rétt, að það mætti sýnast kannske óþarflega mikill tilkostnaður að hafa sendiherra í hverju landi. En ég vil taka það fram sérstaklega út af því, að allir þessir Norðurlandasendiherrar eru líka sendiherrar í öðrum löndum og sumir í mörgum. Viðskipti okkar við Norðurlöndin, bæði efnahagsleg, viðskiptaleg, menningarleg og á ýmsum fleiri sviðum gera það að verkum, að við þurfum að hafa mann á hverjum stað. Það er ekki hægt að komast hjá því, einhvern mann, þó að hann sé ekki sendiherra, verðum við að hafa, þá verður að vera opin skrifstofa með a.m.k. einum manni, sem getur gegnt þar störfum. Og ég held, að það sé núna eins og er ekkert af Norðurlandasendiráðunum nema í Danmörku, sem hefur meira en einn aðstoðarmann og eina stúlku og minna væri sjálfsagt ekki hægt að komast af með, þó að það væri ekki nema eitt sendiráð fyrir öll Norðurlöndin. Það yrði að vera afgreiðslustaður, sem gerði það mögulegt, að það væri hægt að hafa daglegt samband, bæði heim hingað til Íslands eða til sendiráðsins, hvar sem það væri, þess eina sendiráðs, sem upp yrði þá sett, og svo til manna í landinu, sem þyrftu að ná sambandi við það. En ég held, að þetta tvennt, bæði það, að það verður að vera skrifstofa í öllum löndunum, þó að þar væri kannske ekki nema einn maður og ein stúlka, þá yrði þetta afskaplega lítið ódýrara heldur en að hafa reglulegt sendiráð á hverjum stað. Og svo hitt, að allir þessir menn eru sendiherrar, sumir á tveimur stöðum erlendis í öðru landi og sumir í þremur, þannig að það er ekki gott að takmarka þetta mikið meira heldur en orðið er.

Kostnaðurinn í heild við utanríkisþjónustuna. Hv. þm. tæpti á því og alveg réttilega, að hann væri í kringum 1% af heildarútgjöldum ríkisins, en stundum hefur hann farið niður í 0.8% eða 0.9%, það er svolitið misjafnt eftir árum og hann hefur ekki vaxið, ekki að prósentutölu, þó að sendiráðum hafi fjölgað, og það þýðir, að kostnaðinum hefur verið haldið í skefjum. Og ég held meira að segja að kostnaðurinn hjá því landinu, sem kannske er okkur skyldast af Norðurlöndunum og líkast að ýmsu leyti, heildarkostnaðurinn við utanríkisþjónustuna sé ekki minni heldur meiri en þetta. Að vísu eru sendiráðin fleiri, en heildarprósentan er líka hærri. Og þess vegna er ég ekki trúaður á, að ef þessi þjónusta á að verða að gagni, þá sé unnt að koma kostnaðinum við hana mikið niður fyrir þetta 0.8, 0.9, 1% eða eitthvað þess háttar af heildarútgjöldum ríkisins. Og ég verð að segja það, að ég álít þar vel varið peningum. Ég þekki mörg tilfelli, þar sem sendiherrar okkar erlendis margir hafa getað sparað landinu tugi millj., og ég vil segja hundruð millj. sumir hverjir, með sínu starfi á þessum stöðum. Þeir vissulega vinna fyrir sínum launum og þjóðin er ekki á þeim buxunum nú, getur maður sagt, að hún geti sleppt starfi þessara manna eða fellt það niður.

Hv. þm. minntist á ýmis önnur atriði, sem ég skal ekki fara mikið út í. Hann minntist á utanrmn. og taldi, að hún ætti að hafa meiri áhrif heldur en hún hefur á afgreiðslu mála. Utanrntn. var, eins og allir hv. alþm. þekkja, á tímabili óvirk og ég tel það hafa verið mjög miður, að hún var það. En því hefur nú verið kippt í lag, þannig að hún hefur náið samband við utanrrn., og það hefur verið upp á síðkastið, held ég, að ég megi segja, gott samband á milli þeirra, þannig að það hefur ekkert farið fram hjá hvorugum aðilanum það, sem hinn hefur haft áhuga fyrir. Ég held þess vegna, að hv. Alþ. geti treyst því, að sambandið við utanrmn. verði í lagi og hún geti stutt fingrinum á þá punkta eða þau atriði, sem hún vill láta athuga sérstaklega, og geti fylgzt með því starfi í einu og öllu eins og hún óskar eftir.

Eftirlitsmenn má náttúrlega setja og það er haft eftirlit með sendiráðum og útgjöldum þeirra. Ég held, að þar skorti ekki á. Að það þyrfti að vera einhver sjálfstæð stofnun eða sjálfstæður maður, sem ekki væri tilheyrandi utanrrn., held ég að sé óþarfi, því að það eftirlit, sem haft hefur verið, hefur verið á þann hátt, að það hefur verið venjulega eitthvað í sambandi við endurbætur á húsnæði, húsgögnum eða ýmsum útgjöldum, sem kannske hafa getað orkað tvímælis, þá hefur venjulega verið sendur maður frá utanrrn. og annar frá húsameistara ríkisins eða einhver, sem hefur vit á þeim hlutum, sem um var að ræða, sérstaklega „teknískt,“ og þeir hafa í sameiningu gert till. um, hvernig með skuli fara, það sem í því tilfelli hefur valdið ágreiningi.

Ég sagði það í byrjun, að ég hefði ekki hugsað mér að ræða frvgr. hverja fyrir sig, af því að ég taldi, að það hefði verið gert, þegar málið var lagt hér fram í fyrra, þó að það væri ekki í þessari d., en ef umr. um utanríkisþjónustuna eru taldar nauðsynlegar, þá er ég síður en svo nokkuð á móti þeim, og ég mundi meira að segja verða feginn því, að þessar umr. gætu farið fram. Ég hef nú tekið upp þann hátt, eins og hv. þm. vita, að leggja fram skýrslu um utanríkismál og hvernig með þau hefur verið farið á liðnu ári og ég vonast til að geta gert það enn nú innan skamms. Og það er út af fyrir sig líka hlutur, sem gott er að ræða og gera sér ljóst, en það er kannske ekkert síður nauðsynlegt að ræða um þjónustuna sjálfa og hvernig hún hefur verið útfærð, ef svo má segja „teknískt“ eða í framkvæmd, því að það getur náttúrlega oltið á ýmsu, hvernig það er gert. En ég held, að óhætt sé að fullyrða það, að við séum það vel settir, að við höfum marga ágæta menn í okkar utanríkisþjónustu, sem leysa sitt starf af hendi vel og ágætlega og sóma sér vel erlendis.

Ég vil svo, herra forseti, aðeins endurtaka það, sem ég lagði til hér áður, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. og það fái afgreiðslu á þessu þingi, því að mér er talsvert í mun, að málið vefjist ekki á milli þinga ár eftir ár, og svo koma nýir menn á næsta þingi og hala kannske áhuga á allt öðru. Ég vildi, að þeir menn, sem hafa haft það til meðferðar, gætu lokið við afgreiðslu málsins á þessu þingi.