31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli, sem í aðalatriðum er sú, að hún leggur til, að frv. verði samþ., en áskilur að vísu, að nefndarmenn geti haft frjálsar hendur um fylgi eða andmæli gegn till., sem fram kunna að koma.

Málið hefur verið afgreitt í Ed. og kemur þaðan með einni lítilli orðalagsbreytingu, en að öðru leyti var það samþ. óbreytt eins og það lá fyrir. Frv. hefur fengið afgreiðslu í tveim n. þingsins, bæði í allshn. og í utanrmn., enda hefur utanrmn. mótað verulega þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. á s.l. þingi. Um þær brtt., sem hér liggja fyrir, vildi ég þó fara nokkrum orðum. Fyrsta eða fyrri brtt., frá hv. 6. þm. Reykv. og 1. þm. Vestf., er í tveimur liðum og fyrri liðurinn aftur í 3 undirliðum. Í fyrstu brtt. fyrri liðsins segir, að um allar meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum skal rn. hafa samráð við utanrmn. Alþ., bæði meðan Alþ. er að störfum og milli þinga. Í þingsköpum segir um þetta atriði: „Utanrmn. starfar einnig á milli þinga, og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“ Ég tel í þessu vera nægilega tryggingu fyrir því, að mál verði borin undir utanrmn., bæði á meðan þingið situr og eins á milli þinga. Það hefur sjálfsagt komið fyrir, að það hefur ekki verið haft samráð í öllum atriðum við utanrmn. á tímabili, en hins vegar vil ég fullyrða, að þetta hefur verið venjan og þetta á að vera venjan og ég er 100% samþykkur henni, en þó einhvern tíma hafi brugðið út af því, þá getur sjálfsagt brugðið út af því þótt þetta sé lögfest, þó það standi í þingsköpum. Ég sé lítinn eða engan mun á því. En sem sagt, þetta er ákveðið í þingsköpum og ber auðvitað utanrrn. að fara eftir því, og það tel ég mig hafa gert til þessa.

Þá segir í 2. brtt. í fyrri liðnum, að sendinefnd Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna skal skipuð af ráðh. til eins árs í senn, og skulu þingflokkarnir hafa rétt til að tilnefna einn fulltrúa hver í n. Ég er ekki viss um, að það sé heppilegt að lögfesta þetta. Þetta hefur orðið föst venja hin síðustu ár, það hafa verið tilnefndir fulltrúar bæði til Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana, sem utanrrn. tilnefnir menn í, að það skuli borið undir þingflokkana, hverjir sendir skuli vera, og það eru nú þeir fimm menn, sem við eigum kost á að senda á fund Sameinuðu þjóðanna án þess að borga fyrir þá fargjöld og annað þess háttar. Þeir eru fimm og flokkarnir eru orðnir 5 hér á þinginu. Ef það skyldi nú bætast einn flokkur við og flokkarnir verða 6, hvernig á þá að fara að? Á að láta þann flokk, sem hér hefur einn eða tvo fulltrúa á þingi, við skulum segja tvo, og svo kemur kannske 6. flokkurinn með 2 fulltrúa, hvað á að gera, á þá endilega að binda sig við, að allir þessir flokkar skuli fá einn fulltrúa, þó við eigum ekki kost á nema 5 fulltrúum með venjulegum hætti? Ég held þess vegna, að það sé alveg óþarfi að samþykkja þessa brtt. Við getum gert þetta, eins og við höfum gert nú, og ef einhver breyting verður á, þá vona ég, að það verði hægt að gera þá breytingu með samkomulagi við þingflokkana og þannig verði það mál leyst.

Þriðji hluti þessarar fyrri brtt. hljóðar svo: „Árlega skal ráðh. gefa Alþ. skýrslu um viðhorf ríkisstj. til utanríkismála og um störf íslenzku sendinefndarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna, ásamt rökstuddri grg. um afstöðu Íslands til einstakra mála á þinginu.“ Þetta hefur verið leitazt við að gera tvö síðustu árin og í þriðja skipti nú. Ég held því, að það sé alveg óþarft að lögfesta, að þetta skuli gert. Þetta hefur verið gert með góðu samkomulagi við alla aðila og ég tel þess vegna, að það sé ekki endilega nauðsynlegt að lögfesta þetta.

Önnur brtt. er við 4. gr., sem lagt er til að verði 5. gr. og orðist þannig: „Hafa skal sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og ræðisskrifstofur á þeim stöðum erlendis, þar sem slíkt er álitið nauðsynlegt til gæzlu á hagsmunum Íslands.“ Þetta er óbreytt frá því, sem er í frv. Og viðbótin er: „Ákveða skal með fotsetaúrskurði, að fengnu samþykki Alþ., á hvaða stöðum skuli hafa sendiráð og fastanefndir hjá alþjóðastofnunum.“

Ég held nú, að það dugi þessi ákvæði, sem eru í 4. gr. frv. Þar segir orðrétt, held ég, shlj. eins og fyrri hl. brtt. er, en síðan segir: „Um ákvarðanir samkv. þessari grein skal hafa samráð við utanrmn.“ Forsetaúrskurður skal líka viðhafður, svo að breytingin er eingöngu sú, að í staðinn fyrir utanrmn. kemur Alþ. Og mér finnst nú, að það sé kannske dálítið þungt í vöfunum, að leita alltaf til Alþ., þegar ákveða skal um sendiherra eða fulltrúa hjá alþjóðastofnun, heldur væri fullkomlega nægilegt að leita til utanrmn., sem er að störfum allt árið. Það er ólíkt hægara. Hitt er þyngra í vöfunum að leita til Alþ., sem ekki situr. Við höfðum eða tókum í sumar sem leið ákvörðun um sendiherra í nokkrum löndum og ég tel, að það hefði þá orðið að bíða þangað til nú, ef átt hefði að leita til Alþ. um þessa ákvörðun.

Þá er brtt. frá hv. 6. landsk. þm. og fleirum um breytingu á 13. gr. Í 13. gr. segir, eins og í frv. stendur, að heimilt er að fela embættismanni utanrrn. að vera sérstakur eftirlitsmaður sendiráða og ræðisskrifstofa. Skal eftirlitsmaðurinn fylgjast með rekstri sendiráða og ræðisskrifstofa og sjá um, að þar sé gætt fyllstu hagkvæmni og sparnaðar. Eftirlitsmaðurinn skal öðru hverju heimsækja sendiráðin og ræðisskrifstofur. En brtt. segir, að 13. gr. skuli orðast svo: „Fjárlaga- og hagsýslustofnunin skal fylgjast með rekstri sendiráða og ræðismannsskrifstofa og sjá um, að þar sé gætt fyllstu hagkvæmni og sparnaðar. Eftirlitsmaður skal öðru hverju heimsækja sendiráð og ræðismannsskrifstofur.“ Ég veit ekki, hvort það er nauðsynlegt eða eðlilegt að gera þessa breytingu. Það eru fjöldamargar ríkisstofnanir, sem reka starfsemi, víðtækari jafnvel heldur en utanrrn. hefur með að gera, án þess að nokkur eftirlitsmaður sérstakur frá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni komi þar til eftirlits. Mér finnst eins og með þessu sé utanrrn. að nokkru leyti sett undir eftirlit stofnunarinnar. Stofnunin getur hvenær sem er krafizt upplýsinga og lítið eftir fjárreiðum utanrrn., en eðlilegast er, að manni úr utanrrn., sem þekkir til þeirra starfa, sem sendiráðunum eru ætluð, sé falið að líta eftir, og þannig mun það vera í þeim löndum, þar sem ég þekki til a.m.k., að það er sendimaður eða eftirlitsmaður frá utanrrn., sem framkvæmir það eftirlit, sem með höndum er halt. Hinu er ég á engan hátt á móti, að fjárlaga- og hagsýslustofnunin komi líka og skoði þá hliðina á starfseminni, sem snertir fjárútlát og meðferð fjár hins opinbera. Það er eðlilegt og sjálfsagt, en til þess þarf engin lög, hún getur gert það án þess. Mín niðurstaða er sú, að ég tel, að þessar breytingar allar séu í fyrsta lagi óþarfar og að sumu leyti kannske ekki heppilegar, og ég legg þess vegna til, að þær verði felldar.