31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. utanrrh. gerði að umtalsefni brtt. þá, sem ég flyt ásamt hv. þm. Sigurvin Einarssyni. Og hæstv. ráðh. var í sjálfu sér ekki efnislega andvígur þessum till. Hann taldi hins vegar óþarfa að lögfesta þær, vegna þess að framkvæmdin væri þessi núna. Ef við færum nú að taka upp þann hátt við lagasmíð á Íslandi að fella út það, sem óþarfi væri að lögfesta, vegna þess að það væri verið að gera það í verki um sömu mundir og lögin eru gerð, þá mundi nú lagasmíði okkar geta orðið miklu einfaldari en hím er. Við leggjum oft í það vinnu að lögfesta atriði, sem allir eru sammála um og sem eru þannig í framkvæmd, þannig að í sjálfu sér eru þetta engin rök fyrir því. Ég get talið upp margar greinar í frv. sjálfu, sem eru þess eðlis líka, að það má segja, að það sé óþarfi að setja þær í lög. Það eru fjölmargar greinar í þessu frv., sem eru þannig. En tilgangurinn með flutningi þess arna var, eins og ég sagði áðan, að styrkja tengslin milli Alþ. og utanrrn., og á þessu tel ég vera mjög mikla þörf. Ég held, að það sé mikil nauðsyn, að Alþ. taki það sem miklu alvarlegra verkefni en það hefur gert að fjalla um utanríkismál og taka þátt í ákvörðunum um þau efni.

Ég get fallizt á eina aths. hæstv. ráðh. við till. okkar, það atriði, þegar hann benti á, að þarna stendur, að þingflokkarnir skuli hafa rétt til að tilnefna einn fulltrúa hver í n. Þetta gæti hugsanlega komið einkennilega út. Ef hér skyldi nú fjölga smáflokkum, þá gæti þetta orðið býsna mikill fjöldi. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um þetta, og ef þar fengist samstaða um að taka einhverja slíka breytingu inn, þá mundi ég mjög gjarnan vilja breyta þessu þannig t.d., að það væru þingflokkar þeir, sem sæti eiga í utanrmn. eða eitthvað svoleiðis, þannig að tryggt væri, að þarna væri um að ræða flokka, sem hefðu einhvern umtalsverðan styrk á Alþ. Íslendinga. Og ég mundi vilja taka þátt í því að breyta þessu orðalagi, ef Alþ. féllist á að taka ákvæði um þessi atriði inn í frv.

Um síðari till., sem hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni, sagði hann, að þarna væri aðeins um það að ræða, að við legðum til, að þetta væri borið undir Alþ. í staðinn fyrir, að í lögunum er gert ráð fyrir samráði við utanrmn. Samráð við þm. er auðvitað allt annað en ákvörðun, sein tekin er á þingi. Við leggjum til, að Alþ. sjálft taki ákvörðun um þessi atriði, og eins og ég sagði áðan þá gerist þetta ekki það oft, að þetta þurfi að vera neitt óhagræði fyrir rn.