07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það verða nú sennilega aðeins örfá orð. En það er dálítið einkennilegt, að þessi hv. þm. talar í ádeilutón til núv. ríkisstj. vegna erlendu skuldanna, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins sé í. Hann talar um, að 38% af heildarskuldum stofnlánadeildarinnar séu erlendar skuldir. Og þetta er sagt í ávítunartón til núv. ríkisstj. — alveg eins og núv. ríkisstj. beri meginábyrgðina á erlendu skuldunum. Það er vitað mál, að áður en núv. ríkisstj. var mynduð, áður en sjálfstæðismenn tóku við landbúnaðarmálunum, þá var stofnlánadeildinni útvegað erlent fé til ráðstöfunar, en ekki innlent, eins og gert hefur verið síðan, og það eru syndirnar frá þeim tímum, sem hafa orðið stofnlánadeildinni svo þungbærar. Þetta ætti hv. þm. að vita. Hann ætti að vita þetta og skilja það. Og það er enn þungur syndabagginn, sem stofnlánadeildin burðast með. Lánin frá árunum 1950–1959 — erlendu lánin — eru enn 230 millj. kr. Þessi lán voru veitt aðilum án gengisskilyrða, og þess vegna er það, að ef til gengisbreytinga kemur aftur, þá verður stofnlánadeildin fyrir halla. En erlend lán, sem hafa verið tekin hjá deildinni frá því að núv. ríkisstj. kom til valda, eru 95 millj. kr. og það hefur verið endurlánað með gengisskilyrðum, svo að það verður ekkert tap af því. Það hefur verið meginmarkmiðið að útvega bændum innlent fé til þess að útiloka gengishækkunina. Það hefur verið talað um, að vextirnir hafi hækkað, það er rétt. Þeir eru aðeins hærri nú en þeir voru, þegar erlenda féð var lánað. En hvort er það hollara og betra að vera með fjármagn, sem engin áhætta fylgir — innlent — og borga aðeins hærri vexti en vera með útlent fé og eiga svo alltaf á hættu gengisbreytingu?

Mér fannst það ekki gott, þegar hv. þm. var að tala um það, að sennilega yrði nú gengisbreyting á næsta ári, vegna þess að kosningavíxillinn mundi falla á næsta ári. Hv. þm. ætti nú ekki að tala svona gáleysislega um efnahagsmálin. Hann ætti ekki að spá gengisbreytingu nú, þegar verið er að auka gjaldeyrisvarasjóðinn og atvinnureksturinn er í blóma. Þá er ekki grundvöllur fyrir gengisbreytingu. Og við skulum vona, að það komi ekki aftur sá tími, að við töpum 50% af útflutningsverðmætunum á einu til tveimur árum eins og 1967 og 1968. Að vísu hefur þessi hv. þm. sagt — og fleiri, að það hafi verið meðalútflutningur á árunum 1967 og 1968 og þess vegna hafi engin ástæða verið til að kvarta.

Ég býst við því, að þessi hv. þm., sem talaði hér áðan, hafi átt kannske sem svarar 10 kúm 1958, en ég gæti trúað því, að hann hafi átt 20 kýr 1967 eða 1968. Og það er áreiðanlegt, að hefði mjólkurverðið fallið það mikið á árinu 1968, að hann hefði ekki fengið meira úr fjósinu á því ári en 1958, þá hefði hann talið það slæma útkomu á búinu. En þannig var það með íslenzka þjóðarbúið. Það hafði á þessum árum frá 1958 til 1968 tvöfaldað atvinnutækin og afkastagetu þeirra og lagt svo mikið í kostnað vegna framleiðslunnar, að það var þungbært áfall að fá ekki meiri framleiðslu á þeim tíma en á meðan framleiðslutækin voru helmingi afkastaminni. Þetta skilja allir, og er óþarft að fara mörgum orðum um það.

En Stofnlánadeild landbúnaðarins er að eflast, og hún á þrátt fyrir gengistöpin skuldlausar eignir nú. Hv. þm. talar um það, að þegar framsóknarmenn fóru úr ríkisstj., þá hafi Ræktunarsjóður og Byggingarsjóður átt talsvert fé, enda þótt erlendu skuldirnar væru svona miklar og enda þótt krónan væri fallin, þegar þeir fóru frá völdum. En þegar rétta gengið var viðurkennt, kom í ljós, hvernig raunverulegur hagur þessara sjóða var; þá áttu þeir ekki fyrir skuldum. Þeir áttu 33 millj. kr. minna en ekki neitt. Þetta var sú staða, sem er nú viðurkennd af flestum eða öllum nema kannske þessum hv. þm. Þessum þm. er oft tíðrætt um hag bændastéttarinnar og hag landbúnaðarins.

Ég hef alltaf viðurkennt, að bændur hafa oft og tíðum átt í erfiðleikum og árferðið hefur verið misjafnt. Hitt segja bændur yfirleitt nú, að hefði árferðið verið í meðallagi s. l. 3–4 ár, þá væri gott að búa nú. Þeir viðurkenna, að leiðrétting hefur fengizt á afurðaverðinu. En við verðum að taka með í reikninginn, að árferðið hefur versnað. Það hefur verið kuldi. Það hefur verið sprettuleysi. Það hafa verið óþurrkar, og þetta allt hefur gert landbúnaðinum mjög erfitt fyrir. Ég hef ekki heyrt þennan hv, þm. halda því fram, að tíðarfarið væri ríkisstj. að kenna, en stundum hafa fullyrðingar hans verið jafnfráleitar eins og það, að hann grípi sér þá skýringu í munn.

Hv. þm. talaði hér um daginn um tekjur bænda og bar þær saman við tekjur annarra stétta. Hann vitnaði í Hagstofuna, og Tíminn flaskaði á því að trúa þessum hv. þm. og birti tölurnar eftir honum 20. f. m. Vegna þess að vitnað var í Hagstofuna, þá varð ekki hjá því komizt að spyrja Hagstofuna um það, hvort þessar tölur, sem hv. þm. las hér upp, væru frá henni komnar. En það reyndist bara ekki vera. Það voru allt aðrar tölur. Það voru skakkar tölur — rangar upplýsingar, sem hv. þm. kom með, en bar Hagstofuna fyrir því, og þær voru birtar í fyrirsögn í Tímanum 20. nóv.

Í ræðu sinni um frv. þm. Framsfl. um breyt. á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins sýndi frsm. frv., Stefán Valgeirsson, fram á það, hvað tekjur bænda hafa lækkað á árunum 1963–1969, sé miðað við tekjur sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna, og enn fremur gat hann tekjumismunarins milli þessara stétta á tímabilinu 1954–1960. Tölurnar, sem Stefán las upp, er hann sýndi fram á þetta, og taldi frá Hagstofunni, fara hér á eftir. En þessar tölur eru ekki frá Hagstofunni. Hagstofustjóri viðurkennir ekki þessar tölur. Það er þá fyrst að geta þess, að tölurnar, sem hann talar um á árunum 1963–1966, eru tekjur kvæntra bænda. Það segir hagstofustjóri. Þetta eru heildartekjur kvæntra bænda samkv. skattframtölum, birtar í Hagtíðindum, þ. e. tölurnar frá 1963–1966, en tölurnar 1967–1969 eru allt aðrar tölur. Hagstofustjóri segir: Ég veit ekki, hvaða tölur þetta eru. Þær eru ekki fengnar frá Hagstofunni. Stefán Valgeirsson heldur því fram, að talan 149 þús. frá árinu 1969 sé frá Hagstofunni. Það eru tekjur bóndans, sagði Stefán. En ég get ekki séð, að það sé rétt, og hagstofustjóri gerir miklu meira en að segja það, að það sé ekki rétt. Stefán Valgeirsson segir, að 1967 hafi tekjur kvæntra bænda verið 95 þús. kr. Hagstofustjóri segir: Þær voru 194 þús. kr. Stefán Valgeirsson segir, að tekjur kvæntra bænda hafi 1968 verið 121 þús. kr. Hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 197 þús. kr. Og Stefán Valgeirsson segir, að tekjur kvæntra bænda 1969 hafi verið 149 þús. kr., en hagstofustjóri segir 233 þús. kr. Þetta munar ákaflega miklu. Og það er raunalegt, að hv. þm. skuli fara svona rangt með. Ég geri ráð fyrir, að hann geri það oftar og hann hafi gleymt að geta þess, að tekjur bænda 1969 hefðu aukizt um 18% –eða talsvert meira en tekjur annarra stétta þrátt fyrir árferðið og þrátt fyrir harðindin. Nú er ég ekki að segja þetta til þess að halda því fram, að tekjur bænda séu nógu miklar eða nógu vel að þeim búið. En það er nauðsynlegt að leiðrétta þetta. Maður gerir það sjaldan að eyða tíma í það að leiðrétta það, sem þessi hv. þm. fer með. En það hlýtur að því að koma, að það verði einhvern tíma gert, þótt maður voni, að fáir taki mark á því, sem hann er að segja, þessi hv. þm.

Þá eru hér tölur enn — það eru tekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, sem þessi hv. þm. talaði um í sömu ræðu og eru birtar í Tímanum 20. nóv. Ég vona, að ritstjórn Tímans taki hér eftir með fyrirvara því, sem þessi hv. þm. fer með, áður en hann birtir það, sem hann er að lesa hér upp í hv. Alþ. Þetta mun eiga að vera landsmeðaltal tekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna samkv. árlegri úrtaksathugun með viðbótum, sem eiga að gera þessar tekjutölur sambærilegar tekjutölum bænda í fremsta dálki. En þessar tölur eru ekki frá Hagstofunni. Tölurnar frá Hagstofunni eru allt öðruvísi. Hv. þm. segir, að tekjur sjómanna, iðnaðarmanna og verkamanna 1963 hafi verið 164 þús. kr. Hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 125 þús. kr. Þm. segir, að tekjur þessara stétta 1964 hafi verið 204 þús. kr. Hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 162 þús. kr. Þm. segir, að tekjur þessara stétta hafi verið 1965 248 þús. kr., en hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 199 þús. kr. Þm. segir, að tekjur þessara stétta 1966 hafi verið 289 þús. kr. Hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 246 þús. kr. Og 1967 segir þm., að tekjur þessara stétta hafi verið 228 þús. kr. Hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 232 þús. kr. eða 4 þús. kr. meira. Þarna er nákvæmnin. 1968 ber hagstofustjóra og þm. saman, þá voru þessar tekjur 238 þús. kr. 1969 segir þm., að tekjurnar hafi verið 277 þús. kr., en hagstofustjóri segir, að þær hafi verið 269 þús. kr.

Svo kemur niðurstaðan. Það er taflan um það, hvernig tekjurnar hafi verið og hvað bændur hafi vantað mikið til þess að fá sambærilegar tekjur. Og það er reiknað í prósentum. Þegar þm. er búinn að gefa upp miklu hærri tekjur sjómanna, iðnaðarmanna og verkamanna en þeir raunverulega fengu, og lægri tekjur en bændur fengu, þá náttúrlega verður prósentubilið anzi mikið hjá honum. En það rétta er, þegar búið er að reikna dæmið rétt og nota réttar tölur, að meðaltalið verður þannig á árunum 1962–1969, að bændur vantar 13.2% til þess að ná því sama og viðmiðunarstéttirnar. Og það finnst mér alveg nóg. En það er alveg víst, að hefði árferðið verið í meðallagi síðustu 3–4 árin, þá hefðu bændur fyllilega náð því að hafa sambærilegar tekjur við aðrar stéttir. En á árunum 1954–1960, sem hv. þm. miðaði við, vantar 22.7%, og það vantar mest 1954 — þá vantar 35.2%. En hverjir fóru þá með landbúnaðarmálin? Þetta eru tölurnar, sem fengnar eru hjá Hagstofunni. En tölurnar, sem hv. þm. las hér upp og Tíminn birti — og ég er ekkert að lá blaðinu það, úr því að þm. las þær hér upp — eru bara rangar, en Hagstofan borin fyrir því. Þetta er leiðinlegur málflutningur og leiðinlegt að þurfa að rekja þetta mál á þennan máta. Það er, sem betur fer, mjög sjaldgæft hér á hv. Alþ., að menn leyfi sér að vitna í tölur frá opinberri stofnun og fara algerlega rangt með.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en taldi eðlilegt, að þetta kæmi fram.