02.11.1970
Efri deild: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

70. mál, heimild fyrir hreppsnefndina í Kirkjubæjarhreppi til að selja jörðina Þykkvabæ I í Landbroti

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið í ársbyrjun 1969, að flutt var frv. um heimild fyrir hreppsnefndina í Kirkjubæjarhreppi í V.-Skaftafellssýslu til að selja jörðina Þykkvabæ í í Landbroti. Beiðni var komin um það frá hreppsnefndinni og á það bent í ýtarlegri grg., sem frv. fylgdi þá, að allmiklum erfiðleikum væri bundið fyrir hreppsnefndina að halda þessari ákveðnu jörð í byggð með þeim ákvæðum, sem gjafabréfi því fylgdu, þegar jörðin var afhent Kirkjubæjarhreppi. Menn höfðu trú á því, að sú lagabreyting, sem þá var gerð, yrði þess valdandi, að þessum vanda yrði úr vegi rutt. Nú hefur það komið í ljós, að svo var ekki, og á síðasta þingi flutti landbn. frv. um breytingu á þessum I. að beiðni landbrn., en tilmæli höfðu komið um það til rn., bæði frá hreppsnefnd Kirkjubæjarhrepps og eins þeim ábúanda, sem á jörðinni var, að þeim l. yrði breytt á þann veg, að ekki væri skylt að gera jörðina að ættaróðali, þó að af sölu yrði. Það frv. til l., sem flutt var á síðasta þingi, hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu, því það kom í ljós, að ættingjar gefendanna vildu athuga það betur, hvort um aðra tilhögun gæti orðið að ræða um byggingu jarðarinnar. Nú hefur að nýju borizt beiðni frá landbrn. um það, að landbn. endurflytti það frv., sem flutt var í fyrra um breyt. á l., þar sem gert er ráð fyrir að fella niður skylduna til þess að gera jörðina að ættaróðali, og þeirri beiðni fylgdu upplýsingar um það, að ættmenn gefendanna mundu ekki beita sér gegn ráðstöfun jarðarinnar með þeim hætti, sem lagt er til að gera að þessu sinni. Landbn. hefur orðið við þeirri beiðni að flytja þetta frv. Hins vegar hafa einstakir nefndarmenn óbundnar hendur um afstöðu til málsins hér í hv. deild.

Ég hygg, að hv. dm. sé þetta mál það kunnugt, að þess gerist ekki þörf að hafa ýtarlegri framsögu um það nú. Ég vil, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr.