07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. þm. sagði hér áðan, að það hefði verið ein tala, sem Hagstofan hefði viðurkennt, að hefði verið rétt, en í þessari töflu, sem hann birti 20. nóv. í Tímanum, voru 30 tölur. Hagstofan viðurkenndi, að það væri ein rétt. Eigi að síður er það birt í Tímanum, að tölurnar séu fengnar hjá Hagstofunni, þ. e. þessar 30 tölur. Þannig verður ýmislegt skrýtið, þegar við förum að ræða þetta nánar. En hv. þm. spurði líka: Hver trúir tölum Hagstofunnar? Hann sagði það alveg orðrétt. Ég skrifaði það niður. Hver trúir tölum Hagstofunnar? Ég hefði nú haldið, að flestir hv. alþm. trúi tölum Hagstofunnar nema þessi þm. (SV: Vill ekki ráðh. útskýra tölurnar?) Tölur Hagstofunnar eru það, sem við höfum til þess að byggja á, og það hefur ekki verið vefengt enn þá, að þær séu réttar. Hitt er svo alveg víst, að framteljendur eru svo miklu fleiri í landbúnaðinum en bændurnir einir, og ég efast ekkert um það, að framteljendurnir eru eins margir og Hagstofan sagði. En þegar öllum þeim fjölda er deilt í brúttótekjurnar samanlagðar, þá verða tekjurnar á hvern framteljanda miklu lægri en tekjur kvæntra bænda. Og það var það, sem við vorum að tala um hér áðan — tekjur kvæntra bænda, en ekki tekjur allra þeirra, sem í landbúnaði vinna. Það er þetta, sem við megum ekki rugla saman. En það hefur hv. þm. gert, og þess vegna er svo erfitt að rökræða við hann um þetta. En neyðarúrræði er það að grípa til þess að segja, að það sé ekkert að marka tölur Hagstofunnar.

Nú er það nauðsynlegt að áliti þessa þm. að skipa n. til þess að gera könnun á þessu máli, vegna þess að heimildir vanti. En bændurnir hafa leitað til Hagstofunnar iðulega og oft á ári til þess að fá heimildir til að byggja á, og þeir, sem eru ábyrgir og tala fyrir hönd bænda í þessum efnum, vefengja ekki þessar tölur, og þeim þykir gott að fá þær og formanni Stéttarsambandsins ekki síður. Og málflutningur formanns Stéttarsambands bænda í haust, hygg ég, að hafi verið alveg eðlilegur og þar stuðzt við rök. Og hans niðurstaða er byggð á allt öðrum forsendum en þessi hv. þm. leggur út af. Það er þetta, sem er alveg nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir, og ég hygg, að flestir alþm. hafi gert það, og þess vegna er ekki nauðsynlegt fyrir mig að segja fleira um þetta að sinni.