29.10.1970
Efri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Í aths. við þetta frv. segir, að samkomulag hafi nú þegar tekizt um nokkur höfuðatriði í væntanlegum kjarasamningum milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisstj. Af þessu þykir mér mega ráða það, að nú þegar liggi fyrir sameiginleg meginstefna bæði Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hæstv. ríkisstj. í kjaramálum opinberra starfsmanna. Og þar sem hér er um svo veigamikið atriði að ræða, bæði varðandi fjármál ríkisins og almenn viðhorf í kjaramálum launastéttanna í landinu, þá er full ástæða til þess að spyrja nú, þegar það liggur fyrir, að búið er að mynda þessa sameiginlegu stefnu beggja þessara samningsaðila, hver séu þau höfuðatriði, sem samkomulag liggur nú fyrir um í þessum samningum.

Er það t. d. rétt, sem eitt af málgögnum hæstv. ríkisstj. hefur fullyrt nú nýverið, að meðaltalshækkun á launum embættismanna sé þegar ákveðin 30–40%? Mér finnst nauðsynlegt að spyrja um það í sambandi við þetta mál, ekki sízt með tilliti til annarra ástæðna, sem nú eru ríkjandi í okkar þjóðfélagi. Það liggur í loftinu, að fyrir dyrum standa mjög víðtækar ráðstafanir í verðlags- og launamálum almennt, e. t. v. með því að kjarasamningar, sem gerðir voru á s. l. vori, verði ógiltir að meira eða minna leyti á þeirri forsendu, að láglaunafólk í landinu hafi hrifsað til sín of miklar kauphækkanir á s. l. vori, hækkanir, sem atvinnuvegirnir fái ekki risið undir, og því verði að taka þær til baka að meira eða minna leyti með einhverjum hætti. Mér finnst því, að það sé alveg sérstök ástæða til þess að fá nú um það alveg glöggar upplýsingar, hver sé stefna ríkisstj. í launamálum embættismanna, þar sem hún kemur fram sem atvinnurekandi og mótar viðhorf sem slíkur. Er þessi stefna e. t. v. einhver allt önnur stefna en ríkisstj. hefur gagnvart verkafólki í landinu og öðrum launamönnum? Stefnir hún t. d. að því að breikka mjög mikið og varanlega launabilið á milli verkafólks og embættismannastéttarinnar? Er það svo, að það eigi með þeim samningum, sem nú standa yfir, ekki aðeins að tryggja embættismönnum að sjálfsögðu þau 15%, sem þeir fengu á miðju s. l. ári til jafns við verkafólk eða því sem næst, heldur einnig 30–40% þar til viðbótar, og síðan eigi gamla „automatið“ að vera í gildi, að allar hækkanir, sem verði hjá verkafólki umfram þau laun, sem það hefur nú, eigi að koma sjálfkrafa inn í kerfið. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um þetta, ég hlýt aðeins að spyrja að svo komnu máli.

En ef þetta væri svo, sem ýmsir gizka á, að þessir samningar séu, þá hlýtur það auðvitað að hafa sín áhrif á stefnu verkalýðshreyfingarinnar í kjaramálum, bæði nú í bráð og einnig síðar, þegar samningar eru lausir, og einnig að hafa sín áhrif á öll viðhorf í efnahagsmálunum. Og ég held, að í þessu sambandi sé alveg full ástæða fyrir menn að minnast þeirrar reynslu, sem við fengum á árinu 1963, þegar ríkisstj. hafði forgöngu um það að hækka laun bæst launuðu embættismannanna um allt að 100%, og þeirrar kollsteypu, sem öll launamálin tóku í kjölfar þess.

Ég verð að segja það, að mér þykja rökin fyrir þessu frv. um framlengingu á frestum, eftir að gefinn hefur verið eins árs frestur í málinu, ekki fullkomlega ljós, nema upplýst sé nú, á hvaða vegi samningarnir eru staddir. Ég tel, að hér sé ekki um neitt einkamál hæstv. fjmrh. og forustu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að ræða, og minni á það, að hv. Alþ. verður að taka öllum afleiðingum af þeim kjarasamningum, sem nú standa yfir, bæði hvað áhrærir fjármál ríkisins og áhrif þessara samninga á launamálin almennt, og því er hæstv. fjmrh. að mínu viti skylt að gefa hv. Alþ. í sambandi við þetta frv. greið svör við þeim spurningum, sem ég hef hér borið fram, bæði um stefnu ríkisstj. og hvar þessir samningar eru á vegi staddir. Og ég tel líka nauðsynlegt, ef allt er með felldu, fyrir hæstv. ríkisstj. að gera grein fyrir þessu nú, m. a. til þess að hún sé firrt þeim grunsemdum, ef þær eru ástæðulausar, að sá frestur, sem hér er farið fram á, sé fyrst og fremst eða jafnvel einungis af þeim rótum runninn, að fyrirætlanir hennar um meðferð kjarasamninga opinberra starfsmanna þoli ekki dagsljósið á sama tíma og hún er að glíma við það, sem kallað er að leysa eitthvað af verðbólguvandanum með beinni eða óbeinni skerðingu á kaupi og kjörum lægst launuðu stétta þjóðfélagsins.

Ég vil svo aðeins að lokum minna á það, að það eykur auðvitað á þessar grunsemdir meðal almennings, að ekki hefur verið farið að réttum lögum í sambandi við meðferð þessa máls, m. a. að því leyti, að sáttasemjari hefur ekki verið til kvaddur í deiluna, eins og lög standa til um og fram hefur komið á opinberum vettvangi. En það fer svo að sjálfsögðu eftir því, í samræmi við það, sem ég hef sagt, hve fjmrh. gefur skýr svör við þessum spurningum, sem ég hef borið hér fram, hvort ég fyrir mitt leyti t. d. get fallizt á það, að þetta mál verði afgr. hér úr hv. þd. án þess að hljóta eðlilega meðferð og fara til n., því að ef það er svo, að hæstv. ráðh. treysti sér ekki til þess að leysa úr þessum spurningum frammi fyrir hv. þd., þá ætti þó að vera hægurinn hjá að gera það fyrir þeirri n., sem hlyti þá að fá réttar upplýsingar í málinu.