15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. þetta og leggur til, eins og fram kemur á þskj. 234, að það verði samþ. óbreytt. Einstakir nm. hafa þó skrifað undir nál. með þeim fyrirvara, að þeir áskilji sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Frv. hefur þegar hlotið afgreiðslu hv. Ed. og var þar samþ. einróma. Frv. er eins konar fylgifrv. með frv. um Lífeyrissjóð bænda, en efni þess er í annan stað, að gert er ráð fyrir að fella niður álag á söluvörur landbúnaðarins, hið svokallaða stofnlánadeildargjald af framleiðsluvörum bænda, á árunum 1976–1990, og á hinn bóginn, að gert er ráð fyrir, að stofnlánadeild greiði eftir ákveðnum reglum til Lífeyrissjóðs bænda á tímabilinu 1. jan. 1971 til 1. jan. 1986 til lífeyrisgreiðslna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál sérstaklega hér í seinni deild, en mæli með því, að það verði samþ. óbreytt.