11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst hv. 3. þm. Austf. fara dálítið einförum um þessar mundir og það finnst mér skaði, því hann er alls ekki leiðinlegur samferðarmaður. Mér hefði fundizt, að hann hefði átt, fremur en að flytja þetta frv. einn, að fá til fylgis við sig 10 eða 20 þm. Ég er alveg sannfærður um, að hann hefði getað það, ef hann hefði tekið þá vinnuaðferð. Ég stóð í þeirri meiningu, að við þm. Austf. værum að reyna sameiginlega að finna leiðir til þess að vinna að þessu máli, m.a. fjáröflunarleiðir, og hefði þess vegna talið, að það hefði verið ánægjulegt, að við hefðum staðið allir saman einmitt að flutningi þessa máls. Og marga aðra þm. hefði vafalaust verið hægt að fá til að slást í för með okkur. En um þetta ætla ég í sjálfu sér ekki að sakast, en þó er rétt að minna á, að það er siður bygginna herforingja að leita sér bandamanna og þykir það hyggilega af stað farið, áður en út í baráttu er lagt.

Ég vil lýsa eindregnu fylgi mínu við þetta frv. þm. og ég vona, að honum takist að fá samgmrh. sinn og ríkisstj. sína til þess að fylgja þessu máli og drífa það fram nú á þinginu, þannig að þetta gæti orðið lögfest. Ég er flm. sammála um, að það er í allra hæsta máta tímabært að lögfesta þetta nú, því ég tel, að það eigi að stefna að því að koma þessum stórfelldu mannvirkjum á Skeiðarársandi upp fyrir árið 1974, eins og ég hef þráfaldlega minnzt á. Ég álít, að það væri verðugt verkefni fyrir þjóðina að ljúka því að gera akfært umhverfis landið á þeim merku tímamótum, sem þá verða í sögu hennar. Ég álít, að þetta sé mjög vel hægt og er þm. alveg hjartanlega sammála um, hvernig skynsamlegast er að vinna að þessu. Ég er sammála honum um það, eins og hann veit, að það ætti að byrja á því blátt áfram eins og gert hefur verið um mannvirkjagerð á Íslandi, að taka hér eitt af öðru eins og það liggur fyrir, halda sem sé áfram austur um Núpsvötn og síðan aðrar kvíslar á Skeiðarársandi og þá kemur Skeiðará síðast í röðinni. Mér dettur ekki annað í hug en Skeiðará verði brúuð. Mér skilst tæknimenn vera komnir það langt, að þeir gera því alls ekki skóna lengur, að brú standi ekki á Skeiðarársandi. Það er farið að tala um það sem staðreynd, að það sé vel hægt að byggja þannig brú, að hún standi. Menn telja í raun og veru orðið alveg augljóst mál, að það kemur ekki til greina annað en að byggja brúna, og hvaða höfuðmáli skiptir það þá, þó eitthvað af görðum fari í hlaupunum á 10–20 ára fresti með þeirri tækni, sem nú er orðin í vegalagningu. Það skiptir auðvitað engu aðalmáli samanborið við það, sem hér er annars vegar að vinna. En það, sem hér er að vinna, er hvorki meira né minna en það, sem ég hef líka lagt áherzlu á undanfarin ár, að Ísland verður allt annað land, ef þessu mannvirki er komið í framkvæmd. Það er eins og gáfaður maður sagði við mig í fyrra: „Takist ykkur að koma þessu í framkvæmd, verður maður að læra landafræðina upp á nýtt“. Það er nokkuð til í þessu. Þetta hittir nokkuð vel naglann á höfuðið. Það er enginn maður á Íslandi til, sem hefur af þessu annað en ávinning. Hér verður stórfelldur ávinningur fyrir alla landsmenn. Landið verður allt annað land til ferðalaga, allt annað land til þess að búa á og lifa í. Það verður um alla framtíð hægt að vitna til þessarar framkvæmdar sem tímamótaframkvæmdar í lífi þjóðarinnar í landinu. Allt í einu verður svo komið, að menn geta ferðazt á landi í nýtízkutækjum hiklaust umhverfis landið. Og hugsið ykkur þær tölur, sem farið er að tala um í sambandi við þetta, 300 millj. Það kostar nú 30 millj. að byggja 100 tonna fiskibát. Á því sjáum við það m.a., að 300 millj. er ekki mikið fé, þegar annað eins og þetta er í húfi fyrir alla þjóðina.

Hitt er annað mál, að það kann að geta vafizt eitthvað fyrir mönnum að útvega þessa aura, því að það er í mörg horn að líta, og þess vegna tel ég einmitt, að það sé mjög skynsamlegt að leita að sérstökum leiðum í þessu efni eins og við höfum verið að gera. Ég sé að hér situr nálega fyrir framan mig einn hv. þm., Karl Guðjónsson, sem hefur stungið upp á sérstakri leið til fjáröflunar, sem manni fannst vera mjög hyggileg og skynsamleg. Hann stakk upp á því að menn héldu áfram að greiða þetta gjald, sem lagt var á í sambandi við hægri umferðina, og leggja það í þessa framkvæmd. Mér finnst það vera mjög góð hugmynd. Þessi hugmynd, sem hér er verið með í þessu frv., er líka mjög góð. Ég er sannfærður um það, að það mundi verða stórkostleg þátttaka í því að kaupa skuldabréf af þessari tegund til að hrinda þessari mannvirkjagerð áfram. Ég er viss um, að það er hægt að leysa málið eftir þessari leið.

Stundum verður að leysa mál með dálítið sérstökum fjáröflunarleiðum, vegna þess hve menn hafa margt í fanginu af öðru. Ég minnist þess t.d., að við vorum lengi Austfirðingar mjög sárir út al því að hafa ekki brú á Jökulsá á Fjöllum. Það gekk ekki vel að koma henni inn á fjárl. vegna þess að þar voru menn alltaf með svo margt. Var erfitt að fá svo stóra framkvæmd inn á fjárl. Þá datt okkur það í hug að beita okkur fyrir Brúarsjóðnum, sem kallaður var, þ.e.a.s. að verja nokkru af benzínskattinum í Brúarsjóð. Þetta varð til þess, að þessi brú komst upp eftir skamman tíma og hún stytti leiðina til Austurlands um 80–90 km. Þetta varð sem sé bylting. Og ekki nóg með það. Svo var haldið áfram með Brúarsjóðinn og fyrir fé úr þessum sjóði flaug upp hver stórbrúin á fætur annarri, eftir að búið var að finna þessa leið, en þær komust ekki inn á fjárl. Þetta er nú einu sinni svona. Þetta er í alls konar hólfum og þetta er ekki eins einfalt eins og menn skyldu halda. Sumir gætu kannske sagt: Þið gátuð alveg eins sett þetta inn á fjárl. og horfzt í augu við verkefnin þannig. En þetta er nú ekki svo einfalt. Það verður stundum að fara sérstakar leiðir, til þess að gera viss átök. Og um það bil sem Brúarsjóðurinn var lagður niður endanlega með vegalögunum nýju, var búið að byggja tugi stórbrúa, — tugir stórbrúa, sem búið er að byggja fyrir fé úr þessum sjóði. Það hefði aldrei gerzt svo fljótt, ef ekki hefði verið viðhöfð þessi aðferð, — ekki gerzt á svo stuttum tíma. Alveg eins er með þetta mál, sem hér er verið að ræða.

Ég vona, að þetta frv. fái góðan stuðning. Það er ekki eftir neinu að bíða að samþykkja fjáröflunarleið í þessu tilliti. Þetta verður gert. Ég vil ekki deila á samgmrh. fyrir það, að hann er ekki búinn að framkvæma alveg þáltill., um undirbúninginn, því ég veit, að það stafar af því, að vegamálastjórnin, sú tæknilega vegamálastjórn, vill ekki gera till. um þessar framkvæmdir fyrr en búið er að sjá næsta hlaup. Satt að segja er maður nú orðinn óþolinmóður að bíða eftir því að þessar till. komi fram, og þar með að bíða eftir þessu hlaupi. Það er sennilega í eina skiptið í sögu landsins, sem menn hafa þráð Skeiðarárhlaup. Það sýnir skemmtilega breytingu á lífi þjóðarinnar í landinu, að nú skuli allir horfa fram til þess með mikilli eftirvæntingu, að Skeiðarárhlaup verði sem fyrst. En það er sannleikurinn, að þannig er ástatt.

Ég álít, að það sé alveg sama hvernig menn velta þessu fyrir sér. Eftir stendur það, ef hyggilega er á málið litið, að það er engin ein viðráðanleg framkvæmd hugsanleg á Íslandi, sem mundi breyta lífi þjóðarinnar jafnmikið til bóta og þessi, og engin arðgæfari fjárfesting, ef skynsamlega er skoðað, –engin. Ég skal ekkert segja um, hvernig þetta dæmi kæmi út á hagfræðistofu, ef farið væri að reyna að reikna út „arðsemisprósentu“, eins og það er nú kallað, fyrir þessa framkvæmd. Ég skal ekkert segja um það. Ég held, að það færi eftir því, hve viðsýnir hagfræðingar settu upp dæmið, því að hér í eru ýmis álitamál. En ég er sannfærður um, að allir skynsamir sérfræðingar mundu komast að þeirri niðurstöðu, sem ég sagði áðan. Útkoman gæti ekki orðið nema ein, sem sé sú, að hér er um algerlega einstætt tækifæri að ræða til þess að kippa þjóðinni fram á við með tiltölulega litlum kostnaði, því að það kalla ég hreina smámuni, ef hér væri t.d. um að ræða 300 millj. eða svo, samanborið við það, sem vinnst á hinn bóginn. Og ég vil ekki trúa því, að það yrði látið standa á fjármununum, en ég veit samt, hve erfitt er að útvega peninga t.d. á fjárlögum og úr Vegasjóði, og þess vegna tel ég, að einmitt þetta að finna sérstaka tekjuöflunarleið sé mjög hyggilegt. Ég vil svo enn einu sinni lýsa stuðningi mínum við þetta mál og ég álít, að við eigum að drífa þetta mál áfram og ljúka þessum framkvæmdum fyrir hið mikla hátíðarár, 1974.