11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki nota mörg orð til þess að taka undir þær skoðanir, sem hafa komið fram hjá þeim hv. þm., sem hér hafa talað um nauðsyn þessarar vegalagningar. Ég held, að það sé hins vegar rétt, að einn þm., sem úr þéttbýli kemur, láti sína skoðun í ljós, og mín skoðun um mörg ár hefur verið sú, að um leið og við reyndum að vinna að því að leggja varanlegt slitlag á fjölförnustu vegina, þá ættum við ekki aðeins að auka og bæta vegakerfið á Austurlandi, heldur ættum við að láta verða af því með stórátaki þjóðarinnar sjálfrar að ná hringvegi um landið. Og það er einmitt það, sem ég vil taka undir með þeim tveim þm., sem hér hafa talað, að við ættum að gera, sérstaklega vil ég taka undir þau orð síðasta ræðumanns, að það væri verðugt verkefni fyrir íslenzku þjóðina að ljúka þessu af fyrir árið 1974, og a.m.k. mun ég reyna að stuðla að því hvað ég get.

Ég hafði hugsað mér að varpa fram nokkrum spurningum í sambandi við þá fjáröflun, sem hv. flm. vill beita sér fyrir með þessum frv.-flutningi sínum, en vegna þess að seinni ræðumaðurinn hefur einnig lýst stuðningi sínum við hann, þá leyfi ég mér að beina þeim spurningum mínum til hv. n., sem málið fær til meðferðar, vegna þess að ég er afskaplega efins í, að þessi tekjuöflunarleið verði til mikils framdráttar þessu máli. Ég minni á það, að þjóðin er þrúguð af happdrættum, ekki aðeins þremur stórum mánaðarlegum happdrættum, heldur t.d. á að draga hér í Reykjavík fyrir jólin í 14 happdrættum, sem þar að auki eru öll að vinna að mannúðar- og velferðarmálum. Þar fyrir utan tel ég, að hv. flm. ætli anzi lítið til þeirra, sem þessa happdrættismiða eða happdrættisskuldabréf eiga að kaupa, þegar hann ætlar aðeins vextina til þeirra til þess að kaupa þessi bréf, hafandi í huga, að ríkissjóður hefur á undanförnum árum oftar en einu sinni gefið út vísitölutryggð skuldabréf til þessara handhafa. Samkvæmt þessu eiga aðeins að koma einfaldir vextir, hafandi í huga jafnframt, að þeir, sem kaupa happdrættismiða í happdrættum, sem eru í gangi, fá allt frá 30 og upp í 70% af innkomnu fé í sinn hlut til skipta, sem fer í vinninga, þannig að ég vil aðeins undirstrika, að ég held, að það sé nokkuð mikil bjartsýni fólgin í því, að þessi fjáröflunarmöguleiki einn eða kannske með þeirri viðbót, sem hefur komið fram í þeim tölum, sem hér hafa komið fram, geti undir þessu staðið. Hins vegar tek ég undir það, sem hefur komið fram hér og upplýst var af bv. 1. þm. Austf. og hv. þm. Karl Guðjónsson mun hafa komið fram með hér á hv. Alþ. fyrr, að einhver sérstakur skattur, — ja, við getum kallað það skatt, sem lofað hefur verið af stjórnvöldum, og þar á ég við þann skatt, sem lagður var á bíleigendur í sambandi við breytinguna frá vinstri til hægri, hann t.d. væri lagður í einhverja slíka sérstaka framkvæmd í sambandi við vegamál, eða einhver önnur tekjuöflunarleið yrði reynd. Ég held, að í sjálfu sér þurfum við kannske ekki að einblina á þessa einu tekjuöflunarleið, ef Alþ. Íslendinga er sammála um það að reyna að vinna að því að ná þessari framkvæmd fram og þá kannske að setja sér það um leið að ná henni fram fyrir þetta ákveðna ár, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson minntist á. A.m.k. tel ég, að það væri að mörgu leyti þarfara heldur en að leggja í sum þau hús, sem lagt hefur verið til, að byggð yrðu fyrir þennan ákveðna árdag.