11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum undirstrika fylgi mitt við þetta mál. Og jafnframt greina frá því, að það hefur verið baráttumál á austanverðu Norðurlandi um mörg undanfarin ár, að komið yrði upp hringbraut um landið, eins og það hefur verið undirstrikað, að þetta ætti að vera vegur í flokki þjóðbrauta, sem lægi um byggðir landsins. Það er augljóst mál, að þarna er verið að setja alveg grundvallarhlekk í þessa þjóðbraut og þegar þetta er búið, opnast leiðirnar eins og bent hefur verið á, til svo margs konar meiri framfara í þessum málum. Það er hægt að hugsa sér að lýsa þessu þannig, að eftir það, að hringnum er lokað, verður enginn á leiðarenda, þá verður enginn, sem býr fjærst, þannig að hann finni sig á leiðarenda frá höfuðstöðvunum eða höfuðbyggð landsins. Og þessu fylgir ótal margt, sem til framfara horfir á mörgum sviðum, kannske ekki síður sálrænt fyrir byggðirnar en hagrænt. Því hygg ég, að þetta sé baráttumál allra byggða, sem við þessa hringbraut verða. Ég hygg einnig, að þeir, sem hafa ferðazt um Skaftafellssýslur og sunnanverða Austfirði finni ákaflega mikið til þess, hvað þessar byggðir hafa liðið fyrir það að hafa einmitt verið á leiðarenda og jafnvel verið alveg einangraðar. Þeir, sem hala ferðazt um þessar byggðir, finna einnig, að möguleikarnir til að loka þessum hring eru fyrir hendi. Það hafa sagt mér Skaftfellingar, að svo hafi verið talið með fljótin koll af kolli, að þetta yrði nú aldrei brúað, en svo var ráðizt í brúargerð á því fyrsta og svo kom það næsta. Það er ábyggilega ekki nema mannsverk að loka þessu nú á þeim tíma, sem um hefur verið rætt, fyrir 1974.