25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar frv. til I. um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið, á þskj. 69. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 394, þá mælir n. með því, að frv. verði samþ. N. telur, eins og fram kemur í nál., að enda þótt hér sé um að ræða fjármögnun framkvæmda í sambandi við vega- og brúagerðir með óeðlilegum hætti, þá sé hér um alveg sérstæðar framkvæmdir að ræða, þar sem stefnt er að því að hraða svo sem unnt er mjög kostnaðarsömum lokaáfanga í lagningu hringvegar um landið. Þessi hugsun, þessi hugmynd hefur verið á döfinni á undanförnum árum að freista þess að ljúka sem fyrst þessum framkvæmdum og í þessu frv. er lagt til, að í þessu einstaka tilfelli verði farnar sérstakar fjármögnunarleiðir og telja nm., að undir slíkum kringumstæðum, sem hér um ræðir, sé réttlætanlegt að freista þess að skapa fjármagn í þessar framkvæmdir. N. leggur því til, eins og fram kemur á þskj. 394, að frv. verði samþ. óbreytt.